Þorsteinn Hjaltason

Þorsteinn Hjaltason

Þorsteinn Hjaltason, lögmaður hjá Almennu lögþjónustunni ehf. og aðjúnkt hjá Háskólanum á Akureyri


Grein birt í: Lögfræðingur 2012

Samsömun

1. Inngangur

Það er samsömun þegar skaðabótaábyrgð eins afritast yfir á annan aðila. Ábyrgðin hverfur ekki af einum aðila og legst eingöngu á hinn, heldur eru báðir aðilar ábyrgir. Af þeim sökum segir að ábyrgðin afritist af einum yfir á annan. Hér á eftir er þó stundum talað um að ábyrgðin færist­yfir á annan aðila og er það þá notað í þessum skilningi en ekki þeim, að ábyrgðin hafi færst til þannig að hún hvíli ekki lengur á upprunalega aðilanum heldur bara á þeim sem hún var færð á.

Er samsömun beitt í skaðabótarétti utan samninga án beinnar lagaheimildar á fleiri sviðum en í vinnuveitandaábyrgð? Fjallað verður um nokkur svið þar sem samsömun hefur verið talin koma til greina án lagaheimildar. Ekki er lengur deilt um, að samsömun er með starfsmanni og vinnuveitanda en efni reglunnar um ábyrgð vinnuveitanda hefur aldrei verið lögfest hér á landi. Á hana er minnst hér á eftir og hún tekin sem dæmi en ekki fjallað um hana í sérstökum kafla.

Sakarreglan er grundvallarregla íslensks skaðabótaréttar. Mikilvægasta skilyrði hennar er, að tjónvaldur hafi valdið tjóni með því að haga sér ekki eins og góður og gegn maður með sömu menntun og reynslu hefði gert við sömu aðstæður, þ.e. valdið tjóni af gáleysi. Sakarreglan er hins vegar tvíeggjað sverð, því mælikvarði hennar á gáleysi, er ekki bara lagður á gjörðir tjónvalds, heldur líka á athafnir tjónþola. Ef tjóninu er að hluta til valdið með gáleysi tjónþolans sjálfs takmarkast bótaréttur hans vegna meðábyrgðar hans.

Gjörðir aðila eru þannig grandskoðaðar í skaðabótamálum. Venjulega þurfa þeir þó aðeins að hafa áhyggjur af eigin athöfnum eða athafnaleysi en í undantekningartilvikum getur líka skapast ábyrgð á verkum annarra. Ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna er dæmi um slíkt. Þá afritast ábyrgð starfsmanns yfir á vinnuveitandann, sem ekkert hefur til sakar unnið. Slík afritun ábyrgðar yfir á aðra hefur verið nefnd virk­sam­ sömun­(á dönsku aktiv identifikation).

Það kemur fyrir að einhver tjónvalda er svo nátengdur tjónþolanum, að ábyrgð þess tjónvalds færist yfir á tjónþolann og réttarstaðan verður þá gagnvart hinum tjónvöldunum eins og tjónþolinn sé meðábyrgur. Slík afritun ábyrgðar tjónvalds yfir á tjónþola er nefnd óvirk­samsömun (á dönsku passiv identifikation). Slík samsömun leiðir til afbrigða frá reglunni um óskipta ábyrgð allra tjónvalda og finnst sumum, þegar af þeirri ástæðu, að takmarka eigi notkun samsömunar eins og hægt er.1 Ábyrgð eins tjónvaldsins hefur afritast yfir á tjónþolann og hann verður meðábyrgur gagnvart hinum tjónvöldunum og getur því einungis krafið þá um það tjón sem þeir bera ábyrgð á. Ábyrgð þeirra er óskipt á þeim hluta sem þeir bera ábyrgð á. Tjónvaldurinn, sem tjónþolinn samsamast með, er hins vegar ábyrgur fyrir öllu tjóninu því hann getur ekki borið fyrir sig samsömun.2 Tjónþolinn gæti því krafið hann um allt tjónið, eða krafið hina tjónvaldana um þeirra hluta af tjóninu og svo þann, sem hann samsamast með, um afganginn. Ábyrgð tjónvaldanna er sem sé ekki lengur óskipt, þ.e. að hægt sé að krefja hvern og einn tjónvald um allt tjónið eða alla í sameiningu.

Til­skýringar: Jón og Gunnar valda Geirfugli ehf. tjóni. Gunnar er starfsmaður Geirfugls ehf. en ekki Jón. Jón á sök á tjóninu að 1/3 hluta en sök Gunnars telst vera 2/3. Venjulega gæti Geirfugl ehf. krafið báða tjónvalda óskipt um allt tjónið en ekki hér því samsömun er með vinnuveitanda og starfsmanni að uppfylltum öðrum skilyrðum. Geirfugl ehf. getur því einungis krafið Jón um 1/3 hluta tjónsins því 2/3 ábyrgð starfsmannsins flyst yfir á Geirfugl ehf. Samsömunin milli Gunnars og Geirfugls ehf. gildir ekki þegar um er að ræða kröfur þeirra á milli og getur Geirfugla ehf. því, vegna reglna um óskipta ábyrgð tjónvalda, krafið Gunnar um allt tjónið. Ef Jón hefur þegar bætt 1/3 hluta tjónsins getur Geirfugl ehf. krafið Gunnar um afganginn eða 2/3. Ýmis ákvæði skaðabótalaga takmarka hins vegar rétt atvinnurekanda til að krefja launþega um bætur fyrir tjón, sem þeir valda honum en það er önnur saga.

Samsömun snýst ekki um hvort um sama aðila sé að ræða. Þegar deilt er um samsömun er óumdeilt, að um sitthvorn aðilann er að ræða en deilan snýst um hvort ábyrgð eins aðilans eigi að færast yfir á annan. Ef um sama aðila væri að ræða myndi krafan falla niður, “ ... enda getur enginn átt kröfurétt á hendur sjálfum sér.”, sbr. H. nr. 483/1993. Til skýringar má nefna tvö mál þar sem deilt var um það hvort um sama aðila væri að ræða. Í dómi Hæstaréttar nr. 151/1966 krafði Landnám ríkisins Landgræðslu ríkisins um skaðabætur. Ábyrgðartryggingarfélag Landgræðslu ríkisins vildi ekki greiða kröfuna og sagði að ríkið ætti báðar stofnanirnar og væri að gera kröfu á sjálft sig um bætur. Ekki var fallist á þetta í dóminum. Þessar stofnanir voru taldar sjálfstæðar og sinn hvor aðilinn, svo að fallist var á kröfur stefnanda. Sams konar álitaefni var uppi í H. nr. 147/1966 en í því máli hafði Landssmiðjan, sem var í eigu ríkisins, höfðað mál á hendur Landhelgisgæslunni, sem einnig var í þess eigu. Sama niðurstaða varð í þessu máli. Þetta voru ekki deilur um samsömun heldur um það hvort sækjandi væri að gera kröfu á sjálfan sig, þ.e. hvort tjónvaldur og tjónþoli væru sami aðilinn og krafan ætti af þeim sökum að falla niður.

2. Skilyrði samsömunar

Í samsömun felast ýmis frávik frá almennum reglum skaðabótaréttar, sem leiðir til þess, að samsömun er einungis beitt í undantekningartilvikum. Þegar hefur verið minnst á, að í samsömun felast frávik frá meginreglunni um óskipta ábyrgð tjónvalda en auk þess felst í samsömun ábyrgð án sakar eða hlutlæg ábyrgð. Ljóst er að dómstólar eru tregir til að viðurkenna slíka ábyrgð nema hún sé byggð á ákvæðum í settum lögum.3 Því má segja að samsömun sé þröngur stakkur skorinn og ekki líklegt að beiting hennar aukist við núverandi aðstæður.

Ástæður samsömunar eru flóknar og mismunandi eftir tilvikum, enda er ekki hægt að setja fram almenn skilyrði samsömunar í einföldu og stuttu máli. Sem dæmi má nefna, að ástæður fyrir vinnuveitandaábyrgð eru m.a. þær, að vinnuveitandinn hagnast af verkinu og á því að taka áhættu af því; hann ætti ekki að losna undan ábyrgð með því einu að láta annan vinna verkin fyrir sig; ennfremur að miklu erfiðara er að innheimta bótakröfu frá efnalitlum launþega en atvinnurekanda. Þarna fléttast margt saman, eðli verksins, efnahagur, samband aðila o.fl. Þegar samsömun er metin í öðrum tilfellum en vinnuveitandasambandi þarf að skoða m.a. þessa þætti og fleiri. Hver þessara þátta getur verið flókið úrlausnarefni. Samband aðila getur t.d. verið með margvíslegum hætti. Um getur verið að ræða skammvinnt samband eða hóp, sem skapast hefur af ýmsum ástæðum, eða langvinnt t.d. fjölskyldutengsl, efnahagsleg tengsl o.s.frv. Það þarf að greina og skoða samband aðila, skaðaverkið sjálft, t.d. hvernig það gerðist og tengsl aðila við það. Einnig getur skipt máli um hvers konar kröfu er að ræða eða tjón. Til dæmis yrði ekki fallist á kröfu um óbeint tjón af völdum frumtjóns annars nema á milli þessara aðila séu rík tengsl, sem eru sömu rök og eru fyrir samsömun; því er erfitt að fallast á kröfuna án þess að fallast jafnframt á varnir, sem byggðar eru á samsömun. Fjallað verður um síðastgreinda atriðið í 7. kafla.

3. Virk og óvirk samsömun

Það er samsömun þegar skaðabótaábyrgð B afritast yfir á A. Í óvirkri samsömun er A tjónþoli og bótaþegi en í virkri samsömun er hann ekki tjónþoli heldur eingöngu bótagreiðandi. Þessi skilsmunur skiptir ekki máli við mat á því hvort samsama eigi A og B heldur tengsl aðila og krafna þeirra. Við mat á samsömun með A og B skiptir því engu máli hvort um virka eða óvirka samsömun sé að ræða; niðurstaðan ætti að vera sú sama í báðum tilvikum. Þetta leiðir til þess að langoftast yrði við sömu aðstæður annað hvort bæði virk og óvirk samsömun með sömu aðilum eða hvorugt.

Til­skýringar:­
Virk samsömun: Gunnar starfsmaður Geirfugls ehf. veldur Kristjáni tjóni. Geirfugl ehf. er ábyrgur því ábyrgð Gunnars afritast yfir á Geirfugl ehf.

Óvirk samsömun: Gunnar, starfsmaður Geirfugls ehf., veldur ásamt þeim Jóni og Sigurði, sem ekki eru starfsmenn Geirfugls ehf., Geirfugli ehf. tjóni. Geirfugl ehf. er bótakrefjandi og tjónþoli og vegna óvirkrar samsömunar með Gunnari getur félagið einungis krafið Jón og Sigurð um þann hluta, sem þeir bera ábyrgð á.

Í virku samsömuninni afritast ábyrgðin yfir á Geirfugl ehf. en 3. maður er tjónþoli. Í óvirku samsömuninni afritast ábyrgðin yfir á Geirfugl ehf. en félagið er jafnframt tjónþolinn. Í báðum tilvikum þarf að leysa úr því hvort samband Geirfugls ehf. og Gunnars sé með þeim hætti að ábyrgð Gunnars eigi að afritast yfir á Geirfugl ehf. fyrir samsömun. Þegar skera þarf úr um það atriði skiptir trúlega aldrei neinu máli hvaða tegund samsömunar við erum að skoða, þ.e. hvort hún sé virk, þ.e. að tjónþoli sé 3. maður, eða hvort hún sé óvirk, þ.e. að Geirfugl ehf. sé sjálfur tjónþolinn. Rökin í báðum tilvikum væru þau sömu og af þeim sökum væri langoftast annað hvort bæði virk og óvirk samsömun með aðilum eða hvorugt.

4. Hvers konar ábyrgð?

Ábyrgð B flyst yfir á A án þess að A hafi nokkuð til sakar unnið og er ábyrgð A að því leyti án sakar. A ber þó ekki hlutlæga ábyrgð á öllum skaðaverkum B, heldur eingöngu þeim sem B ber skaðabótaábyrgð á. Samsömun snýst um, að ábyrgð B afritist yfir á A og er því skilyrði að hún sé fyrir hendi til að samsömun geti komið til greina. Allar tegundir ábyrgðar geta færst eða afritast fyrir samsömun. Ábyrgðin getur verið sakarábyrgð eða án sakar, þ.e. hlutlæg, eða vegna áhættutöku, enda er áhættutaka í raun annað orðalag yfir eigin sök eða meðábyrgð. Hins vegar verður að skoða vel viðkomandi réttarheimild um samsömun því þar geta legið takmarkanir á ábyrgðargrunni. Sem dæmi má nefna að í dönskum rétti er talið að ábyrgð starfsmanns verði að vera sakarábyrgð til að hún geti færst yfir á vinnuveitanda, þ.e. ef á starfsmanninn leggst hlutlæg ábyrgð virkjast vinnuveitandaábyrgðin ekki, sbr. UfR.1970:940, og starfsmaður ber einn ábyrgðina og tjónið.4 Þetta helgast af því, að ákvæði 3-19-2 í Dönsku lögum Kristjáns 5. frá 1683 er áskilið að sök starfsmanns sé fyrir hendi. Þetta ákvæði hefur aldrei verið lögtekið hér á landi en hefur haft sín áhrif bæði á íslensk fræði og óbeint á íslensku skaðabótalögin nr. 50/1993 því að fyrirmynd þeirra voru dönsku skaðabótalögin frá 19845, sem byggðu vitanlega á grunnhugmynd Dönsku laga um þetta atriði. Í 23. gr. íslensku skaðabótalaganna segir „saknæmrar hegðunar starfsmanns“. Hins vegar var orðalagið víðtækara í 2. málslið 1. mgr. 25. gr. áðurgildandi vátryggingarsamningalaga nr. 20/1954, sem skaðabótalögin leystu af hólmi. Þar segir „ ... sé ábyrgð hans eingöngu byggð á reglunum um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna hans, ...“. Hér á landi eru ekki til sett lagaákvæði um efni reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Rök og ástæður fyrir reglunni hníga­ ekki­ til­ þess­ að­ takmarka­ ábyrgð­ina­ við­ sakarábyrgð­ heldur­ þvert­ á­ móti­ ætti­ efni­ reglunnar­ að­ vera­ það,­ að­ öll­ ábyrgð­ starfsmannsins­ flytjist­ yfir­ á­ vinnuveitandann­ ella­ nær­ reglan­ ekki­ tilgangi­ sínum. Ekki hefur reynt á þetta atriði fyrir dómstólum og eru skoðanir skiptar um þetta í íslenskum fræðiritum.6

5. Afleiddar kröfur

Ýmsir aðilar, svo sem tryggingarfélög, ríki og vinnuveitandi, greiða stundum tjónþola bætur til að minnka tjón hans. Þessir aðilar geta í sumum tilfellum krafið tjónvald um endurgreiðslu (subrogation). Slíkar kröfur hafa verið nefndarafleiddarkröfur.Ekkierumnýjarkröfuraðræðaheldurerumer að ræða sömu kröfu og tjónþolinn átti sjálfur. Hún hefur bara skipt um eiganda fyrir framsal (cessio legis). Nýi eigandinn öðlast að sjálfsögðu ekki meiri rétt en framseljandi átti og þarf því að hlíta mótbárum eins og t.d. þeim að tjónþolinn hafi verið meðábyrgur. Þegar svo háttar takmarkast krafan ekki vegna reglna skaðabótaréttar um samsömun heldur var krafan þegar takmörkuð við framsalið vegna meðábyrgðar tjónþolans sjálfs.

6. Óbeint tjón án frumtjóns bótakrefjanda

Oft veldur frumtjón eins aðila öðrum óbeinu tjóni án þess að sá hafi orðið fyrir líkams- eða munatjóni sjálfur. Sem dæmi má nefna, að frumtjónþoli handleggsbrotnar og getur ekki ekið nágranna sínum í vinnunna, sem verður þá að taka strætó í staðinn með tilheyrandi kostnaði. Annað dæmi má nefna, að frumtjónþoli deyr í slysi og börn hans missa við það framfæranda eða frumtjónþoli slasast og aðrir verða fyrir vinnutjóni og óþægindum vegna þess að þeir verða að annast hinn slasaða eða verða eingöngu fyrir sálrænu tjóni við að sjá eða heyra af slysinu. Slíkar kröfur eru sjálfstæðar og nýjar bótakröfur ólíkt afleiddum kröfum, sem ræddar voru í 5. kafla hér að framan.

Meginregla skaðabótaréttar er sú, að einungis sá sem verður fyrir frumtjóninu getur krafist skaðabóta, aðrir eigi ekki lögverndaða kröfu um bætur fyrir tjón sitt7. Hefur það verið rökstutt með reglum um eðlilega afleiðingu eða að slíkir hagsmunir væru einfaldlega ekki verndaðir með reglum skaðabótaréttar ellegar, að skaðabótaréttur yrði of víðtækur ef slíkar kröfur yrðu viðurkenndar. Þessi meginregla sætir mikilvægum undantekningum8. Nefna má bætur fyrir missi framfæranda og bætur til foreldra vegna slyss barns þeirra, t.d. vegna vinnutaps ef þeir þurfa að vera heima til að annast barnið, sbr. Hæstaréttardóma nr. 237/2006, 162/1992, 238/1987 og 74/1989. Kröfur þessar hafa verið viðurkenndar vegna þess að tengsl aðila eru svo náin og tjónið það fyrirsjáanlegt, að rétt hefur þótt að gera undantekningu frá meginreglunni.

Náin tengsl eru líka ein af grunnrökunum fyrir samsömun. Því væri mótsagnakennt að viðurkenna rétt til óbeins tjóns í þessum tilfellum en hafna rétti tjónvalds til að bera fyrir sig varnir á grundvelli samsömunar.

Þegar­ fallist­ er­ á­ kröfur­ um­ bætur­ vegna­ óbeins­ tjóns­ án­ frumtjóns­ bótak­refjanda­er­því­rökrétt­að­viðurkenna­líka­varnir­byggðar­á­sam­ sömun­ með­ bótakrefjanda­ og­ frumtjónþola. Utan þessa samhengis þarf hins vegar ekki endilega að samþykkja samsömun milli sömu aðila, t.d. ef foreldrar krefjast bóta vegna tjóns á eigin hagsmunum en barn þeirra hefur með öðrum átt sök á tjóninu. Við mat á samsömun er því ekki bara skoðað samband aðilanna sjálfra heldur líka krafna þeirra. Þetta skýrir þá mótsögn, sem sumir gætu séð í því, að samsömun er viðurkennd, þegar barn krefur um bætur fyrir missi foreldris, sbr. t.d. H. nr. 360/1997, en samsömun er ekki viðurkennd á milli sömu aðila þegar barnið krefur um bætur vegna síns eigin frumtjóns, sbr. H. nr. 16/1962.

Þessi ályktun hefur ekki svo vitað sé verið sett fram í fræðiriti áður. Hún gengur ekki gegn fordæmum Hæstaréttar og útskýrir reglur samsömunar í málum, sem fjalla um bætur fyrir missi framfæranda og útskýrir, eins og áður segir, þá mótsögn sem mætti ella finna í H. nr. 360/1997 og H. nr. 16/1962.

7. Bætur fyrir missi framfæranda

Reglur um manngjöld hafa lengi verið í íslenskum lögum sbr. t.d. viðamiklar reglur í Baugatali Grágásar, lagasafni Þjóðveldisins, og síðar ýmis ákvæði í Mannhelgi Jónsbókar. Hugmyndin um bætur fyrir látna var hins vegar óþekkt í rómverskum rétti.9 Ákvæði um bætur fyrir missi framfæranda voru í 304. gr. hegningarlaga frá 1869 og síðar í 2. mgr. 264. gr. hegningarlaga nr. 19/1940. Núgildandi ákvæði eru í 12.-14. gr. og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og ákvæði um samsömun eru í 2. mgr. 23. gr. a og 2. málslið 2. mgr. 24. gr. sömu laga. 

Ljóst er af dómaframkvæmd, að lengi hefur verið beitt samsömun þegar bóta hefur verið krafist vegna andláts, hvort sem það hafa verið bætur vegna missis framfæranda, útfararkostnaðar eða annars, sbr. t.d. H. nr. 86/1947. Slík samsömun hefur fengið enn frekari staðfestingu með ákvæðum í settum lögum eins og t.d. í 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga, 2. mgr. 23. gr. a skaðabótalaga, er kveður á um samsömun í þeim tilvikum er starfsmenn deyja við starf sitt, og 2. mgr. 24. gr. sem gerir ráð fyrir almennri reglu um samsömun þegar krafist er bóta vegna missis framfæranda.

Ástæður fyrir slíkri samsömun eru ekki tengslin ein og sér milli hins látna og bótakrefjanda því að samsömun er ekki viðurkennd á milli sömu aðila við aðrar aðstæður. Það sem skiptir máli er eðli kröfunnar. Hér er um sjálfstæða kröfu að ræða. Þetta er ekki afleidd krafa sbr. 5. kafla hér að framan en hún er óbein, sbr. 6. kafla. Um er að ræða óbeint tjón, sem byggt er á frumtjóni annars aðila. Eins og áður hefur komið fram er það meginregla skaðabótaréttar, að einungis sá sem orðið hefur fyrir frumtjóni getur krafið um skaðabætur. Hér er gerð undantekning vegna náinna tengsla aðila. Til samræmis, sbr. það sem áður hefur verið um það sagt í 6. kafla, og ennfremur af sanngirnisástæðum gagnvart tjónvaldi hefur samsömun verið beitt í þessum tilvikum, sbr. t.d. H. nr. 86/1947, 18/1976 og 406/1997. Bætur voru í öllum tilvikum skertar til eftirlifenda vegna ábyrgðar hins látna á slysinu.

Ef samsömun væri ekki viðurkennd yrði tjónvaldur dæmdur til að greiða kröfuna að fullu, á grundvelli reglna um óskipta ábyrgð hvers og eins tjónvalds. Þá gæti tjónvaldur, sem greitt hefur allt tjónið, krafið meðábyrgan, þ.e. þá dánarbúið, um ábyrgðarhluta þess látna. Erfið úrlausnarefni myndast við slík málaferli. Þegar af þeim ástæðum virðast þau ekki heppileg. Auk þess leiða þau hæglega til sömu niðurstöðu og fengin er strax með samsömun, þ.e. að dánarbúið greiði tjónvaldi þann hluta tjónsins, sem hinn látni bar ábyrgð á og arfur til eftirlifenda minnki að sama skapi. Í stað þess að bótafjárhæðin lækki strax við samsömun, lækkar arfurinn og niðurstaðan verður sú sama. Við þessi málalok myndi tjónvaldurinn greiða bætur í samræmi við ábyrgð sína. Málalokin gætu hins vegar orðið önnur ef t.d. dánarbúið væri eignalaust og erfingjar gengjust ekki við skuldum. Þá myndi tjónvaldur bera allt tjónið, sem gæti varla talist sanngjörn niðurstaða þar sem skaðinn var ekki honum einum að kenna. 

8. Börn og foreldrar

Hér verður fjallað um hvort ábyrgð barna geti afritast yfir á foreldra þannig að foreldrarnir verði sjálfir ábyrgir vegna skaðaverka barna sinna og hvort bótakrafa foreldra geti takmarkast vegna ábyrgðar barna.

8.1.­Virk­samsömun­milli­barna­og­foreldra

Getur skaðabótaábyrgð barna færst yfir á foreldrana án þess að þeir hafi nokkuð til saka unnið sjálfir?

Foreldrar geta skapað sér sjálfstæða sakarábyrgð á grundvelli sakarreglunnar á skaðaverkum barna sinna, t.d. vegna slælegs eftirlits með þeim. Hér er um að ræða ábyrgð foreldranna vegna þeirra eigin yfirsjóna en ekki, að ábyrgð barnanna færist yfir á þá fyrir samsömun. Foreldrar bera ennfremur ábyrgð á börnum sínum eftir sömu reglum og þeir bera ábyrgð á öðrum undir sömu kringumstæðum. Ef börnin eru t.d. launþegar í atvinnurekstri foreldranna eða foreldrarnir hafa fengið þeim verk að vinna á heimilinu, þá geta foreldrarnir borið vinnuveitandaábyrgð á börnunum með sama hætti og þeir myndu bera ábyrgð á óskyldum aðilum undir sömu kringumstæðum.10 Þetta er tekið fram hér svo halda megi þessum atriðum aðskildum frá samsömun. Það er að sjálfsögðu ekki samsömun þegar foreldrar bera sjálfstæða skaðabótaábyrgð á skaðaverkum barna sinna. Samsömun er ef ábyrgð barnanna færist yfir á foreldrana.

Í Hæstaréttarmálinu nr. 182/1983 var því haldið fram í héraði, að foreldrar bæru hlutlæga ábyrgð á öllum skaðaverkum barna sinna.

H. nr. 182/1983

Málavextir voru þeir að tveir tæplega 6 ára gamlir drengir ollu brunatjóni í húsi, sem var í byggingu. Eigandi hússins höfðaði mál gegn foreldrum drengjanna og drengjunum sjálfum og krafðist skaðabóta. Málsástæður hans voru þær, að drengirnir bæru ábyrgð eftir sakarreglunni og foreldrar þeirra bæru líka sjálfstæða ábyrgð eftir sakarreglu vegna þess að þeir hefðu sýnt gáleysi með því að hafa slakt eftirlit með drengjunum og ekki geymt eldspýtur nægilega tryggilega. Stefnandi hélt því einnig fram að “...foreldrar beri hlutlæga ábyrgð á skaðaverkum barna sinna.” Taldi hann sanngjarnast að foreldrar bæru fjárhagstjón af skaðaverkum barna sinna en ekki tjónþoli. Héraðsdómur taldi, að ekki væri til gildandi regla í íslenskum rétti sem legði hlutlæga ábyrgð á foreldra á skaðaverkum barna sinna. Héraðsdómur sýknaði auk þess drengina vegna ungs aldurs. Í Hæstarétti voru drengirnir sýknaðir af sömu ástæðum en ekki fjallað um hlut foreldranna vegna galla á áfrýjunarstefnu.

Í héraðsdómi var hlutlægri ábyrgð foreldra á öllum skaðaverkum barna þeirra hafnað. Samsömun var hins vegar ekki til umræðu í dóminum. Í dóminum var ekki fjallað um mögulega tilfærslu ábyrgðar frá börnum til foreldra fyrir samsömun. Umfjöllunarefnið var hlutlæg ábyrgð foreldra á öllum skaðaverkum barna óháð því hvort börnin bæru ábyrgð á tjóninu eður ei.

Utan þessa tilviks virðist því ekki hafa verið haldið fram að foreldrar beri víðtækari ábyrgð á börnum sínum en eftir sakarreglunni. Ekki er vitað til þess, að því hafi verið haldið fram að sök eða ábyrgð barns ætti að afritast yfir á foreldrana og gera þá ábyrga líka.

Almenn skoðun fræðimanna er sú, að foreldrar beri einungis ábyrgð á börnum sínum eftir sakarreglunni og er ólíklegt að fallist yrði á kröfu um samsömun ef hún kæmi fram.

8.2.­Óvirk­ samsömun ­milli­ barna ­og­ foreldra

Hér verður fjallað um hvort skaðabótakrafa foreldra lækki vegna ábyrgðar barna. Þá færist ábyrgð barnsins yfir á foreldra og krafa þeirra lækkar eftir reglum um meðábyrgð.

Í H nr. 218/1974 voru málsatvik þau að 11 ára gamall drengur skaddaðist í Sædýrasafninu í Hafnarfirði. Hæstiréttur taldi drenginn hafa hegðað sér ógætilega og bæri hann því helming ábyrgðar á tjóninu. Auk krafna drengsins voru settar fram í málinu kröfur foreldranna sjálfra vegna óbeins tjóns þeirra af frumtjóni drengsins. Í dóminum var talið að ábyrgð drengsins færðist yfir á foreldra og voru bætur til þeirra lækkaðar með sama hætti og þeir hefðu sjálfir verið meðábyrgir.

Í málinu hafa foreldrarnir ekki sjálfstæða aðild heldur er málinu einungis stefnt inn fyrir hönd drengsins. Það rýrir fordæmisgildi dómsins hvað varðar samsömun. Kröfurnar eru þó greinilega gerðar fyrir foreldrana og þannig er líka fjallað um þær, sbr. samskonar tilvik í Hæstaréttardómum nr. 12/1951a og nr. 16/1962 en fjallað verður um þá dóma síðar. Það er eðlilegast að foreldrar eigi sjálfstæða aðild að bótamálum með börnum sínum ef þeir telja sig sjálfa eiga kröfur t.d. vegna ónæðis, sálræns áfalls, umönnunar, vinnutaps, útlagðs kostnaðar og/eða fyrirhafnar. Þannig er því t.d. háttað í málum Hæstaréttar nr. 238/1987, 74/1989, 40/1989, 162/1992 og 449/2009. Sjá ennfremur mál nr. 316/2005 en í því máli var fallið frá kröfum foreldra í Hæstarétti. Ennfremur má nefna H. nr. 74/1989 en þar var bókað í héraði, að aðilar væru sammála um að foreldrarnir væru sjálfstæðir aðilar að málinu en því virðist ekki hafa verið stefnt þannig inn í upphafi heldur var aðildinni breytt í Hæstarétti í samræmi við þessa bókun.

Í H. nr. 86/1947 voru atvik þau, að ungur drengur lést við leik í nýbyggingu. Hæstiréttur féllst á skaðabótaábyrgð vegna þess að ekki hafði verið gengið forsvaranlega frá byggingarefni en dómurinn takmarkaði bótakröfu föður við 3⁄4 vegna þess að gáleysisleg framganga drengsins sjálfs hefði að hluta til verið orsök slyssins.

Í báðum þessum dómum þ.e. nr. 86/1947 og 218/1974 var fallist á samsömun með foreldrum og börnum en í báðum tilfellum var um að ræða óbeint tjón foreldra vegna frumtjóns barnsins. Eins og fram hefur komið í 6. kafla er rökrétt að fallast á samsömun þegar svo stendur á. Samsömunin þarf hins vegar ekki að ná lengra en það á milli sömu aðila. Trúlegt er að væri bótakrafa foreldra vegna frumtjóns foreldranna sjálfra yrði ekki um samsömun að ræða, þ.e. ef barn þeirra hefði valdið tjóninu ásamt með fleiri aðilum yrði hægt að krefja hvern tjónvald um allt tjónið. Ábyrgð barnsins myndi ekki flytjast yfir á foreldrana í þeim tilfellum. Ekki er vitað til þess, að á þetta hafi reynt.

Trúlega er almenna reglan sú, að hvorki sé virk samsömun með börnum og foreldrum né óvirk, enda er ekki rökrétt að hafna öðru en viðurkenna hitt, sbr. 3. kafla.

9. Foreldrar og börn

Hér verður fjallað um hvort ábyrgð foreldra geti afritast yfir á börn þannig að börnin verði sjálf ábyrg vegna skaðaverka foreldra sinna og hvort bótakrafa barna geti takmarkast vegna ábyrgðar foreldra.

9.1.­Virk­samsömun­foreldra­og­barna

Ekki er vitað til þess að fyrir dómstóla hafi komið krafa um að barn sé skaðabótaskylt vegna skaðaverka foreldranna. Helst mætti hugsa sér slíkt þegar hlutverkum hefur verið víxlað, að barnið er orðið fullorðið og foreldrið aldrað og í umönnun hjá barni sínu. Þá hefur hugsanlega skapast sérstök umönnunarskylda en grundvöllur ábyrgðar er engu að síður eingöngu sakarreglan, samsömun yrði trúlega ekki viðurkennd. Vitanlega bera svo börnin ábyrgð á foreldrum sínum með sama hætti og þau myndu bera ábyrgð á óskyldum aðilum eins og t.d. ef börnin hafa foreldrana í vinnu hjá sér eða fela þeim einhver verkefni. Ekki verður talið að virk samsömun sé með foreldrum og börnum.

9.2.­Óvirk­samsömun­foreldra­og­barna

Hér verður fjallað um hvort krafa barns verði lækkuð vegna ábyrgðar foreldra, þ.e. hvort ábyrgð foreldris geti færst yfir á barnið þegar barnið á sjálft kröfuna. Í H. nr. 12/1951a voru málsatvik þau að ungur drengur slasaðist er hann varð fyrir bifreið. Því var haldið fram í málinu að foreldrarnir bæru ábyrgð á slysinu vegna þess að þeir hefðu ekki haft nægilegt eftirlit með drengnum. Fallist var á það í héraði og bótaliðir lækkaðir af þeim sökum, þ.e. fallist var á óvirka samsömun með barni og foreldrum. Í Hæstaréttardóminum segir hins vegar:

„Fallast má á rök héraðsdóms fyrir því, að aðaláfrýjandi sé skaðabótaskyldur fyrir slys það, sem mál þetta er risið af. Hins vegar er ekki leitt í ljós, að skort hafi á það eftirlit með drengnum, sem miðað við allar aðstæður er unnt að hafa með börnum á svipuðu reki og hann var á. Þegar af þeirri ástæðu verða bætur ekki lækkaðar á þeim grundvelli.“

Hæstiréttur hafnar ábyrgð foreldranna og segir svo „þegar af þeirri ástæðu“ verða bætur ekki lækkaðar á þeim grundvelli. Þetta bendir til þess að fleiri ástæður mætti tilgreina, sem e.t.v. gefur til kynna, að þótt ábyrgð þeirra hefði verið fyrir hendi hefði það ekki haft áhrif til lækkunar því að ábyrgð foreldra hafi ekki áhrif á kröfur barnsins, þ.e. ekki sé samsömun þar á milli.

Í H. nr. 16/1962 voru málavextir þeir að tæplega 4 ára gamall drengur féll ofan í hitaveitubrunn. Drengurinn slasaðist og höfðaði faðir hans mál eingöngu fyrir hönd drengsins. Krafist var bóta í fimm liðum. Í 5. lið var krafist bóta fyrir ónæði og fyrirhöfn foreldra. Hæstiréttur taldi að foreldrarnir bæru að hluta til ábyrgð á því, að slysið varð en sagði að kröfur­drengsins­í­ liðum­1­4­ættu­ekki­að­lækka­vegna­þess. Hins vegar lækkaði Hæstiréttur kröfur foreldranna í 5. lið vegna þeirra eigin­sakar.

Í dóminum er því hafnað­með­skýrum­hætti­að­óvirk­samsömun­sé­með­ foreldrum­og­barni­við­þessar­aðstæður, þ.e. ábyrgð foreldra afritast ekki yfir á barnið og hefur engin áhrif á kröfur þess þegar um frumtjón barnsins er að ræða eins og er í þessu tilfelli. Öðru máli getur gegnt þegar barnið gerir kröfur, sem byggðar eru á frumtjóni foreldra, sbr. það sem áður hefur verið um það sagt. Þegar svo háttar má gera ráð fyrir að samsömun verði með þessum aðilum, eins og er í málum þegar barn hefur uppi kröfur um missi foreldris sem er framfærandi þess. Þá takmarkast kröfur barnsins ef hinum látna, þ.e. foreldrinu, verður að einhverju leyti kennt um slysið, sbr. t.d. H. nr. 360/1997.

Það eru að vísu þeir hnökrar á H. nr. 16/1962, að barnið er eini aðili málsins og er því í raun verið að lækka kröfur barnsins í 5. liðnum. Hins vegar fer Hæstiréttur augljóslega með þessa kröfu eins og foreldrarnir séu að gera kröfuna í sínu eigin nafni og hefur þetta réttarfarsatriði því engin áhrif á fordæmisgildi dómsins um samsömun. Eðlilegra er að foreldrar hafi sjálfstæða aðild þegar svona stendur á sbr. það sem áður hefur verið um það sagt.

Að lokum verða nefndir stuttlega þrír dómar þar sem samsömun hefur verið til skoðunar en málin leyst með öðrum hætti en geta engu að síður varpað ljósi á viðfangsefnið.

Í H. nr. 34/1995 voru málavextir þeir, að 6 ára gamalt barn brenndist illa á heitu vatni, sem lekið hafði úr skemmdri vatnsleiðslu, sem lá að sundlaug. Stefndi krafðist sýknu þar sem að slysið hafi orðið vegna gáleysis þess slasaða og foreldra hans, sem brugðist hafi eftirlitsskyldum sínum. Í dómi Hæstaréttar segir: „Ekki er fram komið, að gáleysi hans eða foreldra hans megi um það kenna.“

Það eitt, að Hæstiréttur skuli yfirleitt taka afstöðu til gáleysis foreldranna er hægt að skilja svo, að rétturinn hafi talið að sök þeirra skipti máli fyrir kröfur barnsins. Ef Hæstiréttur hefði talið sök þeirra engu máli skipta, hefði verið heppilegra, að einfaldlega hefði verið tekið fram að sök foreldra skipti ekki máli fyrir kröfur barnsins og ekki fjallað um það atriði frekar. Það hefði styrkt fordæmið frá 1962. Ótvírætt er þó, að skýru fordæmi réttarins frá 1962 verður ekki haggað með slíkum ályktunum af þessum dómi.

Í Hæstaréttardómi nr. 125/2011 voru málavextir þeir, að 15 ára gamalt barn slasaðist í vinnu hjá Eimskip við uppskipun. Bótaábyrgð var byggð á því að tjónþoli hefði ekki haft aldur til að vinna slíka vinnu. Stefndi hélt því fram að ábyrgðin væri tjónþola sjálfs eða föður hans og vísaði til þess „ ... að stefnandi og faðir hans hafi vitað eða mátt vita hvers konar starfsemi hafi farið fram hjá stefnda.“ Um þetta segir í héraðsdómi, sem var staðfestur hvað þetta varðar í Hæstarétti: „Skiptir engu máli í þessu samhengi þótt stefnanda og forráðamanni hans hafi verið kunnugt um hvers konar starfsemi fór fram hjá stefnda, er stefnandi réð sig í vinnu, enda skýrt að ábyrgðin er atvinnurekandans, sbr. orðalag 60. gr. nefndra laga þess efnis að „börn megi ekki ráða til vinnu“.“ 

10. Hjón

Hjón eru jafningjar með sömu stöðu og skiptir því ekki máli frá hvorri hlið samsömun er skoðuð, þ.e. samsömun milli eiginmanns og eiginkonu eða eiginkonu og eiginmanns.

Í Hæstaréttarmálinu nr. 4/1969 voru atvik þau, að eiginkona slasaðist í bifreið eiginmanns síns vegna gáleysis hans og krafði hún hann og ábyrgðarvátryggjanda bifreiðarinnar um bætur vegna tjónsins. Vátryggingarfélagið neitaði greiðslu og hélt því fram, að­enda­þótt eiginmaður væri vátryggingartaki og eigandi bifreiðarinnar, væru hjón í raun einn­og­sami­aðili­og sem slík bæði vátryggingartakar og ábyrgðartryggingin bætti ekki tjón vátryggingartaka heldur bara 3. aðila. Tryggingarfélagið sagði að á „ ... sama hátt og með sömu rökum hafi tryggingafélögin neitað greiðslum til tryggingartaka, sem eigi margar bifreiðar, en verði fyrir því, að ein af bifreiðum hans skemmi aðra.“ Á þetta var ekki fallist. Eiginmaðurinn var dæmdur bótaskyldur gagnvart eiginkonunni og var því tryggingarfélaginu skylt að greiða henni bætur úr ábyrgðartryggingu hans.

Því hefur verið haldið fram að þessi dómur sýni, að ekki sé samsömun milli hjóna. Það er ekki rétt ályktun því dómurinn er ekki um samsömun og segir því ekkert um það hvort samsömun sé á milli hjóna eða ekki. Í þessum dómi er því haldið fram að hjón séu sami­aðilinn og geti því ekki gert kröfu hvort á annað af þeim sökum, þ.e. tjónþoli og tjónvaldur geti ekki verið einn og sami aðili, sbr. umfjöllun hér að framan í 1. kafla, sbr. tilgreinda Hæstaréttardóma nr. 483/1993, 151/1966 og 147/1966. Ef hjónin hefðu verið talin einn og sami aðilinn hefði það leitt til sýknu eins og krafist var í málinu. Það hefði hins vegar ekki haft neina þýðingu að halda því fram að samsömun væri með hjónum því slíkt hefði ekki leitt til sýknu. Samsömun er ekki vörn í máli milli aðila, sem eiga að samsamast. Eins og fram kom í 1. kafla getur tjónvaldur ekki borið fram samsömun, sem vörn gegn þeim sem hann samsamast við. Það hefði ekki stoðað eiginmanninn neitt að halda fram sýknu á þeim grunni, að hann bæri sjálfur ábyrgð á tjóninu og sú ábyrgð færðist yfir á eiginkonuna og útilokaði kröfur hennar, enda var þessu ekki haldið fram í málinu af hálfu tryggingarfélagsins, eins og áður segir. Samsömun hefði haft þýðingu ef margir tjónvaldar hefðu verið í málinu og eiginmaðurinn einn þeirra. Ef samsömun hefði verið talin vera milli hjónanna hefði eiginkonan ekki getað krafið hina tjónvaldana um allt tjónið heldur bara þann hluta sem þeir báru ábyrgð á. Eiginmanninn hefði hún hins vegar getað krafið um allt tjónið þrátt fyrir samsömunina. Því hefur samsömun enga þýðingu í máli á milli þeirra tveggja, enda, eins og áður segir, snérist málið ekki um samsömun og varpar engu ljósi á samsömun á milli hjóna. Dómurinn segir okkur hins vegar að hjón séu ekki sami­aðilinn­og geti átt skaðabótarkröfur á hvort annað.

Þótt rík samstaða sé með hjónum er í raun ekki sameiginlegt fjárfélag með þeim, þ.e. meginreglan er að hjón eiga eignir og skuldir hvort um sig og bera ábyrgð á skuldum sínum með sínum eigin hjúskapareignum og séreignum. Samband hjóna er ekki með þeim hætti, að nokkur ástæða sé til þess að virk samsömun sé með þeim, þ.e. að ábyrgð annars á skaðaverki afritist yfir á hitt. Ennfremur er ekki trúlegt að óvirk samsömun sé með þeim nema þegar annað hjóna krefur um óbeint fjártjón vegna frumtjóns hins, sbr. t.d. dóma um bætur fyrir missi framfæranda. Áður hefur verið fjallað um slík tilvik í 6. kafla og víðar hér að framan.

11. Ákvæði um samsömun í ýmsum lögum

Umfjöllunarefni greinar þessarar er ekki lögfest tilvik samsömunar en taka verður fram að slík ákvæði eru víða í lögum. Reyndar er vitnað til þeirra sumra hér að framan en einnig má nefna hér sem dæmi ákvæði eins og 171. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og 128. gr. loftferðalaga nr. 60/1998. Ennfremur er til fjöldi ákvæða víða í lögum um ábyrgð vinnuveitanda. Ákvæðum þessum hefur farið fjölgandi og er það vel því að æskilegt er að skrá réttarreglur og á það einnig við um reglur um samsömun.

12. Niðurstöður og samantekt:

Það er samsömun þegar skaðabótaábyrgð eins færist eða öllu heldur afritast yfir á annan aðila.

Það sem greinir að óvirka og virka samsömun skiptir venjulega ekki máli í mati á því hvort samsömun sé með aðilum eður ei. Það leiðir til þess að langoftast yrði við sams konar aðstæður með sömu aðilum, annað hvort bæði virk og óvirk samsömun eða hvorugt.

Með samsömun getur hvers konar ábyrgð færst á milli aðila, svo sem hlutlæg ábyrgð, sakarábyrgð og ábyrgð vegna áhættutöku. Í vinnuveitandaábyrgð telja sumir, að einungis sakarábyrgð geti færst yfir á vinnuveitanda en hér er því haldið fram, að tilgangi reglunnar yrði ekki náð ef efni hennar væri svo þröngt og talið að hvers konar ábyrgð geti flust yfir á vinnuveitanda.

Þegar fallist er á kröfur um bætur vegna óbeins tjóns án frumtjóns bótakrefjanda er rökrétt að viðurkenna líka varnir byggðar á samsömun með bótakrefjanda og frumtjónþola. Af þeim sökum hefur lengi verið talið rétt að fallast á samsömun í málum út af missi framfæranda. Ekki er talið að umfram þetta eigi að fallast á samsömun í málum milli hjóna eða milli barna og foreldra né milli foreldra og barna.

Fjallað var um nokkur réttarsvið þar sem samsömun kemur helst til greina án heimildar í settum lögum. Niðurstaðan er sú, að eingöngu er fallist á samsömun þegar krafið er um óbeint tjón vegna frumtjóns annars og á milli starfsmanns og vinnuveitanda.

Neðanmálsgreinar

1. A. Vinding Kruse, bls. 380

2. A.Vinding Kruse, bls. 378 og Viðar Már Matthíasson, bls. 103

3. Arnljótur Björnsson, Bótaskylda án sakar, Tímarit lögfræðinga, 1. hefti 1984, bls. 6-35.

4. Viðar Már Matthíasson, bls. 269


5. Frumvarp til skaðabótalaga, þskj. nr. 596, 326. mál á 116. löggjafarþingi 1993 1. Inngangur.

6. Arnljótur Björnsson, bls. 93 og Viðar Már Matthíasson, bls. 53 og 257 telja sakarábyrgð eina koma til greina. Ólafur Lárusson er á annarri skoðun, sbr. bls. 17.

7. Viðar Már Matthíasson, bls. 329-330

8. Viðar Már Matthíasson, bls. 334-343

9. A.Vinding Kruse, bls. 437

10. Fræðimenn eru ekki allir sammála um þetta síðastnefnda, sjá A. Vinding Kruse bls. 185 og Viðar Má Matthíasson bls. 262.

Heimildaskrá:

Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, 1. útgáfa, Bótaútgáfan Codex, Reykjavík 2005

Vinding Kruse, A: Erstatningsretten, 3. útgáfa, Juristforbundets Forlag, Haderslev 1976.

Arnljótur Björnsson, Bótaskylda án sakar, Tímarit lögfræðinga, 1. hefti 1984.

Frumvarp til skaðabótalaga, þskj. nr. 596, 326. mál á 116. löggjafarþingi 1993.

Arnljótur Björnsson, Kennslubók fyrir byrjendur, 2. útgáfa, Bókaútgáfa Orators, Reykjavík 1999.

Ólafur Lárusson, Viðbætir við skaðabótarétt Henry Ussing, óársett fjölrit. 

Dómaskrá

H. nr.

125/

2011

11

H. nr.

449/

2009

8

H. nr.

237/

2006

5

H. nr.

316/

2005

8

H. nr.

360/

1997

6, 10

H. nr.

406/

1997

6

H. nr.

34/

1995

10

H. nr.

483/

1993

2, 11

H. nr.

162/

1992

5, 8

H. nr.

74/

1989

5, 8

H. nr.

40/

1989

8

H. nr.

74/

1989

8

H. nr.

238/

1987

5, 8

H. nr.

182/

1983

7

H. nr.

18/

1976

6

H. nr.

218/

1974

8, 9

H. nr.

4/

1969

11

H. nr.

151/

1966

2, 11

H. nr.

147/

1966

2, 11

H. nr.

16/

1962

6, 8

H. nr.

16/

1962

8

H. nr.

12/

1951a

8, 9

H. nr.

86/

1947

6, 8, 9

 

 

 Efnisyfirlit


Núverandi tölublað

Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd

Síðasta tölublað

Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun

Fréttir

22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing


Lögfræðingur ©2023 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN