Höskuldur Þór Þórhallsson hdl.

Höskuldur Þór Þórhallsson hdl.

Alþingismaður


Grein birt í: Lögfræðingur 2008

Hugtakið „kristið siðgæði“

Frumvörp til menntamála

Á síðastliðnu hausti lagði menntamálaráðherra fram fjögur frumvörp um menntamál. Frumvarp til laga um leikskóla, til laga um grunnskóla, til laga um framhaldsskóla og til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Frumvörpin eru viðamikil og munu á margan hátt breyta því skólakerfi sem hefur verið við lýði hér á landi verði þau samþykkt. Róttækastar eru breytingarnar á frumvarpi til laga um framhaldsskóla. Þar er á margan hátt verið að kollvarpa núverandi kerfi miðstýringar í átt að frjálsræði þar sem gerð námsbrautarlýsinga færist frá ráðuneyti menntamála til framhaldsskólanna. Þá er sú breyting að auka menntunarkröfur kennara í 5 ár einnig viðamikil og mun hafa umtalsverð áhrif á skólastarf og kennsluhætti á næstu árum.

Breytingar á markmiðslýsingum laga


Sú breyting á lögunum fjórum sem mest viðbrögð hefur fengið og hvað mesta umfjöllun í fjölmiðlum lands- inserákvörðunmenntamálaráðherra að taka út úr markmiðslýsingu 2. gr. frumvarpsins til laga um leikskóla og 2. gr. frumvarpsins til grunnskóla.1 Starfshættir grunnskóla skulu nú mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, og virðingu fyrir manngildi í stað kristilegs siðgæðis.2 Þá segir nú um starfshætti leikskóla að meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskóla skulu vera „að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra“ þar sem orðið „siðferðisvitund“ komi í stað orðalagsins „kristilegt siðgæði“.3

Gagnrýnendur þessara breytinga hafa spurt hver sé ástæða þess að breyta því að starfshættir skólastarfs skuli mótast af kristilegu siðgæði? Hver sé ástæðan fyrir því að við ættum að taka upp önnur viðmið en þau sem hingað til hafa verið í skólahaldi á Íslandi? Í frumvarpinu til laga um leikskóla er vísað til þess að ör fjölgun hefur orðið á leikskólabörnum sem koma erlendis frá, með ólíkan bakgrunn, hefðir og trúarbrögð. Þá segir „með þessari breytingu er ekki verið að draga úr mikilvægi kristinnar trúar og kristilegu gildismati, menningu og hefðum. Þess í stað er verið að bregðast við breyttum samfélagslegum aðstæðum, viðurkenna og sýna umburðarlyndi gagnvart fjölbreytileikanum og því sem hann stendur fyrir“.4 Í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins til grunnskólalaga segir um ástæðu þessara breytinga eftirfarandi. „Þykir rétt að tilgreina ekki beint kristilegt siðgæði í ljósi breytinga á samfélaginu á undanförnum árum. Þessi breyting er í samræmi við ábendingar frá ýmsum aðilum“. 5

Þegar grannt er skoðað eru þetta heldur rýr rök fyrir afnámi hugtaksins „kristilegs siðgæðis“ úr markmiðum leik- og grunnskólalaga á Íslandi. Fullyrt er í athugasemdunum að ekki eigi að breyta eða draga úr mikilvægi kristinnar trúar og kristilegu gildismati. Ef svo er hver er þá raunveruleg ástæða breytinganna? Hvaða breyttu aðstæður í samfélaginu okkar kalla á breytingarnar á markmiðum laga um leikskóla og laga um grunnskóla? Hvaða „breytingar á samfélaginu“ á undanförnum árum hafa orðið til þess að það kalli á slíkar breytingar? Og síðast en ekki síst hvaða „ábendingar frá ýmsum aðilum“ er um að ræða í þessu samhengi?

Umræður á Alþingi

Í 1. umræðu um frumvörpin fjögur, þann 7. desember 20076, var ofangreindum spurningum beint til menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnars- dóttur, og í utandagskrárumræðu þann 12. desember 2007 um „stöðu þjóðkirkjunnar, kristni og kristinfræðslu“ að dóms- og kirkjumálaráðherra, Birni Bjarnasyni7. Í stefnuræðu sinni um frumvörpin til menntamála réttlætti menntamálaráðherra breytinguna og vísaði til „fjölmargra ábendinga sem laganefndinni bárust um mikilvægi þess að ný löggjöf um leikskólann endurspeglaði m.a. fjölmenningarlegt samfélag hér á landi og tekið tillit til þess sem sagt hefur verið hjá Mannréttindadómstól Evrópu“.8 Í umræðunni um stöðu þjóðkirkjunnar sagði menntamálaráðherra að nefndin sem vann að endurskoðun grunnskólalaga hafi verið þess vel meðvituð að breyting sem þessi orkaði tvímælis og væri mjög viðkvæm. Niðurstaðan hefði hins vegar verið sú „m.a. í ljósi nýlegrar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu gagnvart Norðmönnum, að ekki væri stætt á öðru en að leggja til breytingu sem þessa á lögum“.9 Dóms- og kirkjumálaráðherra komst svo að orði í sömu umræðu, „ ... Mannréttindadómstóll Evrópu sem starfar á vegum Evrópuráðsins í Strassborg komst að því, ef ég skil hæstv. menntamálaráðherra rétt, í máli sem var höfðað í Noregi, þ.e. gegn Norð- mönnum, að einhver tilvísun þar stæðist ekki mannréttindasáttmála Evrópu. Hvort það er þetta orðalag sem hefur verið hér í grunnskólalögum veit ég ekki en þetta er atriði sem verður að líta til þegar við semjum lög eins og þessi. Við verðum að líta til þeirra laga sem gilda hér, m.a. um mannréttindi, þegar ákvæði eru sett hér í grunnskólalög“.10 Það er vissulega rétt að ávallt skuli líta til ákvæða um mannréttindi þegar um lagabreytingar er að ræða hér á landi. Fullyrðing menntamálaráðherra, um að nýleg niðurstaða Mannréttindadómstólsins sem féll gegn Noregi knýi á að hugtakið „kristið siðgæði“ sé tekið út úr markmiðsgreinum frumvarpa til leikskólalaga og frumvarps til grunnskólalaga, stenst á hinn bóginn ekki þegar grannt er skoðað.

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu frá 29. júní 2007, Folgerø o.fl. gegn Noregi11


Málsatvik voru þau að haustið 1997 var námsskrá fyrir norska grunnskóla breytt. Í þeim breytingum voru tvær aðskildar námsgreinar, kristinfræði og lífsskoðanir, sameinaðar í eina, KRL (Kristindómsfræðsla með innsýn í trúarbrögð). Samkvæmt eldri skipan gátu foreldrar sótt um að börn sín yrðu undanþegin kennslu í kristinfræði. Samkvæmt nýja kerfinu var einungis hægt að fá undanþágu frá kennslu í ákveðnum hlutum hinnar nýju námsgreinar.

Í norskum lögum um menntun frá 1998 segir að nemandi, samkvæmt beiðni foreldris, skuli undanþeginn kennslu í þeim þáttum náms sem út frá trúarbrögðum eða lífsskoðunum hans og fjölskyldu teljast jafnast á við iðkun eða fylgni við önnur trúarbrögð.12 Kærendur auk annarra foreldra leituðust við að fá börn sín undanþegin allri kennslu KRL en var hafnað. Kröfum kærenda var hafnað fyrir héraðsdómi í Osló þann 14. mars 1998. Þann 25. mars árið 2002 lögðu nokkrir norskir foreldrar (kærendur ekki þar á meðal) fram kvörtun við mannréttindanefnd SÞ sem starfar skv. alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá árinu 1966. Niðurstaða nefndarinnar var að reglur norska skólakerfisins hvað varðar KRL brytu í bága við ákvæði samningsins.

Við meðferð málsins hjá Mannréttindadómstólnum héldu kærendur því fram að með því að synja börnum þeirra algerlega um undanþágu frá kennslu í KRL væru þeir útilokaðir frá því að tryggja börnum sínum menntun í samræmi við trú þeirra og samvisku. Einnig héldu þeir því fram að und- anþágureglurnar yllu ákveðnum óþægindum sem legði á þá meiri byrðar og að kerfið væri þannig aðlagað að hagsmunum meirihlutans. Að þeirra mati fól þetta í sér mismunun. Kærendur töldu að brotið væri í bága við 9. gr. sáttmálans um hugsana-, samvisku- og trúfrelsi, samningsviðauka nr. 1 um rétt til menntunar, 8. gr. um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og 14. gr. bann við mismunun.

1. Saga og hefð Noregs og markmið laganna

Í forsendum fyrir niðurstöðu sinni benti dómstóllinn fyrst á að markmið innleiðingar KRL hefði verið að leitast við að tryggja opið og heildstætt skólaumhverfi, óháð bakgrunni nemenda, trú, þjóðerni og fleiri þáttum. Slíkt teldist samræmast meginreglum um fjölhyggju og hlutlægni sem fælist í 2. gr. samningsviðaukans nr. 1. Sú staðreynd að kennsla í kristindómi væri stærri þáttur fagsins en önnur viðfangsefni var, að mati dómstólsins, ekki sem slík brot á réttindum 2. gr. samningsviðaukans nr. 1. Þegar litið væri til þess að kristin trú skipaði stóran sess í sögu og hefð Noregs félli það innan svigrúms ríkisins til mats að ákveða innihald námskrárinnar með þeim hætti. Hins vegar var ljóst að yfirgnæfandi áhersla væri lögð á kristindóm, sér í lagi ef litið væri til tiltekins ákvæðis laganna sem kvæði á um að markmið kennslu væri m.a. að leitast við að veita börnum kristið og siðferðilegt uppeldi, í samvinnu við heimili þeirra. Þessi ríki mismunur í áherslu endurspeglaðist einnig í því orðalagi sem notað væri í lögunum í heild sinni og ennfremur í því að helmingur fagsins vísaði til kristindóms og það sem eftir stæði væri skipt á milli annarra trúarbragða og lífsskoðana.

2. Niðurstaða dómstólsins

Í niðurstöðu sinni benti dómstóllinn á, í fyrsta lagi, að veruleg vandamál risu í framkvæmd þessa undanþágukerfis. Kerfið fæli í sér að foreldrar yrðu að vera ítarlega upplýstir um inntak einstakra kennslustunda og námsþátta til að þeim væri unnt að tilkynna skóla í tíma hvort barn þeirra skyldi undanþegið ákveðnum þáttum námsins. Ákveðnir erfiðleikar væru fólgnir í því að krefjast þess af foreldrum að vera stöðugt upplýstir um kennslu í faginu og velja út þá þætti sem ekki samræmdust trú þeirra, sérstaklega þegar það væri almenn fræðsla í kristinni trú sem foreldrarnir væru mótfallnir.

Í öðru lagi var sú skylda lögð á foreldra að gefa gildar ástæður fyrir beiðnum um undanþágu að undanskildum þeim tilvikum sem augljóslega fælu í sér trúarlegar athafnir. Dómstóllinn taldi að hætta léki á því að foreldrum fyndust þeir knúnir til að upplýsa skólayfirvöld um innilegustu þætti trúar þeirra og samvisku, jafnvel þótt á þá væri ekki lögð sú skylda að upplýsa skólayfirvöld um þá þætti og að skólayfirvöldum væri skylt að gæta þess að virða einkalíf þeirra.

Í þriðja lagi gátu nemendur í stað beinnar þátttöku í t.d. bænum, sálmasöng og uppsetningu skólaleikrita fylgst með því sem átti sér stað í tímunum. Dómstóllinn taldi þessa aðgreiningu milli þátttöku og fræðslu bæði flókin í framkvæmd auk þess sem hún virtist líkleg til að grafa undan skilvirkni heimildarinnar til undanþágu frá kennslu að hluta. Þá voru foreldrar líka settir í erfiða stöðu að þurfa að biðja kennara að taka á sig auknar byrðar með því að beita öðrum kennsluaðferðum gagnvart börnum þeirra. Með þessu taldi dómstóllinn að verið væri að grafa undan virkni heimildarinnar til undanþágu frá kennslu að hluta.

Dómurinn taldi kerfið sem byggðist á undanþágu að hluta frá kennslu geta lagt þungar byrðar á foreldra, samfara hættu á óviðeigandi opinberun á einkalífi þeirra. Auk þess væri hættan á árekstrum til staðar og slíkt gæti aftrað ákveðnum foreldrum frá því að leggja fram beiðnir um undanþágu.

Dómstóllinn komst svo að því að þrátt fyrir lofsverð markmið laganna sem um væri að ræða og tilgang KRL í skólakerfinu var ekki unnt að fallast á að norska ríkið hefði tryggt með fullnægjandi hætti að upplýsingum og þekkingu væri komið til skila á hlutlausan, gagnrýninn hátt sem virti sjónarmið fjölhyggju. Með því að hafna kærendum um algera undanþágu frá kennslu fyrir börn þeirra í KRL hefði því verið brotið í bága við 2. gr. samningsviðauka nr. 1.

Samlíking við íslensk lög

Í forsendum að niðurstöðu sinni vísaði Mannréttindadómstóllinn til þess að þar sem kristin trú skipaði stóran sess í sögu og hefð Noregs félli það innan svigrúm ríkisins til mats að ákveða innihald námskrár þannig að kristin trú væri stærri þáttur fagsins en önnur viðfangsefni. Þá var ljóst að yfirgnæfandi áhersla væri lögð á kristindóm í faginu en tiltekið ákvæði norsku laganna kveður á um að markmið kennslu væri meðal annars að veita börnum kristið og siðferðilegt uppeldi.

Ofangreind málsgrein gæti alveg eins átt við íslenskar aðstæður. Kristin trú hefur vissulega skipað stóran sess í sögu og hefð Íslands og um það hefur ekki verið deilt á Alþingi. Þá er í markmiðslýsingum í núgildandi leikskólalögum og grunnskólalögum ákvæði sem kveða á um að markmið kennslu skulu mótast af kristilegu siðgæði eins og áður hefur komið fram.

Tilvísun í dóminn stenst ekki

Eins og glöggt má sjá af ofangreindum dómi þá kveður hann ekki á nokkurn hátt á um að markmið norskra laga um að veita börnum kristið og siðferðilegt uppeldi stangist á við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Í raun blasir við að dómurinn fjallar ekki um það atriði. Það sem er hins vegar athyglisvert er að dómurinn gefur til kynna að ef tiltekin trú skipi stóran sess í sögu og hefð lands þá standi ekkert í vegi fyrir því að byggja skólastarf á þeim gildum sem í trúnni felast. Þá segir dómurinn beinlínis að markmið laganna séu lofsverð. Það gengur þvert á fullyrðingar menntamálaráðherra um nauðsyn þess að taka hugtakið „kristið siðgæði“ úr markmiðslýsingum íslenskra leik- og grunnskólalaga.

Fullyrðingar menntamálaráðherra um að nýleg niðurstaða Mannréttindadómstóls knýji á að hugtakið „kristið eða kristilegt siðgæði“ sé tekið út úr markmiðsgreinum frumvarpa til leik- og grunnskólalaga stenst því miður ekki eins og bersýnilega hefur komið í ljós. Í raun eru þá engar ástæður fyrir því að breyta þessum lofsverðu markmiðum laga um leikskóla og grunnskóla og erfitt að skilja nauðsyn þess að hugtakið sé fellt úr lögunum.

Kristið siðgæði - rætur íslenskrar þjóðmenningar

Í umræðum á Alþingi um stöðu þjóðkirkju, kristni og kristnifræðslu komst Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra svo að orði, „Slitni tengsl skóla og hins kristna menningararfs er vá fyrir dyrum því að þar með hverfur skilningur á grundvallaratriðum hinnar menningarlegu umgjarðar þjóðarinnar og hins kristna heims almennt“.13 Ég tek heils hugar undir þau orð. Í huga sumra kann það að virðast lítilfjörlegt að skipta út hugtakinu „kristilegu siðgæði“ í markmiðum leik- og grunnskólastarfs á Íslandi í stað hugtaka sem eiga á einhvern hátt að lýsa inntaki siðgæðisins. Án haldbærra raka ætti þó að mínu mati ekki að vera léttvægt fundið að breyta markmiðum skólastarfs og höggva skarð í þá menningu sem mótað hefur íslenska þjóð og þær rætur sem íslensk þjóðmenning hefur vaxið af.

Neðanmálsgreinar

1. Frumvarp til laga um leikskóla, þskj. 321, bls. 1 og frumvarp til laga um grunnskóla, þskj 319, bls. 1.

2. Frumvarp til laga um grunnskóla, þskj 319, bls. 26.


3. Frumvarp til laga um leikskóla, þskj. 321, bls. 1 og 15-16.


4. Frumvarp til laga um leikskóla, þskj. 321, bls. 16.

5. Frumvarp til laga um grunnskóla, þskj 319, bls. 26.

6. Alþingi. 2007, 7. desember. „Leikskólar 1. umræða“. Vefslóð: http://www.althingi.is/altext/135/12/ l07112553.sgml

7. Alþingi. 2007, 7. desember. „Staða þjóðkirkju, kristni og kristinfræðslu“. Vefslóð: http://www.althingi.is/ altext/135/f042.sgml

8. Alþingi. 2007, 7. desember. „Leikskólar 1. umræða“. Vefslóð: http://www.althingi.is/raeda/135/ rad20071207T112659.html

9. Alþingi. 2007, 7. desember. „Staða þjóðkirkju, kristni og kristinfræðslu“. Vefslóð: http://www.althingi.is/ raeda/135/rad20071212T154939.html

10. Alþingi. 2007, 7. desember. „Staða þjóðkirkju, kristni og kristinfræðslu“. Vefslóð: http://www.althingi.is/ raeda/135/rad20071212T160134.html

11. Mannréttindadómstóll Evrópu 2007, Dómareifanir. 1. hefti 2007 (janúar - júní). Björg Thorarensen,ritstj. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, bls. 72-75. (Umfjölllun og tilvísanir í dóminn byggjast á dómareifuninni.)

12. Þess ber að geta að íslenskir skólar hafa lögum samkvæmt veitt undanþágu frá einstökum þáttum skólastarfs þegar óskað hefur verið eftir því sbr. 8. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995.

13. Alþingi. 2007, 7. desember. „Staða þjóðkirkju, kristni og kristinfræðslu“. Vefslóð: http://www.althingi.is/ raeda/135/rad20071212T153613.html

 

 

 

 

 



Efnisyfirlit


Núverandi tölublað

Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd

Síðasta tölublað

Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun

Fréttir

22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing


Lögfræðingur ©2023 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN