Birna Ágústsdóttir

Birna Ágústsdóttir

Birna Ágústsdóttir starfar sem lögfræðingur hjá innheimtumiðstöð sýslumannsins á Blönduósi. Greinin er byggð á lokaritgerð hennar til M.L. prófs í lögfræði við Háskólann á Akureyri.


Grein birt í: Lögfræðingur 2011

ICESAVE: Ber íslenska ríkið ábyrgð á grundvelli megin- reglna Evrópuréttar um bann við mismunun á grundvelli ríkis- fangs og bótaskyldu ríkis?

1. Inngangur

Icesave-deila íslenska ríkisins við breska og hollenska ríkið hefur vart farið framhjá mörgum Íslendingum. Deilan er sprottin af tilskipun Evrópusambandsins nr. 94/19/EB um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, en ábyrgð Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta samkvæmt tilskipuninni varð virk gagnvart breskum og hollenskum innstæðueigendum við fall Landsbanka Íslands haustið 2008. Sjóðurinn átti ekki til ráðstöfunar fjármuni sem dugað gátu til endurgreiðslu innstæðnanna. Sökum þess fóru breska og hollenska ríkið fram á að íslenska ríkið ábyrgðist lán þeirra til sjóðsins, en ríkin höfðu þegar bætt þarlendum innstæðueigendum tapið. Deilan hefur reynst einhver sú alvarlegasta milliríkjadeila sem íslenska ríkið hefur átt aðild að, en hún er enn óleyst þegar þetta er ritað.

Almennt bera ríki á Evrópska efnahagssvæðinu ekki ábyrgð á innstæðum umfram greiðslugetu innstæðutryggingasjóða sinna. Er ályktun þessi dregin af því að tilskipunin hefur ekki að geyma skýrt ákvæði um ríkisábyrgð, en þvert á móti kemur fram í 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. hennar að óheimilt sé að veita innstæðum ríkisábyrgð í stað þess að setja upp tryggingakerfi í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar; tryggingakerfi sem fjármögnuð skulu af innlánsstofnunum hvers ríkis. Þá er markmið tilskipunarinnar m.a. að greiða fyrir frjálsum viðskiptum án ríkisafskipta, og eru því hvers konar ríkisstyrkir í raun andstæðir tilgangi hennar. Í ljósi þessa verður ekki dvalið við vangaveltur um túlkun tilskipunarinnar í leit að ákvæði sem veita kann innstæðum beina og óskoraða ríkisábyrgð.

Tvennt hefur sérstaklega verið nefnt því til stuðnings að íslenska ríkið beri þrátt fyrir framangreinda ábyrgð á innstæðum þeim er lágu á Icesavereikningum Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi. Annars vegar hefur ábyrgð íslenska ríkisins verið rökstudd með þeim hætti að tilskipun 94/19/ EB hafi verið innleidd með röngum hætti hér á landi, og beri íslenska ríkið því bótaábyrgð gagnvart þeim einstaklingum sem urðu fyrir tjóni sökum hinnar röngu innleiðingar; breskum og hollenskum innstæðueigendum. Hins vegar hefur íslenska ríkið verið talið bera ábyrgð á grundvelli reglunnar um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs, með því að hafa tryggt innstæður í innlendum útibúum bankanna að fullu. Umfjöllun greinarinnar verður afmörkuð við þessa þætti, auk þess sem tæpt verður stuttlega á vangaveltum sem komið hafa upp um stöðu deilunnar innan Evrópuréttar.

2. Innleiðing tilskipunar 94/19/EB í íslenskan rétt

Rétt er að geta þess í upphafi að tilskipanir Evrópusambandsins eru í eðli sínu rammalöggjöf. Ekki er ætlast til að þær séu innleiddar orðrétt í landsrétt, heldur er með tilskipun sett fram bindandi efnislegt markmið en ríkjunum er eftirlátið að velja viðeigandi leið til að ná því markmiði. Ríkin hafa því nokkurt svigrúm hvað innleiðingu varðar, þ.e.a.s. hvernig þær verða innleiddar og hvert efnislegt inntak reglnanna verður nákvæmlega. Ríkjunum ber þó ávallt að innleiða efni tilskipunar í landsrétt með viðunandi hætti innan tímamarka sem tilgreind eru í ákvæðum hennar.1 Tilskipun 94/19/EB er nú innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, en hafði fram til ársins 1999 falist í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði.

Á vef Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) kemur fram að tilskipunin hafi verið innleidd að fullu hér á landi með lögum nr. 98/1999 og reglugerð um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 120/2000. Ekkert hefur komið þar fram sem gefur til kynna að Ísland hafi ekki innleitt tilskipunina með réttum hætti, en ætla má að helstu ákvæði laganna hafi verið send ESA, sbr. 2. mgr. 14. gr. tilskipunarinnar, án þess að sérstakar athugasemdir hafi verið gerðar við efni þeirra, eða við form og aðferðir við innleiðingu.2

Samkvæmt 3. gr. tilskipunarinnar skal hvert aðildarríki tryggja að innan svæðis þess verði a.m.k. einu viðurkenndu innlánatryggingakerfi komið á fót, og megi engin lánastofnun sem starfsleyfi hefur í aðildarríki taka við innlánum án þess að vera aðili að slíku kerfi. Skulu hin viðurkenndu innlánatryggingakerfi skv. 1. mgr. 4. gr. ná yfir innlánseigendur hjá útibúum er lánastofnanir stofna í öðrum aðildarríkjum. Þannig skyldi íslenska innlánatryggingakerfið t.a.m. ná yfir eigendur innlána á Icesave-reikningum í Bretlandi og Hollandi. Í 1. mgr. 7. gr. segir að innlánatryggingakerfi skuli kveða á um (e. stipulate) að samanlögð innlán hvers innlánseiganda verði að vera tryggð upp að 20.000 evrum verði þau ótiltæk hjá lánastofnun. Þá er áskilið í 1. mgr. 14. gr. að ríki setji lög, reglugerðir eða stjórnsýslufyrirmæli sem nauðsynleg eru til að framfylgja tilskipuninni. Í 2. mgr. kemur fram að ríkin skuli koma áleiðis til framkvæmdastjórnarinnar, hér ESA, megin ákvæðum landslaga sem tekin eru upp á því sviði sem tilskipunin tekur til. Með lögum nr. 98/1999 voru sett ákvæði til samræmis við áskilnað tilskipunarinnar um öll þessi atriði.

Í tilskipuninni er ekki kveðið á um samræmingu reglna um fjármögnun eða lágmarkseign tryggingakerfa, aðrar en þær að fjármögnun skuli vera á hendi aðildarfyrirtækjanna sjálfra. Við samanburð rannsóknarnefndar Alþingis á lögfestum lágmarkseignum tryggingarsjóða einstakra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu kom í ljós að algengt var að miðað væri við 0,5 - 1,5% tryggðra innstæðna. Viðmið íslenskra laga, 1% tryggðra innstæðna, var því í líkingu við það sem algengt var í öðrum aðildarríkjum. Ljóst er því að almennt var ekki gengið útfrá því að tryggingakerfin gætu fullnægt greiðsluskyldu vegna allra tryggðra innstæðna á hverjum tíma með sjóðseign sinni einni sér. Í lögum þeirra ríkja er samanburðurinn tók til var þá almennt ekki tekið á þeirri stöðu sem upp gæti komið, að eignir innlánatryggingakerfis dygðu ekki til greiðslu innstæðna, að öðru leyti en því að lántöku- heimildir stjórna sjóðanna voru fyrir hendi í einhverjum tilfellum, en þó ekki öllum.3

2.1. Um mögulega bótaskyldu íslenska ríkisins

Tilskipun 94/19/EB geymir eins og fyrr segir ekki ákvæði sem gefur skýrt til kynna ábyrgð ríkis reynist tryggingakerfi þess ekki fullnægjandi til greiðslu innstæðna við greiðslufall viðskiptabanka eða sparisjóðs, enda myndi slíkt ákvæði vera andstætt tilgangi hennar. Þess í stað hefur verið talið að grundvalla megi ábyrgð íslenska ríkisins gagnvart innstæðueigendum Icesavereikninga Landsbankans á reglunni um bótaskyldu ríkis, með því að tilskipunin hafi ekki verið innleidd hér á landi með fullnægjandi hætti.

Meginregla EES-réttar um bótaskyldu ríkis vegna ófullnægjandi innleiðingar er almennt rakin til dóms EFTA-dómstólsins í máli Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur gegn Íslandi, E-9/97. Í dóminum koma fram þrjú skilyrði fyrir bótaskyldu; að löggjöf sem brotið er gegn feli í sér rétt til handa einstaklingum, að brotið sé nægilega alvarlegt og að orsakasamband sé milli brots ríkisins og tjóns einstaklingsins.4 Til bótaskyldu ríkis stofnast þannig aðeins hafi alvarleg vanræksla átt sér stað við innleiðingu EES-réttar í landsrétt.

Í áliti yfirlögsögumanns dómstóls Evrópusambandsins í máli Peter Paul o.fl. gegn þýska ríkinu, C-222/02, var talið óumdeilt að 7. gr. tilskipunar 94/19/EB, um 20.000 evra lágmarkstryggingu, færði einstaklingum sjálfstæðan rétt sem byggja mætti á fyrir dómstólum tryggði innlánatryggingakerfi ekki bætur í samræmi við ákvæði hennar.5 Skilyrðið um orsakasamband væri án vafa uppfyllt í málinu, en það hvort 7. gr. verði talin fela í sér takmarkalausan rétt til handa einstaklingum og hvort meint brot íslenska ríkisins getur talist nægjanlega alvarlegt þarfnast hins vegar frekari skoðunar.

Ákvæði 24. mgr. aðfaraorða tilskipunarinnar hefur í þessu sambandi sérstaka þýðingu, en þar segir að aðildarríki verði ekki ábyrg gagnvart innstæðueigendum hafi þau komið á fót tryggingakerfum sem tryggja vernd í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Raunar er það við gagnályktun frá ákvæði þessu sem ríkisábyrgð hefur einna helst verið studd, þ.e. að aðildarríki geti verið ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef tryggingarkerfi hefur annaðhvort ekki verið komið á fót eða verið komið á fót án þess þó að það tryggi vernd í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar.Á hinn bóginn hafa komið fram sjónarmið um að nefnd 24. mgr. hafi verið sett í þeim tilgangi beinlínis að takmarka bótaskyldu ríkja vegna hættu á því að óeðlilegur kostnaður gæti annars lent á aðildarríkjum við fall fjármálafyrirtækja. Til bótaskyldu gæti því ekki stofnast hefði ríki sett upp tryggingakerfi er væri greiðsluhæft til útborgunar lágmarkstryggingar við bankaáfall sem með sanngirni mætti búast við að gæti átt sér stað. Þar sem ljóst væri að flest aðildarríki væru ekki í stakk búin til að takast á við stórkostlegt bankahrun (e. major banking crisis), yrði ríki ekki talið ábyrgt kæmi síðar í ljós að kerfið gæti ekki tryggt bætur þegar á reyndi, hefðu fjármögnunarreglur kerfisins verið taldar viðunandi.7

Í samanburði við önnur ríki verður að telja að Ísland hafi uppfyllt þær kröfur sem tilskipunin beinlínis gerir til aðildarríkjanna, þ.e. með því að hafa sett upp opinberlega viðurkennt innlánatryggingakerfi sem veita skyldi umrædda 20.000 evra lágmarksvernd eða tryggingu einstaklings gegn greiðsluerfiðleikum lánastofnunar – jafnvel þó eignir sjóðsins hafi ekki dugað til þegar á reyndi. Með lögum nr. 98/1999 er sett fram regluverk fyrir umrætt kerfi, áskilnaður gerður um aðild viðeigandi fyrirtækja og útibúa þeirra, reglur settar um greiðslur þeirra í tryggingarsjóðinn og lántökuheimild veitt stjórn sjóðsins undir kringumstæðum þar sem eignir hrökkva ekki til greiðslu krafna vegna tapaðra innstæðna.

Rétt er að ekki var fyrir hendi nægilegt fé í Tryggingarsjóði innstæðueig- enda og fjárfesta til greiðslu innstæðna þegar 85% íslenska bankakerfisins hrundu svo gott sem á einni nóttu. Verður hér talið að slíkar fjárhæðir hafi ekki þurft að liggja innan tryggingarkerfisins til að tilskipunin teldist rétt innleidd að þessu leyti, enda í henni gert ráð fyrir að aðildarfyrirtækin sjálf fjármögnuðu kerfið og að fjármögnun þess mætti ekki stefna stöðugleika viðkomandi bankakerfis í hættu, sbr. 23. mgr. aðfaraorða tilskipunarinnar. Innheimta fjárhæða sem staðið hefðu undir hruni sem þessu hefði seint gengið upp, enda hefði þá verulega stór hluti innlána hjá bönkum verið innheimtur og varðveittur í tryggingarsjóði um ókomna tíð, með tilheyrandi áhrifum á rekstrargrundvöll fyrir innlánastarfsemi hérlendis, og þ.a.l. hefðbundinni starfsemi viðskiptabanka. Verður af þessum sökum talið að með veitingu lántökuheimildar til stjórnar sjóðsins, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999, til viðbótar inngreiðslureglum, hafi íslenska ríkið undir öllum eðlilegum kringumstæðum uppfyllt skyldu sína að „setja upp innlánatryggingakerfi er tryggi innstæðueigendum lágmarksvernd“, þó svo að umrætt kerfi hafi ekki átt til ráðstöfunar sjóði til að greiða þær gríðarlegu fjárhæðir sem á hann féllu við hrun bankanna haustið 2008, undir afar sérstökum kringumstæðum. Áréttað skal að ekki voru gerðar athugasemdir af hálfu ESA við reglur þær er settar voru hér á landi, og hlýtur því að mega telja að íslenska kerfið hafi þótt fullnægja áskilnaði tilskipunarinnar með viðunandi hætti, að formi og efni til.

Þess má til viðbótar geta að í niðurstöðum rannsóknar sem framkvæmdastjórn ESB lét gera á skilvirkni innlánatryggingakerfa ESB-ríkja kom fram að þó að innlánatryggingakerfi virtust geta staðist minniháttar áföll væri getu þeirra greinileg takmörk sett; að meðaltali gætu þau, án takmarkalausrar lántöku, aðeins staðist fall eins aðildarfyrirtækis af 64% þeirra minnstu. Þannig hefði meðaltryggingakerfið innan ESB almennt ekki getað staðist fall eins banka af þeim stærstu er mynduðu 34% aðildarfyrirtækja, hvað þá fall allra þeirra banka er mynduðu u.þ.b. 85% aðildarfyrirtækja, eins og raunin varð hér á landi.8

Í ljósi framangreinds verður hér talið að ekki hafi verið um brot að ræða við innleiðingu tilskipunar 94/19/EB í íslenskan rétt. Tilskipunin var innleidd með tilliti til markmiða hennar, inngreiðslureglur voru sambærilegar því sem við lýði var í öðrum aðildarríkjum og lántökuheimild stjórnar sjóðsins til staðar er nýta mætti hrykkju eignir sjóðsins ekki til greiðslna vegna tapaðra innstæðna. Ónæg sjóðseign ein og sér er ekki talin geta fullnægt broti gegn 7. gr. tilskipunarinnar eða vanrækslu við innleiðingu hennar, því síður alvarlegu broti, en við mat á alvarleika brots er fyrst og fremst litið til þess hvort aðildarríki hafi með bersýnilegum og alvarlegum hætti litið framhjá takmörkunum á svigrúmi sínu til ákvarðanatöku við innleiðingu. Þá er metið hve skýru og nákvæmu ákvæði er farið gegn, hve mikið svigrúm stjórnvöld aðildarríkis höfðu til mats og hvort brot hafi verið framið af ásetningi.9

Þá má halda því fram að ströng gagnályktun frá 24. mgr. aðfaraorða tilskipunarinnar, um hvort heldur sem er beina ábyrgð eða bótaskyldu ríkis á þann veg að ríki verði ávallt ábyrg, þ.e. teljist ekki hafa innleitt tilskipun 94/19/EB með réttum hætti, tryggi kerfin ekki bætur með sjóðseign eingöngu þegar á reynir, setji fram de facto ríkisábyrgð. Gengur slík gagnályktun þvert á það bann sem lagt er við ríkisábyrgð í 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Hlýtur „óbein“ ríkisábyrgð sett með slíkum hætti, eða í gervi reglunnar um bótaskyldu ríkis, að vera jafn andstæð EES-samningnum og lögbundin ríkisábyrgð á innstæðum væri, en hún gengi jafnframt gegn almennum reglum Evrópusambandsins um ríkisaðstoð svo og gegn samkeppnisreglum þess.

Þess skal getið að breska og hollenska ríkið hafa leyst til sín allar kröfur þarlendra innstæðueigenda og krefjast þess að íslenska ríkið endurgreiði þær upphæðir á grundvelli einhvers konar ábyrgðar að þjóðarétti samkvæmt tilskipuninni. Ábyrgð ríkisins verður því tæpast byggð á reglunni um bótaskyldu ríkis úr því sem komið er, en reglan snýr að einstaklingum sem orðið hafa fyrir tjóni vegna brots aðildarríkis gegn EES-rétti. Ekki eru til fordæmi sem styðjast má við í þessu sambandi, en hér verður þó ekki útilokað að sækja mætti slíka kröfu ríkis fyrir íslenskum dómstólum eftir almennum reglum kröfuréttar, ef krafa einstaklings á grundvelli reglunnar um bótaskyldu ríkis er framseljanleg með þessum hætti.

3. Um mismunun á grundvelli ríkisfangs

Ábyrgð íslenska ríkisins hefur ekki aðeins verið rökstudd með vísan til reglunnar um bótaskyldu ríkis. Einnig hefur verið talið að íslenska ríkið hafi bakað sér ábyrgð með því að mismuna innstæðueigendum á grundvelli ríkisfangs, þegar tilkynnt var að innlendar innstæður yrðu tryggðar að fullu. Verður nú fjallað nánar um yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda þar að lútandi og skoðað hvort þær kunni að hafa bakað ríkinu ábyrgð gagnvart innstæðueigendum. Þá verður skoðað hvort yfirtaka bankanna sem slík kunni að hafa falið í sér mismunun á grundvelli ríkisfangs.

3.1. Yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda

Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands gáfu ítrekað út yfirlýsingar haustið 2008, m.a. á vefsíðu forsætisráðuneytisins þann 6. október það ár, þar sem áréttað var að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi yrðu tryggðar að fullu. Með innstæðum var átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta tók til.10

Til þess að yfirlýsingin gæti orðið skuldbindandi fyrir íslenska ríkið, þannig að einstaklingar og fyrirtæki gætu byggt á henni rétt, hefði þurft eftirfarandi samþykki hennar í lögum, fjárlögum eða fjáraukalögum. Umrædd yfirlýsing ríkisstjórnarinnar var hvorki staðfest með lögum né var henni fylgt eftir með öðrum hætti. Þar af leiðandi öðlaðist vilji ríkisstjórnarinnar til fullnaðartryggingar fyrrgreindra innstæðna aldrei skuldbindandi gildi gagnvart þeim sem henni var beint að. Í raun var ekki um annað en viljayfirlýsingu að ræða.11

Hefði umræddum yfirlýsingum verið fylgt eftir með lögum kynnu þær að fela í sér mismunun. Að öllu eðlilegu yrði þá hinum mismunandi þætti yfirlýsingarinnar hnekkt, hún látin halda gildi en ganga jafnt yfir allar innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra, hérlendis sem erlendis.12 Þar sem aðeins var um viljayfirlýsingu að ræða, án lagalegrar skuldbindingar af hálfu íslenska ríkisins, hefur yfirlýsingin sem slík engin áhrif til breyttrar stöðu innstæðueigenda í innlendum útibúum íslenskra banka. Samkvæmt þessu verða yfirlýsingar um fullnaðartryggingu innlendra innstæðna ekki taldar hafa valdið mismunun í raun, og því ekki taldar hafa gengið gegn 4. gr. EES-samningsins sem leggur almennt bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs.

Segja má að eina tryggingin sem innstæðueigendur hérlendis fengu umfram innstæðueigendur erlendis hafi verið flutningur þeirra í hin nýju félög, að innstæðurnar væru áfram tiltækar í nýjum bankastofnunum í fullum rekstri. Því er við hæfi að fjalla nánar um hvernig yfirtaka ríkisins á bönkunum fór fram, hvernig mismunun á grundvelli ríkisfangs kann að hafa átt sér stað við yfirtökuna og hvernig ábyrgð íslenska ríkisins getur mögulega hafa komið til sökum þess.

3.2. Yfirtaka bankanna

Þann 6. október 2008 var útbýtt á Alþingi frumvarpi til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Frumvarpið var samþykkt samdægurs og þann 7. október 2008 tóku lögin gildi, hér eftir og almennt nefnd neyðarlögin.

Í 1. mgr. 1. gr. neyðarlaganna er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilað að reiða fram fjármagn til stofnunar eða yfirtöku fjármálafyrirtækis eða þrotabús þess, í heild eða að hluta, við „sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði“. Í 3. mgr. sömu greinar felst heimild ríkisins til stofnunar hlutafélags, sem undanþegið er ákvæðum hlutafélagalaga um lágmarksfjölda hluthafa og sérfræðiskýrslu, í því skyni að taka við rekstri fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta. Fyrirtæki stofnað í skjóli greinarinnar hefur samkvæmt henni starfsleyfi sem viðskiptabanki.

Í krafti framangreindrar heimildar í neyðarlögunum hafði íslenska ríkið samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þegar þann 9. október tekið að fullu yfir stjórn stóru viðskiptabankana þriggja, Landsbanka Íslands hf., Kaupþings banka hf. og Glitnis banka hf. Var það gert í ljósi knýjandi fjárhags- og rekstrarerfiðleika bankanna, kerfislegs mikilvægis þeirra og keðjuverkandi áhrifa sem möguleg gjaldþrot þeirra kynnu að hafa á íslenska hagkerfið, en Fjármálaeftirlitið taldi önnur úrræði sem það hafði ekki líkleg til að bera árangur. Skipaðar voru skilanefndir til að fara með öll málefni bankanna, rekstur þeirra og umsjón með meðferð eigna, undir stjórn og í samráði við Fjármálaeftirlitið.13 Í kjölfar þessa tók Fjármálaeftirlitið m.a. ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., og var innlend starfsemi bankans framseld til nýs hlutafélags, Nýja Landsbanka hf., samkvæmt framangreindri heimild í 3. mgr. 1. gr. neyðarlaganna. Sambærilegar ráðstafanir voru gerðar varðandi Kaupþing banka hf. og Glitni banka hf., en hér verður sérstaklega fjallað um yfirtökuna á Landsbanka Íslands hf. og framsal hinnar innlendu starfsemi til nýstofnaðs hlutafélags, Nýja Landsbanka Íslands hf.

Með setningu neyðarlaganna fengu Fjármálaeftirlitið og ríkið vissulega allt í einu víðtækar heimildir til róttækra aðgerða í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði og íslenska hagkerfinu, en umræddar heimildir höfðu fram að því ekki verið til í íslenskum rétti. Íslensk stjórnvöld höguðu aðgerðum í kjölfarið í samræmi við nefnd lög og er ekki að sjá að farið hafi verið út fyrir þær heimildir sem í þeim er að finna. Því verður yfirtakan svo og ráðstöfun eigna og skulda til hins nýja félags að teljast réttmæt og lögmæt, að því gefnu að neyðarlögin haldi gildi gagnvart stjórnarskrá. Þess ber að geta að í 12. tl. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, með síðari breytingum, var gert ráð fyrir mati viðurkennds aðila á sannvirði þeirra eigna og skulda sem ráðstafað var til nýju bankanna og tilheyrandi uppgjöri milli bankanna í kjölfarið. Þannig var gert ráð fyrir greiðslu mismunar á virði eigna og skulda, af hálfu Nýja Landsbanka Íslands hf, með útgáfu skuldabréfs, til Landsbanka Íslands hf., samkvæmt mati. Í samræmi við þetta var samkomulag um uppgjör milli íslenskra stjórnvalda, skilanefndar Landsbanka Íslands hf. og Landsbankans (NBI hf.) undirritað í október 2009.14 Því var greitt fullt verð fyrir þann hluta Landsbanka Íslands sem færður var í hið nýja félag og rann sú greiðsla að óbreyttu inn í bú hins gamla banka.15

3.2.1. Mismunun við yfirtöku Landsbanka Íslands

Bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs er einn hornsteina fjórfrelsisins, en það felur í sér að vörur, einstaklingar, þjónusta og fjármagn frá öðrum aðildarríkjum skuli njóta sömu meðferðar og innlendir jafnokar þeirra. Með banni við mismunun á grundvelli ríkisfangs er nánar tiltekið skilyrt að aðildarríkin gæti þess að innlend og innflutt vara, landsmenn og innflytjendur, innlend og erlend þjónusta, og innlent og erlent fjármagn njóti sömu mark- aðaðstæðna og lúti sömu meðferð, án tillits til uppruna síns.16

Við yfirtöku íslenska ríkisins á Landsbanka Íslands sköpuðust þær aðstæður að innlendar innstæður færðust til hins nýja félags í eigu ríkisins meðan innlán í útibúum bankans erlendis stóðu eftir í því gamla. Voru þannig innlendar innstæður virkar og eigendum sínum aðgengilegar í nýjum banka en útibúum erlendis var samstundis lokað án þess að nálgast mætti innstæður þar. Með þessu fengu innlán hjá íslenskri lánastofnun, með starfsstöðvar hérlendis sem erlendis, mismunandi meðferð eftir landfræðilegri staðsetningu útibúa. Má í raun segja að meint mismunun á grundvelli ríkisfangs hafi strangt til tekið snúið að erlendu fjármagni fremur en einstaklingum. Engu að síður snerti hin misjafna meðferð þá einstaklinga sem áttu innstæðurnar, og beindist hún þannig að þeim.

Ólögmæt mismunun á grundvelli ríkisfangs getur hvort heldur sem er verið bein eða óbein. Með beinni mismunun er átt við að erlendir borgarar eru beinlínis beittir ólíkri, og yfirleitt lakari, meðferð en ríkisborgarar, á grundvelli ríkisfangs síns. Með óbeinni mismunun er hins vegar átt við mismunun sem öldungis má jafna til mismununar á grundvelli ríkisfangs, þ.e. mismunun sem út á við er grundvölluð á öðru en ríkisfangi, en bitnar þó í mun ríkari mæli á erlendum borgurum en innlendum og verður þannig talin de facto mismunun á grundvelli ríkisfangs.17

Við framsal hluta starfsemi Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. var ekki litið sérstaklega til ríkisfangs þeirra sem innstæður áttu, þ.e. ekki voru tíndar sérstaklega út úr gamla félaginu innstæður Íslendinga og fluttar í hið nýja félag, né innstæður erlendra borgara sérstaklega tíndar út og látnar fylgja hinu gamla félagi. Þannig var ekki um að ræða beina mismunun á grundvelli ríkisfangs við þá ráðstöfun, en þess ber að geta að mismunun á grundvelli búsetu er sem slík almennt ekki óheimil.18 Hins vegar er ástæða til að skoða nánar hvort í ráðstöfuninni kunni að hafa falist óbein mismunun sem jafna megi til beinnar mismununar á grundvelli ríkisfangs, sökum hinnar ólíku þýðingar sem hún hafði á heildina litið fyrir Íslendinga annars vegar og erlenda borgara hins vegar. Meirihluti þeirra sem fengu innstæður sínar fluttar yfir í hið nýja félag hefur vissulega verið Íslendingar, en þeir sem eftir sátu hafa að meirihluta verið af erlendum uppruna. Mat á því hvort mismunun hafi átt sér stað verður því byggt á því hvort um „jafnoka“ hafi verið að ræða, þ.e. hvort innstæðueigendur og innstæður í Landsbanka Íslands innanlands annars vegar og útibúum bankans erlendis hins vegar hafi talist í sömu stöðu undir þeim kringumstæðum sem þarna komu upp.

Komið hafa fram sjónarmið til rökstuðnings því að þessir tveir hópar innstæðueigenda hafi í raun verið í ólíkri stöðu. Réttarstaða þeirra hafi ekki verið sambærileg í málinu og þar af leiðandi hafi fyrrnefnd ráðstöfun ekki falið í sér mismunun á grundvelli ríkisfangs. Megin rökin lúta að því að innstæðueigendur í Bretlandi og Hollandi hafi ekki verið tengdir íslenskum hagsmunum með sama hætti og eigendur innstæðna hérlendis.19 Þannig hafi fyrrnefndi hópurinn t.a.m. ekki verið tengdur þeim sérstöku innlendu hagsmunum sem réðu úrslitum um ráðstöfunina, þ.e. vernd og viðhaldi bankakerfisins undir knýjandi kringumstæðum, líkt og síðarnefndi hópurinn. Þarna var um að ræða aðgerðir til að fyrirbyggja frekari skaða á efnahagskerfinu eins og unnt var, þar sem lokun þriggja stærstu viðskiptabanka Íslands hefði haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir landið, efnahag þess, greiðslukerfi og daglegt líf borgaranna. Slík lokun tveggja útibúa bankans í Hollandi og Bretlandi var hvorki til þess fallin að hafa þesskonar afleiðingar fyrir efnahags- og greiðslukerfi Íslands, né heldur slík áhrif þarlendis. Þannig hafi ólík réttarstaða hópanna tveggja falist í ólíkum hagsmunatengslum þeirra við Ísland; áframhaldandi rekstur banka innanlands var talinn ómissandi þáttur í umræddri hagsmunavernd, þar á meðal innstæður ómissandi til að viðhalda að mestu daglegum gangi samfélagsins, t.d. atvinnustarfsemi, launagreiðslum, neyslu og fjárfestingum. 

Vissulega er rétt að innstæðueigendur hérlendis annars vegar og erlendis hins vegar voru í ólíkri stöðu hvað tengsl við íslenska hagkerfið varðar. Staða þeirra sem einstaklinga, óháð ytri aðstæðum, var hins vegar óneitanlega sú sama. Framangreind rök til aðgreiningar hópanna tveggja eru því að vissu leyti brothætt. Þau verða þó talin hafa verulega þýðingu við skoðun þess hvort meint mismunun kunni að hafa átt rétt á sér. Nánar verður komið að því í kafla 3.2.2. hér á eftir.

Í áliti Hollendinga um skuldbindingar Íslands, dags. 3. nóvember 2008, sem lagt var fyrir gerðardóm um málið, er ráðstöfunin talin hafa getað veikt möguleika íslenska tryggingarsjóðsins á því að bæta tjón innstæðueigenda, og hafi hún þannig falið í sér mismunun gagnvart erlendum innstæðueigendum. Endanleg niðurstaða um það hvort mismunun hefði átt sér stað yrði þó að bíða uppgjörs milli gamla bankans og þess nýja. Strax í næsta lið álitsins var mismunun talin felast í því að innstæðueigendur utan Íslands hafi þurft að reiða sig á innstæðutryggingakerfið, en innlendir innstæðueigendur ekki, en slík mismunandi meðferð innstæðueigenda væri óheimil að því leyti sem hún gæti valdið því að hollenskir innstæðueigendur fengju tjón sitt ekki bætt, jafnvel ekki lágmarkstryggingu að upphæð 20.887 evrum.20 Annars vegar var því þannig haldið fram að sú staðreynd að kröfur innlendra innstæðueigenda féllu, vegna ráðstöfunarinnar, ekki á Tryggingarsjóð innstæðueigenda veiktu á einhvern hátt möguleika hans á því að bæta tjón innstæðueigenda sem á hann ættu í raun kröfur (innstæðueigenda í erlendum útibúum). Hins vegar var því haldið fram að óforsvaranlegt væri að innstæðueigendur í innlendum útibúum þyrftu yfirhöfuð ekki að reiða sig á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta líkt og innstæðueigendur erlendis, eða öllu heldur að óforsvaranlegt væri að öllum innlánaeigendum væri ekki tryggður flutningur í hið nýja félag, þá án nokkurrar aðkomu innlánatryggingakerfisins sem heila málið snýst um.

Þá er athyglisvert að í álitinu er því haldið fram að íslensk stjórnvöld hafi með ráðstöfun sinni, yfirtöku bankanna, brotið gegn 61. gr. EES-samningins, en þar segir að hverskyns ríkisaðstoð sem áhrif hafi á samkeppnisstöðu sé óheimil að því leyti sem hún snerti viðskipti milli aðildarríkja. Er þarna um einkennilega tilvísun til reglna um bann við ríkisaðstoð að ræða, í ljósi þeirrar kröfu sem hollensk stjórnvöld gera um ríkisábyrgð á skuldbindingum íslenska tryggingarsjóðsins gagnvart hollenskum sparifjáreigendum, raunar hollenska ríkinu eftir innlausn þess á kröfum þarlendra sparifjáreigenda.21

Óháð misvísandi rökstuðningi í hinu hollenska áliti er hér tekið undir það að ráðstafanir íslenskra stjórnvalda hafi verið á afar gráu svæði hvað óbeina mismunun á grundvelli ríkisfangs varðar, verði þær taldar hafa farið fram á gildissviði EES-samningsins. Þó sjá megi ólíka stöðu umræddra innstæðueigenda í tengslum við hagkerfi ríkja má, með tilliti til einstaklinganna eingöngu, líta svo á að um jafnoka hafi í reynd verið að ræða. Þó verður að líta til þess að hér var í raun um að ræða landfræðilega mismunun, eða mismunun á grundvelli búsetu, og alls ekki sjálfsagt að kalla hana sjálfkrafa óbeina mismunun á grundvelli ríkisfangs.

3.2.2. Réttlæting meintrar mismununar

Að lokum er rétt að skoða sjónarmið er réttlætt gætu mismunun undir þeim kringumstæðum sem uppi voru, verði fyrrnefnd aðgreining stöðu innstæðueigenda hérlendis og erlendis ekki talin halda, né viðtekið að um landfræðilega mismunun hafi verið að ræða sem ekki verði jafnað til óbeinnar mismununar á grundvelli ríkisfangs. Ljóst er að aðgerðir íslenskra stjórnvalda, mismunandi í eðli sínu sem þær kunna að hafa verið, sneru óneitanlega að því að verja það litla sem eftir stóð af íslensku bankakerfi haustið 2008; viðhalda virkni þess og tryggja áframhaldandi starfsemi banka í landinu. Meðferð þessi einskorðaðist ekki við Landsbanka Íslands hf., heldur var sömu aðgerðum beitt á hina viðskiptabankana tvo, Kaupþing banka hf. og Glitni banka hf., í öðrum tilgangi en þeim að ívilna sérstaklega íslenskum innstæðueigendum umfram erlenda.

Tilvist ríkja og réttur þeirra er sérstaklega varinn í samningunum um ESB og EES, og hafa þau þar af leiðandi víðtækan rétt til að verja tilvist sína. Ber ESB ennfremur að virða einkenni og stjórnkerfi sérhvers aðildarríkis að samningunum, ekki síst EES ríkjanna sem styttra eru á veg komin í Evrópusamruna. Þykir þetta leiða til þess að heimilt sé og lögmætt að taka tillit til sjónarmiða er varða brýna efnahagslega hagsmuni aðildarríkis, án þess að litið sé til efnahags annars aðildarríkis sem öðruvísi, jafnan betur, er statt fyrir.22 Þá er þekkt í Evrópurétti, sem og viðurkennt fyrir dómstól Evrópusambandsins, að aðgerðir sem fela í sér mismunun geti verið réttlætanlegar í ljósi þjóðfélagsþarfa í almannaþágu. Yfirvofandi efnahagslegt hrun ætti þannig að geta nægt til undantekningar frá meginreglunni um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs, en eins og áður sagði var um að ræða ráðstafanir til verndar íslensku efnahagskerfi undir knýjandi kringumstæðum.23

Eftir stendur þá sú spurning hvort nauðsynlegt hafi verið að skilja að innlendan og erlendan hluta bankanna, og taka þannig aðeins innstæður í útibúum innanlands yfir í hin nýju félög, til að vernda hið íslenska efnahagskerfi. Eins og áður sagði var áframhaldandi rekstur banka hérlendis talinn ómissandi þáttur í því að viðhalda daglegum gangi samfélagsins, svo og lausafé nauðsynlegt, þ.á.m. innstæður, m.a. til að viðhalda atvinnustarfsemi, launagreiðslum, neyslu, fjárfestingum og ekki síst tekjuöflun ríkisins í formi skatta. Það lausafé sem ætla mátti að myndi hringsóla í íslensku hagkerfi, m.ö.o. væri hagkerfinu nauðsynlegt, var lausafé einstaklinga og lögaðila sem varðveitt var í útibúum íslenskra banka hér á landi. Þess vegna var flutningur þessara fjármuna til hinna nýju félaga nauðsynlegur þáttur í verndun íslenska hagkerfisins; fjármagnið héldist áfram innan þess. Það lausafé sem varðveitt var í útibúum bankanna erlendis, m.a. á Icesave- reikningum Landsbankans, hefði hins vegar að öllum líkindum farið beina leið út úr hagkerfinu, enda ólíklegt að viðskiptavinir Landsbankans erlendis hefðu nýtt sína fjármuni til neyslu, atvinnurekstrar eða fjárfestinga á Íslandi. Þá má ennfremur líklegt vera að innstæður þessar hefðu í stórum stíl samstundis verið fluttar af Icesave-reikningunum og í aðra, öruggari banka erlendis. Úttektir slíkra fjárhæða úr hinu „nýja“ íslenska bankakerfi hefðu án vafa verið því ofviða á þessum tímapunkti og jafnvel gert umræddar verndarráðstafanir stjórnvalda að engu.24 Því verður hér talið að flutningur innstæðna úr innlendum útibúum í hin nýju félög hafi verið nauðsynlegur þáttur í aðgerðum stjórnvalda til verndar íslenska efnahagskerfinu. Að sama skapi verður talið að samskonar flutningur innstæðna úr erlendum útibúum bankanna í hin nýju félög hefði dregið verulega úr tilætluðum áhrifum nefndra ráðstafana.

Nauðsynlegt er að halda því til haga hér að innstæður í hinum nýju bönkum, sem og öðrum bönkum hérlendis, eru þrátt fyrir allt og eftir sem áður ekki tryggðar með neinum hætti umfram það sem lög 98/1999 gera ráð fyrir. Þannig ábyrgist Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta innstæðurnar, en ríkið ber ekki sjálfkrafa ábyrgð standi sjóðurinn ekki undir greiðslum innstæðna verði þær ótiltækar hjá lánastofnunum. Þrátt fyrir yfirtökuna eru bankarnir reknir í formi hlutafélaga og hafa auk þess að mestu skipt um eignarhald, en engin trygging er fyrir því að þeir verði starfræktir um ókomna framtíð og innstæður þar aðgengilegar. Íslenska innlánatryggingakerfið hefur einfaldlega ekki orðið virkt gagnvart innstæðum sem fluttar voru í hina nýju banka haustið 2008.

4. Staða deilunnar innan Evrópuréttar

Nú hafa verið færð rök fyrir því að íslenska ríkið hafi ekki borið lagalega ábyrgð á endurgreiðslu innstæðna í útibúum Landsbankans í Hollandi og Bretlandi eftir að þær urðu ótiltækar við fall bankans haustið 2008. Athuga ber að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta bar þó vissulega ábyrgð, og undir honum komið að afla sér fjármagns til endurgreiðslu. Íslenska ríkið var hins vegar, að mati höfundar, ekki lagalega skuldbundið til að útvega sjóðnum fjármagn né ábyrgjast lán annarra aðila til sjóðsins.

Til viðbótar framangreindu má geta þess að komið hafa fram vangaveltur um stöðu deilu sem þessarar innan ESB/EES-réttar og þess tvíþætta réttar- og dómskerfis sem myndar umgjörð hans. Hefur í því sambandi verið bent á að valdleysi stofnana EES og ESB til að skera úr um deilumálið og takmarkaður aðgangur íslenska ríkisins að réttlæti kunni að gefa til kynna að raunverulegt efni deilunnar falli utan Evrópuréttar. Deilan kunni því að falla undir valdsvið aðildarríkjanna sjálfra, en sé svo eigi reglurnar um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs og um bótaskyldu ríkis ekki við í málinu.25 Sjónarmið þetta má í stuttu máli rökstyðja þannig að ef halda á nefndum grundvallarreglum Evrópuréttarins að íslenska ríkinu í þessu sérstaka máli verði einnig að bjóða ríkinu tilhlýðilega málsmeðferð fyrir dómstólum. Beiting reglnanna í málinu snerti einfaldlega það vafasöm svæði Evrópuréttarins og varði svo gríðarlega hagsmuni EES-ríkis.

Að sama skapi hefur því verið fleygt að aðgerðir stjórnvalda sem taldar eru hafa falið í sér mismunun, þ.e. framsal tiltekinna eigna og skulda gömlu bankanna til nýrra félaga, hafi verið innlendar björgunaraðgerðir (e. national rescue measures) sem varði ekki stofnanir Evrópuréttarins. Til að reglan um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs hafi gildi verður vald í viðkomandi málaflokki að hafa verið framselt með milliríkjasamningum til stofnana EES og ESB.26 Það á ekki við um björgunaraðgerðir ríkja undir aðkallandi efnahagslegum kringumstæðum, og má þ.a.l. halda því fram að aðgerðir stjórnvalda við yfirtöku banka í brýnni neyð vegna efnahagslegs kerfishruns falli utan gildissviðs Evrópuréttar.27 Ekki gefst hér rúm til að fara nánar í saumana á þessum sjónarmiðum, en um athyglisverð sjónarmið er að ræða sem verð eru nánari skoðunar. 

5. Samantekt

Ríki á Evrópska efnahagssvæðinu bera almennt ekki ábyrgð á innstæðum umfram greiðslugetu innstæðutryggingakerfa sinna. Ríkin geta þó skapað sér bótaábyrgð hafi þau brotið gegn ákvæðum tilskipunarinnar þannig að einstaklingar hljóti tjón af, en 7. gr. hennar felur í sér rétt til handa einstaklingum um greiðslu lágmarkstryggingar. Réttur til greiðslu lágmarkstryggingar er þó varla ótakmarkaður, þannig að hann virkist gagnvart ríki við það eitt og sér að tryggingarsjóður hafi ekki til ráðstöfunar næga fjármuni til endurgreiðslu. Slíkum ótakmörkuðum rétti mætti jafna við ríkisábyrgð sem sett hefði verið í upphafi, sem óheimilt er skv. 2. málsl. 1. mgr. 3. tilskipunarinnar og stríðir auk þess gegn reglum Evrópusambandsins um ríkisaðstoð og samkeppnisreglum þess.

Íslenska ríkið innleiddi tilskipun 94/19/EB með tilliti til markmiða hennar og voru inngreiðslureglur og reglur um sjóðseign hér sambærilegar því sem gerðist í öðrum aðildarríkjum. Ónæg sjóðseign tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta í kjölfar bankahrunsins 2008 getur ekki talist brot gegn 7. gr. tilskipunarinnar, því síður alvarlegt brot, sem leiði sjálfkrafa til bóta- skyldu. Íslenska ríkið er því ekki talið bera bótaábyrgð gagnvart innstæðueigendum vegna rangrar innleiðingar að þessu leyti.

Við yfirtöku bankanna var innstæðueigendum mismunað á grundvelli búsetu sinnar, við færslu innlenda hluta starfseminnar yfir í nýtt félag. Innstæður í útibúum bankans innanlands voru áfram aðgengilegar meðan innstæður í útibúum erlendis urðu ótiltækar. Við þessa ráðstöfun kann óbein mismunun á grundvelli ríkisfangs að hafa átt sér stað, þar sem hún kom yfir það heila mun verr niður á erlendum borgurum en Íslendingum. Hafi ráðstöfunin falið í sér óbeina mismunun á grundvelli ríkisfangs, kann hún að vera réttlætanleg í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi voru hér á landi. Aðgerðir sem taldar eru fela í sér óbeina mismunun hafa verið réttlættar fyrir dómstól Evrópusambandsins með vísan til þjóðfélagsþarfa í almannaþágu. Líklegt má því telja að aðgerðir til varnar algjöru efnahagslegu hruni ríkis, sem fela í sér slíka mismunun, megi réttlæta með þeim hætti, enda sé hinn mismunandi þáttur aðgerðanna í reynd nauðsynlegur til að árangri verði með þeim náð. Því er talið vafasamt að grundvalla megi ábyrgð íslenska ríkisins gagnvart innstæðueigendum á reglunni um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta bar þó ábyrgð, en hana bar sjóðurinn að mati höfundar án þess að íslenska ríkinu bæri skylda til að útvega sjóðnum fjármagn til endurgreiðslu eða ábyrgjast lán annarra aðila til hans.

Valdleysi stofnana EES og ESB til að skera úr um deilumálið og takmarkaður aðgangur íslenska ríkisins að réttlæti gefur ennfremur vísbendingar um að raunverulegt efni deilunnar falli í reynd utan Evrópuréttar. Deilan kann því að falla undir valdsvið aðildarríkjanna sjálfra. Fari deilan fram á valdsviði aðildarríkjanna sjálfra eiga reglurnar um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs og um bótaskyldu ríkis ekki við í málinu. Þá fara innlendar björgunaraðgerðir ríkja í brýnni neyð til varnar efnahag sínum ekki fram á gildissviði EES-samningsins, en vald í þeim málaflokki hefur ekki verið framselt til stofnana EES og ESB. Yfirtaka bankanna undir alvarlegum og brýnum efnahagslegum kringumstæðum kann að teljast til slíkra björgunaraðgerða sem varða ekki stofnanir Evrópuréttarins. Þykja sjónarmið þessi verð frekari skoðunar, enda er með þeim bent á þann vafa sem kann að vera uppi um gildi þeirra réttarreglna í málinu sem möguleg ábyrgð íslenska ríkisins hefur einna helst verið studd við. 

Neðanmálsgreinar

1. Trevor C. Hartley: European Union Law in a Global Context: Text, Cases and Materials. Cambridge 2004, bls. 45.

2. Stefán Már Stefánsson og Lárus L. Blöndal: „Lagarök um Icesave.“ Morgunblaðið, 12. janúar 2010, bls. 17. 

3. Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir. Bindi 5. Rannsóknarnefnd Alþingis 2010, bls. 208-209 og 215. 

4. EFTADmál E-9/97 EFTACR 1998, bls. 95.

5. Álit aðallögsögumanns Stix Hackl frá 25. nóvember 2003, einkum 60-63. mgr., við EBD mál 222/02, ECR 2004, bls. I-09425. Peter Paul and others v Bundesrepublik Deutschland. Álitið má nálgast á vef ECJ, slóðin er: http://curia.europa.eu/jurisp/cgi-bin/form.pl?lang=en

6. Hafliði Kristján Lárusson: „Réttarstaða íslenska ríkisins (1)“. Slóðin er: http://www.island.is/media/ frettir/15.pdf 

7. Michel Tison: „Do not attack the watchdog! Banking supervisor‘s liability after Peter Paul.“ Working Paper Series. WP 2005-02. Financial Law Institute, Universiteit Gent 2005, bls. 25, þ.m.t. neðanmálsgrein 81. 

8. Investigating the efficiency of EU Deposit Guarantee Schemes. European Commission, Joint Research Centre, Unit G09, Ispra (Italy) 2008, bls. 3.

9. Davíð Þór Björgvinsson: EES-réttur og landsréttur, bls. 212. 

10. „Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar“ Slóðin er: http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/3032

11. Stefán Már Stefánsson og Lárus L. Blöndal: „Lagarök um Icesave. Um mismunun á grundvelli þjóðernis“,

12. Catherine Barnard: The Substantive Law of the EU, bls. 236. 

13.  „Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um skipan skilanefndar fyrir Landsbanka Íslands hf.“, Lögbirtingablað 7. október 2008. Sjá einnig samskonar ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um skipan skilanefndar fyrir Glitni banka hf. 7. október 2008 og skilanefndar fyrir Kaupþing banka hf. 9. október 2008. 

14. „Samkomulag stjórnvalda við Landsbanka Íslands um uppgjör“. Slóðin er: http://www.fjarmalaraduneyti. is/frettir/frettatilkynningar/

15. Stefán Már Stefánsson og Lárus L. Blöndal: „Lagarök um Icesave. Um mismunun á grundvelli þjóðernis.“. Morgunblaðið 13. Janúar 2010, bls. 18. 

16.  Catherine Barnard. The Substantive Law of the EU: The Four Freedoms. Oxford 2004, bls. 18.

17. Catherine Barnard: The Substantive Law of the EU, bls. 236.

18.  Stefán Már Stefánsson: Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið. Reykjavík 2000, bls. 214. 

19. Stefán Már Stefánsson og Lárus L. Blöndal: „Lagarök um Icesave. Um mismunun á grundvelli þjóðernis“, bls. 18. 

20. R.J.M. van der Tweel: „liability Republic of Iceland“. [Álit hollenska ríkisins fyrir gerðardómi um skuldbindingar Íslands.] Slóðin er: http://www.island.is/media/frettir/27.pdf 

21. R.J.M. van der Tweel: „liability Republic of Iceland“. 

22. Stefán Már Stefánsson og Lárus L. Blöndal: „Lagarök um Icesave. Um mismunun á grundvelli þjóðernis.“, bls. 18.

23. Catherine Barnard: The Substantive Law of the EU, bls. 240-241; Stefán Már Stefánsson og Lárus L. Blöndal: „Lagarök um Icesave. Um mismunun á grundvelli þjóðernis“, bls. 18. 

24. Stefán Már Stefánsson og Lárus L. Blöndal: „Lagarök um Icesave. Um mismunun á grundvelli þjóðernis.“, bls. 18. 

25. M. Elvira Méndez-Pinedo: The Icesave agreements and other national measures in response of the financial crisis: Revisiting the principles of State liability, State aid and non-discrimination in European Law.

26. Stefán Már Stefánsson: Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið, bls. 191.

27. M. Elvira Méndez-Pinedo: The Icesave agreements and other national measures in response of the financial crisis: Revisiting the principles of State liability, State aid and non-discrimination in European Law

 

Heimildaskrá:

Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir. 5.-7. bindi. Rannsóknarnefnd Alþingis, Reykjavík 2010.

Alþingistíðindi. „Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um skipan skilanefndar fyrir Landsbanka Íslands hf“. Lögbirtingablað, 7. október 2008, bls. 2113.

Álit aðallögsögumanns Stix Hackl frá 25. nóvember 2003 við EBD mál C-222/02ECR 2004bls. 1-09425. Peter Paul and others v Bundesrepublik Deutschland.

Catherine Barnard: The Substantive Law of the EU. The Four Freedoms. Oxford University Press, Oxford 2004.

Davíð Þór Björgvinsson: EES-réttur og landsréttur. Bókaútgáfan Codex, Reykjavík 2006. Hafliði Kristján Lárusson: „Réttarstaða íslenska ríkisins (1)“. Tölvupóstur sendur 20. 10. 2008.

[Lögfræðiálit Logos í Bretlandi.] Slóðin er: http://www.island.is/media/frettir/15.pdf (sótt 15.1.2010).

Investigating the efficiency of EU Deposit Guarantee Schemes. European Commission. Joint Research Centre, Unit G09, Ispra (Italy) 2008. Slóðin er: http://ec.europa.eu/internal_market/bank/docs/guarantee/deposit/report_en.pdf (sótt 5.4.2010).

M. Elvira Méndez-Pinedo: The Icesave agreements and other national measures in response of the financial crisis: Revisiting the principles of State liability, State aid and non-discrimination in European Law. Skýrsla frá 1.febrúar 2010 birt á vefsíðu höfundar. Slóðin er: http://elvira.blog.is/blog/elvira/entry/1013839/ (sótt 19.2.2010)

Michel Tison: „Do not attack the watchdog! Banking supervisor‘s liability after Peter Paul.“ Working Paper Series. WP 2005-02. Financial Law Institute, Universiteit Gent 2005, bls. 25.

R.J.M. van den Tweel: „liability Republic of Iceland“. Bréf sent hollenska fjármálaráðuneytinu, 3.11.2008. [Álit hollenska ríkisins fyrir gerðardómi um skuldbindingar Íslands.] Slóðin er: http://www.island.is/media/frettir/27.pdf (sótt 15.1.2010).

„Samkomulag stjórnvalda við Landsbanka Íslands um uppgjör“ .Fjármálaráðuneyti, 12.10.2009. Slóðin er: http://www.fjarmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/ (sótt 5.3.2010)

Stefán Már Stefánsson og Lárus L. Blöndal. „Lagarök um Icesave. Um mismunun á grundvelli þjóðernis.“ Morgunblaðið, 13. janúar 2010, bls. 18.

Stefán Már Stefánsson og Lárus L. Blöndal. „Lagarök um Icesave.“Morgunblaðið, 12. janúar 2010, bls. 17.

Stefán Már Stefánsson: Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið. Bókaútgáfa Orators, Reykjavík 2000.

Trevor C. Hartley: European Union Law in a Global Context. Text, Cases and Materials. Cambridge University Press, Cambridge 2004.

„Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar.“ Forsætisráðuneyti, 06. 10. 2008.“ Slóðin er: http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/3032 (sótt 2. 3. 2010).

Vefsíða Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Slóðin er: http://www.tryggingarsjodur.is/ (sótt 13.2.2010).

 



Efnisyfirlit


Núverandi tölublað

Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd

Síðasta tölublað

Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun

Fréttir

22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing


Lögfræðingur ©2023 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN