Jón Steinar Gunnlaugsson

Jón Steinar Gunnlaugsson

Jón Steinar Gunnlaugsson lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1973 með fyrstu einkunn. Hann hefur víðtæka starfsreynslu sem lögfræðingur m.a. sem málflutningsmaður, prófessor við HR og nú síðast sem Hæstaréttardómari. Jón Steinar hefur látið til sín taka á mörgum sviðum þjóðlífsins m.a. í almennum umræðum um stöðu dómskerfisins og hlutverk dómara.


Grein birt í: Lögfræðingur 2013

Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti

Viðtal Lögfræðings við Jón Steinar Gunnlaugsson.

Þú hefur látið hafa eftir þér að æskilegt sé að dómarar taki þátt í almennum umræðum um verkefni dómstóla. Finnst þér dómstólar vera of miklir fílabeinsturnar, eða hvað áttu við?

Ég tel að fólkið í landinu eigi beinlínis kröfu um að sjá meira af þeim mönnum sem fara með hið þýðingarmikla dómsvald. Þeir ættu því að gefa kost á viðtölum við fjölmiðla. Ég á ekki við að þeir eigi í slíkum viðtölum að færa fram viðbótarröksemdir fyrir niðurstöðum í einstökum dómsmálum. Í viðtölum ættu þeir hins vegar að skýra sjónarmið sín um hlutverk dómstóla og aðferðirnar sem heimilt er að nota til að komast að niðurstöðum. Slíkar skýringar á opinberum vettvangi af hálfu dómara myndu meðal annars skerpa þá sjálfa í hugsun um nauðsyn þess að fylgja í störfum sínum þeim viðhorfum sem þeir hafa þannig lýst opinberlega með almennum hætti. Kynningin væri líka til þess fallin að auka traust almennings á dómstólum.

Er hægt að læra að verða dómari eða skiptir siðferði dómara máli við lagalegar úrlausnir?

Það ættu allir sem til dómstólanna ráðast að hafa lært það sem kannski skiptir mestu máli í starfi dómstólanna: að vera heiðarlegir, beita réttarheimildum hlutlægt og fara aldrei í manngreinarálit. Þeir sem ekki geta lært þetta ættu ekki að verða dómarar.

Þú ert mikill áhugamaður um endurbætur á Hæstarétti. Hvað má betur fara að þínu mati?

Ég er með í smíðum grein þar sem ég hyggst lýsa því sem ég tel að helst fari aflaga og hvað beri að gera til að bæta úr því. Helstu atriðin eru þessi: a) Stofna þarf millidómsstig og fækka málum í Hæstarétti verulega. Dómarar þar yrðu fimm og dæmdu allir í öllum málum. b) Afnema þarf áhrif ráðandi afla við dómstólana á skipun nýrra dómara. Best er að ráðherra skipi og ákvörðun hans þurfi að hljóta samþykki Alþingis. Dómaraefni mæti fyrir opinn þingnefndarfund og svari spurningum um viðhorf sín í lögfræði og um hlutverk dómstóla. c) Breyta þarf reglum um samningu dóma svo hætt verði að bræða saman forsendur með samningum, sem oft leiðir til þess að dómarnir verða illskiljanlegir. Menn eiga líka að vera persónulega ábyrgir fyrir þeim texta sem frá þeim fer, fremur en að „fela sig“ í hópnum.

Er Mannréttindadómstóll Evrópu að verða þriðja dómsstigið hér á landi að þínu mati? Og hver er afstaða þín til vægis dómafordæma MSE að íslenskum rétti ?

Þessu er svarað í 2. gr. laga nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu. Þar segir meðal annars að úrlausnir mannréttindadómstóls Evrópu séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti. Þrátt fyrir þetta virðast sumir íslenskir dómarar stundum telja annað. Dómar MDE hafa ekki fordæmisgildi fyrir landsrétt á Íslandi. Þyki þeir gefa tilefni til lagabreytinga hér innanlands er það hlutverk Alþingis að sinna því.

Í Noregi leysast nú um 60% allra einkamála með sátt. Sáttamiðlun hefur reynst kostnaðarminna úrræði, bæði fyrir þjóðarbúið og deiluaðila. Telur þú að virkari sáttamiðlun á Íslandi sé sóknarfæri fyrir Íslendinga?

Mér finnst að vel mætti huga betur að reglum um sáttameðferð, því ávallt er best ef unnt er að leysa ágreiningsmál með samkomulagi þeirra sem deila auk þess sem slíkt gæti dregið úr álagi á dómstóla.

Þú varst formaður starfshóps sem fjallaði um hvernig bæri að bregðast við dómi Hæstaréttar 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000 (öryrkjamálinu). Hvað var einstakt við það mál að þínu mati? Telur þú að dómstólar taki sér hlutvert við mótun réttarins sem þeir eigi ekki að hafa ?

Í þessum dómi hafði Hæstiréttur að mínu mati tekið sér vald sem hann hefur ekki. Þar að auki var dómurinn óskýr og illa saminn, raunar svo mjög að skipa þurfti sérstakan starfshóp til að skilja hann. Dómstólar eiga að dæma eftir gildandi lögum. Þeir hafa ekki heimild til að móta nýjar lagareglur og beita þeim svo afturvirkt til úrlausnar á ágreiningsmálum. Það er satt að segja frekar undarlegt að þurfa að taka þetta fram svo augljóst sem það ætti að vera. Það er eins og sumir lögfræðingar vilji útvíkka vald dómstóla á þennan hátt. Fyrir því eru engin stjórnskipuleg rök. Fleiri dómar frá svipuðum tíma og sá sem spurt er um teljast að mínu mati dæmi um viðlíka valdsækni dómstólsins. Ég held að ástandið í Hæstarétti hafi síðar breyst nokkuð til batnaðar að því er þetta varðar, þegar þeir dómarar sem mynduðu meirihluta í öryrkjamálinu hurfu á brott og aðrir komu í staðinn. Vonandi tekst dómstólnum í framtíðinni að forðast freistingar til að taka sér vald sem hann hefur ekki.

Hvað felst í spurningunni hvort til sé ein rétt niðurstaða í hverju máli? Snýst spurningin um hvort lögin séu alltaf skýr leiðarvísir eða er þetta spurning um eitthvað annað?

Ég hef sagt að við úrlausn á réttarágreiningi verði sá sem úr leysir ávallt að ganga út frá þeirri forsendu að ein aðferð við beitingu réttarheimilda í málinu sé rétt og því sé sú niðurstaða sem beiting hennar leiðir til sú eina rétta. Ég hef hins vegar aldrei sagt að þetta verkefni sé alltaf einfalt eða auðvelt. Allir sem við þetta starfa virðast vinna út frá þessu viðhorfi þó að sést hafi í fræðiskrifum kenningar um að dómarar eigi val milli tveggja eða fleiri úrlausna. Þeir sem halda slíku fram ættu að reyna að finna dómsforsendur þar sem sagt er að dómurinn hafi ákveðið að velja eina niðurstöðu af fleiri jafn góðum. Menn geta sparað sér leitina því svona forsendur eru ekki til. Hvers vegna ætli það sé? Það er ekki af þeirri ástæðu að þessi aðferðafræði sé leyndarmál sem ekki megi segja frá! Svarið er einfalt: Aðferðin um að velja milli jafn góðra kosta er ekki til við lögfræðilegar úrlausnir á réttarágreiningi.

Áttu við að dómarar ættu í auknum mæli að geta sammælst um niðurstöður mála? Eða ertu að beina því til dómara að þeir, hver fyrir sig, beiti réttarheimildum hlutlægt til að auka líkurnar á að meirihlutinn komist að réttri niðurstöðu í hverju máli?

Menn getur greint á um beitingu réttarheimilda í tilteknu máli, bæði um hvaða heimild eigi við og einnig um efni hennar. Ég tel tilganginn með því að skipa áfrýjunardómstól eins og Hæstarétt mörgum dómurum felast í því að leiddir séu saman fleiri dómarar sem kunni að hafa mismunandi bakgrunn og sjónarmið, til þess að breikka grundvöllinn fyrir niðurstöðunni. Þeim ber að mínum dómi að ræða hugsanlegan ágreining sín í milli til fulls, til þess í fyrsta lagi að skilja í hverju ágreiningur liggur en í öðru lagi til að freista þess að jafna hann ef efni standa til þess. Krafan er að mínu mati um að hver og einn þeirra geri það sem samviska hans býður honum. Leiði það til þess að hann sé ósammála hinum um niðurstöðu ber honum að mínu mati skylda til að skila sératkvæði en ekki „semja sig frá sannfæringunni“, ef svo mætti komast að orði. Hér er pottur brotinn í Hæstarétti Íslands að mínu mati. Þetta má til dæmis sjá með því að líta á dóma þar sem augljósar vitleysur eru gerðar.

Dæmi um þetta má taka. Í máli nr. 469/2012, sem dæmt var í Hæstarétti 22. ágúst 2012 stóð svo á að héraðsdómari hafði vísað máli frá dómi vegna vanreifunar. Stefnandinn kærði úrskurðinn um þetta til Hæstaréttar samkvæmt heimild í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómkrafan í málinu var lág og langt innan áfrýjunarfjárhæðar samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laganna. Þrír dómarar í Hæstarétti komust að þeirri niðurstöðu í dómi sínum að til þess að mega kæra til Hæstaréttar frávísunarúrskurð héraðsdóms hefði stefnukrafan þurft að ná áfrýjunarfjárhæð! Svo væri ekki og vísuðu dómararnir kærumálinu því frá Hæstarétti. Niðurstaðan er augljóslega röng og byggist á einhvers konar misskilningi á lagareglum. Kæruheimildir 143. gr. laganna eru ekki bundnar við að fjárhæð dómkröfu í máli nái áfrýjunarfjárhæð. Það myndi fela í sér hreina umbyltingu á reglum um heimildir til kæru ef þetta yrði framvegis talið gilda. Þessi niðurstaða dómaranna þriggja var einfaldlega röng. Og þá má spyrja: Hvernig stendur á því að þrír fullburða dómarar komast allir að svona vitlausri niðurstöðu. Getur verið að einn þeirra hafi skrifað þetta í dóminn og hinir bara skrifað undir án þess að veita úrlausnarefninu þá athygli sem þeim var skylt? Mér finnst sú skýring líklegri en að hver og einn þeirra hafi með sjálfstæðri greiningu á sakarefninu komist að þessari undarlegu niðurstöðu.

Hluti af skýringunni á því að dómarar freistast til að fallast á það sem aðrir segja án nægilegrar sjálfstæðrar skoðunar er sjálfsagt málafjöldinn og álagið sem honum fylgir. Ef þú færir inn á leitarvél Hæstaréttar og slægir inn mínu nafni árið 2010 fengir þú upplýsingar um að ég hafi dæmt í 336 málum það ár. Að meðaltali þýðir þetta að ég hafi dæmt í um það bil 1,7 máli á hverjum vinnudegi ársins! Þetta er alltof mikið. Þó að ég sjálfur telji mig hafa reynt að sinna öllum málum af kostgæfni hljóta allir að sjá að slíkt álag er til þess fallið að draga úr gæðum dómsstarfsins. Ég vildi sjá að Hæstiréttur dæmdi í kannski 50-70 málum á ári og þá allir dómararnir, sem ættu að vera fimm talsins, í öllum málum.

Í grein þinni um bókina Síðasta vörnin eftir Óla Björn Kárason sem birtist í Morgunblaðinu segirðu meðal annars að það sé ,,...hætta á að lögfræðimenntaðir menn missi stundum sjónar á meginatriðum ... þar sem þeir vilja oft verða uppteknir af því að velta fyrir sér smærri tæknilegum atriðum í dómsýslunni fremur en að fjalla um stóru myndina sem Óli Björn virðir fyrir sér. Þeir sjá ekki skóginn fyrir trjánum.” Hvað áttu við með þessu?

Ég tel á það skorta að lögfræðingar fjalli nægilega um starfsemi dómstóla, úrlausnir þeirra og þýðingu úrlausna fyrir réttarkerfið í heild. Óli Björn leiðir að því sterk rök í bók sinni að dómsýsla Hæstaréttar í svonefndum Baugsmálum hafi ekki verið réttmæt og slíkt hafi haft skaðvænleg áhrif fyrir samfélagið. Hann telur að smærri tækniatriði hafi ranglega verið notuð til að leiða fram niðurstöður sem ekki fái staðist nánari skoðun. Ég hefði átt að komast öðruvísi að orði en ég gerði en ætlun mín var sú að taka undir þetta með Óla og benda á að hugsanlegur vilji dómara (sem aldrei ætti að skipta máli) til að fara mildum höndum um þá sakborninga sem þarna áttu í hlut, hafi ef til vill skaðað samfélagið. Tepruskapur minn í orðum greinarinnar hefur líklega helgast af því að ég var á þessum tíma sjálfur starfandi við dómstólinn sem Óli gagnrýndi og hef viljað fara mildum höndum um starfsbræður mína og systur.

Þú hefur víðtæka reynslu, hefur m.a. starfað sem málflutningsmaður, prófessor í lögfræði og hæstaréttardómari auk fjölda starfa sem lögfræðingur. Telur þú að laganám undirbúi nemendur nægjanlega undir hin fjölbreyttu störf lögfræðinga eða vildir þú sjá einhverjar sérstakar breytingar á laganámi á Íslandi?

Eftir á að hyggja finnst mér prófið úr lagadeildinni forðum aðeins hafa verið eins konar aðgöngumiði að því að taka til við lögfræðinám, því mér finnst ég hafa í reynd verið í slíku námi allar götur síðan. Kennsla í lagadeildunum á að mínu mati að beinast umfram allt annað að meðferð réttarheimilda á hinum ýmsu réttarsviðum. Lagatextum flettum við upp en meðferð þeirra þurfum við að læra sem og meðferð annarra réttarheimilda. Í náminu ætti líka að reyna að stuðla að hinum júridíska þankagangi laganemans. Menn hafa velt því fyrir sér hvað þetta hugtak þýði. Mitt svar er þetta: Júridískur þankagangur felst umfram allt í því að hugsa aðeins um eitt í einu! Í þessu felst að menn eiga ekki að láta hugaráhrif úr óviðkomandi áttum hafa áhrif á þá lögfræðilegu úrlausn sem þeir fást við hverju sinni.

Sem dómari við Hæstarétt hlýturðu að fá á tilfinninguna betur en margir aðrir hvaða breytingar og hræringar eru að eiga sér stað í þjóðfélaginu. Telur þú að siðferðisbrestur hafi orðið um og eftir hrun og hvernig lýsir hann sér þá?

Efnahagsáföllin sem urðu mönnum ljós haustið 2008 og leiddu þá til falls bankanna og annarra hörmunga hafa vissulega haft mikil áhrif á siðferði margra. Að sumu leyti má kannski segja að áhrifin hafi verið jákvæð en að öðru leyti neikvæð. Menn ættu að muna að við vorum flest í þessu saman og lagaleg ábyrgð einstakra manna verður aldrei byggð á öðru en háttsemi sem telst hafa verið andstæð lögum á þeim tíma sem um ræðir. Svo ættum við líka að hafa hugfast að meginreglan um skuldbindingargildi samninga gilti þá og gildir áfram. Reglan um að landið skuli með lögum byggja gildir áfram, enda erum við vonandi öll sammála um að viðhalda meginreglum réttarríkisins. Ekkert annað fyrirkomulag tekur því fram! Dómstóll götunnar, sem svo er nefndur, á ekki fremur rétt á sér nú en endranær. Og fyrst spurt er um brest á siðferði svara ég því til að siðferði þeirra sem skipa sjálfum sér í þann dómstól hefur brostið fremur en margra annarra.

Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Mér er heiður að því að fá að svara spurningum Lögfræðings. Ég óska laganemum við Háskólann á Akureyri alls hins besta og vona að þeir eigi eftir að láta til sín taka í réttarkerfinu á Íslandi í þágu hugmyndarinnar um réttarríkið.

 

Viðtalið tók Melkorka Mjöll Kristinsdóttir, laganemi á þriðja ári við Háskólann á Akureyri.

 Efnisyfirlit


Núverandi tölublað

Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd

Síðasta tölublað

Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun

Fréttir

22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing


Lögfræðingur ©2023 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN