Lektor við Lagadeild HÍ og Félagsvísinda- og lagadeild HA. LL.M. í almennum þjóðarétti og alþjóðaviðskipta- og Evrópurétti.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er tvímælalaust ein af þeim alþjóðastofnunum sem þarf að nálgast frá þverfaglegu sjónarhorni til að öðlast sæmilega skýra mynd. Hér skal aðeins vikið almennt að Öryggisráðinu sem alþjóðastofnun frá sjónarhóli þjóðaréttarins og blasir þá einkum tvennt við: Í fyrsta lagi að Öryggisráðið er líkt og alþjóðastofnanir almennt sett á laggir í krafti þjóðaréttar. Þ.e. með Sáttmála SÞ, en það eru einkum ákvæði V. VI. VII. og VIII. kafla Sáttmálans sem lýsa þeim valdheimildum sem liggja til grundvallar Öryggisráðinu og starfsemi þess.1 Í öðru lagi má segja að Öryggisráðið hafi jafnframt viss úrræði til að móta þjóðarétt með ákvörðunum sínum. Gildir það annars vegar um það athafnasvið þar sem ráðið getur sett ríkjum bindandi fyrirmæli að þjóðarétti og snýr að varðveislu heimsfriðar og öryggis. Hins vegar hefur Öryggisráðið líkt og gjarnan gildir um alþjóðastofnanir vissar heimildir til að móta frekar innri starfsemi sína og málsmeðferð. Fjallar nú stuttlega um starfsemi Öryggisráðsins, helstu valdheimildir þess og hvernig þeim hefur verið beitt í framkvæmd frá sjónarhóli þjóðaréttar.
Leiða má af 1. mgr. 24. gr. Sáttmála SÞ að meginhlutverk Öryggisráðsins sé „aðalábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis“. Almennt séð mætti orða þetta svo að því meiri ógn sem stafar af ástandi á heimsvísu, því líklegra er að málið komi til kasta Öryggisráðsins.2 Óhætt er þó að segja að hugmyndir manna um hvað geti átt hér undir hafi breyst mikið í áranna rás. Ljóst er að upphaflega var Öryggisráðið einkum sett á laggir í þeim tilgangi að hemja vopnuð átök og valdbeitingu í milliríkjasamskiptum. Af ýmsum ástæðum sem snúa einkum að kalda stríðinu varð Öryggisráðið þó aldrei sérlega mikilvirk stofnun sem slík fyrr en nokkur samstaða tók að myndast á meðal stórveldanna sem eiga fastafulltrúa í ráðinu undir lok 9. áratugar sl. aldar. Má segja að þá hafi í reynd tekið að mótast fyrir alvöru það Öryggisráð sem við þekkjum í dag. Þ.e. stofnun sem hefur að segja má þróað áfram einstakar valdheimildir sínar reistar á gömlum grunni til að bregðast við þeim nýju öryggisvandamálum sem einkum hafa steðjað að heimsbyggðinni að frá lokum kalda stríðsins. Þessi öryggisvandamál sem voru mönnum ekki ofarlega í huga þegar Sáttmáli SÞ var gerður felast m.a. í borgarastyrjöldum þar sem brot á grundvallarmannréttindum eiga sér stað, hryðjuverkaógn og hættu á útbreiðslu gereyðingarvopna. Hefur þróunin orðið sú að öryggisráðið skilgreinir öryggi í skilningi 1. mgr. 24. gr. Sáttmálans æ rýmra og virðist athafnasvið þess nú eftir atvikum jafnvel geta tekið til útbreiðslu farsótta eða aðsteðjandi umhverfisvár.3
En hvað sem líður þeirri þróun sem hér hefur verið drepið á er mikilvægt að átta sig á því hver eru í raun helstu viðfangsefni Öryggisráðsins. Sé tekið mið af ályktunum ráðsins, sem endurspegla almennt mikilvægustu ákvarðanir þess, blasir við að starfsemin virðist a.m.k. í ríkum mæli snúa að þrenns konar álitaefnum. Í fyrsta lagi að friðargæsluverkefnum á vegum SÞ, í öðru lagi að framkvæmd viðskiptabanns og annars konar refisaðgerða sem ráðið hefur ákvarðað og í þriðja lagi er diplómatísk aðkoma ráðsins að friðsamlegri úrlausn deilumála á milli ríkja eða innan ríkja þar sem átök eru fyrir hendi eða aðsteðjandi hætta á slíku.4 Ber því að hafa í huga að þótt einstök ríki geri vissulega mjög vel í því að halda á lofti tilteknum framvirkum málefnum sem óneitanlega snerta nú varðveislu friðar og öryggis á vettvangi ráðsins, svo sem í tengslum við almenna hryðjuverkahættu, hættu vegna útbreiðslu ýmis konar vopna, eða sem snerta mannréttindi og mannúðarrétt, þá er eftir sem áður mikilvægt að fulltrúar þeirra leitist jafnframt við að setja sig sem best inn í hin hefðbundnu meginviðfangsefni þess einnig.5
Annað sem hafa þarf í huga er að þótt Öryggisráðið sé vissulega hnattrænt er ekki þar með sagt að viðfangsefni þess snúi með jafnmiklum þunga að öllum heimssvæðum. Blasir þannig við að málefni Afríku, Mið-Austurlanda og síðast en ekki síst Evrópu hafa löngum verið sérlega fyrirferðamikil á dagskrá ráðsins á meðan fremur fátítt er t.d. að öryggisvandamál í S.A.-Asíu eða í Ameríku beri þar á góma.6 Fyrir þessu eru margvíslegar ástæður, en leiðir í öllu falli til þess að ríkin í Öryggisráðinu þurfa að setja sig sérstaklega vel inn í þær aðstæður og þau öryggisvandamál sem helst koma til kasta ráðsins. Á meðal svæða sem hér um ræðir eru t.d. Vestur-Afríka og löndin í kringum vötnin miklu í sunnanverðri Afríku, en óhætt er að segja að átök á milli ríkja og í ríkjum á þessum svæðum hafi verið afar fyrirferðamikil á dagskrá ráðsins sl. 10-15 ár. Sama má segja um málefni Íraks og tiltekinna svæða í Mið-Austurlöndum og um tíma voru málefni ríkja fyrrum Júgóslavíu mikið á dagskrá þótt nú sé þar mun friðvænlegra en áður. Má því ætla að ríki sem eiga sæti í Öryggisráðinu þurfi að leggja alveg sérstaka áherslu á að afla þekkingar á öryggisvandmálum þeirra heimssvæða sem helst koma til kasta ráðsins.
Mikilvægustu valdheimildir Öryggisráðsins að þjóðarétti eru sem fyrr segir í V. VI. VII. og VIII. kafla Sáttmála SÞ. Ekki er hér ráðrúm til að gera þessum heimildum viðhlítandi skil og verður aðeins stiklað á stóru. Í V. kafla Sáttmálans fjallar almennt um Öryggisráðið, þ.e. um skipan þess, störf og völd, ákvarðanatöku og meðferð mála. Um störf og völd ráðsins segir í 24. gr. Sáttmálans:
1) Til þess að tryggja skjótar og haldgóðar aðgerðir af hálfu hinna sameinuðu þjóða, fela meðlimir þeirra öryggisráðinu aðalábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis og eru ásáttir um, að öryggisráðið starfi fyrir þeirra hönd, þegar það framkvæmir skyldustörf sín í samræmi við þessa ábyrgð.
2) Öryggisráðið skal við framkvæmd skyldustarfa sinna starfa í samræmi við markmið og grundvallarreglur hinna sameinuðu þjóða. Hin ákveðnu völd, sem öryggisráðinu eru veitt til framkvæmdar þessum skyldustörfum, eru skilgreind í VI., VII., VIII. og XII. kafla.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. er meginhlutverk Öryggisráðsins varðveisla heimsfriðar og öryggis og eru því fengnar tilteknar valdheimildir til að uppfylla þá ábyrgð í samræmi við markmið og grundvallarreglur SÞ, sbr. 2. mgr. Er þar vísað til tiltekinna valdheimilda og skipta þar tvímælalaust mestu máli heimildir þess samkvæmt VII. kafla, sem fjallar um aðgerðir vegna ófriðarhættu, friðrofs og árása. Þau ákvæði láta Öryggisráðinu í té einkaheimildir að þjóðarétti til að heimila valdbeitingu gagnvart ríki að uppfylltum skilyrðum sem ráðið metur sjálft. Slíkar ákvarðanir Öryggisráðsins fá auk þess frekara vægi frá sjónarhóli þjóðaréttar með vísan til 25. gr. Sáttmálans, þar sem segir að „meðlimir hinna Sameinuðu þjóða eru ásáttir um að fallast á og framkvæma ákvarðanir Öryggisráðsins í samræmi við ákvæði þessa sáttmála“.7
Til að virkja hinar einstöku valdheimildir sínar samkvæmt VII. kafla Sáttmálans þarf Öryggisráðið fyrst að álykta að um sé að ræða ófriðarhættu, friðrof eða árás, sbr. 39. gr. Sáttmálans. Í framkvæmd er það Öryggisráðið sjálft sem túlkar þessi hugtök og metur stöðuna í einstökum málum sem koma til kasta þess m.t.t. þessa. Frá lokum kalda stríðsins hefur Öryggisráðið sem áður segir víkkað mjög út öryggishugtakið, en einnig samfara því skil- greiningu á því hvað getur mögulega talist ófriðarhætta í skilningi 39. gr. Sáttmálans. Hefur Öryggisráðið þannig í seinni tíð m.a. skilgreint hættu á hryðjuverkum, hættu á útbreiðslu gereyðingarvopna og brot á grundvallarmannréttindum í innanlands- ófrið sem ófriðarhættu, en þessi framþróun ráðsins á eigin valdheimildum í Sáttmálanum var eins og nærri má geta a. m.k. alls ekki fyrirséð við gerð hans árið 1945.8
Viðlíka þróun hefur enn fremur átt sér stað varðandi heimildir Öryggisráðsins til að ákvarða eða heimila aðgerðir í skjóli VII. kafla Sáttmálans, en þar skipta efnislega mestu máli ákvæðin í 41. og 42. gr. - Ákvæði 41. gr. er svohljóðandi:
Öryggisráðinu er heimilt að ákveða, hvaða aðgerðir, aðrar en hernaðaraðgerðir, skuli viðhafðar til þess að framfylgja ákvörðunum þess, og getur það kvatt félaga hinna sameinuðu þjóða til þess að beita slíkum aðgerðum. Aðgerðir þessar mega vera fólgnar í því að slíta viðskiptasambandi að nokkru eða öllu leyti og rjúfa samgöngur með járnbrautum, á sjó, í lofti, einnig póst-, síma- og loftskeytasamband, og slíta stjórnmálasambandi.
Að ofan er lýst heimildum ráðsins til að ákvarða svonefndar refsiaðgerðir, en ætla má að upphaflega hafi einkum verið hafðar í huga efnahagsrefsiaðgerðir og viðlíka ráðstafanir og taldar eru upp í ákvæðinu gagnvart einstökum ríkjum. Frá lokum kalda stríðsins hefur Öryggisráðið hins vegar þróað áfram þessar heimildir og er nú almennt litið svo á að þær geti verið stoð fyrir ýmis konar bindandi ákvarðanir þess. Má í því sambandi t.d. nefna sértækar refsiaðgerðir af hálfu ráðsins, sem beinast að tilteknum hópum manna eða jafnvel tilgreindum einstaklingum, stofnsetning stríðsglæpadómstóla í þágu friðar og öryggis og síðast en ekki síst þá viðleitni ráðsins að setja aðildarríkjum SÞ almennar reglur á tilteknum sviðum sem þeim ber svo að framfylgja í landsrétti sínum í þágu friðar og öryggis á alþjóðavísu.9
Hvað varðar 42. gr., þá heimilar það ákvæði Sáttmálans Öryggisráðinu að ákvarða beitingu vopnavalds ef annað þykir ekki duga til að framkvæma ákvarðanir þess. Inntak þessa ákvæðis stendur raunar í samhengi við önnur ákvæði í VII. kafla Sáttmálans og þá einkum 43. og 47. gr., sem gera ráð fyrir því að Öryggisráðið hafi yfir að ráða herjum til að framkvæma slíkar aðgerðir. Í reynd hafa slíkir samningar um herlið aldrei verið gerðir sem aftur leiðir til þess að Öryggisráðið getur ekki ákvarðað beitingu vopnavalds, heldur einungis heimilað hana að áeggjan viljugra ríkja. Hefur það þá yfirleitt verið gert með almennri tilvísun til VII. kafla og tilteknu orðalagi í ályktun Öryggisráðsins.10
Gróft á litið má skipta ákvörðunum Öryggisráðsins upp í tvo flokka, þ.e. annars vegar efnisákvarðanir og hins vegar ákvarðanir sem snúa að málsmeðferð á vettvangi ráðsins. Mikilvægt er að gera greinarmun á þessu tvennu þar sem t.d. neitunarvald þeirra fimm ríkja sem eiga fastafulltrúa í ráðinu gildir einvörðungu um þær ákvarðanir sem teljast til efnisákvarðana. Að öðru leyti gildir nú sú regla að ætíð þarf meðatkvæði a.m.k. níu ríkja af þeim fimmtán sem nú eiga sæti í ráðinu til að það teljist hafa tekið ákvörðun um tillögu sem fyrir því liggur.11 Þótt ríkin fimm sem hafa fastafulltrúa ráði almennt mestu um framgang mála í ráðinu hefur þetta fyrirkomulag þó þá þýðingu að hin tíu ríkin sem eru kjörin þar til setu til tveggja ára í senn hafa einnig nokkuð vægi ef þau ná saman um stefnumál. Hefur raunin orðið sú að nú er almennt reynt til þrautar að ná sammæli um einstök mál.12
Hvað varðar efnisákvarðanir Öryggisráðsins þá eru þær oftast settar fram í formi ályktana og gildir það a.m.k. almennt um hinar mikilvægustu stefnumarkandi ákvarðanir. Frá öndverðum 10. áratug sl. aldar hefur þó einnig færst í vöxt að ráðið birti ýmis konar ákvarðanir sínar í formi yfirlýsinga forseta ráðsins f.h. þess eða meðlima þess. Er þá gjarnan um að ræða frekari útfærslu á einstökum atriðum í tengslum við mál sem ráðið hefur þegar ályktað um og alger samstaða ríkir um í ráðinu.13 Að formi til skiptast ályktanir Öryggisráðsins gjarnan upp í aðfararorð og aðgerðarkafla. Aðfararorð fela almennt í sér tilvísun til fyrri ákvarðana Öryggisráðsins í viðkomandi máli og pólitískar yfirlýsingar varðandi stöðu þess, á meðan aðgerðarkafli felur í sér tölusett tilmæli og fyrirmæli af hálfu ráðsins og það er því þar sem ráðið kann að stofna til þjóðréttarlegra skuldbindinga fyrir aðildarríkin. Sé tekið mið af valdheimildum Öryggisráðsins þá má almennt skipta ákvörð- unum þess sem varða efni máls upp í þrjá meginflokka:14
1. Tilmæli Öryggisráðsins til deiluaðila15
2. Tilmæli Öryggisráðsins sem forsenda ákvarðanatöku Allsherjarþings16
3. Bindandi ákvarðanir af hálfu Öryggisráðsins17
Of langt mál yrði að gera öllum þessum flokkum ákvarðana sæmileg skil og verður því aðeins fjallað um ýmis helstu þjóðréttarlegu álitaefni sem snúa að framkvæmd Öryggisráðsins þegar um er að ræða bindandi ákvarðanir þess í skjóli VII. kafla Sáttmálans - það er í tengslum við aðgerðir vegna ófriðarhættu, friðrofs eða árása.
Fyrir það fyrsta þá hefur þótt nokkuð álitamál hvað Öryggisráðið getur í raun seilst langt í því að skilgreina tilteknar aðstæður sem ófriðarhættu samkvæmt 39. gr. Sáttmálans, en með því að gera slíkt virkjar Öryggisráðið valdheimildir sínar til að heimila aðgerðir í skjóli VII. kafla. Til að taka dæmi þá þótti t.d. nokkuð umdeilt þegar Bandaríkjamenn og Bretar fylgdu eftir kröfum sínum um framsal tveggja líbýskra leyniþjónustumanna á vettvangi Öryggisráðsins í svonefndu Lockerbie-máli á 10. áratug sl. aldar. Deilan snérist m.a. um það að stjórnvöld í Líbýu töldu með vísan til svokallaðs Montreal-samnings um flugöryggi að þau væru í fullum rétti að rannsaka sjálf mál mannanna tveggja sem voru þarlendir ríkisborgarar og ekki þyrfti því að koma til framsals þeirra til erlendra ríkja.18 Það flækti málið enn frekar að Líbýa vísaði deilunni til Alþjóðadómstólsins í Haag samtímis því sem málið var á dagskrá Öryggisráðsins. Fór svo að Bandaríkjamenn og Bretar fengu því framgengt á vettvangi Öryggisráðsins að framganga Líbýu teldist fela í sér ófriðarhættu og í framhaldi voru ákvarðaðar refsiaðgerðir gagnvart Líbýu. Þetta felldi Líbýa sig illa við og taldi ríkin í Öryggisráðinu hafa misbeitt valdheimildum ráðsins við að skilgreina þessa aðstöðu sem ófriðarhættu.19
Mál þetta vakti í reynd upp fjölmörg stjórnskipuleg álitaefni sem snúa að Sameinuðu þjóðunum og stofnunum þeirra eins og lesa má um í dómsúrlausnum Alþjóðadómstólsins í málinu.20 Álitaefni á borð við það hvort Öryggisráðið eigi eitt ótakmarkað mat á því hvað geti talist ófriðarhætta í skilningi 39. gr. Sáttmálans, sem og hver væru valdmörk Öryggisráðsins annars vegar og Alþjóðadómstólsins hins vegar.21 Er því ljóst að sú viðleitni Öryggisráðsins að víkka stöðugt út valdsvið sitt með æ rýmri skilgreiningu á því hvað geti talist til ófriðarhættu í skilningi 39. gr., er á meðal þeirra þjóðaréttarlegu álitaefna sem aðildarríkin í ráðinu þurfa að kunna skil á og taka afstöðu til hverju sinni.
Álitamál af þjóðréttarlegum toga hafa enn fremur komið upp þegar Öryggisráðið hefur ákvarðað eða heimilað aðgerðir, sbr. einkum 41. og 42. gr. Sáttmálans. Í fyrsta lagi hafa komið upp viðlíka álitamál við beitingu ákvæðis 41. gr. og varðandi 39. gr. Þ.e. í þessu tilviki hvort Öryggisráðið eigi eitt óskorað mat á því hvort og þá hvaða refsiaðgerðir eigi við í einstökum tilvikum og hvort framkvæmd slíkra aðgerða geti mögulega farið á svig við alþjóðalög. Í öðru lagi má nefna sértækar refsiaðgerðir af hálfu Öryggisráðsins, sem hafa m.a. reynst mikilvægt tæki í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, en að sama skapi falið í sér ýmis lögfræðileg vandamál í einstökum aðildarríkjum þegar slíkar aðgerðir hafa t.d. beinst að tilgreindum einstaklingum sem njóta eftir sem áður tiltekinna mannréttinda í aðildarríkjunum. Hafa m.a. komið upp mál í Evrópuríkjum þar sem einstaklingar sem töldu sig að ófyrirsynju hafa lent á svörtum lista undirnefnda Öryggisráðsins vildu fá réttingu sinna mála, en slíkt reyndist þá allt annað en auðsótt mál þar sem aðildarríkjum SÞ ber skilyrðislaust að framkvæma slík fyrirmæli Öryggisráðsins.22 Eru þetta dæmi um lögfræðileg álitamál sem aðildarríkin þurfa eiga aðkomu að og móta stefnu um á vettvangi Öryggisráðsins.
Segja má að í kjölfar atburðanna 11. September 2001 hafi orðið alger vatnaskil í því hvernig Öryggisráðið beitir valdheimildum sínum samkvæmt 41. gr. Sáttmála SÞ, þegar það með ályktun nr. 1373/2001 ákvað að setja aðildaríkjum SÞ almennar reglur um ráðstafanir gegn hryðjuverkum, sem þeim ber nú að framfylgja í landsrétti sínum hverju um sig. Má segja að með þessu hafi Öryggisráðið tekið sér vald sem nokkurs konar yfirþjóðleg löggjafarstofnun á tilteknu sviði og hefur sú þróun raunar haldið áfram með fyrirmælum ráðsins um ráðstafanir til að hindra útbreiðslu gereyðingarvopna í aðildarríkjum SÞ.23 Er ljóst að einstök aðildarríki hljóta að verða taka afstöðu til þess hversu langt Öryggisráðið megi og eigi að ganga í að gefa ríkjum slík almenn fyrirmæli.24
Þjóðréttarleg álitaefni hafa einnig komið til álita þegar Öryggisráðið hefur beitt heimildum sínum til að ákvarða eða heimila beitingu vopnavalds gagnvart ríki. Sem áður segir þá hefur Öryggisráðið í reynd engin úrræði til að ákvarða beitingu vopnavalds með þeim hætti sem 42. og 43. gr. Sáttmálans mæla fyrir um. Þess í stað hefur ráðið frá dögum Persaflóastríðsins árið 1990 þróað áfram heimildir sínar í skjóli VII. kafla Sáttmálans til að heimila tilteknum aðildarríkjum sem hafa vilja og getu til aðgerða, beitingu vopnavalds. Aðferðafræðin sem Öryggisráðið hefur hér notast við er sú, að þegar það hefur lýst tiltekna aðstöðu sem ófriðarhættu, friðrof eða árás, fylgir eftir atvikum á eftir síðari ályktun þess, yfirleitt með almennri tilvísun til VII. kafla Sáttmálans, auk þess að fela í sér tiltekið orðalag í formi umboðs. Er það þá yfirleitt orðað nokkuð í þá veru að aðildarríkjum sé heimilað að beita öllum nauðsynlegum úrræðum til að framkvæma tilgreindar ályktanir ráðsins og koma með því aftur á friði og öryggi á viðkomandi svæði.25 Eins og nærri má geta er lykilatriði þegar svo afdrifaríkar ákvarðanir eiga í hlut að umboðið sé skýrt og vel afmarkað frá lagatæknilegu sjónarmiði. Má t.d. þann lærdóm draga af ályktun nr. 678/1990 varðandi Írak og Kúveit, þar sem Öryggisráðið veitti aðildarríkjum lítt takmarkað umboð til beitingar vopnavalds til að koma aftur á friði og öryggi á svæðinu, nokkuð sem Bandaríkin og Bretland notuðu m.a. síðar sem umdeildan þjóðréttarlegan bakhjarl fyrir aðgerðum gagnvart Írak árið 2003. 26 Má því ljóst vera að haldgóð innsýn í beitingu alþjóðalaga og lagatæknileg álitaefni varðandi ályktanir Öryggis- ráðsins er nauðsyn fyrir fulltrúa þeirra ríkja er sitja í ráðinu.27
Loks er rétt í þessu sambandi að víkja fáeinum orðum að friðargæslu og undirstofnunum Öryggisráðsins.28 Hvergi fjallar berum orðum um friðargæslu í Sáttmála SÞ en hún tók snemma að mótast í framkvæmd og er nú vísast umfangsmesta starfsemin á vegum Öryggisráðsins og óumdeilt talin samræmast markmiðum Sáttmálans. Ekki verður fjallað hér um eðli og þróun friðargæslu, en látið við það sitja að árétta að aðildarríki Öryggisráðsins þurfa að setja sig sérlega vel inn í þau mál og einstök friðargæsluverkefni sem SÞ halda úti undir stjórn ráðsins. Er um að ræða flókna og viðamikla starfsemi þar sem reynir m.a. á samstarf ríkja í ráðinu við þau ríki sem æskja friðargæslu og þau ríki sem leggja til slíkra verkefna.29 Framlag einstakra aðildarríkja SÞ til friðargæslu, sáttamiðlunar, friðaruppbyggingar og aðstoðar af ýmsu tagi skiptir máli fyrir trúverðugleika þeirra sem þátttakenda á vettvangi Öryggisráðsins.30 Smáríki hafa eðli máls samkvæmt ekki sömu burði og hin stærri í þessu tilliti, en kunna eftir sem áður að búa yfir tiltekinni tækniþekkingu eða öðrum úrræðum sem koma sérstaklega að notum í slíkri starfsemi. Hvað varðar undirstofnanir Öryggisráðsins þá blasir við að þeim hefur stöðugt farið fjölgandi eftir því sem starfsemi ráðsins hefur orðið viðameiri og má t.d. í því sambandi nefna sérstaklega hryðjuverkanefndina og þær nefndir sem hafa umsjón með framkvæmd tiltekinna refsiaðgerða af hálfu ráðsins.31 Ýmis lögfræðileg álitaefni hafa risið í tengslum við slíkar undirstofnanir, svo sem varðandi það hvaða valdheimildir Öryggisráðinu er stætt á að framselja til þeirra, o.s.frv.32 Er því ljóst að aðildarríkin þurfa einnig að setja sig vel inn í starfsemi einstakra undirstofnana Öryggisráðsins.
Haldgóð þekking á málsmeðferðarreglum Öryggisráðsins er a.m.k. mikilvæg fyrir starfsmenn fastanefnda ríkja sem eiga sæti í ráðinu. Slíkt getur auðveldað ríki að koma stefnumálum sínum í réttan farveg auk þess sem yfirbragð fagmennsku er til þess fallið að auka trúverðugleika fulltrúa ríkja gagnvart öðrum slíkum sem starfa þarf með í ráðinu.
Nokkuð flókið er að ná utan um þær reglur sem gilda um meðferð mála fyrir Öryggisráðinu.33 Er þær einkum að finna í einstökum ákvæðum í V. kafla Sáttmála SÞ, í sérstökum Reglum um málsmeðferð Öryggisráðsins, en auk þessa verður einnig að líta til þeirra ályktana Öryggisráðsins og yfirlýsinga forseta þess sem varða ákvarðanir um málsmeðferð fyrir ráðinu sem og til viðtekinnar framkvæmdar.
Ákvæði Sáttmála SÞ sem fjalla um málsmeðferð Öryggisráðsins eru rétthæst í þessu sambandi, en einkum er þar um að ræða ákvæði í 27.-32. gr. Sáttmálans. Þótt mikilvæg séu þá eru þau fáorð ein og sér, en samkvæmt 30. gr. er gert ráð fyrir að ráðið setji sér sjálft frekari málsmeðferðarreglur. Þær eru nú í Reglum um málsmeðferð Öryggisráðsins frá 1983.34 Þótt þær reglur séu nokkuð ítarlegar og taki til flestra meginþátta er snúa að málsmeðferð fyrir ráðinu verður að hafa vissa fyrirvara varðandi þær. Reglurnar sem eru að stofni til frá árinu 1946 með fáeinum síðaðri breytingum eru skilgreindar sem bráðabirgðareglur. Kemur það til af því að upphaflega stöfuðu þær frá nefnd sem vann að undirbúningi að stofnun SÞ og á dögum kalda stríðsins var ekki vilji til að hreyfa við þeim svo nokkru nam.35 Frá lokum kalda stríðsins hefur hins vegar orðið mikil þróun í málsmeðferð Öryggisráðsins í eiginlegri framkvæmd, sem hefur svo eftir atvikum verið fest í sessi í ályktunum ráðsins eða yfirlýsingum forseta þess. Þetta fyrirkomulag leiðir til þess að nokkuð erfitt er að öðlast yfirsýn yfir þær reglur sem gilda um málsmeðferðina.36
Ekki er hér ráðrúm til að fjalla ítarlega um málsmeðferð Öryggisráðsins og verður því einungis fjallað mjög almennt um nokkur meginefni sem snúa að fundum ráðsins, dagskrá þess, hlutverki forseta, ákvarðanatöku og stöðu ólíkra ríkja innan og utan ráðsins.
Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. Sáttmála SÞ þarf Öryggisráðið jafnan að vera starfhæft. Reglurnar mæla enn fremur fyrir um að ekki skuli líða meira en tvær vikur á milli funda þess, en í reynd eru ýmis konar fundir á vegum ráðsins almennt öllu tíðari en svo.37 Það er eitt af hlutverkum forseta Öryggisráðsins að boða til funda og skal það gert ef eitthvert ríkja í ráðinu fer fram á slíkt, sbr. 2. gr. reglna, eða skv. 3. gr. reglna ef ríki vekur máls á ástandi eða á deilumáli, sbr. 35. gr. Sáttmálans, ef Allsherjarþingið vísar þangað máli eða vekur athygli á ástandi, sbr. 2.-3. mgr. 11. gr. Sáttmálans, eða ef Aðalframkvæmdastjóri SÞ vekur athygli ráðsins á máli, sbr. 99. gr. Sáttmálans.38
Fundir Öryggisráðsins eru nú með afar fjölbreytilegu sniði, en í megindráttum hefur verið hefðbundið að greina að annars vegar opna fundi og hins vegar lokaða fundi og eru þá ekki taldir með óformlegir fundir sem skipta í reynd miklu máli einnig. Meginreglan er að Öryggisráðið skuli funda fyrir opnum tjöldum og geta þau aðildarríki sem ekki eiga sæti í ráðinu sóst eftir því við ráðið að fá að taka þátt í slíkum fundum án atkvæðisréttar.39 Ber Öryggisráðinu að bjóða ríki sem telst aðili að deilmáli að taka þátt í umræðum um það, sbr. 32. gr. Sáttmálans, auk þess sem ríki sem að mati ráðs- ins á sérstaka hagsmuni í máli skal enn fremur heimilað að taka þátt í umræðum um það, sbr. 31. gr. hans. Fundirnir draga jafnan að sér mikla athygli fjölmiðla og allt það sem fram fer er skráð og birt opinberlega með fundargerð. Lokaðir fundir fara almennt fram með áþekku sniði, nema hvað þá hafa fjölmiðlar og almenningur ekki aðgang og eftir atvikum ekki önnur ríki, en Öryggisráðið ákveður sjálft fyrirkomulagið hverju sinni. Lokaðir fundir geta verið nauðsynlegir undir vissum kringumstæðum, en mikill fjöldi þeirra kann þó að vera til þess fallið að ala á tortryggni og gagnrýni á að ráðið starfi með ógegnsæjum hætti.40
Auk formlegra funda er mikið um óformlegt samráð eða viðræður ýmist á milli fulltrúa allra eða sumra ríkja í Öryggisráðinu. Óformlegir fundir allra aðildarríkja í ráðinu eru mjög mikilvægir því þar er mikilvægum málum í reynd oft ráðið til lykta, en staða slíkra funda sem kalla má reglubundna er nokkuð óljós. Hefur enn fremur skapast hefð fyrir slíku reglubundnu samráði stórveldanna fimm sem hafa fastafulltrúa og fara með neitunarvald í ráðinu, samráði vestrænu stórveldanna þriggja, sem og fulltrúa ýmissa annarra ríkjahópa innan ráðsins.41 Eru slík tengslanet m.a. mjög mikilvæg fyrir smærri ríki sem ella ættu mun erfiðara með að halda úti starfsemi á vettvangi Öryggisráðsins.42
Ríkin í Öryggisráðinu skiptast á að fara með forsæti þar í einn almanaksmánuð í senn og fer röð þeirra í forsæti almennt eftir stafrófi miðað við opinbert heiti ríkis á ensku.43 Hlutverk forseta ráðsins er í reynd nokkuð viðamikið og kemur hann m.a. fram út á við fyrir hönd ráðsins, boðar til funda, heldur utan um dagskrá og stýrir fundum. Eins og gefur að skilja vinnur forsetinn starf sitt í nánu samráði við fulltrúa annarra ríkja í ráðinu en hann hefur þó nokkuð víðtækar heimildir til að stýra fundum ráðsins, í hvaða röð er tekið til máls, o.s.frv. Drög að dagskrá funda eru alla jafnan unnin af starfsmönnum SÞ eftir óformlegt samráð ríkja í ráðinu og er nú fátítt að ágreiningur um slíkt opinberist.44
Ákvarðanataka í Öryggisráðinu markast af 27. gr. Sáttmála SÞ, sem er svohljóðandi:
1) Hver meðlimur öryggisráðsins hefur eitt atkvæði.
2) Til ákvarðana öryggisráðsins í málum um fundarsköp þarf jákvæði níu meðlima ráðsins.
3) Til ákvarðana í öllum öðrum málum þarf jákvæði níu meðlima, að með- töldum atkvæðum hinna föstu meðlima þó með því skilyrði, að í ákvörðunum mála, sem nefnd eru í VI. kafla og í 3. lið 52. gr., skuli deiluaðili sitja hjá við atkvæðagreiðslu.
Gerður er greinarmunur á þeim ákvörðunum sem varða málsmeðferð annars vegar og efnisákvörðunum hins vegar og felst einkum í því að neitunarvald gildir ekki um þær ákvarðanir sem varða málsmeðferð. Þetta þýðir að fulltrúar sjö ríkja í Öryggisráðinu geta mögulega varnað því að mál sem vísað er til ráðsins fái þar umfjöllun, auk þess sem sami fjöldi ríkja og sérhvert stórveldanna fimm sem fer með neitunarvald getur hindrað efnislega ákvarðanatöku í máli.45 Nokkuð fastmótað er hvaða ákvarðanir teljast snúa að málsmeðferð einvörðungu, en rísi ágreiningur um það gildir neit- unarvald um þá ákvörðun.46 Frá lokum kalda stríðsins hefur verið lögð áhersla á að sem flestar ákvarðanir séu samþykktar samhljóða og er það nú reyndin. Sérhvert aðildarríki Öryggisráðsins getur lagt fram drög að ályktun, auk þess sem þau ríki utan ráðsins sem tekið hafa þar þátt í umræðum um mál geta enn fremur lagt fram slík drög sem þó ganga ekki til atkvæða þar nema eitthvert þeirra ríkja sem eiga sæti í ráðinu mælist til þess.47 Í reynd stafa flest drög að ályktunum frá stórveldunum sem eiga fastafulltrúa og ætíð þarf að hafa mjög náið samráð við þau um allt það sem kemur til kasta ráðsins.48
Önnur ríki en þau fimm sem hafa fastafulltrúa eru kjörin til setu í Öryggisráðinu á vettvangi Allsherjaþings SÞ til tveggja ára í senn. Til að ná kjöri þarf meðatkvæði fulltrúa 2/3 þeirra ríkja sem taka þátt á þinginu, en auk þess er í reynd tekið mið af kvótum tiltekinna ríkjahópa á vettvangi SÞ við kjörið.49 Stundum hefur þurft nokkrar umferðir til að fá hrein úrslit í slíku kjöri, en í öðrum tilvikum hefur náðst nokkurs konar pólitískt samkomulag og þá jafnvel í þá veru að tvö ríki hafi skipt kjörtímabili á milli sín.50 Þótt ríkin sem ekki eiga fastafulltrúa í ráðinu séu í öllu veikari stöðu en stórveldin geta þau engu að síður haft sterka rödd og atkvæði þeirra geta skipt máli um lyktir máls.
Hér hefur aðeins verið leitast við að lýsa í mjög stuttu máli ýmsu því helsta sem snýr að starfsemi Öryggisráðsins frá sjónarhóli þjóðaréttar og má segja að umfjöllunin hafi a.m.k. staðið til þess að varpa nokkru ljósi á eftirfarandi atriði:
Í fyrsta lagi, að þótt Öryggisráðið sé pólitísk stofnun þá verður umfjöllun um hana fremur ómarkviss ef ekki er gefinn nægur gaumur að þeim alþjóðalögum sem ýmist fjalla um Öryggisráðið eða frá því stafa. Hlýtur því að vera metnaðarmál fyrir ríki sem starfar í ráðinu að tryggja að fyrir hendi sé næg sérfræðiþekking af þess hálfu hvað þetta varðar.
Í öðru lagi, að þótt Öryggisráðið sé lifandi stofnun og í stöðugri framþróun með aukinni áherslu á ýmis framvirk viðfangsefni, þá virðast hefðbundin verkefni þess á borð við friðargæslu og framkvæmd refsiaðgerða jafnan vera mjög umfangsmikil í starfseminni. Þetta felur í sér að þótt skynsamlegt sé fyrir smærri ríki að marka sér áherslur í tilteknum málaflokkum, þá má það þó ekki leiða til þess að þau víki sér hjá því að byggja upp þekkingu á kjarnastarfsemi ráðsins. Má einnig benda á mikilvægi þekkingar á málefnum Afríku og Mið-Austurlanda, sem jafnan hafa verið fyrirferðarmikil á dagskrá ráðsins.
Í þriðja lagi, að mikilvægt er fyrir fastanefndir þeirra ríkja sem stefna að setu í Öryggisráðinu að setja sig vel inn í málsmeðferð þess. Þótt sjaldan komi nú upp ágreiningur af því tagi verður þó að telja eðlilega fagmennsku að standa vel að þeim málum.
Í fjórða lagi, er rétt að árétta að hér hefur einungis verið fjallað um nokkur atriði sem snúa að þjóðréttarlegum álitaefnum í tengslum við Öryggisráðið. Ekki hafa því verið hér til umfjöllunar hin fjölmörgu pólitísku álitaefni sem tengjast ráðinu, svo sem hvað varðar mögulega stækkun þess og síðast en ekki síst mikilvægi skýrrar stefnumótunar á ólíkum sviðum utanríkis- og öryggismála, sem unnt er að vinna eftir á vettvangi Öryggisráðsins.
* Höfundur er lektor á sviði þjóðaréttar við lagadeild HÍ og við félagsvísinda- og lagadeild HA. Athuga ber að öllu styttri útgáfa af þessari grein er birt í ritröðinni Þjóðarspegill 2007 á vegum Háskóla Íslands.
1. Þ.e. Sáttmála Sameinuðu þjóðanna (Sáttmála hinna Sameinuðu þjóða - e. Charter on the United Nations), sem gerður var 26. júní 1945 og gekk í gildi 24 október s.á., en Sáttmálinn tók gildi gagnvart Íslandi 19. nóvember 1946. Í þessari grein verður jafnan notast við þýðingu Sáttmálans á síðu utanríkisráðuneytisins á vefslóðinni - http://www.utanrikisraduneyti.is/utanrikismal/IslandSth//nr/2383.
2. Bailey, S. & Daws, S. The Procedure of The UN Security Council. Oxford University Press, 3. útg., 1998, bls. 5.
3. Wallensteen, P. & Johansson, P. „Security Council Decisions in Perspective“. Malone, David, M. The UN Security Council - From the Cold War to the 21st Century. Lynne Rienner, 2004, bls. 28-29.
4. Sbr. umfjöllun í Wallensteen, P. & Johansson, P. „Security Council Decisions in Perspective“, bls. 25-28.
5. Með framvirkum málefnum er átt við thematic issues, en á þessari öld hefur verið mun meira um að Öryggisráðið fjalli almennt um tiltekin öryggisvandamál og mögulegar fyrirbyggjandi ráðstafanir, t.d. í tengslum við hryðjuverkavá, hættu á útbreiðslu gereyðingarvopna, konur og börn á átakasvæðum, os.frv.
6. Wallensteen, P. & Johansson, P. „Security Council Decisions in Perspective“, bls. 23-25.
7. Óumdeilt er að þetta á a.m.k. við um ákvarðanir ráðsins skv. VII. kafla, en meira álitamál hefur þótt hvaða aðrar ákvarðanir ráðsins geti talist bindandi. Sjá, einnig ákvæði í 5. og 6. mgr. 2. gr. og 49. gr. Sáttmálans.
8. Ályktanir ráðsins nr. 1373/2001 & 1540/2004 og í Pétur Dam Leifsson. „Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og réttur ríkja til að beita vopnavaldi samkvæmt reglum þjóðaréttarins“, í Lögberg - rit Lagastofnunar HÍ. Ritstj., Stefán M. Stefánsson & Viðar M. Matthíasson. Háskólaútgáfan, 2003, einkum bls. 593-603.
9. Sjá, umfjöllun um mögulegar ráðstafanir samkvæmt 41. gr. Sáttmála SÞ í Simma, Bruno o.fl. The Charter of the United Nationa - A Commentary. 2. útgáfa, 1. bindi, Oxford University Press, 2002, bls. 735-748.
10. Gray, C. International Law and the Use of Force. 2. útg., Oxford University Press, 2004, bls. 252.
11. Sjá, 27. gr. Sáttmála SÞ og þá einkum 3. mgr., þar sem neitunarvaldinu er lýst.
12. Hulton, Susan, C. „Council Working Methods and Procedure“, í Malone, David, M. The UN Security Council - From the Cold War to the 21st Century. Lynne Rienner, 2004, bls. 237.
13. Hulton, Susan, C. „Council Working Methods and Procedure“, bls. 238.
14. Bailey, S. & Daws, S. The Procedure of The UN Security Council, bls. 18.
15. Sjá t.d. ákvæði 2. mgr. 33. gr., 1. mgr. 36. gr., 2. mgr. 37. gr., 38. gr., 3. mgr. 52. gr. og 54. gr. Sáttmálans.
16. Sjá, t.d. ákvæði 4.-6. gr., og 97. gr. Sáttmálans og í Samþykkt fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag (Statute of the International Court of Justice) sem telst vera hluti Sáttmálans, í 3. mgr. 4. gr., 69. gr. og í 2. mgr. 94. gr.
17. Ákvæði í 1. mgr. 24. gr., sbr. 25. gr., 5. mgr. 2. gr. og 49. gr. Sáttmálans, sbr. og ákvæði VII. kafla hans.
18. Samningur um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna/ Convention for the Suppression of Unlawful Acts against the Safety of Civil Aviation. Aðild Íslands frá 29. júní 1973, öðlaðist gildi 30. júlí 1973, sbr. auglýsing í C-deild Stjórnartíðinda nr. 13/1973. - Sjá, 1. mgr. 14. gr. samningsins.
19. Sjá, ágæta reifun málsins í Gill, T.D. Rosenne’s - The World Court - What It is and How It Works. 6. útg., Martinus Nijhoff, 2003, bls. 199-201.
20. Í dómi og úrskurðum Alþjóðadómstólsins í málinu sem birtir eru á vefsíðu hans á slóð - http://www.icj- cij.org/docket/index.php?p1=3&p2=3&code=lus&case=89&k=82, er að finna fróðlegar útlistanir um þessi efni og ekki síst í sératkvæðum einstakra dómara, en sátt náðist þó í málinu áður en það gekk til efnisdóms.
21. Fræðilega umfjöllun um slík álitaefni er m.a. að finna í de Wet, E. The Chatpter VII Powers of the United Security Council. Hart Publishing, 2004, sjá einkum umfjöllun á bls. 2-12 og 72-74.
22. Sjá, t.d. mjög áhugaverða umfjöllun um þessi efni í Cramer, P. „Recent Swedish Experiences with Targeted Sanctions: The Erosion of Trust in the Security Council“, í de Wet & Nollkaemper. Review of the Security Council by Member States. Intersentia, 2003, bls. 85-99. Í seinni tíð hafa Öryggisráðið og undirnefndir þess sýnt nokkra viðleitni til þess að koma á tilteknum málsmeðferðarúrræðum fyrir þá einstaklinga og félög sem lent hafa í slíkri stöðu, sbr. t.d. reglur um málsmeðferð á slóð - http://www. un.org/sc/committees/1267/pdf/1267_guidelines.pdf
23. Sjá, ályktun Öryggisráðsins nr. 1540/2004 um ráðstafanir til að hindra útbreiðslu gereyðingarvopna til annarra aðila en ríkja.
24. Sjá, m.a. gagnrýna umfjöllun um þau efni í grein Szasz, P.C. „The Security Council Starts Legislating“, í The American Journal of International Law, 96. árg. 4. tbl., 2002, bls. 901-905.
25. e. to use all neccessary means. Sjá, Gray, C. International Law and the Use of Force, bls. 253.
26. Sjá, Pétur Dam Leifsson. „Um málefni Íraks og alþjóðalög tengd beitingu vopnavalds“ í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, 23. mars 2003, birt á vef - http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=721204.
27. Nú orðið er t.d. algengt að í ályktunum um friðargæslu séu svokölluð sólarlagsákvæði sem tímasetja umboðið, en slíkt hefur síður verið tíðkað um refsiaðgerðir. Bailey, S. & Daws, S. The Procedure of The UN Security Council, bls. 66.
28. Ráðið hefur heimildir til að setja slíkar stofnanir á laggir sér til aðstoðar samkvæmt 29. gr. Sáttmála SÞ. Eiga undir nefndir sem hafa umsjón með framkvæmd refsiaðgerða, friðargæsluverkefni, rannsóknarnefndir, stríðsglæpadómstólar og sérstakir sendifulltrúar sem ráðið veitir visst umboð í skjóli valdheimilda sinna, o.fl. Yfirlit yfir ýmsar helstu undirstofnanir ráðsins er birt á heimasíðu þess - http:// www.un.org/Docs/sc/.
29. Frá 10. áratug sl. aldar hefur slíkum verkefnum fjölgað og þau orðið flóknari þegar um hefur verið að ræða friðargæslu samfara aðgerðum skv. VII. kafla Sáttmála SÞ og síðan uppbygging samfélaga í kjölfar átaka.
30. Sjá, 1. mgr. 23. gr. Sáttmála SÞ, þar sem áréttað er að við kjör ríkja í ráðið beri í fyrsta lagi að líta til framlags þeirra til varðveislu friðar og öryggis, en enn fremur til framlaga í þágu annarra markmiða SÞ.
31. e. Counter Terrorism Committee, en yfirlit um starfsemi hennar er á slóð - http://www.un.org/sc/ctc/. Um aðrar undirnefndir ráðsins er hafa umsjón með aðgerðum fjallar á - http://www.un.org/sc/ committees/.
32. Benda má hér á ritið - Sarooshi, Dan. The United Nations and the Development of Collective Security: The Delegation by the UN Security Council of Its Chapter VII Powers. Oxford University Press, 2000.
33. Leið til að öðlast sæmilega yfirsýn yfir þær málsmeðferðarreglur sem ráðið viðhefur er að kynna sér - The Repertoire of the Practice of the Security Council á http://www.un.org/Depts/dpa/repertoire/index. html
34. Reglurnar (hér eftir - Reglur um málsmeðferð) eru birtar á - http://www.un.org/Docs/sc/scrules.htm.
35. Sjá, umfjöllun í Bailey, S. & Daws, S. The Procedure of The UN Security Council, bls. 9-17.
36. Hulton, Susan, C. „Council Working Methods and Procedure“, bls. 249-250.
37. Sjá, 1. gr. Reglna um málsmeðferð varðandi tveggja vikna regluna sem ekki er þó fylgt mjög ákveðið eftir í framkvæmd, sbr. Bailey, S. & Daws, S. The Procedure of The UN Security Council, bls. 23.
38. Aðalframkvæmdastjórinn og starfsmenn hans hafa raunar umtalsverða aðkomu að því að þjónusta starfsemi Öryggisráðsins sem fundar almennt í fundarsal sínum í höfuðstöðvum SÞ í New York.
39. Sjá, 48. gr., sbr. 37. gr. Reglna um málsmeðferð Öryggisráðsins.
40. Sbr. yfirlýsing forseta ráðsins, 19. júlí 2006 á -http://www.un.org/Depts/dpa/repertoire/index.html, bls. 5.
41. P5 fundir hafa verið haldnir reglulega frá 1986 en ríkin skiptast á að stýra fundum í 3 mánuði í senn. Á meðal annarra ríkjahópa má nefna „óháð ríki“ (non aligned movement), ESB ríki hafa tiltekið samráð, auk fjölda annarra tengslahópa. Bailey, S. & Daws, S. The Procedure of The UN Security Council, bls. 69-72.
42. Sjá, Bailey, S. & Daws, S. The Procedure of The UN Security Council, einkum bls. 60, 69-72, og 137.
43. Bailey, S. & Daws, S. The Procedure of The UN Security Council, bls. 1.
44. Bailey, S. & Daws, S. The Procedure of The UN Security Council, bls. 37-40.
45. Bailey, S. & Daws, S. The Procedure of The UN Security Council, bls. 88-89.
46. e. double veto. Bailey, S. & Daws, S. The Procedure of The UN Security Council, bls. 212 og 240-242.
47. Sjá, 38. gr. Reglna um málsmeðferð Öryggisráðsins.
48. Malone, David, M. The UN Security Council - From the Cold War to the 21st Century. Lynne Rienner, 2004, bls. 7.
49. Sjá. 2. mgr. 18. gr., sbr. og 1. mgr. 23. gr. Sáttmála SÞ, en um ríkjahópana fjallar í Bailey, S. & Daws, S. The Procedure of The UN Security Council, bls.168-173.
50. Bailey, S. & Daws, S. The Procedure of The UN Security Council, bls. 147-148.
Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd
Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun
22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing
Lögfræðingur ©2023 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN