Höfundur lauk prófi frá Lögregluskóla ríkisins árið 2000, og útskrifaðist úr lagadeild Háskóla Íslands árið 2005. Hann starfar nú sem fulltrúi lögreglumála við embætti sýslumannsins á Sauðárkróki.
„Í opinberum málum eða sakamálum er skorið úr um hvort menn hafi gerst sekir um refsiverða háttsemi sem þeim er gefin að sök, og að auki er þeim, sem sekir eru taldir, ákvörðuð viðeigandi viðurlög.”1 Rannsókn lögreglu er grundvöllur þess að unnt sé að sanna sök á einstakling, eða sýna fram á sakleysi hans.2 Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu reglum sem gilda um skýrslutöku hjá lögreglu, hvort heldur er af sakborningi eða vitnum. Einnig verður fjallað um afleiðingar þess að ekki er staðið réttilega að skýrslutöku hjá lögreglu, með hliðsjón af sjónarmiðum um sönnunargildi lögregluskýrslna fyrir dómi.
Þær aðferðir sem lögreglan beitir við rannsókn mála eru margs konar. Fyrir utan gagnaöflun og aðra upplýsingaöflun, er skýrslutaka af sakborningi og vitnum einn meginþáttur lögreglurannsóknar. Skýrslutaka er rannsóknaraðgerð, sem miðar að því að fá fram atriði sem máli skipta um atvik máls, orsakir og afleiðingar ætlaðrar refsiverðrar háttsemi, og varpað geta ljósi á sekt eða sakleysi sakbornings.
Í 1. mgr. 69. gr. oml. segir, að rannsóknari taki skýrslur af sakborningi og vitnum, sbr. þó 74. gr. a., sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Skýrslutaka getur verið allt frá stystu orðaskiptum þar sem skýrslugjafi svarar nokkrum hnitmiðuðum spurningum, allt til langra og ítarlegra viðtala þar sem mál eru brotin til mergjar. Skýrslutöku hjá lögreglu má greina annars vegar í formlega skýrslutöku og hins vegar óformlega skýrslutöku.
Helstu ákvæði í lögum um meðferð opinberra mála, sem varða skýrslutöku hjá lögreglu, er að finna í 32. gr., 33. gr., 2. mgr. 42. gr., 1. mgr. 44. gr. g., 69. gr. og 2. mgr. 72. gr. Í 3. mgr. 48. gr. er kveðið á um sönnunargildi vitnaskýrslna sem gefnar eru hjá lögreglu. Í 50.–55. gr. er loks að finna reglur sem undanþiggja eða banna mönnum undir vissum kringumstæðum að bera vitni. Nánari reglur um framkvæmd skýrslutöku er að finna í reglugerð nr. 395/1997 um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu.
Framangreind ákvæði laga um meðferð opinberra mála, og reglugerðar nr. 395/1997, eiga við um formlega skýrslutöku. Um leið og ljóst er orðið að einstaklingur er spurður sem sakborningur, eða kvaddur til skýrslutöku sem vitni, ber að jafnaði að fylgja þeim reglum sem gilda um formlega skýrslutöku.
Sú spurning kann að vakna við rannsókn máls, hversu ítarleg skýrslutaka af sakborningi skuli vera. Sé skýrslutaka ófullnægjandi, eða ekki gætt réttra aðferða við framkvæmd hennar, yrði í mörgum tilvikum unnt að bæta úr slíkum annmörkum við yfirheyrslu sakbornings fyrir dómi. Ef ekki verður hins vegar ráðin bót á slíkum annmörkum fyrir dómi er líklegra að afleiðingarnar verði þær að sekt sakbornings teljist ekki sönnuð, með vísan til 45. gr. oml., fremur en að málinu verði vísað frá dómi á þeim grundvelli að það teljist ekki fullrannsakað sbr. Hrd. 1996:2433. Af dómi þessum verður ennfremur dregin sú ályktun að formleg skýrslutaka af sakborningi sé ekki skilyrði þess að ákæra verði gefin út, enda er ekki kveðið á um þá skyldu í lögum um meðferð opinberra mála. Sú niðurstaða er í eðlilegu samræmi við meginregluna um milliliðalausa sönnunarfærslu, sem birtist í 1. mgr. 48. gr. oml., en af henni leiðir að það er fyrst og fremst framburður ákærða fyrir dómi sem hefur sönnunargildi í opinberu máli, en ekki framburður hans hjá lögreglu. Þrátt fyrir þetta á sakborningur rétt á að skýra mál sitt í skýrslutöku hjá lögreglu, fari hann fram á það, sbr. Hrd. 2000:1942.
Þótt ekki sé það fortakslaus skylda, er það viðtekin venja að taka form- lega skýrslu af sakborningi áður en ákæra er gefin út, að minnsta kosti í stærri málum. Skýrslutaka af sakborningi kann að hafa margvíslega þýðingu við rannsókn máls. Hún getur til að mynda haft upplýsingagildi fyrir lögreglu og lagt grunninn að frekari rannsóknaraðgerðum. Slík skýrslutaka kann jafnframt að vera mikilvæg fyrir ákæranda við ákvörðun þess hvort höfða beri mál eða ekki. Ennfremur kann framburður sakbornings hjá lögreglu að hafa áhrif á sönnunarmat dómara ef hann stangast á við framburð sakbornings fyrir dómi.
Af dómi Hæstaréttar frá 2. sept. 2002 í máli nr. 300/2002, leiðir, að það telst ekki skilyrði þess að vitni verði leitt fyrir dóm í opinberu máli, að það hafi áður gefið skýrslu hjá lögreglu, þó svo að venja standi á hinn bóginn til þess að gera það eftir því sem efni standa til.
Ekki er hægt að líta á öll samtöl lögreglu við fólk sem formlega skýrslutöku. Sé maður spurður út í refsiverðan verknað sem hann er grunaður um að hafa framið, án þess að formreglum framangreindra laga- og reglugerðarákvæða sé fylgt, er um óformlega skýrslutöku að ræða.
Um óformlega skýrslutöku er jafnframt að ræða þegar lögregla ræðir við einstakling, við upplýsingaöflun vegna refsiverðs verknaðar, án þess þó að hafa viðkomandi einstakling sérstaklega grunaðan um verknaðinn, og án þess að ljóst sé hvort hann hafi orðið vitni að verknaðinum eða geti veitt einhverjar upplýsingar um hann. Sem dæmi má nefna, að manndráp hafi verið framið í fjölbýlishúsi, og lögreglan ræðir við alla íbúa hússins í því skyni að kanna hvort þeir geti veitt einhverjar upplýsingar um málsatvik. Lögreglan skráir þá slíkan framburð í upplýsingaskýrslu án þess að sér- stökum formreglum sé fylgt. Í framhaldinu kunna síðan einhverjir þessara viðmælenda lögreglu að verða kvaddir til formlegrar skýrslutöku sem vitni.
Þótt mörk formlegrar og óformlegrar skýrslutöku kunni oft á tíðum að vera óljós, má ganga út frá því sem vísu, að eftir því sem strangari formreglum er fylgt við skýrslutöku, þeim mun aukast líkurnar á að skýrslan verði talin hafa sönnunar- eða upplýsingagildi í dómsmáli.
Lög um meðferð opinberra mála, og reglugerð nr. 395/1997, eru fáorð um hvar skýrslutaka lögreglu skuli fara fram. Einu ákvæðin þar að lútandi eru í 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar, þar sem segir að kveðja skuli vitni til að gefa skýrslu á starfsstöð lögreglu eða heimsækja það til skýrslutöku, og hins vegar í 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, þar sem fram kemur að vitni yngra en 18 ára skuli yfirheyrt á heimavelli þess, ef kostur er. Eðli málsins samkvæmt fara viðameiri skýrslutökur þó langoftast fram á starfsstöð lögreglu. Slíkt er jafnframt sjálfgefið ef skýrsla er tekin af handteknum manni sem þangað er færður. Ekkert er því hins vegar til fyrirstöðu að skýrslutaka af sakborningi eða vitnum fari fram utan starfsstöðvar lögreglu, svo sem á sjúkrahúsi eða fangelsi, svo framarlega sem réttra formreglna er gætt. Í því sambandi má jafnframt hafa til hliðsjónar ákvæði 1. mgr. 7. gr. oml., þar sem heimilað er að heyja dómþing á öðrum stöðum en reglulegum þingstöðum, ef þörf er á, svo sem í fangahúsi þar sem sakborningi er haldið, eða á sjúkrahúsi ef skýrslu þarf að taka af sjúkum manni.
Algengt er að formleg skýrslutaka af sakborningi fari fram á vettvangi brots þegar skilyrði handtöku eru ekki fyrir hendi, svo sem þegar lögreglan stendur ökumann að umferðarlagabroti.
Sakborningi er skylt, samkvæmt 4. mgr. 32. gr. oml., að sinna kvaðningu til skýrslugjafar hjá lögreglu meðan á rannsókn máls stendur. Sinni sakborningur ekki þessari skyldu sinni er heimilt að handtaka hann og færa til skýrslutöku á grundvelli d-liðar 98. gr. oml.
Áður en sakborningur er yfirheyrður, ber samkvæmt 1. mgr. 32. gr. oml., að gefa honum upplýsingar um kæruefnið, eða við handtöku ef til hennar kemur. Þótt vísað sé til „kæruefnis“ í ákvæðinu gildir það einnig þegar lögreglan hefur hafið rannsókn að eigin frumkvæði.3 Við skýrslutöku er sakborningi óskylt að tjá sig um þá háttsemi sem honum er gefin að sök, sbr. 3. mgr. 32. gr. oml., og ber að benda honum á þann rétt þegar efni standa til. Kjósi hann að tjá sig, skal brýna fyrir honum að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli kann að skipta, sbr. 1. mgr. 33. gr. oml. Hvort sem sakborningur kýs að tjá sig um sakarefnið eður ei, verður ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 33. gr. oml. túlkað svo, að honum sé ávallt skylt að segja lögreglu á sér deili.4 Ekki er að finna ákvæði í Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem kveður beinlínis á um þann rétt sakbornings að þurfa ekki að tjá sig um sakarefnið. Hins vegar hefur 1. mgr. 6. gr. MSE verið skýrð svo að í því ákvæði felist bann við því að skylda sakborning til að svara spurningum um sakargiftir, og þar með að játa á sig sök.5 Framangreindra réttinda nýtur sakborningur hvort sem hann er handtekinn og færður til skýrslutöku, kvaddur til skýrslutöku, eða þegar skýrslutaka fer fram á vettvangi brots, án þess að sakborningur sé handtekinn eða sérstaklega tilkvaddur.
Samkvæmt 1. mgr. 143. gr. og 2. mgr. 146. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/19406 er það sakborningi að refsilausu þótt hann skýri rangt frá málavöxtum, hvort sem er fyrir dómi eða lögreglu.
Sú almenna regla verður talin gilda, að sakborningur eigi rétt á því á hvaða stigi máls sem er, að tjá sig um það sem honum er gefið að sök, auk annarra atriða sem málið varða. Þessi regla er ekki lögfest berum orðum, heldur endurspeglast hún í nokkrum ákvæðum laga um meðferð opinberra mála, þ.e. 1. mgr. 33. gr., 1. mgr. 105. gr., 2. mgr. 122. gr. og 3. mgr. 129. gr. oml. Við skýrslutöku verður sakborningur þó að hlíta því að málfrelsi hans séu settar eðlilegar skorður.7 Framangreind meginregla endurspeglast í dómi Hæstaréttar nr. 2000:1942 þar sem skýrlega kemur fram það sjónarmið að sakborningur eigi rétt á að tjá sig um málið á rannsóknarstigi, ef slík skýrslutaka verður fyrirfram ekki talin bersýnilega þýðingarlaus.
Í 69. gr. oml. eru reglur um framkvæmd skýrslutöku. Ákvæði 2.–5. mgr. 69. gr. miða sérstaklega að því að treysta réttarstöðu sakbornings.8 Í 33. gr. oml. eru auk þess nánari reglur um hvernig skýrslutaka skuli fara fram. Ítarlegri reglur um framkvæmd skýrslutöku hjá lögreglu eru í reglugerð nr. 395/1997.
Í 1. málsl. 2. mgr. 69. gr. oml. segir, að ekki megi prófa mann lengur en sex klukkustundir í einu, enda fái hann að öðru leyti nægilegan svefn og hvíld. Þetta ákvæði er ófrávíkjanlegt og samþykki skýrslugjafa dugir því ekki til fráviks.
Í 2. málsl. 2. mgr. 69. gr. oml. er sú skylda lögð á yfirheyranda að bóka hverju sinni hvenær prófun hefst og hvenær henni lýkur.
Í 3. mgr. 69. gr. oml. segir, að spyrja skuli hvern mann án nærveru annarra sakaðra eða vitna uns ástæða kann að vera til samprófunar. Samprófun fer einkum fram þegar ágreiningur er um mikilsverða þætti málsins sem til rannsóknar er. Samprófun felst í því, að þeir aðilar sem sam- prófa á, eru leiddir saman, og yfirheyrandi tínir fram þau atriði sem áður hafa komið fram í skýrslum og ekki er sátt um, og reynir að fá fram skýringu á misræminu. Oft á tíðum ber samprófun þó ekki árangur og eftir stendur orð á móti orði.9 Í Hrd. 1994:792 fann Hæstiréttur sérstaklega að því að samprófun skyldi ekki hafa farið fram hjá lögreglu, í máli vegna ætlaðs ölvunaraksturs.
Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 33. gr. oml. skulu spurningar vera skýrar og ótvíræðar. Þrátt fyrir þetta orðalag er ekkert því til fyrirstöðu að sakborningur skýri sjálfstætt frá málavöxtum, án þess að yfirheyrandi spyrji hann spurninga. Í reynd tíðkast sú aðferð nokkuð í framkvæmd og verða skýrslutökur hérlendis taldar einkennast af blöndu þessara aðferða.10
Í 2. málsl. 2. mgr. 33. gr. oml. segir, að ekki megi rugla sakborning með ósannindum eða á annan hátt, eða beita hann neins konar ólögmætri þvingun í orði eða verki. Þrátt fyrir það verður ekki talið óheimilt að haga spurningum á þann veg, að erfiðara sé fyrir sakborning að byggja upp trúverðugan söguþráð, sé talið að hann sé að segja ósatt. Má þar sem dæmi nefna algenga yfirheyrsluaðferð sem byggist á því að spyrja spurninga um atvik, sem ekki eru í réttri tímaröð. Þó verður yfirheyrandi að gæta þess að einblína ekki um of á að ná fram misræmi í framburði sakbornings, þar sem honum ber ávallt að líta til þeirra atriða sem leyst geta sakborning undan grun, jafnt sem þeirra er sýnt geta fram á sekt, sbr. 31. gr. oml. Sem dæmi um ólögmæta þvingun í 2. málsl. 2. mgr. 33. gr. má nefna hótun um að skýrslugjafa verði ekki sleppt úr haldi lögreglu nema hann játi á sig sök. Hins vegar ber yfirheyranda að kynna sakborningi að hugsanleg játning hans þurfi ekki að leiða til þess að hann verði látinn laus, ef ástæða er til að ætla að hann telji svo vera, sbr. 4. málsl. 5. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 395/1997.
Í 3. málsl. 2. mgr. 33. gr. oml. segir, að sakborningi megi ekki gefa fyrirheit um ívilnanir eða fríðindi ef hann meðgangi, enda séu slík fyrirheit ekki á valdi yfirheyranda að veita þau. Yfirheyrandi má því ekki segja sakborningi að hann sleppi við refsingu, eða hljóti vægari dóm, ef hann játar á sig sök. Hins vegar má benda sakborningi á þau lagaákvæði, sem gætu orðið honum til hagsbóta, ef hann hefur brotið af sér og skýrir hreinskilnislega frá atvikum.11 Í því sambandi koma sérstaklega til álita 8. og 9. tölul. 1. mgr. 70. gr. hgl., sem fjalla um tiltekin atriði er áhrif hafa við ákvörðun refsingar. Sú regla gildir hér á landi, að ákæruvaldinu og lögreglu er óheimilt að semja um það við sakborning hvaða refsingu hann hljóti, þannig að komist verði hjá því að höfða mál gegn honum fyrir dómi.12
Í 5. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 395/1997 segir, að lesa skuli skýrslu upp til staðfestingar að yfirheyrslu lokinni. Að því búnu skuli skýrslan lögð fyrir skýrslugjafa til undirritunar. Hafi ekki verið unnt að skrá skýrslu þar sem yfirheyrsla fer fram, skal það gert svo fljótt sem þess er kostur, sbr. 6. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar. Þegar sakborningur er kvaddur til skýrslutöku á lögreglustöð, er framkvæmdin sú að hann er látinn rita undir skýrsluna með nafni sínu eftir að skýrslan hefur verið lesin upp fyrir hann, eða hann sjálfur lesið hana yfir. Neiti hann að rita nafn sitt undir skýrsluna, er sérstök grein gerð fyrir því í skýrslunni, sbr. niðurlag 5. mgr. 16. gr.
Samkvæmt VI. kafla oml. nýtur sakborningur víðtæks réttar til að fá tilnefndan eða skipaðan verjanda við meðferð máls, hvort heldur sem er á rannsóknarstigi eða fyrir dómi.
Þegar lögregla tekur formlega skýrslu af sakborningi á vettvangi, án þess að hann sé handtekinn, á sakborningur ekki rétt á að lögreglan tilnefni honum verjanda. Sé sakborningur hins vegar handtekinn, á hann rétt á að lögreglan tilnefni honum verjanda, sbr. 36. gr. oml., sbr. 5. gr. laga nr. 36/1999, hvort sem hann er færður á lögreglustöð eður ei.
Samkvæmt 35. gr. oml., sbr. 4. gr. laga nr. 36/1999, er dómara heimilt eftir ósk sakbornings að skipa honum verjanda við rannsókn máls, ef ástæða er til þess að mati dómara með tilliti til eðlis brots og allra aðstæðna. Dómara er þó ávallt skylt, samkvæmt a-lið 1. mgr. 34. gr. oml., að verða við ósk sakbornings um skipun verjanda, ef þess hefur verið krafist að hann verði settur í gæsluvarðhald.
Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 42. gr. oml. er verjanda sakbornings ætíð heimilt að vera viðstaddur þegar sakborningur er yfirheyrður hjá lögreglu á rannsóknarstigi máls. Samkvæmt 2. málslið sömu málsgreinar er verjanda einnig heimilt að vera viðstaddur yfirheyrslur annarra í máli sakbornings ef það þykir hættulaust vegna rannsóknar málsins. Gildir það jafnt um tilnefndan og skipaðan verjanda, en réttarstaða þeirra er sú sama. Réttur tilnefnds verjanda til að vera viðstaddur yfirheyrslu annarra getur þó aðeins átt við þegar sakborningur er enn í haldi lögreglu, þar sem tilnefning hans fellur niður um leið og handtöku lýkur, sbr. 2. málsl. 36. gr. oml.
Hlutverk verjanda við skýrslutöku er fyrst og fremst að tryggja að sakborningur hljóti þá meðferð sem lög kveða á um. Það er hins vegar ekki í verkahring verjandans að svara spurningum fyrir sakborning. Komi sú staða upp, er eðlilegt að yfirheyrandi skori á verjandann að hætta því framferði, en stöðvi yfirheyrsluna ella og bóki ástæðu þess í skýrslu.13 Hins vegar er sakborningi heimilt að ráðfæra sig við verjanda sinn um réttarstöðu sína meðan á yfirheyrslu stendur, sbr. 3. mgr. 33. gr. oml., að því gefnu að það trufli ekki skýrslutökuna að mati yfirheyranda. Þessar samræður mega fara fram í einrúmi, sbr. 1. mgr. 42. gr. oml. Þegar hlé er gert á skýrslutöku vegna þessa, er rétt að yfirheyrandi bóki hvenær hlé byrjar og hvenær skýrslutöku er fram haldið aftur, sbr. 2. mgr. 69. gr. oml.14 Greini verjanda og yfirheyranda á við yfirheyrsluna, skal henni þó haldið áfram, en verjandi á rétt á að gera í stuttu máli grein fyrir afstöðu sinni með bókun, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 33. gr. oml.15
Þegar skýrsla er tekin af sakborningi eða vitni hjá lögreglu er ekki gert ráð fyrir að verjandi beini spurningum beint til skýrslugjafa, sbr. 3. mgr. 33. gr. og 2. mgr. 42. gr. oml. Verjandi getur hins vegar beint því til yfirheyranda að spyrja skýrslugjafa um tiltekin atriði, sbr. niðurlag 2. mgr. 42. gr. oml. Sé þessum tilmælum verjandans hafnað getur hann mótmælt þeirri synjun með bókun, og hann á þess síðan kost að bera hana undir dómara samkvæmt 75. gr. oml.
Hugtakið „vitni“ er ekki skilgreint í lögum um meðferð opinberra mála. Hugtakið má þó skýra svo, að vitni sé hver sá maður, sem ekki verður talinn sakborningur eða fyrirsvarsmaður sakbornings, og kvaddur er fyrir rannsóknara eða dómara til að gefa skýrslu um málsatvik sem hann hefur skynjað af eigin raun. Í VIII. kafla laga um meðferð opinberra mála er fjallað um vitnaskýrslur fyrir dómi. Eðlilegt er að beita sumum ákvæðum VIII. kafla með lögjöfnun um töku vitnisburðar hjá lögreglu, þar sem sérstök ákvæði þar að lútandi eru ekki til staðar.
Í 1. mgr. 49. gr. oml. er kveðið á um að öllum sé skylt að koma fyrir dóm í opinberu máli og bera þar vitni. Hins vegar verður vitni ekki þvingað til að mæta til skýrslutöku hjá lögreglu og gefa þar skýrslu.16 Kjósi vitni hins vegar að mæta til lögreglu í skýrslutöku, er almennt talið að því sé skylt að svara spurningum lögreglu.
Ef vitni mætir ekki til lögreglu í skýrslutöku eða neitar að svara spurningum hjá lögreglu, getur lögreglan farið fram á að tekin verði skýrsla af vitninu fyrir dómi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 74. gr. a. oml. Sinni vitni ekki kvaðningu til að gefa skýrslu fyrir dómi, getur dómari ákveðið að færa megi það fyrir dóm með valdi, samkvæmt 2. mgr. 58. gr. oml. Lögreglu ber þá, eftir beiðni dómara, að handtaka vitnið og færa fyrir dóm á grundvelli d-liðar 98. gr. oml.
Í 50. – 55. gr. oml. eru reglur sem ýmist undanþiggja eða banna vitni að skýra frá tilteknum atriðum. Stafa þessar reglur af skyldleika vitnis við sakborning eða annars konar tengslum við hann. Þessar reglur verða einnig taldar gilda, eftir því sem við getur átt, við skýrslutöku hjá lögreglu. Samkvæmt 56. gr. oml. skulu þeir sem yfirheyra vitni leiðbeina þeim, sem kvaddir eru til vitnisburðar, um þessar undanþágu- og bannreglur.
Samkvæmt lögjöfnun frá 1. mgr. 59. oml., ber lögreglumanni sem yfirheyrir vitni að kynna vitninu að því sé skylt, að viðlagðri refsiábyrgð, að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan sem málið varðar, sbr. einnig 5. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 395/1997. Rangur framburður vitnis hjá lögreglu hefur verið talinn falla undir 147.gr. hgl. Þó getur vitni sér að refsilausu skýrt rangt frá atvikum hjá lögreglu, ef réttar upplýsingar geta bakað því refsiábyrgð, eða það hefur ástæðu til að ætla að svo sé, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 143. gr. hgl.17
Sá sem yfirheyrður er við rannsókn máls á rétt á að fá vitneskju um það, þegar mál er orðið svo skýrt að þess sé kostur, hvort hann er spurður vegna gruns á hendur honum um refsivert brot, eða hvort hann er kvaddur til vitnisburðar, sbr. 2. mgr. 32. gr. oml. Yfirleitt liggur ljóst fyrir, þegar einstaklingur er boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu, hvort um er að ræða sakborning eða vitni. Leiki hins vegar vafi á því hvort telja beri mann vitni eða sak- borning, er eðlilegt að yfirheyra hann sem sakborning fyrst í stað, þar sem sakborningur nýtur sterkari réttarstöðu en vitni.18 Sé maður á hinn bóginn yfirheyrður sem vitni, kann réttarstaðan að breytast við skýrslutökuna, til að mynda ef viðkomandi játar á sig refsiverðan verknað. Eftir það yrði hann yfirheyrður sem sakborningur, og bæri yfirheyranda að benda honum á það jafnskjótt, sbr. 2. mgr. 32. gr. oml.19 Þeim manni, sem gefur skýrslu hjá lögreglu, verður ekki refsað fyrir rangan framburð, hafi honum ekki verið tilkynnt að hann væri spurður sem vitni samkvæmt 2. mgr. 32. gr. oml.20
Vitni njóta almennt ekki þeirra réttinda sem sakborningi eru fengin sem aðila máls, svo sem réttar til aðgangs að gögnum og öðrum skjölum máls, sbr. Hrd. 1995:2879. 21
Hrd. 1995:2879
Í máli þessu hafnaði Hæstiréttur því að A fengi aðgang að gögnum málsins, líkt og hún hafði krafist, þar sem ljóst var af skýrslum sem teknar voru af henni fyrir lögreglu og héraðsdómi, að hún naut réttarstöðu vitnis, en ekki sakbornings.
Maður, sem yfirheyrður er sem vitni, á auk þess ekki rétt á aðstoð verjanda eða talsmanns, þar sem ákvæði 34.-37. gr. oml. takmarkast við sakborning, sbr. eftirfarandi dóm.22
Hrd. 30. maí 2002 (248/2002)
Maður, sem kvaddur hafði verið til að bera vitni hjá lögreglu, vildi að lögmaður sinn yrði viðstaddur skýrslutökuna þar sem hann óttaðist að verið væri að draga hann inn í rannsókn á „nýju Geirfinnsmáli” og hann treysti hvorki lögreglunni né dómstólum til að gæta hagsmuna sinna. Í úrskurði héraðsdómara, sem staðfestur var í Hæstarétti, er komist svo að orði að lög standi ekki til þess að vitni, sem ekki er jafnframt brotaþoli, hafi lögmann sér við hlið við skýrslutöku á rannsóknarstigi.
Hugtakið „brotaþoli“ er ekki skilgreint í lögum um meðferð opinberra mála. Með hugtakinu mun þó vera átt við þann, sem refsiverndar nýtur samkvæmt almennum hegningarlögum.23 Samkvæmt lögum er litið á brotaþola sem vitni. Brotaþoli nýtur þó nokkurrar sérstöðu í samanburði við önnur vitni og á hann í sumum tilvikum rétt á tilnefningu eða skipun réttargæslumanns til að gæta hagsmuna hans í opinberu máli, sbr. VII. kafla oml.
Ákvæði 2. og 3. mgr. 69. gr. oml. eiga við um skýrslutöku yfir vitnum, jafnt sem sakborningi. Í 2. mgr. er fjallað um lengd skýrslutöku og í 3. mgr. segir að spyrja skuli hvern mann án nærveru annarra sakaðra eða vitna, uns ástæða kann að vera til samprófunar. Samkvæmt 2. mgr. 42. gr. oml. er verjanda sakbornings þó heimilt að vera viðstaddur yfirheyrslur vitna ef það þykir hættulaust vegna rannsóknar málsins. Þegar dómari metur sönnunargildi vitnaskýrslu sem gefin er hjá lögreglu, getur skipt sköpum hvort verjandi sakbornings hefur verið viðstaddur skýrslutökuna og átt þess kost að fá spurningar lagðar fyrir vitnið.24
Í 3. mgr. 59. gr. oml. kemur fram, að við yfirheyrslu vitnis fyrir dómi, skuli ekki kynna vitninu skýrslur sem það eða aðrir hafa gefið fyrir lögreglu, fyrr en dómara þykir þess þörf til skýringar á máli. Eðlilegt er að sama regla gildi við skýrslutöku hjá lögreglu, þannig að vitni sé spurt sjálfstætt út í málsatvik, og skýrslur annarra hjá lögreglu séu ekki kynntar fyrir því nema þess þyki þörf til skýringar á framburði vitnisins, sbr. Hrd. 1995:3025.
Hrd. 1995:3025
Í forsendum Hæstaréttar segir: „Það athugast, að frumrannsókn málsins hjá lögreglunni í Árnessýslu var með nokkrum annmörkum. Auk ákærða voru þrír menn kvaddir til skýrslugjafar, og leið óhóflega langur tími milli þess, að einstakar skýrslur voru teknar. Við skýrslutöku af þeim, sem á eftir ákærða komu, var þeim í upphafi kynntur framburður ákærða í stað þess, að þeir skýrðu sjálfstætt frá málavöxtum. Aðfinnslum í héraðsdómi um framkvæmd rannsóknar fyrir lögreglu er að öðru leyti ofaukið.“
Lög um meðferð opinberra mála kveða ekki á um að leggja skuli skýrslu fyrir vitni til undirritunar að skýrslutöku lokinni, en hins vegar er ákvæði þar að lútandi í 5. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 395/1997.
Í meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu, sem fram kemur í 1. mgr. 48. gr. oml., felst að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, þar á meðal framburði ákærða og vitna. Þessi meginregla er jafnframt fólgin í fyrirmælum 1. mgr. 6. gr. MSE um réttláta málsmeðferð. Ennfremur hefur verið litið svo á að regla þessi verði leidd af d-lið 3. mgr. 6. gr. MSE.
Í sakamálum hér á landi er venja að leggja fram skýrslur sem gefnar eru af sakborningi og vitnum fyrir lögreglu. Telja verður slíka framlagningu ótvírætt heimila, sbr. Hrd. 1992:1639. Túlkun Mannréttindanefndar og Mannréttindadómstóls Evrópu á framangreindum ákvæðum MSE hefur þó haft það í för með sér að verulega hefur dregið úr gildi lögregluskýrslna sem sönnunargagna í opinberum málum, að því leyti sem þær innihalda framburð sem tekinn hefur verið af vitnum, og reyndar sakborningum einnig.25 Með hliðsjón af þessari túlkun, auk nýlegra dómafordæma Hæstaréttar, verður að telja að framburður sakbornings í lögregluskýrslu geti ekki haft sönnunargildi í opinberu máli, þannig að úrslit máls ráðist af honum einum. Til að mynda hefur Hæstiréttur ítrekað hafnað að leggja ját- ningu sakbornings hjá lögreglu, sem dregin er til baka fyrir dómi, til grundvallar úrlausn um sekt eða sýknu, nema eitthvað annað og meira styðji þann framburð sbr. Hrd. 15. feb. 2001 (404/2000). Á hinn bóginn getur framburður sakbornings hjá lögreglu haft áhrif á heildarmat dómara á sönnun, stangist hann á við framburð hans fyrir dómi, og þannig komið til stuðnings öðrum sönnunargögnum við sakfellingu. Hið sama gildir um framburð vitna.
Framburður vitna hjá lögreglu getur þó haft beint sönnunargildi í undantekningartilvikum, sbr. 3. mgr. 48. gr. oml.
Með hliðsjón af framangreindu kemur til sérstakrar skoðunar hvaða vægi framburður hefur, sem gefinn er hjá lögreglu, ef réttra aðferða hefur ekki verið gætt við skýrslutökuna.
Sé vitni ekki kynntur réttur þess til að skorast undan vitnaskyldu samkvæmt 50. gr. oml., verður að telja að litið yrði algerlega framhjá slíkum framburði. Því til stuðnings má nefna dóma Hæstaréttar frá 24. feb. 2000 í máli nr. 479/1999, og Hrd. 1992:535.
Hrd. 1992:535
Fundið var að því í héraðsdómi að GJÞ, lögreglufulltrúi í Vestmannaeyjum, sem fór með lögreglurannsókn í málinu, yfirheyrði dóttur ákærða án þess að benda henni áður á, að hún ætti rétt á að skorast undan vitnaskyldu. Þann rétt nýtti hún sér hins vegar við meðferð málsins fyrir dómi. Sönnunargildi skýrslu vitnisins hjá lögreglu kom því ekki til skoðunar. Ekki var hins vegar vikið að þessu í Hæstarétti.
Telja verður að hið sama gildi um framburð vitnis, sem fenginn er hjá lögreglu, án þess að skyldu til að kynna vitninu ákvæðin í 51. – 55. gr. oml. hafi verið fullnægt.
Bregðist yfirheyrandi þeirri skyldu sinni að kynna sakborningi réttinn til að neita að tjá sig um sakarefnið, sbr. 3. mgr. 32. gr. oml., verður að telja að skýrsla sem gefin er undir þeim kringumstæðum verði ekki notuð til stuðnings sakfellingu í opinberu máli.26 Öðru máli kann þó að gegna ef sakborningur hefur haft verjanda sér til stuðnings við skýrslutökuna, sbr. Hrd. 2000:3019.
Hrd. 2000:3019
X var saksóttur fyrir að hafa þrívegis orðið sekur um kynferðisbrot gagnvart drengnum A. Við skýrslugjöf hjá lögreglu hafði ákærði viðurkennt tiltekna háttsemi gagnvart A, sem hann tók aftur við meðferð málsins fyrir dómi og gaf á því skýringar. Þrátt fyrir þann annmarka á umræddri lögregluskýrslu að ekki var þar skráð að gætt hefði verið ákvæða 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991, þótti Hæstarétti bera að líta til þess að skýrslan var gefin að viðstöddum verjanda ákærða, eftir að þeir höfðu talast einslega við. Einnig yrði að hafa í huga að við skýrslutöku hjá lögreglu skömmu síðar var vísað til þessarar skýrslu, án þess að fram kæmu fyrirvarar af hálfu ákærða. Að þessu athuguðu yrði að telja að héraðsdómi hefði verið rétt í heildarmati sínu á trúverðugleika og sönnunargildi framburðar ákærða fyrir dómi að líta til fyrri framburðar X og skýringa á fráhvarfi frá honum. Með vísan til þessa, auk annarra atriða, var héraðsdómur ómerktur og málinu heimvísað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Í 1. mgr. 38. gr. oml. er mælt fyrir um skyldu til að vekja athygli sakbornings á heimild til tilnefningar eða skipunar verjanda. Hæstiréttur hefur fundið að því ef þess hefur ekki verið gætt, en þessi annmarki hefur þó ekki einn og sér leitt til þess að málsmeðferð hafi verið ómerkt og málinu vísað að nýju heim í hérað, sbr. Hrd. 1997:3437.27
Hrd. 1997:3437
Maður var ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart tveimur drengjum. Þegar ákærði gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu, var honum kynnt sakarefnið og réttur hans til að fá „málsvara“, en ekki kom þó fram, hver afstaða hans til þess hefði verið. Húsleit fór fram á heimili ákærða þennan dag. Í dómi Hæstaréttar segir, að ákærði hafi engan réttargæslumann haft við lögreglurannsóknina, sem gat gert athugasemdir við rannsókn málsins og fengið ákveðnar spurningar lagðar fyrir drengina. Þessi meðferð þótti þó ekki leiða til réttarspjalla, eins og málið var vaxið. Þrátt fyrir það hefði átt að kynna ákærða sakarefnið strax í upphafi lögreglurannsóknar og gefa honum þá kost á að fá sér skipaðan réttargæslumann. Rannsókn lögreglu þótti því ábótavant, en ákærði var þó fundinn sekur.
Á hinn bóginn verður að telja að játning hjá lögreglu, sem fengin er án þess að sakborningi hafi verið kynntur réttur til tilnefningar eða skipunar verjanda, verði ekki notuð til stuðnings sakfellingu fyrir dómi, sbr. Hrd. 1988:241.
Hrd. 1988:241
S var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn nokkrum ungum drengjum. Í dómi Hæstaréttar segir orðrétt: „Eins og að framan greinir, fórst það fyrir við lögreglurannsókn í Ólafsvík vegna brots, sem í þessum lið ákæru greinir, að benda ákærða á rétt hans til að fá skipaðan réttargæslumann. Við dómsrannsókn í sakadómi Árnessýslu féll ákærði frá fyrri framburði sínum fyrir lögreglu. Verður játning ákærða fyrir lögreglunni í Ólafsvík ekki lögð til grundvallar dómi í málinu. Telst því ósannað, að ákærði hafi framið brot það, sem ákært er fyrir undir þessum lið, og ber að sýkna hann af þessum ákærulið.“
Öðru máli kann þó að gegna, ef sakborningur hefur staðfest fyrri framburð sinn hjá lögreglu, í síðari skýrslutöku hjá lögreglu, þótt honum hafi ekki verið kynntur réttur hans til verjanda við fyrri skýrslutökuna. Í því sambandi má benda á Hrd. 1991:277.
Hrd. 1991:277
Í máli þessu var B ákærður fyrir rán, en atvik máls gerðust í tíð eldri laga um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974. B var yfirheyrður nokkrum sinnum við rannsókn málsins, og fór fyrsta skýrslutakan af honum fram í Borgarnesi, þar sem hann var handtekinn fljótlega eftir verknaðinn. Í dómi sakadóms Reykjavíkur segir orðrétt: „Á hinn bóginn er á það að líta, að lögreglumanni þeim, sem yfirheyrði ákærða B, láðist að gæta ákvæða 4. mgr. 61. gr. laga um meðferð opinberra mála, en þar sem ákærði staðfesti þennan framburð í öllum meginatriðum við yfirheyrslu hjá RLR, þykir það ekki draga úr sönnunargildi játningarinnar í Borgarnesi, þótt ákærða hafi ekki verið gefinn kostur á réttargæslumanni.“ Hæstiréttur staðfesti dóm sakadóms, með vísan til forsendna.
Hér að framan hefur verið gefið stutt yfirlit yfir helstu reglur sem lúta að skýrslutöku hjá lögreglu við rannsókn sakamála, en eðli málsins samkvæmt er þó ekki unnt að gera svo viðamiklu efni tæmandi skil í grein sem þessari. Í lokin er rétt að minnast á ákvæði í 3. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála sem lýtur að rannsókn lögreglu þótt ekki sé fyrir hendi grunur um refsiverðan verknað. Þar segir að rannsókn skuli fara fram svo sem tíðkast hefur út af mannslátum, mannshvörfum, eldsvoðum, slysum og öðrum óförum, enda þótt ekki liggi fyrir sérstakur grunur um refsivert atferli. Hér er um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu að lögreglurannsókn fari aðeins fram vegna gruns um refsiverðan verknað, og hefur skýrslutaka hjá lögreglu í slíkum tilvikum annað markmið heldur en að leiða í ljós sekt eða sakleysi einstaklings. Ekki standa þó efni til að gera þessari undantekningu sérstök skil hér.
Að lokum vil ég óska hinum fyrsta árgangi meistaranema sem útskrifast mun á vormánuðum úr lagadeild Háskólans á Akureyri velfarnaðar í starfi.
1. Eiríkur Tómasson: Meginreglur opinbers réttarfars, bls. 1.
2. Í 31. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 (hér eftir skammstöfuð „oml“), segir, að þeir sem fara með ákæruvald (ákærendur) og annast rannsókn mála, skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar.
3. Eiríkur Tómasson: Réttarstaða sakbornings og verjanda, bls. 10.
4. Eiríkur Tómasson: Réttarstaða sakbornings og verjanda, bls. 19.
5. Eiríkur Tómasson: Réttlát málsmeðferð fyrir dómi, bls. 96.
6. Hér eftir skammstöfuð „hgl“.
7. Eiríkur Tómasson: Réttarstaða sakbornings og verjanda, bls. 16.
8. Alþingistíðindi 1990-91, A-deild, þskj. 101, bls. 1215.
9. Lögregluskóli ríkisins: Yfirheyrslur, bls. 12.
10. Jónatan Þórmundsson: Opinbert réttarfar, 2. hefti, bls. 153.
11. Jónatan Þórmundsson: Réttarstaða sakbornings, bls. 203.
12. Eiríkur Tómasson: Ákæruvaldið í ljósi jafnræðisreglna, bls. 59.
13. Lögregluskóli ríkisins: Yfirheyrslur, bls. 12-13.
14. Handbók um meðferð opinberra mála, bls. 65.
15. Eiríkur Tómasson: Hlutverk verjanda, réttindi hans og skyldur, bls. 266.
16. Eiríkur Tómasson: Réttarstaða sakbornings og verjanda, bls. 2.
17. Handbók um meðferð opinberra mála, bls. 135.
18. Eiríkur Tómasson: Réttarstaða sakbornings og verjanda, bls. 3.
19. Eiríkur Tómasson: Réttarstaða sakbornings og verjanda, bls. 5.
20. Eiríkur Tómasson: Réttarstaða sakbornings og verjanda, bls. 5.
21. Eiríkur Tómasson: Hlutverk verjanda, réttindi hans og skyldur, bls. 238-239.
22. Ríkissaksóknari: Um réttargæslumann brotaþola, sbr. VII. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála - bréf til allra lögreglustjóra og Lögregluskóla ríkisins, dags. 7. maí 2003.
23. Eiríkur Tómasson: Hlutverk verjanda, réttindi hans og skyldur, bls. 254-255.
24. Eiríkur Tómasson: Réttlát málsmeðferð fyrir dómi, bls. 205.
25. Eiríkur Tómasson: Réttarstaða sakbornings og verjanda, bls. 5-6. Eiríkur Tómasson: Réttlát málsmeðferð fyrir dómi, bls. 96-97.
26. Eiríkur Tómasson: Hlutverk verjanda, réttindi hans og skyldur, bls. 240-241.
Alþingistíðindi A-deild 1990-91.
Dómasafn Hæstaréttar.
Eiríkur Tómasson.1999. Réttlát málsmeðferð fyrir dómi. Bókaútgáfa Orators, Reykjavík.
Eiríkur Tómasson. 2003. Hlutverk verjanda, réttindi hans og skyldur. Lögberg. – Rit Lagastofnunar Háskóla Íslands. Háskólaútgáfan, Reykjavík, bls. 229-274.
Eiríkur Tómasson. 2003. Ákæruvaldið í ljósi jafnræðisreglna. Rannsóknir í félagsvísindum IV. Háskólaútgáfan, Reykjavík, bls. 45-70.
Eiríkur Tómasson. Ódags. Réttarstaða sakbornings og verjanda. Handrit.
Handbók um meðferð opinberra mála. 1992. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, Reykjavík.
Jónatan Þórmundsson. 1980. Opinbert réttarfar. 2. hefti. 2. útgáfa. Reykjavík.
Jónatan Þórmundsson. 1984. Réttarstaða sakbornings. Tímarit lögfræðinga. 4. hefti, bls. 199-215.
Lögregluskóli ríkisins. Ódags. Yfirheyrslur. Handrit til kennslu.
Ríkissaksóknari: Um réttargæslumann brotaþola, sbr. VII. kafla laga nr. 19/1991 ummeðferð opinberra mála - bréf til allra lögreglustjóra og Lögregluskóla ríkisins, dags. 7. maí 2003.
Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd
Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun
22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing
Lögfræðingur ©2023 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN