Sigurður Kristinsson,

Sigurður Kristinsson,


Grein birt í: Lögfræðingur 2011

Laganám við Háskólann á Akureyri Sjálfsmatsskýrsla 15.02.10

Árið 2010 hófst viðamikil gæðaúttekt á námi í lögfræði og viðskiptafræði við íslenska háskóla. Úttektin er liður í áætlun um gæðaúttektir á háskólastiginu sem gefin var út af menntamálaráðuneytinu í nóvember 2008, en sú áætlun var gerð í framhaldi af formlegri viðurkenningu menntamálaráðuneytisins á fræðasviðum háskólanna vorið 2008. Sú viðurkenning var áskilin í lögum um háskóla nr. 63/2006 og byggðist á alþjóðlegum úttektum sem gerðar voru 2007-2008.

Ytri gæðaúttektir af þessu tagi gegna æ mikilvægara hlutverki í starfsemi háskóla. Með þeim er séð til þess að nám, kennsla og rannsóknir uppfylli alþjóðlegar kröfur og réttmætar væntingar samfélagsins. Úttektarferlið er líka gagnlegt fyrir innri starfsemi háskólans, því það krefst þess að gerð sé skipuleg grein fyrir meginþáttum hennar, svo sem markmiðum og stefnu, skipulagi og áherslum, aðstöðu og verkferlum, mannauði og árangri, aðferðum við árangursmat og umbótastarfi.

Hér eru birtir valdir kaflar úr sjálfsmatsskýrslu lagadeildar Háskólans á Akureyri, sem skilað var til mennta- og menningarmálaráðuneytisins í febrúar 2010 vegna úttektarinnar sem þá fór í hönd. Vinna við skýrsluna hófst í lok nóvember 2009, en hún var unnin í góðu samstarfi þriggja nemenda lagadeildar, þriggja fastra kennara lagadeildar, gæðastjóra Háskólans á Akureyri og forseta hug- og félagsvísindasviðs, sem stýrði verkinu, en fjölmargir fleiri veittu hópnum upplýsingar og aðstoð, bæði nemendur og aðrir. Framlag nemenda til þessa verks var ómetanlegt, enda hlýtur árangur þeirra og reynsla að vega þyngra en flest annað þegar gæði laganámsins eru metin.

Sjálfsmatsskýrslan bregður skýru ljósi á áherslur og einkenni laganámsins við HA. Hún sýnir að í náminu er lögð metnaðarfull og meðvituð áhersla á gagnrýna hugsun um lög á grunni þekkingar á lögfræði sem fræðigrein, samanburðarlögfræði, réttarsögu og réttarheimspeki, réttarfélagsfræði, siðfræði og mannréttindum. Hún sýnir einnig framsýna uppbyggingu alþjóðlegs meistaranáms með áherslu á málefni heimskautasvæðanna. Með sérstöðu sinni og alþjóðlegri skírskotun stuðlar lagadeild HA að traustri menntun nemenda sinna ásamt fjölbreytni og faglegri framþróun meðal lög- fræðinga á Íslandi.

Sigurður Kristinsson, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri

Sigurður Kristinsson, forseti hug- og félagsvísindasviðs
Sigrún Magnúsdóttir, gæðastjóri
Timothy Murphy, prófessor, lagadeild
Rachael Lorna Johnstone, dósent og formaður námsnefndar, lagadeild Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt og brautarstjóri, lagadeild, Davíð Birkir Tryggvason, 3. árs nemi í grunnnámi Gunnþóra Elín Erlingsdóttir, 3. árs nemi í grunnnámi Jóna Benný Kristjánsdóttir, 1. árs nemi í framhaldsnámi .


1. Inngangur

Háskólinn á Akureyri (HA) hefur boðið upp á laganám síðan árið 2003. Það hefur sérstöðu á meðal íslensks laganáms, bæði hvað varðar uppbyggingu og áherslur. Fyrstu ellefu nemendurnir með B.A. gráðu útskrifuðust árið 2006 og fyrstu tíu nemendurnir með M.L. gráðu árið 2008. Árið 2009 útskrifuðust fyrstu nemendurnir með diplómu á meistarastigi í heimskautalögfræði. Á árunum 2006 til 2009 hafa samtals 76 nemendur útskrifast frá lagadeild HA og í desember 2009 voru 118 nemendur skráðir í laganám.

Á sjöunda starfsári sínu hefur lagadeild HA nú skapað sér sérstöðu hvað varðar laganám á Íslandi. Hún er tilbúin til úttektar og fagnar hvers kyns ráðleggingum sem nýtast til áframhaldandi vaxtar og þróunar.

Í þessari sjálfsmatsskýrslu er reynt að lýsa og meta þá lögfræðimenntun sem nú er í boði hjá HA. Sjálfmatið var framkvæmt af vinnuhópi sem skipaður var í nóvember 2009. Forseti hug- og félagsvísindasviðs fór fyrir hópnum og í honum voru einnig þrír kennarar úr lagadeild, þrír laganemar og gæðastjóri HA. Margir aðrir komu hópnum til aðstoðar með því að veita upplýsingar og koma með athugasemdir, þar með taldir Björn Jósef Arnviðarson, Francesco Milazzo, Garrett Barden, Guðmundur Alfreðsson, Heiða Kristín Jónsdóttir, Ólafur Rúnar Ólafsson, Ólína Freysteinsdóttir, Steinunn Aðalbjarnardóttir, Úlfar Hauksson og Þórður Bogason. Tveir hópar nemenda, annar úr B.A. náminu og hinn úr M.L. náminu, tóku þátt í viðtölum rýnihópa í desember 2009, sem stýrt var af Sigrúnu Magnúsdóttur (gæðastjóra), Solveigu Hrafnsdóttur (forstöðumanni kennslusviðs) og Dagmar Ýri Stefánsdóttur (forstöðumanni markaðs- og kynningarsviðs). Ingveldur Tryggvadóttir sá um ritun fundargerða og skráningu skjala fyrir vinnuhópinn. Við viljum þakka öllum þeim sem tóku þátt í vinnslu skýrslunnar.

Umgjörð skýrslunnar er byggð á drögum að spurningum sem við fengum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu í nóvember 2009 (Spurningar til háskóla v/ytri úttekta (drög)). Vinnuhópurinn bætti við aukakafla til þess að veita nauðsynlegar bakgrunnsupplýsingar um námið sem í boði er (2. hluti).

2. Námið

Við laganám í HA eru gerðar þær fræðilegu kröfur og veitt sú hagnýta þekking, líkt og ætlast skal til af lagadeild sem undirbýr nemendur bæði fyrir lögfræðistörf á Íslandi og til þátttöku á síbreytilegum alþjóðlegum atvinnumarkaði.

Lagadeild HA býður upp á þriggja ára nám til B.A. gráðu og tveggja ára framhaldsnám í lögfræði til M.L. gráðu.

HA býður einnig upp á nám í heimskautarétti. Í náminu er lögð sérstök áhersla á lögfræðileg málefni sem varða heimskautasvæðin. Eftirfarandi námsleiðir í heimskautarétti eru í boði: 120 ECTS eininga M.A. gráða, 90 ECTS eininga LL.M. gráða; 60 ECTS eininga meistaranám sem lýkur með diplómu á meistarastigi; 60 ECTS eininga B.A. gráðu sem lýkur með diplómu á B.A. stigi; Einnig eru í boði einstök námskeið sem ljúka með vottorði.

2.1. Formlegar skilgreiningar í námskeiðsbæklingi á ensku og íslensku á hverri námsleið og námsmarkmiði hennar og tengla á einstakar námskeiðslýsingar er að finna á vefsíðu HA. B.A. gráða í lögfræði

Lögfræðinám til B.A. gráðu við HA er á margan hátt skipulagt öðruvísi en hefðbundið laganám við íslenska háskóla hefur verið fram til þessa. Í HA teljum við nauðsynlegt að nemendur í laganámi læri ekki aðeins lögin sjálf, heldur hafi einnig góðan skilning á því hvað lögfræði er. Lögfræði og lögspeki eru því skoðuð í sögulegu, félagslegu og heimspekilegu samhengi. Á fyrsta námsárinu eru nemendur kynntir fyrir Rómarrétti, réttarheimspeki, réttarfræði og túlkun, erlendum réttarkerfum og alþjóðarétti, auk grunnnámskeiða í íslenskum rétti og almennum fræðilegum aðferðum . Þessir áfangar gefa þá nauðsynlegu sögulegu og fræðilegu þekkingu og færni sem þarf til að takast á við annars og þriðja árs námskeið frá sjónarhóli gagnrýni og greiningar. Á öðru og þriðja námsári skoða nemendur evrópurétt, stjórnarskrárrétt, mannréttindalög, réttarfélagsfræði, stjórnsýslurétt, alþjóðlegan einkamálarétt, réttarsiðfræði, hafrétt og grunnfög lögfræðinnar – inngangur að hegningarlögum og eignarrétti og inngangur að samningarétti - með mikilli áherslu á fræðilegt samhengi og samanburð.

Nemendur fá einnig tækifæri til að nýta lagaþekkingu og hagnýta lögfræðikunnáttu sína í tveimur sviðsettum réttarhöldum (einu á íslensku um íslensk lög og einu á ensku um alþjóðalög eða erlend lög). Einnig gefst tækifæri til að læra um nýjustu lögfræðilegu málefnin á tveimur námskeiðum og einni málstofu . Undir lok annars árs velja nemendur viðfangsefni fyrir B.A. ritgerðina sína og byrja að vinna við það vel fyrir skilafrestinn sem er í lok þriðja árs.

Nemendur þurfa að ljúka 54 ECTS einingum til þess að geta hafið annað námsár sitt. Öll námskeið á B.A. stigi eru kennd í þriggja vikna námslotum þar sem nemendur leggja eingöngu stund á eitt viðfangsefni.

B.A. gráðan gefur framúrskarandi fræðilegan grunn fyrir þá sem hyggjast halda áfram og fá starfsréttindi sem lögfræðingar. Ennfremur veitir námið traustan grunn fyrir þá sem stefna ekki á hefðbundin lagaferil, en vilja frekar starfa við önnur svið eins og alþjóðatengsl og stjórnmálafræði. Námskeið eru kennd og úr þeim prófað jafnt á íslensku sem og ensku og undirbýr það nemendur fyrir störf bæði á atvinnumarkaði innanlands sem og erlendis.

2.2. M.L. gráða í lögfræði

Að loknu B.A. námi eiga nemendur kost á að hefja M.L. nám, þar sem nemendur einbeita sér að íslenskum lögum og undirbúningi fyrir íslenska málflutningsprófið og fyrir lögfræðistörf á Íslandi. Þetta nám er opið nemendum sem lokið hafa B.A. náminu og hafa hlotið minnst 7 í meðaleinkunn eða hafa hlotið sambærilega menntun frá öðrum skóla. M.L. gráðan er eingöngu kennd á Íslandi þar sem hún miðar að því að undirbúa útskriftarnemendur fyrir lögfræðistörf í íslensku réttarkerfi.

Námið er afar hagnýtt og nemendur læra um íslensk lög og réttarkerfi. Um er að ræða þrjú námskeið um réttarfar sem fjalla um einkamálaréttarfar, sakamálaréttarfar og fullnusturéttarfar; og námskeið í efnisrétti sem fjallar um samningarétt, skaðabótarétt, eignarétt, félagarétt, vinnurétt, fjölskyldurétt, stjórnskipunarrétt, stjórnsýslurétt, skattarétt, refsirétt og kröfurétt. Í 30 ECTS eininga lokaritgerð um efni að eigin vali innan hvaða sviðs íslenskra laga sem er hefur hver nemandi tækifæri til að þjálfa og bæta gagnrýnis- og greiningarfærni sína og sýna fram á getu sína til að stunda umfangsmiklar rannsóknir á stigi sem myndi gera þá hæfa til að stunda doktorsnám. Margir kennaranna við deildina eru starfandi lögfræðingar - þeir koma með nútímaleg og hagnýt sjónarmið inn í námskeiðin og styrkja tengslin á milli HA og borgaralegs samfélags. Einkum skapast tækifæri fyrir hagsmunaaðila á staðnum til að fylgjast með því sem er að gerast innan lagadeildarinnar og fyrir nemendur að kynnast betur starfsvenjum á svæðinu og koma sér upp samböndum sem geta reynst dýrmæt þegar þeir hefja starfsferil sinn. Deildin á í samningaviðræðum við einkarekin lögfræðifyrirtæki og opinberar stofnanir um að koma á formlegu kerfi starfsnáms byggt á þeim óformlegu tengslanetum sem fyrir eru.

Öll M.L. námskeið eru kennd á hefðbundnu heillar annar sniði með símati sem dreift er yfir önnina. Nemendur byrja að vinna að M.L. ritgerðinni strax á fyrstu önn, og eru því gefin tvö ár til að skrifa ritgerðina.

2.3. Nám í heimskautarétti

Hið nýstárlega nám í heimskautarétti er einstakt að því leyti að þar er lögð áhersla á lagareglur, reglur og ferli sem varða Norður- og Suðurskautið. Þetta nám er mjög tímabært og gagnlegt í samtímanum, þegar loftslags- breytingar eru að hafa mikil áhrif á Norður- og Suðurheimskautin, möguleiki er á að nýjar siglingaleiðir opnist, núverandi og hugsanlegar landamæradeilur á landi og sjó eru óleystar, atriði og spurningar sem varða umdæmi landa og svæða eru látnar lúta þjóðlegum og alþjóðlegum áætlunum, og síðast en ekki síst þær margvíslegu umhverfisógnir sem sýna alvarleg hættumerki og kalla á tafarlausar aðgerðir. Eitt áhugavert rannsóknarsvið sem þetta nám gæti lagt sitt af mörkum til er sá lærdómur sem draga má af lagareglum um Suðurskautssvæðið við að finna lausnir fyrir Norðurskautssvæðið.

Í heimskautaréttarnáminu er lögð áhersla á þau svið alþjóða- eða landslaga sem snúa að heimskautasvæðunum. Fyrir utan almennt inngangsnámskeið í heimskautarétti, er boðið upp á námskeið á eftirfarandi sviðum: þjóðaréttur, þar á meðal er hafréttur, umhverfisverndarréttur og fjölbreytni lífríkisins (URL1073) og stjórnun varðandi loftslagsbreytingar; lög sett af og lög sem vernda frumbyggja og aðra íbúa Norðurskautssvæðisins; þróun lífskjara á norðurslóðum; eftirlit og stjórnun (alþjóðleg, innanlands, og frumbyggja) og hagkerfi, atvinnugreinar og viðskipti á heimskautasvæðunum. Nemendur í LL.M. eða M.A. námi skrifa einnig viðamikla ritgerð.

Hin árlega Ráðstefna um heimskautarétt er einnig hluti af heimskautaréttarnáminu og þátttaka í ráðstefnunni, sem er mikilvægur hluti námsins, er án endurgjalds fyrir nemendur. Á meðal kennara eru prófessorarnir Guðmundur Alfreðsson, Níels Einarsson, Malgosia Fitzmaurice, Lauri Hannikainen, Tómas H. Heiðar, Lassi Heininen, Jón Haukur Ingimundarson, Timo Koivurova, Joan Nymand Larsen, Natalia Loukacheva, Tavis Potts, Kári á Rógvi, David Vanderzwaag, og aðrir fremstu fræðimenn og fagmenn í heimskautarétti.

Á þessari námslínu vinnur HA náið með fjölda annarra háskóla, bæði innlendum og erlendum. Þar á meðal eru háskólar í Kanada, Danmörku, Færeyjum, Finnlandi, Grænlandi, Hollandi, Noregi, Svíþjóð, Rússneska sambandsríkinu, Bretlandi og Bandaríkjunum (Alaska).

Námskeiðin eru eingöngu kennd á ensku til þess að ná fram því tvíbenta markmiði að ná til eins breiðs nemendahóps og hægt er og tryggja að rannsóknum nemenda sé miðlað til eins stórs áheyrendahóps og hægt er. Nemendur, sérstaklega frumbyggjar, eru jafnframt hvattir til þess að gefa út niðurstöður rannsókna sinna á þeirra eigin móðurmáli.

2.3.1. Nám til M.A. gráðu í heimskautarétti (120 ECTS einingar)

M.A. gráðan í heimskautarétti er ætluð fyrir nemendur sem hafa útskrifast með B.A. gráðu í skyldum greinum hug- eða félagsvísinda. Nemendur ljúka 60 ECTS einingum með námskeiðum og skrifa viðamikla meistararitgerð (60 ECTS einingar). Akademískur sérfræðingur á viðkomandi sviði hefur umsjón með ritgerðarskrifunum og ritgerðin á að sýna frumkvæði og

sjálfstæð vinnubrögð nemandans í þeirri grein heimskautaréttar sem valin er.

2.3.2. Nám til LL.M. gráðu í heimskautarétti (90 ECTS einingar)

LL.M. gráðan í heimskautarétti er ætluð fyrir nemendur með B.A. gráðu í lögfræði. Nemendur ljúka 60 ECTS einingum með námskeiðum og skrifa meistararitgerð (30 ECTS einingar). Akademískur sérfræðingur á viðkomandi sviði lögfræði hefur umsjón með ritgerðarskrifunum og ritgerðin á að sýna frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð nemandans í þeirri grein heimskautaréttar sem valin er.

2.3.3. Nám sem lýkur með diplómu á framhaldsstigi í heimskautarétti (60 ECTS einingar)

Diplómagráða á framhaldsstigi er ætluð fyrir nemendur sem hafa útskrifast með B.A. gráðu í lögfræði. Nemendur ljúka 60 ECTS námskeiðseiningum og útskrifast með diplómu á meistarastigi.

2.3.4. Nám sem lýkur með diplómu á grunnnámsstigi í heimskautarétti (60 ECTS einingar)

Diplóma á grunnnámsstigi er ætluð fyrir nemendur í grunnnámi sem hafa lokið minnst einu ári (60 ECTS einingum) af háskólanámi á B.A stigi í tengdri grein eða stúdentsprófi að viðbættri umtalsverðri starfsreynslu. Nemendur ljúka 60 ECTS námskeiðseiningum og útskrifast með diplómu á B.A. stigi.

2.3.5. Eftir að námi lýkur

Nám í heimskautarétti undirbýr nemendur fyrir vinnu í einkageiranum og opinbera geiranum; á ýmsum stigum stjórnsýslu; hjá alþjóðlegum samtökum; frjálsum félagasamtökum; sem tengist frumbyggjum á Norðurheimsskautssvæðinu; og í háskólum og rannsóknarstofnunum. LL.M.- og M.A. gráðurnar veita einnig góðan undirbúning fyrir doktorsnám eða frekari rannsóknir á málefnum heimskautasvæðanna. 

2.4. Áskoranir og takmarkanir

Laganám við HA hefur verið þróað í skugga umtalsverðra efnahagsörðug- leika og skorts á aðföngum. Í þessu hefur falist - og heldur áfram að felast - umtalsverð og óhjákvæmileg áskorun fyrir þann fáliðaða hóp starfsmanna sem vinnur að þróun námsins. Sem dæmi eru fáir starfsmenn í fullu starfi, og því er hlutfallslega meira vinnuálag á þeim, og skortur á fjármunum til þess að styðja við rannsóknir.

Engu að síður hafa verið gerðar miklar kröfur hvað varðar nýsköpun og gæði í því einstaka námi sem í boði er hjá HA. Þrátt fyrir mjög takmarkaðar fjárveitingar hefur hið framsækna laganám hjá HA sannað að það er ekki einungis samkeppnishæft við aðra skóla sem bjóða upp á laganám á Íslandi, heldur getur einnig skapað sér nafn á alþjóðlegum vettvangi. Allir sem starfa við lagadeild HA sjá fram á bjartari framtíð með enn vandaðra námi þegar efnahagsástandið batnar og meiri fjármunum verður varið til þess að gera HA að miðstöð framúrskarandi laganáms á Íslandi.

2.5. Samantekt

Það ætti að vera ljóst að lagadeild HA býður upp á einstakt og krefjandi nám sem sameinar fræðilegar kröfur og hagnýta samtímanálgun í heimi örra breytinga og sveigjanlegs atvinnumarkaðar. Uppbygging B.A. gráðunnar sem breið félagsvísindagráða höfðar til nemenda með ólík hugðarefni, sem í sjálfu sér auðgar námsumhverfið. Það opnar fleiri fræðilega eða faglega möguleika heldur en grunnnám í hefðbundnari fögum lögfræðinnar og undirbýr nemendur jafnframt fyrir fulla þátttöku í lýðræðislegu þjóðfélagi. Um leið veitir M.L. gráðan nægilega akademíska og hagnýta þjálfun til að tryggja að útskrifaðir nemendur séu fullgilt fagfólk í lögfræði og hæfir til starfa innan íslenskrar lögfræðingastéttar. Hið nýja nám í heimskautarétti tryggir HA í sessi sem miðstöð framsækinna rannsókna og menntunar innan þessarar ört vaxandi, spennandi og lítt rannsökuðu greinar og útskrifaðir nemendur verða einstaklega vel í stakk búnir til að rannsaka og efla þekkingu, hagsmuni og þróun lífskjara á heimskautasvæðunum.

3. Tenging námsins við hlutverks háskólans

3.1. Hvernig fellur námið (innihald námsins og kennslunnar) að hlutverki (markmiði/áherslu/stefnu) háskólans?

Laganám við Háskólann á Akureyri fellur almennt vel að hlutverki háskólans. Í stefnu sinni 2007-2011 lýsir HA hlutverki sínu, gildum og framtíðarsýn, og skilgreinir fimm markmið til þess að gera þá sýn að veruleika. Markmiðin eru: (1) krefjandi og persónulegt námsumhverfi; (2) öflugt rannsóknarstarf; (3) virk tengsl við samfélagið; (4) alþjóðlegt samstarf; og (5) skilvirk skipulagsheild. Laganámið þjónar þessum fimm markmiðum meðal annars á eftirfarandi hátt:

(1) Krefjandi og persónulegt námsumhverfi. Kröfur eru gerðar til nemenda frá upphafi námsins með námskeiðum á ensku og íslensku þar sem miklar kröfur eru gerðar bæði til þekkingar og gagnrýnnar hugsunar. Hlutfall nemenda á hvern kennara er einstaklega hagstætt, sem gerir námsumhverfið persónulegt og hjálplegt. Nemendur lýsa yfir mikilli ánægju með persónulegt námsumhverfi.

(2) Öflugt rannsóknastarf. Allir fastráðnir kennarar í fullu starfi eru með doktorsgráðu og eru virkir í rannsóknum. Sama má segir um marga af gestakennurum okkar.

(3) Virk tengsl við samfélagið. Námskeið í M.L. náminu eru kennd af aðjúnktum í hlutastarfi og stundakennurum sem stunda lögfræði hérlendis, bæði í einkageiranum og opinbera geiranum. Þetta fyrirkomulag stuðlar að gagnkvæmri þekkingarmiðlun á milli háskólans og starfandi lögfræðinga.

(4) Alþjóðlegt samstarf. Töluverður fjöldi námskeiða er kenndur af gestakennurum sem starfa við erlenda háskóla. Í sumum tilfellum eru þessir kennarar einnig í rannsóknarsamstarfi við starfsfólk HA. Námið í heimskautarétti er alþjóðlegt, aðeins kennt á ensku og flestir nemendur og kennarar koma erlendis frá. Laganámið laðar að fleiri erlenda nemendur en nokkuð annað nám við HA. Íslenskir laganemar hafa einnig nýtt sér nemendaskiptasamninga og farið til náms erlendis, t.d. til Kína, Danmerkur og Lettlands. Kennarar við deildina kenna einnig reglulega erlendis, sem hluti af ERASMUS-samningum og tvíhliða samningum við háskóla utan Evrópu. Nemendur í rýnihópum sem tekin voru viðtöl við síðla árs 2009 lýstu yfir ánægju sinni með að hinar sterku alþjóðlegu áherslur víkki sjóndeildarhring þeirra og „geri veröld þeirra stærri“. Þeir segja líka að alþjóðlegi þáttur B.A. námsins hafi verið mikilvægur liður í þeirri ákvörðun þeirra að nema lög við Háskólann á Akureyri. Skilvirk skipulagsheild. Með því að kenna annað hvert ár í B.A.- og M.L. náminu lækkar kostnaður við kennslu um 30-40% og með því er hægt að halda náminu innan takmarkaðrar fjárhagsáætlunar þess án þess að fórna tiltölulega lítilli bekkjastærð. Hver námsbrautanna þriggja í lögfræði (B.A., M.L. og heimskautaréttur) er með brautarstjóra sem ber ábyrgð á að þær starfi eðlilega. Nemendur lýsa yfir ánægju sinni með skipulag námsins, t.d. það fyrirkomulag að kenna námskeið á B.A. stigi og í heimskautarétti í lotunámi. 

Eins og áður hefur komið fram, fól stefna HA 2007-2011 ekki aðeins í sér áætlanir og markmið heldur einnig á almennari nótum yfirlýsingar um hlutverk skólans, gildi og framtíðarsýn . Laganámið var hannað til að fylgja þessum gildum, hlutverki og framtíðarsýn og hefur þróast í samræmi við þau.

Gildi framfara og nýsköpunar kemur til dæmis fram hjá nemendum sem lýsa yfir ánægju sinni með að B.A. námið laði til sín laganema sem ella hefði ekki lagt stund á lögfræði, og að B.A. námið undirbúi nemendur fyrir vinnu og nám bæði erlendis og á Íslandi. Sú áhersla sem lögð er í náminu á réttarfræði og samanburðar- og alþjóðalög felur í sér brautryðjendastarf í laganámi á Íslandi og skapar því sérstöðu. Útlit er fyrir að mikilvægi þess að búa nemendur undir alþjóðlegan starfsferil muni aukast í framtíðinni þegar íslenskt viðskipta- og atvinnulíf verður æ háðara og tengdara efnahagslífi heimsins. Sú áhersla sem lögð er á í náminu, að undirbúa nemendur fyrir störf handan hins þrönga ramma íslensks réttarkerfis, er því bæði tímabær og mikilvæg. 

Jafnframt styðja námsbrautirnar í lögfræði við það mikilvæga hlutverk sem HA hefur löngum þjónað, að útskrifa nemendur sem eru líklegri til að starfa utan höfuðborgarsvæðisins en nemendur sem útskrifast frá háskólum á því svæði. Árið 2008 útskrifaðist til dæmis fyrsti hópur laganema frá HA eftir fimm ára nám sem lauk með M.L. gráðu. Níu af þessum tíu útskrifuðu nemendum starfa sem lögfræðingar í dag; þrír í Reykjavík, tveir á Akureyri og fjórir á öðrum svæðum víðs vegar um landið.

3.2. Hvernig fellur kennslueiningin að annarri starfsemi háskólans?

Þó að lagadeildin sé sjálfráða varðandi innihald og uppbyggingu námsins, telst lögfræði til félagsvísinda og því er eðlilegt að staðsetja hana innan hug- og félagsvísindasviðs, sem einnig hefur innan sinna vébanda félagsvísindadeild og kennaradeild. Þverfagleiki kemur meðal annars fram í þeirri kennslu sem kennarar úr félagsvísindadeild sinna (t.d. í siðfræði starfsgreina, lögskýringar, heimspeki refsinga, ritfærni og gagnrýnin hugsun) og rannsóknasamstarfi (t.d. verkefni sem nefnist Human Rights in Crisis (Mannréttindi í hættu), 2009-2011). Einnig er stefnt að samstarfi á milli lagadeildar og kennaradeildar á sviði mannréttinda í námsefni skóla.

Almennt séð hefur laganámið verið stór liður í þróun háskólans frá starfsmenntaháskóla til alhliða fræðasamfélags. Það sést meðal annars á því hvað laganemar eru virkir í nemendafélagi háskólans. Annað gott dæmi er lögfræðiþingið (sjá hluta 4.1), sem hefur verið vettvangur fyrir rannsakendur úr öðrum deildum til að kynna rannsóknir sínar fyrir laganemum, fræðasamfélagi HA og almenningi.

B.A. námið er kennt í þriggja vikna lotum og allt námsmat fer fram innan þessara þriggja vikna (nema fyrir endurtökupróf). Þar sem aðrar námsbrautir við HA notast ekki við þetta kerfi er fremur erfitt að bjóða upp á lögfræðinámskeið sem val- eða kjarnanámskeið fyrir nemendur í öðrum deildum. Þrátt fyrir þetta hafa nemendur við aðrar deildir valið að taka lögfræðinámskeið og þau eru vinsæl á meðal erlendra skiptinema við HA. Haldið er í lotukennslukerfið af því að það hefur kennslufræðilega kosti, nemendur eru ánægðir með það, og með því er hægt að bjóða upp á námskeið kennd af erlendum sérfræðingum og öðrum þeim sem búa utan Akureyrarsvæðisins og myndu ekki geta dvalið á Akureyri í heila önn.

4. Rannsóknir og sambandið á milli rannsókna og kennslu

Það er í eðli laganáms að hárfínt jafnvægi þarf að vera á milli fræðilegrar þekkingar og hagnýtrar lagakunnáttu. Í öllum tilfellum er nauðsynlegt, í ljósi þess hvað lögfræði og lögfræðistörf breytast hratt, að tryggja að nem- endur búi yfir nýjustu þekkingu. Í því skyni má almennt segja að flestir kennarar í B.A. náminu hafi sterkan rannsóknarferil að baki (bæði prófessorar í fullu starfi og gestaprófessorar) og að kennarar í M.L. náminu hafi mikla reynslu af lögfræðistörfum. Námskeið í heimskautarétti eru að miklu leyti kennd af helstu sérfræðingum heims á viðkomandi sviðum, sem endurspeglar þá nýsköpun og framsækni sem einkennir þau.

4.1. Hver er staða rannsókna við háskólann á þessu fræðasviði?

4.1.1. Rannsóknir starfsmanna

Kennararnir tveir í B.A. náminu sem eru í fullu starfi, Timothy Murphy prófessor og Dr. Rachael Johnstone dósent eru með sterkan rannsóknabakgrunn og birta rannsóknir sínar víða. Rannsóknir þeirra hafa birst í jafningjarýndum fagtímaritum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Írlandi, Ísrael og á Norðurlöndunum. Timothy Murphy hefur einnig gefið út þrjár bækur og væntanlegt er sérrit hjá Oxford University Press sem hann skrifaði með Garrett Barden, virtum gestaprófessor og kennara í B.A. náminu, sem ber heitið Law and Justice in Community (Lög og réttlæti í samfélagi).

Giorgio Baruchello prófessor og Dr. Sigurður Kristinsson dósent og forseti hug- og félagsvísindasviðs, starfandi kennarar í B.A. námskeiðum, hafa einnig gefið mikið út og halda því áfram. B.A. námið nýtur einnig góðs af gestakennurum og má þar nefna, auk áðurnefnds Garretts Barden, prófessorana Guðmund Alfreðsson, Jakob Möller og Bertrand Ramcharan, allt afar virta alþjóðlega fræðimenn sem eru brautryðjendur í rannsóknum á sviði mannréttinda og alþjóðalaga og hafa gefið út fjölda bóka. B.A. námið hefur einnig laðað til sín Fulbright-kennara með sterkan rannsóknarferil, nú síðast Mark Weiner prófessor frá Rutgers University, sem flutti mjög vel heppnaða opna fyrirlestraröð um bandarískan stjórnarskrárrétt við HA á haustönn 2009.

Áherslan í M.L. náminu er lögð á að undirbúa nemendur fyrir lögfræðistörf og íslenskt málflutningspróf og þá er mikilvægt að kennslan sé í höndum reyndra starfandi lögfræðinga. Með því að stunda einnig lögmannsstörf tryggir þessi hópur virtra kennara að þekking þeirra sé alltaf í takt við tímann og þeir geti því miðlað allra nýjustu lögfræðiþekkingu til nemenda.

Námskeið í heimskautarétti eru kennd af frumkvöðlum, hverjum á sínu sviði, sem allir eru með glæstan alþjóðlegan rannsóknarferil. Markmið þessa náms er ekki aðeins að kenna nemendum, heldur jafnframt að mynda þekkingargrunn á þessu lítt þróaða sviði, og því er lykilatriði í náminu að nemendur hafi aðgang að helstu fræðimönnum á þessu sviði. Brautarstjóri náms í heimskautarétti, Dr. Natalia Loukacheva, er afkastamikill rannsakandi sem hefur gefið talsvert út um málefni sem varða stefnumörkun og lög á Norðurslóðum, meðal annars bók sem gefin var út árið 2007 af University of Toronto Press sem ber heitið The Arctic Promise: Legal and Political Autonomy of Greenland and Nunavut.

Fasti mælikvarðinn á rannsóknarvirkni við HA er hið árlega mat á rannsóknarstigum. Fyrir 1. mars er ætlast til þess að allir kennarar við deildina (aðjúnktar, lektorar, dósentar, prófessorar) skili skýrslu sem sýnir útgáfu hans eða hennar og aðra rannsóknarvirkni á liðnu ári og fyrir 1. júní fá kennarar matsskýrslu þar sem rannsóknarvirkni þeirra hefur verið reiknuð út eftir stöðluðum reglum þar sem ekki er aðeins tekið mið af gæðum útgefna efnisins er heldur einnig gæða birtingarvettvangsins. Til að gefa einhverja hugmynd um hvernig rannsóknarvirkni er metin til stiga er ein útgefin grein í virtu, alþjóðlegu jafningjarýndu riti metin upp á 10 eða 15 stig allt eftir gæðum ritsins. 

Unnu kennarar lagadeildar sér inn fleiri rannsóknarstig að meðaltali á árunum 2004-2008 heldur en starfsbræður þeirra við hug- og félagsvísindasvið og við HA. Meðaltal rannsóknarstiga á hvern kennara við lagadeild á árunum 2004-2008 var 26,72, rúmlega sex stigum yfir meðaltali við hug- og félagsvísindasvið sem var 20,47, og rúmlega átta stigum yfir meðaltali rannsóknarstiga við HA 18,25.

4.1.2. Ráðstefnur og útgefin rit

HA heldur árlega ráðstefnu í heimskautarétti og sem nemendum í heimskautarétti er gert að mæta á án endurgjalds en jafnframt eru aðrir laganemar hvattir til að mæta á hana og er það þeim að kostnaðarlausu. Sá fyrsti af þessum brautryðjendaviðburðum var haldinn í september 2008 og sá næsti í september 2009. Þriðja ráðstefnan er í undirbúningi og verður haldin dagana 7.-10. september 2010.

Lagadeild HA er einnig aðsetur Yearbook of Polar Law (Árbók heim- skautaréttar) sem gefin er út af Brill Academic Publishers í Hollandi. Árbókin fjallar um vítt svið málefna sem varða Norður- og Suðurskautssvæðin. Þar má nefna:

  • mannréttindamál, svo sem sjálfsforræði og sjálfstjórn eða sjálfsákvörðunarréttur, réttur frumbyggja til eignarhalds lands og náttúruauðlinda og menningarleg réttindi og menningararfur, hefðbundin þekking frumbyggja
  • málefni er varða svæðis- og landstjórn
  • umhverfisverndarlög, loftslagsbreytingar, öryggi og umhverfisáhrif loftslagsbreytinga, vernduð svæði og tegundir
  • samningar um eftirlit, stjórnunarhætti og stjórnun umhverfis sjávar, sjávarspendýra, varðveislu sjávarstofna og annarra lífrænna-, jarðefna-, olíuauðlinda
  • hafréttur, minnkun hafíss, landgrunnskröfur
  • landhelgiskröfur og landamæradeilur bæði á landi og sjó
  • friður og öryggi, lausn deilumála
  • málefni sem varða lögsögu og annað í sambandi við rannsóknir, nýtingu og flutning á olíu, gasi og jarðefnum, lífefnaleit
  • viðskiptalög, mögulegar siglingar um norðvestur- og norðausturleiðirnar, siglingalög og flutningalög
  • hlutverk og eiginleg afskipti alþjóðlegra samtaka af heimskautasvæðunum, svo sem Norðurskautsráðsins (Arctic Council), Suðurskautssamningakerfisins (Antarctic Treaty System), Evrópusambandsins, Alþjóðahvalveiðiráðsins, Norðurlandaráðs, NATO og Sameinuðu þjóðanna, auk frjálsra félagasamtaka

Fyrsta tölublaðið inniheldur fyrirlestra sem haldnir voru á fyrstu Ráðstefnu um heimskautarétt (september 2008) og annað tölublaðið mun innihalda fyrirlestra frá annarri Ráðstefnu um heimskautarétt (september 2009).

Minni ráðstefnur eru reglulegur þáttur í akademísku lífi við HA og aðgangur er alltaf án endurgjalds fyrir nemendur. Á suma viðburðina er mætingarskylda fyrir fyrsta árs nema eins og t.d. á lögfræðitorg sem haldið er reglulega og er opið öllum nemendum og almenningi. Á lögfræðitorgi gefst nemendum tækifæri til að íhuga lögfræðileg málefni í samhengi samtímans, til dæmis hefur á undanförnum lögfræðitorgum verið fjallað um efnahagslegar skuldbindingar Íslands, hvað felist í aðild að Evrópusambandinu og nýfallnir dómar skoðaðir. Fyrirlesarar hafa verið allt frá okkar eigin þátttakendum í sviðsettum réttarhöldum til heimsþekktra einstaklinga eins og Hans Blix og Shirin Ebadi.

Í anda rannsóknarmenningar við HA og hefðar við lagadeildir Norður-Ameríku stofnuðu laganemar við HA nýtt tímarit – Lögfræðing – á skólaárinu 2005-2006. Laganemar velja ritstjóra og ritnefnd árlega og tímaritið, sem gefið er út á hverju vori, inniheldur greinar og umsagnir fræðimanna, fagfólks og nemenda. Þrátt fyrir efnahagsaðstæðurnar hefur tímaritið haldið stuðningi frá styrktaraðilum og heldur áfram að vaxa og dafna. Vöxtur tímaritsins hefur meðal annars sýnt sig í því að það verður fyllilega jafningjarýnt tímarit frá og með 4. tölublaði sem kemur út vorið 2010. Það tölublað mun innihalda greinar frá Bretlandi og Bandaríkjunum auk Íslands. Tímaritið er gefið út á pappír en ekki sem nettímarit og er gefið út í nokkrum hundruðum eintaka árlega sem dreift er víða.

Nemendur hafa einnig í mörgum tilfellum nýtt sér þann möguleika að sækja um og fá styrki frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. 

4.2. Hvað þýða rannsóknir kennara fyrir nemendur?

Til þess að nemendur séu tilbúnir til þess að stunda lögfræðistörf, atvinnu í tengdum greinum eða frekara nám við útskrift, er nauðsynlegt að þeir útskrifist með nýjustu þekkingu, þannig að jafnvægi sé á milli fræðilegs skilnings og hagnýtrar þekkingar á einstökum lagareglum og -ferlum.

Nemendur í B.A. náminu lýsa yfir ánægju sinni með það að kennarar hafi sérfræðiþekkingu og geti rætt sitt sérsvið við nemendur. Í rýnihópsviðtali, sögðu nemendur að þegar kennsla námskeiða sé byggð upp af rannsóknum, sé greinilegt að kennararnir hafi mikinn áhuga á því sem þeir eru að kenna og að áhugi þeirra skili sér til bekkjarins.

Námi í heimskautarétti er ekki aðeins ætlað að miðla nýjungum í rannsóknum til nemenda, heldur einnig búa þá undir að stunda eigin rannsóknir og fara frá því að vera „neytendur“ þekkingar til þess að verða „framleiðendur“ þekkingar.

Ljóst er að rannsóknir kennara hafa gríðarlega mikið að segja fyrir markmið og tilgang námsins og eykur gæði námsins til muna.

4.3. Hvernig eru rannsóknaniðurstöður nýttar í kennslu?

Margt af því efni sem kennararnir hafa gefið út sjálfir er notað sem kennsluefni og það á sérstaklega við um heimskautarétt þar sem oft er einfaldlega ekkert annað útgefið efni til. Nemendur geta einnig verið beðnir um að skoða mál sem kennararnir hafa sjálfir unnið við.

Útgefnar bækur og greinar eftir kennara námsbrautarinnar birtast reglulega í kennsluáætlun sem skyldulesning eða val. Á meðal titla eru Timothy Murphy (ritstj.), Western Jurisprudence (2004); Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði – Grundvöllur laga - Réttarheimildir, 2. útg (2007); Guðmundur Alfreðsson og Asbjörn Eide (ritstjórar), The Universal Declaration of Human Rights, 1999; Jakob Möller og Alfred de Zayas, Case Law of the United Nations Human Rights Committee 1997-2007: A handbook (2009); Mikael M. Karlsson „Defeating the Inference from General to Particular Norms“. Ratio Juris 8:3 (1995), 271-286; Rachael Johnstone „Feminist Influences on the United Nations Human Rights Treaty Bodies,“ 28(1) Human Rights Quarterly, 148-185 [2006]; og Natalia Loukacheva, The Arctic PromiseLegal and Political Autonomy of Greenland and Nunavut (2007). 

Sjálfmatshópurinn ræddi leiðir hvernig deildin gæti gert enn meira til tryggja að rannsóknir kennara komi að gagni fyrir nemendur og fyrir kennsluna. Auk þess að setja sitt eigið útgefna efni fyrir sem lesefni, gætu kennarar haldið fyrirlestra á lögfræðitorgi sem hefðu þann tilgang að kynna þær rannsóknir sem kennarar væru að fást við þá stundina en væru enn óbirtar. Sá þáttur menntunarinnar yrði auðvitað betri ef fleiri fastráðnir kennarar væru ráðnir til starfa og meira fé væri varið til rannsókna.

5. Dýpt og breidd námsins

5.1. Hvernig er jafnvægið á milli dýptar og breiddar námsins, þ.e. á milli almennra og sérhæfðra þátta þess?

Saman nær B.A.- og M.L. námið yfir hefðbundnar lögfræðigreinar, þar á meðal tvær helstu gerðir laganáms. Annars vegar kjarnagreinar íslenskra laga og hins vegar hóp námskeiða sem fjalla um sögulega, fræðilega, siðferðislega, alþjóðlega þætti og samanburðarþætti lögfræðinnar.

Það sem er sérstakt við laganám í HA er að þessar tvær gerðir námskeiða eru kenndar í öfugri röð við það sem venja er. B.A. námskeiðin fjalla einkum um sögulega, fræðilega, siðfræðilega, alþjóðlega þætti og samanburðarþætti, en M.L. námskeiðin, sem koma síðar, fjalla um hefðbundnar greinar íslenskrar lögfræði, svo sem samninga-, fasteigna-, skaðabóta- og fjölskyldurétt og einkamál og sakamál. Þrátt fyrir þessa sérstöðu er laganám við HA svipað og laganám annars staðar hvað varðar jafnvægi á milli almennra og sérhæfðra þátta þess.

Hugmyndafræðin á bak við námið er m.a. sú að nemendur séu betur í stakk búnir til að ná góðum tökum á kjarnagreinum íslenskrar lögfræði (eða lögfræði hvaða lögsagnarumdæmis sem er) ef þeir hafa fyrst þekkingarlegan grunn í sögulegum, fræðilegum, siðfræðilegum, alþjóðlegum og samanburðarþáttum lögfræðinnar. Þó skal tekið fram að íslensk lög eru engu að síður kennd á B.A. stiginu, eins og kemur fram annars staðar í þessari skýrslu, og eru kennd námskeið þar sem nemendur eru kynntir fyrir íslensku stjórnarskránni og réttarkerfinu. Meginhluti íslensku lögfræðinnar er þó kennd á M.L. stiginu.

Námið veitir því tækifæri til að læra lögfræði á B.A. stigi fyrst og fremst sem fræðilegt viðfangsefni og að því leyti hentar það mjög vel - og vissulega betur en nám í öðrum lagadeildum gera almennt – fyrir nemendur sem langar að læra lögfræði en ætla sér ekki að starfa sem lögfræðingar. Þessir nemendur eru fleiri en oft er talið. Í Bretlandi kom til dæmis fram í skýrslu lávarðadeildar um lögfræðimenntun frá árinu 1994 að minna en helmingur allra nemenda sem útskrifast úr lagadeildum verða starfandi lögmenn og að „lögfræðigráður frá háskólum muni halda áfram að vera grunnur fyrir ýmis konar starfsferil, ekki eingöngu í lögmannastétt.“ (The Lord Chancellor’s Committee on Legal Education and Conduct – Review of Legal Education: Consultation Paper, efnisgrein 1.21.) Nemendur sem útskrifast með B.A. gráðu í lögfræði frá HA hljóta breiða menntun sem undirbýr þá fyrir ýmis störf og svið framhaldsnáms.

Sú alþjóðlega samanburðarnálgun sem lögð er áhersla á í B.A. náminu nýtist einnig nemendum að því leyti að þeir útskrifast með hæfni til að starfa innan lagakerfa í helstu dómsögum Evrópu. Ólíkt hefðbundnum lagadeildum, þar sem áhersla er lögð á að þjálfa nemendur fyrir störf innan réttarkerfis í tilteknu landi, sér lagadeild HA til þess að útskrifaðir nemendur hafi góðan skilning á undirstöðum helstu réttarkerfa innan evrópska efnahagssvæðisins (EES). Í námskeiðunum í Rómarrétti, einkamálarétti og réttarvenjum öðlast nemendur skilning á sögulegum og núverandi stofnunum annarra evrópskra réttarkerfa og öðlast þá hæfni sem þarf til að finna, túlka og nota lögfræðilegar heimildir innan þessara dómsagna. Auk þjóðaréttar taka B.A. nemar tvö heil námskeið um evrópurétt sem fjalla bæði um stofnanaleg málefni og efnisákvæði evrópskra laga. Á samanburðarnámskeiðum um samningarétt og um eignarrétt og hegningarlög læra nemendur einnig grundvallaratriði þessara sviða í enskum og frönskum lögum, auk þeirra íslensku. (Þessar greinar íslenskra laga eru rannsakaðar til hlítar í M.L. náminu). Námskeiðið um alþjóðlegan einkamálarétt (lagaskil) þjálfar einnig nemendur í að finna út hvaða dómsaga og hvaða lög gilda um hvers konar alþjóðleg deilumál sem falla undir einkarétt. Um 50% B.A. námsins er kennt og metið á ensku. Þetta hjálpar nemendum okkar að þróa enskukunnáttu sína frá óformlegri munnlegri tjáningu á ensku til þess að geta tjáð sig á ensku fagmannlega og af öryggi, bæði í rituðu og mæltu máli. Burtséð frá því hvort Ísland muni halda áfram að sækjast eftir frekari innlimun í Evrópusambandið, mun landið áfram verða virkt í verslun og viðskiptum. Þess vegna er hjá HA lögð mikil áhersla á að útskrifaðir nemendur hafi nægan undirbúning til að starfa í alþjóðlegu lagaumhverfi.

Hins vegar geta þeir sem stefna á lögfræðistörf á Íslandi gert það með því að læra íslensk lög á háu fræðilegu stigi. Þannig geta þeir orðið mjög hæfir lögmenn með aukna vitund um réttarsögu og réttarfræði og sérstaklega góðan skilning á siðfræðilegum, alþjóðlegum og samanburðarþáttum laga.

6. Markhópur

6.1 Á þetta nám sér ákveðinn markhóp?

B.A.-námið er ætlað fyrir nemendur sem hafa áhuga á lögfræði sem fræðilegu viðfangsefni og vilja nálgast það frá félagsvísindalegu, stjórnmálafræðilegu og alþjóðlegu sjónarhorni. Námið er einnig ætlað fyrir nemendur sem vilja læra lögfræði en vilja ekki loka á möguleika sína til að fara í framhaldsnám eða starfa á skyldum sviðum. Um leið er mjög mikilvægt fyrir námið að það laði að nemendur sem hafa góða undirbúningsmenntun, því er lögð áhersla á þá inntökukröfu að nemendur þurfi að hafa lokið stúdentsprófi.

Meistaranám í heimskautarétti er fyrir nemendur sem vilja öðlast fræðilegan og hagnýtan bakgrunn á því sviði laga sem snýr að heimskautasvæðunum. Þegar námi lýkur ættu þeir að vera hæfir til að hefja háskólaferil eða annan starfsferil í heimskautarétti eða skyldum sviðum eins og margir þeirra hyggjast raunar gera. Námið spannar allt frá mannréttindum til hafréttar, frá umhverfisverndarlögum til góðra stjórnarhátta og frá flutningalögum til öryggissjónarmiða. Þó að megináherslan sé á lögfræði er námið að miklu leyti þverfaglegt og því verða teknir inn nemendur með B.A.-gráður í öðrum fögum en lögfræði.

6.2. Fær háskólinn þá nemendur til náms sem hann vill helst fá?

Viðtöl við rýnihópa sem tekin voru í desember 2009 bentu til þess að núverandi laganemar við HA kunni vel að meta að B.A. námið heldur ýmsum leiðum opnum til frekara náms og starfa.

Viðtölin við rýnihópana bentu einnig til þess að nemendur líti á breiðar og alþjóðlegar áherslur B.A. námsins sem mjög jákvæðan eiginleika. Nemendur í M.L. námi lýsa yfir meiri ánægju með B.A. námið en M.L. námið. Þetta styður þá stefnu HA að kenna lögfræði í alþjóðlegri umgjörð fræðilegrar og samanburðarlögfræði.

Kennarar segja að laganemar við HA séu almennt gáfaðir, einbeittir og áhugasamir um námið. Ummæli frá gestakennurum sem hafa reynslu af kennslu við aðra háskóla eru mikils virði hvað þetta varðar. Dr. Garrett Barden, prófessor emeritus við Háskólann í Cork á Írlandi sagði í janúar 2010:

Ég hef nokkrum sinnum á nokkurra ára bili kennt fyrsta, annars og þriðja árs nemum í laganámi við HA. Í 29 ár, frá 1970 til 1999, hef ég kennt námskeið á bakkalárstigi í lögspeki og heimspeki, á Írlandi (Dublin og Cork), í Frakklandi (Rennes), Slóvakíu (Bratislava), í Bandaríkjunum (Maine) og á Íslandi (bæði í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri), og hef verið prófdómari á bakkalárs-, meistara- og doktorsstigi í Bretlandi (Coleraine, Edinborg, Lancaster og Oxford). Á grundvelli reynslu minnar af nemendum í þessum háskólum get ég fullyrt að nemendur við HA standast alþjóðlegar kröfur.

Prófessor Guðmundur Alfreðsson sagði (janúar 2010) að:

Nýstárleg nálgun laganáms við HA, með kennslu í sögulegum, heimspekilegum og siðfræðilegum undirstöðum lögfræði, með viðkomu í stjórnmálafræði og félagsfræði, skapar náminu heilmikla sérstöðu. Það snýst ekki eingöngu um hvað lög eru, heldur hvernig þau ættu að vera eða gætu verið. Að kenna á Akureyri felur því í sér áskorun og er áhugavert að því leyti að nemendur taka virkan þátt í umræðum í tímum og spyrja góðra spurninga.

Prófessor Francesco Milazzo, prófessor í Rómarrétti við Catania-háskóla, sagði (janúar 2010):

Nemendur virtust mjög áhugasamir um það sem ég var að kenna þó að það hafi að sumu leyti verið mjög ólíkt sögulegum og menningarlegum hefðum í þeirra eigin landi. Þeir virtust vilja gera sitt besta til þess að komast inn í viðfangsefnið sem var... þeirra fyrsta lagalega viðfangsefni.

Nemendur í námi í heimskautarétti hafa með því sem þeir hafa sagt í kennslustundum, viðtölum, námskeiðsmati og með vali sínu og rannsóknum á viðfangsefnum fyrir ritgerðir, sýnt mikinn áhuga á viðkomandi efni, og margir þeirra stefna á starfsferil í þessari tiltölulega nýju og vaxandi grein. Varla er hægt að biðja um mikið meira í háskóla. Nemendur víða að frá heimskautasvæðunum hafa skráð sig í þetta nám, þar með taldir embættismenn ríkja og frumbyggjar, en námið yrði enn betra ef það laðaði að fleiri nemendur af því tagi, það er að segja fleira af því fólki sem býr til lögin og sem þarf að búa við þau.

7. Svið og árangur1

8. Alþjóðlegur samanburður

8.1 Er námið byggt á, eða sambærilegt við, nám við erlendan háskóla?

Háskólanám í lögfræði hófst á miðöldum sem fyrst og fremst fræðilegt viðfangsefni, með menntun klerkastéttarinnar í Rómarrétti og kirkjurétti. Þetta kerfi þróaðist svo yfir í kerfi sem sá um menntun starfandi lögmanna, en síðar kom upp andstaða á meðal lögmannastéttarinnar gegn fræðilegri lögfræði sem olli því að starfsnám í lögmennsku varð að viðteknu formi lögfræðimenntunar í upphafi nýaldar. Nútíma lögfræðimenntun í háskólum var komið á undir eftirliti lögfræðingastéttarinnar, sem gaf með semingi eftir hlutverk starfsnáms (námssamninga) í mótun lögfræðinga. Þetta er ástæðan fyrir því að kjarnafög í efnisrétti eins og þau eru venjulega kennd í háskólum nútímans - svo sem samninga-, skaðabóta- og eignaréttur - fjalla að mestu leyti um lagareglur og meginreglur, með lítilli áherslu á sögu þeirra, samhengi eða fræðilegar undirstöður. Þó svo að eitthvað sé fjallað um víðara samhengi laganna – einkum atriði sem varða sögulega, fræðilega, siðfræðilega, alþjóðlega og samanburðarþætti þeirra – er í lagadeildum þar sem megináhersla er lögð á lagabókstafinn gjarnan litið á slíkt sem eins konar viðauka við það sem er talið vera grundvallarhlutverk lagadeilda, að þjálfa fagfólk. Sumir halda því fram að lagadeildum nútímans svipi oft til „iðnskóla“ sem veiti starfsþjálfun, þeir þjóni þörfum lögfræðistéttarinnar frekar en að koma til móts við þarfir nemenda og vísindalegar kröfur.

Spennan á milli vitsmunalegra eða fræðilegra þátta lögfræðinnar annars vegar og hagnýtra og faglegra þátta hins vegar, hefur legið að baki allri umræðu um og þróun lögfræðimenntunar á síðustu árum. Laganámið við HA byrjaði sem ný nálgun á lögfræðimenntun, meðal annars á grundvelli niðurstaðna skýrslna um lögfræðimenntun sem gáfu til kynna að hinir hagnýtu og faglegu þættir væru orðnir of ríkjandi. Þessar skýrslur og kannanir bentu til þess að of mikil áhersla væri lögð á lagabókstafinn, jafnvel þegar lögfræðimenntun væri eingöngu skoðuð sem fagmenntun. Til dæmis var í Ormrodskýrslunni (1971) í Bretlandi rannsakað æskilegt sambland háskóla- og starfsþjálfunarþátta í lögfræðimenntun og því haldið fram að til þess að öðlast þá hæfni sem krafist er af lögmönnum nútímans þurfi háskólamenntun að vera stór þáttur lögfræðimenntunar. Fagmaður í lögfræði, segir í skýrslunni, „þarfnast nógu almennrar og víðtækrar menntun til þess að geta aðlagast nýjum og ólíkum aðstæðum eftir því sem starfsferill hans þróast ... Hann þarf jafnframt að geta beitt gagnrýninni nálgun á gildandi lög, skilja félagslegar afleiðingar þeirra og hafa áhuga á, og jákvæða afstöðu til, framfara og breytinga sem tengjast faginu.“ (Report of the Committee on Legal Education (Cmnd 4595, HMSO, London, 1971), efnisgrein 100.) Á svipuðum nótum segir í Pearce-skýrslunni í Ástralíu (1987) að við menntun laganema sé æskilegt að þroska vitsmuni nemandans í anda frjálsrar athugunar og að hvetja til sjálfstæðrar hugsunar og spurninga um lögin:

Gott grunnnám í lögfræði ætti að veita fræðilega undirstöðu fyrir ævilanga gagnrýna íhugun um stofnanir réttarríkisins, starfsgreinarnar og sín eigin störf, í hinum raunverulegu og síbreytilegu aðstæðum samfélagsins og lögfræðigeirans ... Í lögfræðinámi ættu nemendur að öðlast skilning á ferlum og starfsemi lög- og réttarstofnana í þjóðfélaginu, hinum ýmsu aðferðum félagslegrar stýringar, siðferðislegum og pólitískum viðhorfum sem felist í lögunum og því hvernig starfshlutverk eru hugsuð, spurningum um réttlæti, mikilvægi félagslegra, pólitískra og siðferðislegra kenninga fyrir lögin, réttarstofnanir og hvernig þær breytast og þróast, og því hvaða vitneskju og lærdóm megi draga af félagsvísindum og félagsvísindarannsóknum og hafa til hliðsjónar við mat á lögunum. (D. Pearce et al., Australian Law Schools: A Discipline Assessment for the Commonwealth Tertiary Education Commission (Australian Government Publishing Service, Canberra, 1987), 1. bindi, bls. 105.)

Í víðara samhengi er kjarninn í hugmyndafræði laganáms HA sú hugmynd að háskólamenntun eigi ekki eingöngu að snúast um vélræna færni, heldur gefa fólki tækifæri til að læra að hugsa og kynna sér hugmyndir upp á eigin spýtur og endurspegla aukna fræðilega og faglega íhugun:

Lagadeild ...sem telur sitt hlutverk vera að veita lögfræðingum starfsþjálfun ... er á villigötum. Lögfræðikunnáttu er betra að læra af starfandi lögmönnum og í starfi. Lagadeild er staður til að læra, rannsaka, gagnrýna og koma með tillögur að úrbótum á því regluverki sem hvert dómskerfi samanstendur af. Kennara í lögfræði ber engin skylda til að þjálfa lögfræðinga, nema í þeim mikilvæga skilningi að sjá til þess að þegar þeir gangi til liðs við starfsgreinina hafi þeir djúpan skilning, ekki aðeins á því hvernig lög virka, heldur á því hvernig þau gætu virkað betur. (M. Spence, „The Role of the Law Professor in Legal Education“, Ræða haldin við China University of Political Science and Law, í maí 2002.) 

Margar lagadeildir um allan heim hafa breytt áherslum í lögfræðimenntun frá hagnýtum og faglegum þáttum til kenningarlegra og fræðilegra þátta. Til dæmis er grunnnám í lögfræði við Oxfordháskóla hugsað á svipaðan hátt og námið við HA:

Kennsluskráin í Oxford inniheldur viðfangsefni sem valin eru fyrst og fremst vegna fræðilegs mikilvægis þeirra, frekar en þess hversu oft þau koma upp í starfi lögfræðinga. Hins vegar nýtist sú færni í rannsóknum, hugsun og framsetningu sem nemendur öðlast við Oxford sérlega vel í starfi, og það vita vinnuveitendur. Jafnframt nýtist þessi færni jafn vel utan lögfræðinnar og innan hennar. (University of Oxford2)

Raunar er líklega engin lagadeild rígbundin við lagabókstafinn á öllum sínum námskeiðum. Flestar deildir bjóða hins vegar samhengismiðaðar greinar sem valfög, en hjá HA eru þessar greinar undirstaðan sem B.A. námið er byggt á.

Sú áhersla sem lögð er á almenna og breiða menntun á bakkalárstigi við lagadeild HA, þar með talin námskeið sem kennd eru af erlendum gestakennurum, hefur ýmsa kosti fyrir nemendur. Auk áðurnefndra kosta lýsa laganemar við HA yfir ánægju sinni með þann undirbúning sem námið veitir fyrir framhaldsnám á alþjóðlegu stigi (rýnihópsviðtal 2009). Það er minna skref að taka fyrir nemanda sem er vanur að taka námskeið á ensku og skrifa ritgerðir og taka próf á ensku. Margir nemendur velja að skrifa B.A. ritgerðir sínar á ensku til þess að búa sig undir nám eða störf á erlendri grund. Nemendur eru einnig ánægðir með að þeir fá að og ætlast er í raun til að þeir komi með tillögur að efni fyrir lokaritgerðir sínar, ólíkt sumum lagadeildum þar sem nemendur fá aðeins að velja sér efni af takmörkuðum lista.

Lagadeild HA er einstök og sérstaða hennar felst í þeirri miklu áherslu sem lögð er á kenningarlega, fræðilega og samanburðarlega færni í grunnnáminu, með tiltölulega litla áherslu á hagnýta lögfræðikunnáttu á því stigi. Engu að síður er samþjöppun hagnýtrar kunnáttu í framhaldsgráðu að vissu leyti sambærileg við lögfræðimenntun í löndum sem hafa réttarvenju utan Norður-Ameríku (þar sem lögfræði er framhaldsnám). Hefðbundin lögfræðimenntun í löndum með réttarvenju – og HA kerfið einnig – felur í sér að nemendur ljúki laganámi sínu og einbeiti sér að því að öðlast þá færni sem þarf til þess að standast embættispróf og hefja starfsferil sinn. Við hefðbundnar skoskar lagadeildir er til dæmis venja að taka fjögurra ára heiðursgráðu á bakkalárstigi í lögfræði, og þar á eftir eins árs framhaldsgráðu (diplómu í hagnýtri lögfræði) fyrir þá sem vilja starfa sem lögmenn eða málflutningsmenn. Þó að efnisréttur eða grunnfög lögfræðinnar séu kennd á fyrstu tveimur árunum, er námskeiðum á þriðja og fjórða ári ætlað að auka fræðilega og gagnrýna færni nemenda. Þess vegna laðar skoska lögfræðigráðan að marga nemendur sem ætla ekki að fara í diplómunám á framhaldsstigi og taka embættispróf sem lögmenn eða málflutningsmenn. Það er í starfsnáminu í lögfræði til diplómugráðu, skyldugráðu fyrir hvern þann sem vill starfa sem lögmaður, sem hagnýt lögfræði er kennd, með áherslu á réttarkerfið, gerð afsalsbréfa og þá færni sem þarf til að starfa sem lögmaður í einkageiranum. Markmið námsins er að „nemendur komi sér upp hagnýtri kunnáttu svo að tryggt sé að flutningurinn frá háskóla til starfsþjálfunar gangi eins snurðulaust fyrir sig og hægt er“ og „brúa bilið á milli háskólanáms og hagnýts fagnáms.“ (University of Glasgow3)

Á Englandi og í Wales er í báðum af þeim tveimur meginleiðum sem í boði eru til að öðlast starfsréttindi sem lögmaður eða málaflutningsmaður gerður greinarmunur á fræðilegum hluta námsins og hagnýtri lagakunnáttu sem kennd er síðar. Algengasta leiðin er sú að nemandinn taki þriggja ára gráðu í lögfræði, aftur með sterku fræðilegu ívafi til viðbótar við grunngreinar lögfræðinnar, og svo nám í hagnýtri lögfræði (fyrir lögmenn) sem er svipað og skoska diplómagráðan eða „Bar“-starfsnámið (fyrir málaflutningsmenn). Verðandi lögmenn hafa einnig þann valkost að taka hvaða grunnnám sem er, þvínæst eins árs lögfræðinám sem lýkur með diplómu í lögfræði á framhaldsstigi, og halda svo áfram og taka starfsnám í lögfræði eða „Bar“ - starfsnám. 

8.2 Býður námið upp á námsumhverfi sem er samkeppnishæft við erlenda háskóla?

Laganámið við HA býður upp á námsumhverfi sem er samkeppnishæft við erlenda háskóla með mjög lágt hlutfall nemenda á hvern kennara, einstaklega aðgengilega kennara, gott bókasafn og mjög gott millisafnalánakerfi, nýjasta tæknibúnað til styðja við kennslu á öllu háskólasvæðinu og fyrsta flokks stoðþjónustu við nemendur.

8.2.1. Kennarar

Kennarar við deildina eru ýmist fastráðnir eða ráðnir tímabundið. Fastar stöður eru auglýstar en tímabundnar stöður eru notaðar til að sinna tímabundnum þörfum, t.d. vegna þróunar nýrra námskeiða, rannsóknarleyfa og fæðingarorlofa. Á námsárinu 2009-2010 voru ígildi 5,35 heilla staðna við lagadeildina.

Yfirleitt hafa kennarar í lögfræði á Íslandi aðeins verið með menntun upp að meistarastigi, en báðir kennararnir í fullu starfi hjá HA eru með doktorsgráður og jafnframt einn lektor í hlutastarfi. Frekari upplýsingar um einstaka starfsmenn og ritaskrá þeirra er hægt að nálgast á vefsíðu HA.

Stundakennarar og gestakennarar eru því mikilvægur hluti kennaraliðsins í lagadeild HA. Þeir eru ráðnir til að kenna eitt námskeið (eða hluta námskeiðs) í einu og um 3-5 námskeið eru kennd á þennan hátt á meðalári í B.A. námi, 2-4 námskeið í M.L. námi og 5-6 námskeið í námi í heimskautarétti. Skólaárið 2009-2010 sáu stundakennarar eða gestakennarar um 26,3% af kennslunni í lagadeild, restin var kennd af kennurum við lagadeild HA (65,3%) og kennurum við aðrar deildir (8,4%).

Þrátt fyrir að starfsfólk sé tiltölulega fáliðað er þess gætt að það komi ekki óþarflega niður á því námi sem í boði er fyrir nemendur. Samt sem áður er hagstætt hlutfall nemenda á hvern kennara og nemendur og fast starfsfólk hefur aðgang að hinum tiltölulega mörgu gestakennurum okkar, flestir þeirra eru reglulegir gestir og eru því kunnugir námsumhverfi HA. Þeir eru einnig í flestum tilfellum mjög reyndir háskólakennarar auk þess að vera sérfræðingar í þeim greinum sem þeir kenna. Þeim er öllum vísað á starfsmannahandbókina sem er á ensku svo að hún sé aðgengileg gestafræðimönnum sem koma erlendis frá. Í handbókinni eru teknar saman helstu upplýsingar varðandi námkröfur, námsmatsstaðla og grunnstjórnunarskyldur umsjónarmanna námskeiða. Þá eru þar einnig stuttar leiðbeiningar um fyrirkomulag greiðslna fyrir kennslu, kynningu á þjónustu sem í boði er við HA og á nærliggjandi svæði og tenglar á reglur og reglugerðir háskólans (meðal annars prófareglur og siðareglur). Engu að síður væri æskilegt að bæta við fastráðnum kennurum, einkum í ljósi þeirrar miklu stjórnunarbyrði sem fylgir því að reka þrjár námsbrautir.

8.2.2. Áhersla á gæði

Öll námskeið í lagadeild HA hafa skýr námsmarkmið. Allir okkar starfsmenn hafa bæði getu og vilja til að hjálpa nemendum að ná þeim markmiðum með kennslu sinni og námsstuðningi og við sem lagadeild leitumst sífellt við að bæta og auðga þá menntun sem við bjóðum nemendum okkar. Í samræmi við Berlínarumboðið (sem vísað er til í Bergenskýrslunni), gerum við okkur grein fyrir því að þó að sjálfsforræði okkar sem stofnunar sé okkur gríðarlega mikilvægt, felur það einnig í sér mikla ábyrgð. Við gerum okkur grein fyrir því að til að viðhalda trausti nemenda og annarra hagsmunaaðila í æðri lögfræðimenntun, stöðu okkar sem samkeppnishæfrar deildar á alþjóðavísu og til þess að ná markmiðum okkar, er mikilvægt að vera með formlegt kerfi fyrir viðurkenningar, reglulega endurskoðun og eftirlit með námi okkar og styrkjum. Við leggjum mikla áherslu á, eins og HA almennt, að skapa menningu þar sem skilningur er á gildi gæða og gæðatryggingar.

Upplýsingar sem safnað er í könnunum eru notaðar til að bæta og tryggja gæði námsbrauta okkar og námskeiða. Í lok hverrar annar fær forseti hug- og félagsvísindasviðs rafrænt afrit af öllu námskeiðsmati . Forsetinn skoðar sérstaklega þá kennara og námskeið sem fá lága einkunn eða neikvætt mat frá nemendum. Það getur leitt til sérstaks viðtals þar sem kennarinn og forsetinn fara yfir matið og ákveða hvað megi betur fara. Allir aðjúnktar, lektorar, dósentar og prófessorar eru einnig kallaðir í starfsþróunarviðtal tvisvar á ári, og eiga rétt á slíku viðtali árlega ef þeir kjósa frekar. Aðferðarlýsing fyrir þessi viðtöl gerir ráð fyrir að farið sé yfir námskeiðsmat, bæði út frá því hvað megi bæta og líka til þess að hrósa fyrir og viðurkenna góðan árangur.

Könnunin sem nú stendur yfir á meðal útskrifaðra nemendaverður að sama skapi notuð til þess að auka gæði B.A.- og M.L. náms við HA. Einkum mun lagadeildin nota þessar upplýsingar til þess að tryggja að í sameiningu uppfylli námslínurnar það tvíbenta hlutverk að gefa nemendum traustan undirbúning fyrir framhaldsnám og að undirbúa nemendur sem útskrifast úr M.L. náminu fyrir störf í íslensku réttarkerfi.

9. Viðmiðanir og gæðakröfur fyrir nemendur og háskóla4

10. Útskrifaðir nemendur

10.1. Er upplýsingum safnað um hvernig útskrifuðum nemendum vegnar á vinnumarkaðnum eða í framhaldsnámi?

Deildin safnaði nýlega upplýsingum um hvernig útskrifuðum nemendum vegnar á vinnumarkaðnum eða í framhaldsnámi. Haustið 2009 var tekinn saman spurningalisti og hann sendur til allra nemenda sem höfðu útskrifast úr B.A.- og M.L. náminu (sjá viðauka 16). Úrvinnsla upplýsinga úr þessari könnun er enn í gangi þegar þessi skýrsla er rituð, en þær verða tiltækar þegar skólinn verður heimsóttur.

Eins og tafla 15 sýnir hefur lagadeild HA útskrifað alls 76 nemendur, þar með talið 56 með B.A. gráðu, 16 með M.L. gráðu og 4 með diplómu í heimskautarétti.

Gráða \ ár 2006 2007 2008 2009 Samtals
B.A. 11 14 19 12 56
M.L.     10 6 16
Dipl. PL       4 4
Samtals 11 14 29 22 76

Tafla 15. Útskrifaðir nemendur frá lagadeild HA.

Tafla 16 sýnir að af 56 útskrifuðum nemendum úr B.A. náminu, eru 42 annað hvort skráðir í (27) eða hafa þegar útskrifast úr (15) framhaldsnámi í lögfræði við HA, þ.e. M.L. námi og námi í heimskautarétti. Útskrifuðu nemendurnir
15 hafa hugsanlega farið í annað framhaldsnám, farið út á vinnumarkaðinn, stofnað fjölskyldur o.s.frv. Áhugavert verður að sjá af spurningalistunum hvernig þeim hefur vegnað.

Núverandi staða FJöldi útskrifaðra B.A. nema
Þegar útskrifaðir frá HA með M.L. gráðu 14
Eru skráðir í M.L. nám við HA 24
Hafa þegar útskrifast frá HA með diplómu í heimskautarétti 1
Eru skráðir í nám í heimskautarétti við HA 2
Eru skráðir bæði í M.L. nám og nám í heimskautarétti 1
Hvorki skráðir í né hafa útskrifast úr framhaldsnámi í lögfræði við HA 14
Samtals 56

Tafla 16. Framgangur útskrifaðra B.A.-nema til framhaldsnáms við HA.

Könnunin mun einnig veita gagnlegar upplýsingar um þá 16 nemendur sem hafa útskrifast úr M.L. náminu. Eins og áður var minnst á vitum við nú þegar að af þeim 10 M.L. nemum sem útskrifuðust 2008, eru níu starfandi lögmenn, þrír í Reykjavík, tveir á Akureyri og fjórir á öðrum stöðum á landinu. Tíundi útskrifaði nemandinn hefur verið valinn til þess að stjórna fræðilegu verkefni um mannréttindi, en verkefnið er í bið vegna fjárskorts. Af þeim sex M.L. nemum sem útskrifuðust 2009, starfa þrír sem lögmenn hjá lögfræðifyrirtæki, tveir á Akureyri og einn í Reykjavík.

Nemendum sem hafa útskrifast úr M.L. námi okkar hefur því almennt gengið vel að finna störf við hæfi. Þeir hafa einnig sannað sig sem verðmætir starfskraftar. Eftirfarandi umsagnir þess efnis voru gefnar í janúar 2010:

Pacta - Lögmenn réði lögfræðing með mastersgráðu frá HA, sem hefur núna hlotið héraðsdómslögmannsréttindi. Hann hefur fyllilega staðist væntingar okkar. Hann hefur sinnt verkefnum sínum af fagmennsku og áttað sig á þeim lagalegu atriðum sem máli skipta í hverju máli. Sú lögfræðimenntun sem hann hlaut hjá HA hefur að mínu áliti gert hann víðsýnan, sem gerir hann mjög hæfan takast á við ýmis verkefni. Kennararnir eru lögmenn sem koma úr ólíkum áttum: þessi blanda af lögfræðingum og fræðimönnum sem eru þekktir fyrir sín fræðistörf, og starfandi lögmönnum sem stunda mikla kennslu er mikill kostur fyrir nemendur. Samkvæmt minni reynslu af þessum lögmanni hlýt ég að draga þá ályktun að skipulag laganáms við HA skapi góð skilyrði fyrir laganema til þess að öðlast skilning og þekkingu í gegnum nám sitt sem gagnast þeim mjög vel við störf hjá hvaða lögfræðifyrirtæki sem er.

Ólafur Rúnar Ólafsson, hdl.
Svæðisstjóri, Pacta - Lögmenn á Norðurlandi. Hafnarstræti 91-95, 600 Akureyri /
Laugavegi 99, 101 Reykjavík

–– –

V hefur núna starfað á lögmannsstofu okkar í tvö ár við góðan orðstír. Hún er skörp, skynsöm og dugleg, og hefur því sambland eiginleika sem eru oft mjög gagnlegir í starfi. Þó að ég hafi gleymt hvernig þetta var nákvæmlega, man ég að í fyrstu hélt að ef til vill myndi eitthvað skorta á undirbúning fyrir lögfræðistörf hjá útskriftarnema frá HA. Þær áhyggjur reyndust óþarfar en við megum auðvitað ekki gleyma því að málflutningsréttindanámskeiðið - sem flestir lögmenn reyna að taka eins snemma og hægt er - er viðbót við og upprifjun á lögfræðimenntun þeirra. Námskeiðið skapar vissan sameiginlegan þekkingargrunn fyrir lögmenn með ólíkan bakgrunn sem áður var ekki til staðar (þ.e. áður en námskeiðið var sett á laggirnar). Ég er því mjög ánægður með starfsmann minn frá HA.

Þórður Bogason hrl.
LÖGMENN HÖFÐABAKKA, Höfðabakki 9, 6. hæð 110 Reykjavík

–– –

Sýslumaðurinn á Akureyri hefur í eitt og hálft ár haft starfandi lögmann sem útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri. Reynsla okkar af þessum lögmanni hefur verið mjög góð að öllu leyti. Þekkingin sem hún kom með úr prófinu virðist góð vegna þess að hún á mjög auðvelt með að leysa verkefni sem hún hefur þurft að fást við. Lagaleg röksemdafærsla hennar er góð og grunnþekking hennar er almennt mjög góð; hún er fljót að fletta upp öllum nauðsynlegum og viðeigandi upplýsingum og veit hvar og hvernig á að finna þær. Þó að aðalverksvið hennar sé nauðungaruppboð, hefur hún einnig sinnt ýmsum öðrum verkefnum svo sem á sviði fjölskylduréttar, lögreglumála og skráningar eigna og fasteigna. Öll verk hafa verið vel af hendi leyst og af öryggi. Ég get hiklaust sagt að sá undirbúningur sem hún hlaut í háskólanámi sínu var góður og hefur verið mjög nytsamlegur í starfi hennar.

Björn Jósef Arnviðarson, Sýslumaðurinn á Akureyri.

Þriðja sönnunin er viðhengi í viðauka 17, viðtal frá janúar 2010 í bæjarblaðinu Vikudegi við lögfræðing sem útskrifaðist 2009. og sem ráðinn var í stöðu sem mikil samkeppni var um hjá lögmannsstofunni LEX.

Til marks um mikilvæga alþjóðlega vídd lögfræðimenntunar við HA hafa fjórir af útskriftarnemum okkar fengið vinnu við utanríkisráðuneytið og einn er forstöðumaður leyfasviðs hjá Útlendingastofnun.

Þó að laganám við HA sé tiltölulega nýtt af nálinni í lagamenntun á Íslandi er ekki komin nægileg reynsla á það til að segja til um hvernig útskrifaðir nemendur spjara sig á vinnumarkaðnum. Þó að fyrstu merkin séu jákvæð heldur HA áfram að taka saman og greina allar viðeigandi upplýsingar og nota þær við áframhaldandi þróun námsins til þess að tryggja að nemendur sem útskrifast frá okkur geti búist við enn meiri velgengni í framtíðinni.

11. Þróun námsins og framtíðarsýn

11.1 Hver er framtíðarsýn háskólans hvað varðar námið og deildina?

HA vonast til að halda áfram að byggja á þeim trausta grunni lögfræðimenntunar sem þegar er til staðar við skólann. HA hefur þurft að búa við ónógar fjárveitingar um árabil og þetta vandamál hefur versnað við núverandi efnahagskreppu. Hins vegar býst HA við því að þegar efnahagsástandið batni muni skólinn geta stækkað lagadeildina, bæði með því að bæta við nemendum og starfsfólki. Þá yrði hægt að bjóða upp á fleiri valnámskeið fyrir nemendur á öllum stigum námsins og þar með námsgráður sem væru sérsniðnar að þörfum hvers nemanda. Stækkun náms í heimskautarétti er einnig fyrirséð. Í þessu alþjóðlega verkefni sem margir háskólar taka þátt í, þarf að tryggja áframhaldandi þátttöku alþjóðlegra fræðimanna í fremstu röð, en jafnframt myndi það auðga námið að gefa því meiri jarðtengingu með fleira starfsfólki sem byggi á staðnum.

Bættar fjárhagsaðstæður myndu einnig gera HA kleift að fjárfesta meira í rannsóknarstuðningi fyrir akademíska starfsmenn í lagadeild og ná hraðar því markmiði sínu að verða miðstöð viðurkenndra alþjóðlegra rannsókna í hæsta gæðaflokki. Þetta myndi hafa beinar og jákvæðar afleiðingar fyrir allt nám í lögfræði, án þess gera lítið úr þeim hágæðarannsóknum sem stundaðar eru af fræðimönnunum tveimur í lögfræði og alþjóðlega rómaðri fræðimennsku margra af kennara í heimskautaréttarnáminu. Stærri hópur rannsakenda myndi hafa áhrif á námsefnið og kennsluna og það gæfi nemendum tækifæri til að uppgötva ný og síbreytileg lögfræðileg viðfangsefni sem lægju utan ramma einstakra námskeiða.

11.2. Telur háskólinn að breyta þurfi náminu?

HA er almennt mjög ánægður með þá framúrskarandi kennslu og rannsóknir sem stundaðar eru í hinni fáliðuðu lagadeild. Sérstaklega er nýstárleg námsumgjörðin talin samræmast því kennslufræðilega markmiði að útskrifa á Íslandi lærða, framsækna nemendur og vel undirbúna til fullrar þátttöku í samfélaginu. Þó að námið sjálft sé talið standa á traustum grunni er nauðsynlegt að bæta við starfsfólki í deildinni, sérstaklega í nánustu framtíð, með því að ráða fastráðinn sérfræðing í íslenskri lögfræði í fullt starf.

12. Samantekt og niðurstöður

Í því sérstæða laganámi sem í boði er hjá HA eru gerðar miklar kröfur hvað varðar nýsköpun og gæði. B.A. námið er byggt upp sem breitt félagsfræðilegt nám þar sem lögfræði og lögspeki eru skoðuð í sögulegu, félagslegu og heimspekilegu samhengi. M.L. námið er hins vegar mjög hagnýtt, með áherslu á íslensk lög og réttarkerfi. Saman veita B.A.- og M.L. námið undirbúning fyrir lögfræðistörf og það hefur sýnt sig að þeir sem útskrifast úr þessu námi þykja góðir starfsmenn og yfirmenn þeirra eru ánægðir með færni þeirra og þekkingu. Nýja námið í heimskautarétti festir HA í sessi sem miðstöð brautryðjendastarfs í rannsóknum og menntun innan ört vaxandi, spennandi og lítt rannsakaðrar greinar.

Laganámið fellur vel saman við hlutverk og stefnu HA og hefur verið mikilvægur liður í því að breyta HA úr starfsmenntaháskóla í alhliða akademískt háskólasamfélag.

Kennarar lagadeildar HA eru mjög virkir í rannsóknum og vinna sér inn töluvert fleiri rannsóknarstig að meðaltali á ári en starfsfélagar þeirra í öðrum deildum HA og sennilega víðar. Margir stundakennarar og gestakennarar eru einnig virkir í rannsóknum og rannsóknir kennaranna við deildina eru almennt vel kynntar í kennsluskrá. Deildin er aðsetur Yearbook of Polar Law (Árbókar um heimskautarétt) sem gefin er út af Brill Academic Publishers og lögfræðiritsins Lögfræðings. Deildin heldur ýmsar ráðstefnur og opinbera fyrirlestra, meðal annars hina árlegu Ráðstefnu um heimskautarétt (Polar Law Symposium) þar sem helstu fræðimenn í faginu ræða um nýjustu rannsóknir sínar.

Nemendum fer fjölgandi. Stærð nýnemahópsins hefur sveiflast frá 16 (haustið 2007) til 35 (haustið 2009). Þó að allt sé gert til að tryggja góða þátttöku í hverju námskeiði er hlutfall nemenda á hvern kennara mjög hagstætt. Hins vegar skapar hátt hlutfall stundakennara og gestakennara stjórnsýslulegt álag sem þarf að draga úr. Ný lektorsstaða verður auglýst vorið 2010 með það í huga að ráða sérfræðing í íslenskri lögfræði.

Árið 2009 var meðaltal beins kostnaðar á hvern nemanda í fullu námi 529.950 krónur í beinan kostnað og 517.095 krónur í fastakostnað, með því að taka eins margt með í útreikninginn og hægt var.

Þó að lagadeild HA hafi sérstöðu á meðal íslenskra lagadeilda fylgir nálgun hennar á lögfræðimenntun fordæmi margra lagaskóla víða um heim sem hafa breytt áherslum lögfræðimenntunar frá hagnýtum og faglegum þáttum til fræðilegra þátta. Þar má nefna menntastofnanir sem eru í fremstu röð í heiminum, svo sem Oxfordháskóla og Háskólann í Glasgow. Laganám við HA er því mikilvægur liður í að ná því markmiði að lögfræðimenntun á Íslandi uppfylli alþjóðleg skilyrði. Námsumhverfið er einnig samkeppnishæft á alþjóðavísu.

Gæðamat á lagadeild er framkvæmt af gæðaráði HA og forseta hug- og félagsvísindasviðs. Einstök námskeið eru metin með spurningalista fyrir nemendur og einnig hver námslína í heild. Álit sem fengið er á þennan hátt er notað bæði til þess að bæta námskeiðin og á breiðari grundvelli, til að bæta uppbyggingu og skipulag námsins.

Alls útskrifuðust 76 lögfræðingar frá lagadeild HA á árunum 2006-2009. Verið er að gera könnun til að meta hvernig þessum útskriftarnemum hefur vegnað. Þeim sem útskrifast úr M.L. náminu hefur almennt gengið vel að finna vinnu sem lögmenn og þeir starfa flestir utan Reykjavíkursvæðisins. Yfirmenn þeirra hafa gefið frammistöðu þeirra hæstu einkunn.

Í heildina litið hefur HA tekist að ná því markmiði að skapa nýja umgjörð fyrir laganám á Íslandi og útskrifa lærða, framsækna lögfræðinga sem hafa til að bera þá færni sem hagsmunaaðilar skólans sækjast eftir. Með áframhaldandi fjárfestingu og fjölgun starfsfólks er hægt að viðhalda þessu markmiði og halda áfram að vinna að því í framtíðinni. 

Neðanmálsgreinar

1. Hluta 7 er að finna í upprunalegu skýrslunni 

2.  http://www.ox.ac.uk/admissions/undergraduate_courses/courses/law_jurisprudence/law_4.html 

3. http://www.gla.ac.uk/departments/schooloflaw/diploma/ 

4. Hluta 9 er að finna í upprunalegu skýrslunni 

 

 



Efnisyfirlit


Núverandi tölublað

Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd

Síðasta tölublað

Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun

Fréttir

22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing


Lögfræðingur ©2023 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN