Ritdómur eftir Margréti Heinreksdóttur

Ritdómur eftir Margréti Heinreksdóttur


Grein birt í: Lögfræðingur 2011

Mál Mannréttindanefndar SÞ 1977-2008 – Handbók Jakob Þ. Möller & Alfred de Zayas Útgefandi bókaforlagið N.P. Engel1 2009, 603 bls.

Nýlega var gefin út athyglisverð og afar vönduð handbók um álitsgerðir mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna2 - nefndarinnar sem starfað hefur á grundvelli alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi3 - um kærumál sem hún hefur fjallað um samkvæmt heimild í fyrsta valfrjálsa viðaukanum við þann samning.Heiti bókarinnar á ensku er “United Nations Human Rights Committee - Case Law 1977- 2008 og undirtitill “A Handbook”. Höfundar eru Jakob Þ. Möller og Alfred de Zayas. Er óhætt að fullyrða, að fræðimenn, kennarar, lögmenn og aðrir sem vinna að mannréttindamálum muni fagna þessari bók, slíkur fróðleiksbrunnur sem hún er, auk þess að vera einkar skemmtileg aflestrar.

Höfundarnir eru eins nákunnugir efninu og unnt er að vera, báðir starfsmenn Mannréttindanefndarinnar til áratuga. Jakob hafði í 25 ár yfirumsjón með kærum vegna mannréttindabrota5 - eða “erindum” (communications) sem þær hafa gjarnan verið kallaðar; vann við það fram að lögskipuðum eftirlaunaaldri starfsmanna Sameinuðu Þjóðanna (SÞ), en þá tóku við ekki minni annir hans sem dómari við mannréttindadómstólinn fyrir Bosníu og Herzegovínu og síðan sem forseti mannréttindanefndar stjórnskipunardómstóls þess lands. Á árunum 2004-2008 átti hann jafnframt sæti í undirnefnd SÞ um útbreiðslu og vernd mannréttinda.6 Jakob hefur undanfarin ár kennt lögfræðinemum við Háskólann á Akureyri og er þar nú prófessor í þjóðarétti. Alfred de Zayas var aðstoðarmaður Jakobs í 15 ár, tók svo við af honum og hefur síðan haft með höndum fleiri störf hjá nefndinni7 auk þess að kenna við ýmsa háskóla.8 Síðustu fimm árin hefur hann verið prófessor í þjóðarétti við Diplómataskólann í Genf.9 Formála að bókinni skrifar Andreas Mavrommatis frá Kýpur og lýkur á hana miklu lofsorði. Hann átti sjálfur sæti í nefndinni frá 1977 til 1996 og nauðaþekkir því störf hennar og höfundanna tveggja. Bókin er tileinkuð norska mannréttindafræðingnum Torkel Opsahl, sem einnig sat í nefndinni frá upphafi til ársins 1986. Þess má geta að hann átti sinn þátt í því, að íslensk stjórnvöld létu verða af staðfestingu alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi hinn 22. ágúst 1979, en þá hafði samningurinn legið einhversstaðar í skúffu frá undirritun (þegar 30. desember 1968) og beðið þýðingar og aðlögunar íslenskra laga að ákvæðum hans.

Handbók þeirra Jakobs Þ. Möllers og Alfreds de Zayas er viðamikið rit, 603 blaðsíður. Hún skiptist í sjö kafla, sem hver um sig greinist aftur í mismarga undirþætti, auk sex viðauka. Fyrstu þrír kaflarnir fjalla um verksvið og starfsemi mannréttindanefndarinnar, vinnuaðferðir hennar og þau skilyrði sem kærumál þurfa að uppfylla til að hún taki þau til meðferðar, sbr. IV. kafla samningsins sjálfs sem og ákvæði viðaukans. Fjórði kafli bókarinnar er þungamiðja hennar og sá viðamesti. Hann sýnir hvernig nefndin hefur túlkað efnisleg réttindaákvæði mannréttindasamningsins en kæruheimild einstaklinga í valfrjálsa viðaukanum á eingöngu við þau. Síðan koma kaflar V-VII um þær úrbætur, sem nefndin hefur lagt til þegar hún hefur komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn ákvæðum samningsins, þá um eftirfylgni niðurstaðnanna og um þróun álitsgerða, þ.e. hvernig túlkun nefndarinnar hefur breyst í áranna rás. Í eftirmála eru afar ítarleg ritaskrá, valfrjálsi viðaukinn við samninginn, úrdrættir úr vinnureglum nefndarinnar,10 listi yfir ríkin sem staðfest hafa valfrjálsa viðaukann og erindi þeim tengd; ennfremur listar yfir öll málin sem vísað er til í bókinni og alla sem setið hafa í nefndinni frá upphafi til ársins 2009. Að lokum orðaskrá. Bókin dregur þannig upp skýra og að því er virðist býsna tæmandi heildarmynd af hinu merkilega starfi sem unnið hefur verið á þessum vettvangi. Af mörgu, sem gaman væri og ástæða til að nefna af viðamiklu efni bókarinnar, verður hér aðeins af handahófi minnst á fáein atriði.

Mannréttindaverndarkerfi SÞ er margþætt og hefur tekið ýmsum breytingum í áranna rás. Allt frá upphafi hefur fjöldi einstaklinga leitað til samtakanna vegna mannréttindabrota og smám saman voru markaðar sérstakar leiðir sem þeir gátu farið til að fá umkvörtunum sínum sinnt. Urðu þær einkum tvenns konar: annarsvegar til Mannréttindanefndar SÞ11 samkvæmt heimildum í ályktunum Efnahags - og félagsmálaráðs SÞ (ECOSOC) nr. 1235 og 1503 og hinsvegar til mannréttindanefndarinnar, samkvæmt heimild í valfrjálsa viðaukanum við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Er munurinn á þessum kæruleiðum skýrður í upphafi bókarinnar.

Alþjóðasamningurinn var undirritaður 16. desember 1966 og þá um leið valfrjálsi viðaukinn sem oft er nefndur „bókun“. Þar kveður svo á í 1. gr. að „Aðildarríki að samningnum, sem gerist aðili að þessari bókun, viðurkennir lögbærni nefndarinnar til þess að veita móttöku og athuga erindi frá einstaklingum, sem falla undir lögsögu þess, er halda því fram að þeir hafi orðið fyrir skerðingu af hálfu þess aðildarríkis á einhverjum þeirra réttinda sem lýst er í samningnum. Nefndin skal ekki veita erindi móttöku ef það varðar ríki sem er aðili að samningnum en er ekki aðili að þessari bókun.”12 Samningurinn gekk í gildi 23. mars 1976 eftir að 35 ríki höfðu staðfest hann og tólf þeirra viðaukann sérstaklega.13

Nefndin, sem vísað var til í ofangreindri 1. gr. valfrjálsu bókunarinnar, sbr. 28. gr. samningsins sjálfs, var sett á laggirnar 20. september 1976, skipuð 18 sjálfstæðum sérfræðingum og hóf hún störf 1. janúar 1977.14 Þegar bókin var skrifuð hafði nefndin tekið afstöðu til 1800 einstakra kærumála/ erinda sem tóku til 82ja aðildarríkja valfrjálsu bókunarinnar. Ákvæði 40.-41. gr. samningsins sjálfs ætla henni að taka við, fara yfir og fylgja eftir skýrslum frá aðildarríkjunum um ástand mannréttindamála hjá þeim og hvernig þau hafa staðið að framkvæmd samningsins svo og að fjalla um kærur aðildarríkjanna hvers gegn öðru, sem mun reyndar lítt eða ekkert hafa verið um því að ríki eru treg til að nýta slíkar heimildir. Síðast en ekki síst hefur nefndin látið frá sér fara tugi skýringa, svonefndra „almennra athugasemda“ (general comments) um hvernig túlka skuli einstakar greinar hans, ríkjunum og fræðimönnum til leiðbeiningar.

Mikilvægt er að einstaklingar (og lögmenn þeirra), sem hyggjast leita til nefndarinnar geri sér glögga grein fyrir þeim skilyrðum, formlegum og efnislegum, sem íhuga þarf fyrirfram, eigi að vera von til þess að nefndin taki kærur til greina, ella er hætt við að tíma og fé sé til einskis varið. Í bókinni eru þessi skilyrði sett fram í 15 liðum og skýrð rækilega en meðal þeirra eru; að kæran sé frá nafngreindum einstaklingum (eða fulltrúum þeirra), sem telja að á sér hafi verið brotin einhver þau réttindi, sem samningurinn kveður á um; að kærendur lúti lögsögu þess ríkis, sem kærurnar beinast að, að ríkið hafi staðfest samninginn og viðaukann og ekki gert fyrirvara við þau ákvæði samningsins sem talin eru hafa verið brotin; að kærandi rökstyðji nægilega að ríkið hafi brotið á honum viðkomandi réttindi og það hafi gerst eftir að ríkið staðfesti samninginn, að kæran samrýmist ákvæðum hans og kært hafi verið innan hæfilegra tímamarka; að ekki sé verið að misnota kæruréttinn; að kærandi hafi tæmt öll úrræði til að ná rétti sínum innan eigin ríkis og ekki sé verið að fjalla um eða skera úr um sama mál á öðrum alþjóðlegum vettvangi.15

Fjórði kafli bókarinnar, um túlkun réttindaákvæðanna í álitsgerðum nefndarinnar, skiptist í þrjá hluta sem samsvara uppsetningunni í samningnum. Fyrsti hlutinn er um rétt þjóða til sjálfsákvörðunar, sem stendur sér á báti í 1. gr. Enda þótt sá réttur hafi þarna verið bundinn í alþjóðasamning í fyrsta sinn hefur nefndin ekki beitt ákvæðinu beint þar sem litið er á sjálfsákvörðunarréttinn sem sameiginleg réttindi einstakra þjóða (collective rights) og utan umboðs nefndarinnar; hún fjallar eingöngu um brot á réttindum einstaklinga. Nefndin hefur þó – án þess að reyna að skilgreina hugtakið þjóð, nokkuð sem lengi hefur vafist fyrir fræðimönnum - stuðst við ákvæðið við túlkun á öðrum réttindum, t.d. skv. 25., 26. og 27. gr. Í öðrum hluta er fjallað um ákvæði 2.-5. gr. Ákvæði 2. gr. kveða meðal annars á um skyldur ríkja til að tryggja – með löggjöf og öðrum ráðstöfunum - öllum einstaklingum innan lögsögu þeirra þau réttindi, sem samningurinn kveður á um, svo og rétt allra brotaþola til úrbóta fyrir óhlutdrægum úrskurðaraðilum. Þriðja greinin fjallar um jafnrétti kynjanna, sú fjórða um frávik sem heimiluð eru á tímum neyðarástands og ákvæði 5. gr. um að ekkert í samningnum megi túlka þannig að heimili skerðingu eða eyðileggingu þeirra réttinda sem hann kveður á um. Þessum ákvæðum er sjaldan beitt sjálfstætt heldur vísað til þeirra í tengslum við brot á öðrum réttindum. Höfundar benda á, að hugsanlega muni réttindin í 2. gr. verða sjálfstæðari er fram líða stundir, einkum ákvæði 3. mgr. um skyldu ríkja til að tryggja brotaþolum úrbætur fyrir sjálfstæðum úrskurðaraðilum.

Þriðji hluti fjórða kafla, sem er á fjórða hundrað blaðsíðna, tekur síðan fyrir túlkanir nefndarinnar á þeim réttindum sem felast í 6. – 27. gr. en þau eru svo mörg og margþætt að of langt yrði upp að telja. Sérstakur þáttur er um hverja grein samningsins, hver öðrum áhugaverðari, sá viðamesti um 14. gr. - réttinn til sanngjarnra réttarhalda (the right to a fair hearing) - hann tekur yfir 75 bls. Greinarnar eru skráðar í heild í upphafi og síðan tilgreint hvernig hvert einstakt atriði þeirra hefur verið túlkað í einstökum málum, sem rakin eru hvert af öðru. Framsetning skýringa er til fyrirmyndar, atriði skýrt afmörkuð með tölu- og bókstöfum og sérstökum fyrirsögnum, sem raktar eru í efnisskrá ásamt blaðsíðutali hverrar um sig og því auðvelt fyrir notendur handbókarinnar að fletta upp einstökum atriðum. Allur texti er afar skýr og hnitmiðaður.

Skilningur nefndarinnar á ýmsum atriðum hefur breyst með árunum svo sem eðlilegt er þar sem ákvæðin eru það sem fræðimenn kalla “lifandi lög” þ.e. að merking þeirra getur tekið breytingum í samræmi við breytta tíma og tíðaranda. Sem dæmi má nefna afstöðuna til dauðarefsingar og framsals einstaklinga til ríkja þar sem hún er enn við líði; hún hefur tekið stakkaskiptum frá því að samningurinn gekk í gildi og orðið til þess að nýr viðauki hefur verið gerður við hann um afnám dauðarefsingar.16 Einnig hafa viðhorf breyst mjög til persónuréttinda ýmiss konar, jafnræðis, kynhneigðar o.fl.

Í VII. kafla bókarinnar eru helstu breytingarnar teknar saman, bæði formlegar breytingar og efnislegar og þróunin rakin. Efnislegar breytingar eru tilgreindar í níu réttindaákvæðum, númer 6, 7, 10, 12, 16, 17, 18, 26 og 27. Þar er margt fróðlegt að sjá, ekki síst hvernig skilningur nefndarmanna á 26. gr. hefur breyst og dýpkað með árunum; svo sem á hvað í því felist að allir skuli jafnir fyrir landslögum - sem sé ekki einungis bann við misrétti heldur og við því að lögum sé beitt af handahófi. Ennfremur hvernig nefndin fór smám saman að beita ákvæðinu um lög sem kveða á um réttindi utan samningsins sjálfs, t. d. félagsleg réttindi og eignarréttindi. Nefndin hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort slík réttindi skuli tryggð með lögum en sé það á annað borð gert verði allir að vera jafnir fyrir þeim lögum.17 Að vísu sé mismunun á stundum hugsanleg en hún verði þá að byggja á hlutlægum og sanngjörnum sjónarmiðum. Höfundar telja að með tímanum geti þetta ákvæði orðið að sjálfstæðum rétti til réttlætis – „right to justice“.

Formlegu breytingarnar taka m.a. til sönnunarbyrði, túlkunar á fyrirvörum ríkja við einstök ákvæði samningsins, skoðunar og meðferðar mála sem áður hafa komið á borð annarra alþjóðlegra úrskurðaraðila og umboðs nefndarinnar til að fjalla um mál sem rakin hafa verið til ályktana Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í hinni svonefndu baráttu gegn hryðjuverkum – en mannréttindabrot hafa verið framin og varin á grundvelli laga sem ríki hafa sett, að þau töldu, í samræmi við þær. Enda þótt tekið sé fram í 103. gr. stofnsáttmála SÞ (sem ríki hafa borið fyrir sig) að hann gildi umfram aðra alþjóðasamninga hefur nefndin talið sig geta skorið úr um það hvort þannig sett landslög gangi gegn ákvæðum samningsins. Höfundar bókarinnar benda jafnframt á, að vernd mannréttinda er eitt af meginmarkmiðum og grundvallarreglum samtakanna, svo sem sjá má bæði í formála stofnsáttmálans og ákvæðum 1., 2., 55., og 56. gr. hans, auk þess sem segi í 24. gr. hans að Öryggisráðið skuli starfa í samræmi við markmið og grunnreglur samtakanna. Því sé ráðið ekki hafið yfir mannréttindalög.

Athyglisvert er hvernig höfundar gera skil tillögum nefndarinnar til úrbóta þegar hún hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði samningsins, eitt eða fleiri, hafi verið brotin. Þeir fara þá leið að tilgreina í tímaröð ársskýrslur nefndarinnar til ECOSOC og sýna breytingarnar sem tillögurnar hafa tekið í áranna rás. Þeir benda á, að ávallt hafi verið ágreiningslaust innan nefndarinnar að henni bæri að skera úr um það hvort og hvaða ákvæði samningsins hefðu verið brotin í hverju einstöku tilviki; hinsvegar hafi ekki verið einhugur um það í upphafi hvort henni væri heimilt að ganga svo langt að kveða upp úr með það í álitsgerðum að hinum brotlegu ríkjum bæri að gera einhverjar ráðstafanir til að bæta fyrir brot sín. Sumir nefndarmanna voru því andvígir, töldu að það mætti túlka sem íhlutun í innanríkismál ríkjanna í bága við 7. tl. 2. gr. stofnsáttmála SÞ.

Hafa ber í huga að starf nefndarinnar hófst þegar kalda stríðið svonefnda milli Austurs og Vesturs var í hámarki og ríki innan beggja fylkinganna brugðust ókvæða við hverskonar utanaðkomandi afskiptum af mannréttindabrotum þeirra, gjarnan með vísan til þessa ákvæðis stofnsáttmálans.18 Það tók mannréttindasamtök og mannréttindalögfræðinga langan tíma að sýna fram á að stofnsáttmáli SÞ gerði ráð fyrir því að baráttan fyrir mannréttindum væri alþjóðlegt viðfangsefni.

Samkomulag varð um að nefndin segði sem svo, að hún væri þeirrar skoðunar, að aðildarríki samningsins hefðu með staðfestingu hans gengist undir þá skyldu að gera þegar í stað ráðstafanir til þess að tryggja að ákvæði hans næðu fram að ganga og tryggja raunverulegar úrbætur þeim sem á hefði verið brotið.19 Þessu orðalagi var síðan haldið alla tíð en fljótt var farið að tilgreina tiltekin atriði til úrbóta. Var þá (enska) orðið „include“ notað í því skyni („to provide effective remedies to the victims, including........“ Á íslensku mætti líklega segja „meðal annars...“ eða „þar með talin...“ o.s.frv.). Þegar í máli frá 1980 voru tilgreindar skaðabætur, sem mætti ætla að hafi legið nokkuð beint við þar sem brotið hafði verið gegn ákvæði 4. mgr. 9. gr og kveðið er á um slíkar bætur í 5. mgr. 9. gr. – en álitamál mun hafa verið í upphafi hvort bótaákvæðið skyldi ná til annarra en 1. mgr. ákvæðisins. Síðar sama ár er bætt við í öðru máli, að viðkomandi ríki beri að gera ráðstafanir til að tryggja að ekki komi til svipaðra brota í framtíðinni, orðalag sem síðan er endurtekið í álitsgerðum áratugum saman. Svo bætist við hvert atriðið af öðru. Í lok kaflans eru rakin þau úrræði sem nefndin hefur lagt til (included) í áranna rás og tekur sú upptalning heilar þrjár blaðsíður. Sem dæmi má nefna tillögur um að lögum og stjórnsýsluháttum verði breytt, að einstaklingum, sem brotið hefur verið á eða fjölskyldum þeirra, verði greiddar skaðabætur, að fangar verði látnir lausir, að dauðarefsingu verði breytt í fangavist, að réttað verði á ný í málum fanga, að fangar verði náðaðir, að aðstæður í fangelsum verði bættar, að uppteknum eignum verði skilað, að aflétt verði banni við afskiptum af stjórnmálum, að vegabréf verði gefin út, að menn fái að fara úr landi, að rannsakaðar verði vísbendingar um mannshvörf, pyntingar, illa og vanvirðandi meðferð og handahófsaftökur – og þannig mætti áfram telja.

Í VI. kafla bókarinnar er fjallað um þær leiðir sem nefndin hefur getað farið til að fylgja því eftir að ríki fari eftir tilmælum hennar en hvorki samningurinn sjálfur né valfrjálsa bókunin geyma ákvæði þar um. Álitsgerðir nefndarinnar eru ekki bindandi og jafngilda ekki dómum. Því er það fyrst og fremst sómatilfinning ríkisstjórna sem ræður því hvort þær fara að tilmælum hennar. Það hefur í fjölmörgum tilvikum verið gert og ljóst að niðurstöður hennar hafa haft mikil áhrif – með alvarlegum undantekningum þó. Lengi vel fór nefndin ekki einu sinni fram á að ríki gerðu grein fyrir því hvort eða hvernig þau hefðu brugðist við álitsgerðunum. Sum gerðu það að eigin frumkvæði, önnur ekki. Það var ekki fyrr en með breytingunum í kjölfar hruns sovétkapitalismans að nefndin bætti inn í álitsgerð, í nóvember 1989, að henni þætti gott að fá slíkar upplýsingar. Í kjölfarið var settur sérstakur starfsmaður til að sjá um eftirfylgnina.20 Eftir það var farið að setja ríkjunum tiltekna svarfresti.

Fyrir kemur að höfundar bókarinnar eru ekki alls kostar sáttir við ákvarðanir nefndarinnar en gagnrýni þeirra er ákaflega kurteisleg – og virðist reyndar stundum svolítið undir rós. Að mati greinarhöfundar er þetta kostur, gerir textann trúverðugri en ef hann hefði litast mjög af skoðunum höfunda. Þeir leyfa lesandanum sjálfum að finna og dæma hvar honum finnst pottur brotinn. Einna helst setja þeir beint út á orðalag úrbótakrafnanna, sem þeir telja ekki nægilega skýrt og er ekki annað hægt en að vera sammála þeim um það. Þeir benda á, að með því að nota orðið „including“ á eftir aðalkröfunni um „remedies“ / „effective remedies“ /„appropriate remedies“ vakni spurningar um hvað viðkomandi ríkjum beri að gera, hvað í því felist; hvort þau eigi að komast upp með að gera einungis það sem er „included“ eða hvort þau eigi að gera eitthvað frekar – og þá hvað? Svipað er að segja um hugsanlegar skaðabætur, fjárhæðir eru yfirleitt ekki tilteknar heldur aðeins talað um „appropriate compensation“ – eða eitthvað á þá leið. Fjárhæðin er því háð hentistefnu stjórnvalda í hverju tilviki.

Að lokum er rétt að benda á athugasemdir höfunda um úrbæturnar sem lagðar voru til í síðasta málinu sem um er fjallað í bókinni, kvótamálinu íslenska; erindi nr. 1306/2004: Haraldsson o.fl. gegn Íslandi. Nefndin kvað upp álit sitt á málinu hinn 24. október 2007 og er um það fjallað í ársskýrslunni frá 2008. Niðurstaða nefndarinnar var sú, að íslenska ríkinu bæri að sjá kærendum fyrir viðunandi úrbótum, þar á meðal hæfilegum skaðabótum svo og að endurskoða þyrfti fiskveiðistjórnunarkerfið - vafalaust með það í huga, segja bókarhöfundar, að kærendur og aðrir í sömu aðstöðu og þeir sæti ekki áfram broti á jafnræðisreglu 26. gr. samningsins. Þarna er gagnrýni höfunda hvað beittust; þeir spyrja í fyrsta lagi, hvort nefndin hafi haft í huga einhverja sérstaka upphæð skaðabóta eða formúlu sem nota mætti til að reikna út hvaða bætur væru hæfilegar og í öðru lagi, hvort hún hafi haft í huga einhverjar sérstakar breytingar á fiskveiðikerfinu sem gæti samræmt það ákvæðum 26. gr. Er að lokum spurt, hvort sá tími sé ef til vill kominn að ríki geti ætlast til skýrari tilmæla til úrbóta en hingað til. Höfundar segjast eindregið þeirrar skoðunar.

Hér hefur verið stiklað á nokkrum steinum af ótalmörgum og verðmætum sem finna má í þessari bók. Hún er mikill fengur öllum sem áhuga hafa á og starfa að mannréttindamálum og eiga höfundar bestu þakkir skilið fyrir að deila með okkur hinni miklu og víðtæku þekkingu sinni á starfi mannréttindanefndar SÞ. 

Neðanmálsgreinar

1. Hefur gefið út rit um mannréttindi síðan 1974.

2.  The Human Rights Committee.

3. The International Covenant on Civil and Political Rights – ICCPR - samþykktur 16.12.1966 með ályktun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 2200A (XXI). í gildi 23. mars 1976.

4. Optional Protocol to the International Covenant on Civil and Political Rights. Samþykktur og gekk í gildi um leið og samningurinn sjálfur.

5. Chief of the Communications Branch at the United Nations Centre for Human Rights/Office of the high Commissioner for Human Rights 1971-1996. 

6. The United Nations Sub-Commission on the Promotion and Protection of Human Rights.

7. Deputy to the Chief of the Communications Branch of the United Nations Centre for Human Rights (1981- 1996); Secretary, Human Rights Committee (1998-2000); Chief of the Petitions Unit (200-2002) at the Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights.

8. Visiting Professor of International Law at DePaul University College of Law, Chicago (1993-1994), University of British Columbia, Vancouver (2003).

9. Geneva School of Diplomacy. 

10. Rules of Procedure concerning the Optional Protocol Procedure.

11. The Human Rights Commission sem nú hefur vikið fyrir nýju Mannréttindaráði. 

12. Opinber þýðing utanríkisráðuneytis Íslands.

13. Samkvæmt upplýsingavef Sameinuðu þjóðanna, www.un.org 19.01.2011, hafa 167 ríki staðfest samninginn sjálfan og 113 þeirra bókunina.

14. Sbr. 28. gr. samningsins. 

15. Sjá III. kafla, bls. 51 – 117. 

16. Second Optional Protocol to the International Covenant on Civil and Political Rights, aiming at the abolition of the death penalty. Samþykkur 15. desember 1989 með ályktun Allsherjarþings Sameinuðu Þjóðanna nr. 44/128. Gekk í gildi 11. júlí 1991 og hefur nú (jan. 2011) verið staðfestur af 73 ríkjum.

17. 26. gr. Allir eru jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Lögin skulu því í þessu skyni banna hvers konar mismunun og ábyrgjast öllum mönnum jafna og raunhæfa vernd gegn mismunun svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. 

18. Títt hefur t.d. verið að upplýsingum í skýrslum alþjóðasamtakanna Amnesty International og bréfaskriftum til stjórnvalda á vegum þeirra sé vísað á bug sem afskiptum af innanríkismálum andstæðum þessu ákvæði stofnsáttmálans.

19. “The Human Rights Committee (....) is of the view that the State party is under an obligation to take immediate steps to ensure strict observance of the provisions of the Covenant and to provide effective remedies to the victims” – (bls. 456). 

20.  Special Rapporteur on Follow-up – sá fyrsti var útnefndur 24. júlí 1990. 

 

 

 Efnisyfirlit


Núverandi tölublað

Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd

Síðasta tölublað

Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun

Fréttir

22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing


Lögfræðingur ©2021 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN