Höfundur flutti erindið á Lögfræðitorgi Háskólans á Akureyri 24. október 2008. Jakob Þ. Möller er heiðursprófessor við Háskólann á Akureyri. Hann var forseti mannréttindadeildar stjórnlagadómstóls Bosníu og Hersógóvínu 2004-2005, dómari við mannréttindadómstól Bosníu-Hersógóvínu 1996-2003, ritari Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna 1995-96 og yfirmaður kærudeildar Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf 1974-96 og lögfræðingur við Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna 1971-74. Jakob er lögfræðingur frá Háskóla Íslands, brautskráðist 1967. Hann starfaði sem aðstoðardómari við embætti bæjarfógetans í Keflavík 1967-71. Jakob hefur skrifað fjölda greina um mannréttindi og tengd efni í bækur og tímarit. Hann hefur einnig sinnt kennslu og þjálfun fólks sem unnið hefur að mannréttindamálum í Afríku, Asíu og Evrópu.
Ritun mannréttindareglna á sér langa sögu. Í lögbók Hammúrabís konungs í Babýlon, sem meitluð var í stein fyrir meira en 3500 árum og þykir ein hin fyrsta tilraun í sögunni til að koma á réttarkerfi, er að finna ákvæði um mannréttindi. Á steinhellunni, högginni 282 greinum, eru áheit konungs til þjóðarinnar um að réttlæti muni ríkja, illvirkjum rutt úr vegi, svo þeir megi eigi troða á rétti annarra, velmegun verði tryggð og réttur munaðarleysingja og ekkna.
Meira en 1000 árum síðar náði Cýrus II, hinn mikli, yfirráðum í sömu borg, Babýlon, og lagði grunninn að stórveldi Persa. Réttindaskrá sú, sem við hann er kennd, greypt í sívalning árið 539 fyrir Krist, er mögnuð og svo framúrstefnuleg að furðu sætir. Svo mælti Cýrus mikli, ef gripið er niður í mannréttindaskrá hans:
Það er freistandi að velta því fyrir sér, hvort hér hafi verið lagður grunnurinn að seinni tíma þjóðarétti og þjóðréttarvenjum á sviði mannréttinda. Öll þau ákvæði, sem upp voru talin, eiga sér stoð í dag í gildum þjóðréttarheimildum, annað hvort í þjóðréttarsamningum eða þjóðréttarvenjum. Þess má geta, að þremur árum eftir birtingu réttarskrárinnar leysti Cýrus mikli Gyðinga í Babýlon úr ánauð og greiddi för þeirra til Ísraels.
Má skjóta því hér inn, að mér var löngum gjarnt á erlendri grund að stæra mig af því, að Alþingi Íslendinga við Öxará hefði fyrr á öldum verið fyrst löggjafa til að leggja niður þrælahald. Ég vissi ekki að Cýrus hinn mikli hefði orðið fyrri til.
Tíminn leyfir vart að stiklað sé gegnum söguna, en mannrækt, manngöfgi og jafnræði, með hjálpsemi og stuðningi við bágstadda, er sameiginlegt einkenni á siðfræði helstu trúarbragða heims, og í straumum heimspeki fornaldar og miðalda. Þar eiga mannréttindi rætur, á dagleiðinni frá Mesapótamíu til Grikkja og Rómverja, frá hugmyndum um náttúrurétt, að lög og réttur eigi rætur í eðli hlutanna, en ekki samningi; greinar Rómarréttar í jus civile fyrir þegna veldisins og jus gentium fyrir heimsbyggðina. Cicero hélt því fram að til væri eilíft og óbreytanlegt lögmál, sem allir væru ávallt bundnir af og það lögmál væri sprottið frá Guði. Í kenningum katólsku kirkjunnar á miðöldum voru Guðs lög ofar lögum manna. Heilagur Ágústínus hélt því fram, að mannleg lög, sem færu í bága við lögmál Guðs, væru ógild ab initio og heilagur Tómas frá Akvínó var þeirrar skoðunar að lagareglur samfélagsins væru því aðeins gildar að þær samsvöruðu réttri, guðlegri skynsemi. Þá væru þær einnig í samræmi við náttúrulögmálið og náttúruréttinn.
Heimspekingar 18. aldarinnar, upplýsingaaldarinnar, höfnuðu því, að náttúruréttur væri réttur guðlegrar forsjár. Hugo Grotius hafnaði ekki náttúrurétti, en taldi hann sprottinn af mannlegri skynsemi. Hobbes greindi á milli náttúru- og náttúrulegs réttar og grundvallaði hugmyndina um félagslegan samning milli þegnanna og þjóðhöfðingja. John Locke þróaði hugmyndina og ályktaði að samningur þegna og ríkisvalds útheimti samþykki þegnanna og stæðu valdhafar eigi við samninginn, félli hann niður ógildur og stofna þyrfti til nýs félagslegs samnings við nýja valdherra. Jean-Jacques Rousseau þróaði enn frekar þessa fræðikenningu í riti sínu „Félagslegur samningur,“ (“Social contract“) sem út kom 1792. Samkvæmt kenningu hans voru allir menn jafn réttháir, en höfðu undirgengist að lúta vilja meirihlutans (la vo- lonté générale). Með þeim vilja voru lögin sett. – Kenningin um mannréttindi snérist á upplýsingaöld um réttinn til lífs, frelsis, mannhelgi og eignarréttar, og var farin að taka á sig mynd, sem Persakonungur, meira en 2000 árum fyrr, hafði boðað. Hefði hann verið í aðstöðu til, hefði hann skrifað undir Sjálfstæðisyfirlýsinguna, 4. júlí 1776, og Virginíuréttarskrá sama árs, vestan Atlantsála, sem og Frönsku Mannréttindayfirlýsinguna 1789, sem hafði alþjóðlega skírskotun. Dagleiðin langa fram að stofnun Sameinuðu þjóðanna var að styttast og er ég nú loks að komast að efninu.
Eftir tvær heimsstyrjaldir 20. aldar voru Sameinuðu þjóðirnar stofnaðar í þeim tilgangi að tryggja heimsfriðinn og friðsamleg samskipti þjóða og til að vinna að framgangi og virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi sem allir skyldu njóta, karlar og konur, á jafnræðisgrundvelli. Stofnskráin var undirrituð í San Francisco 26. júní 1945 og gekk í gildi 24. október sama ár, þ.e. fyrir réttum 63 árum.
Stofnskráin er fremur fáorð um mannréttindi. Trú á grundvallarmannréttindi, göfgi og virðingu mannsins og jafnan rétt karla og kvenna er áréttuð í aðgangsorðum og í 1. gr., markmiðsgreinni, er því lýst yfir, að framgangur, efling og virðing fyrir mannréttindum sé meðal höfuðmarkmiða stofnunarinnar. Mannréttinda er síðan getið í 13. grein, 55., 56., 62. og 68. grein.
Helzta efnisákvæðið er í 55. grein, sem mælir fyrir um, að Sameinuðu þjóðirnar skuli efla með þjóðum heims virðingu fyrir og framgang (observance) mannréttinda og grundvallarfrelsis fyrir alla án greinarmunar vegna kynþáttar, kynferðis, tungu eða trúar. Samkvæmt 56. grein heita aðildarríkin því að beita sér fyrir því, hvert í sínu lagi og í samvinnu við önnur ríki og Sameinuðu þjóðirnar, að markmið 55. greinar megi takast. Engin tilraun er hins vegar gerð í texta Stofnskrárinnar til að skýra hvað átt sé við með hugtökunum mannréttindi og grundvallarfrelsi, en hafa ber í huga, að Stofnskráin er gildur þjóðréttarsamningur aðildarríkjanna.
Eins og í öðrum stjórnarskrám (en Stofnskráin er stjórnarskrá Sameinuðu þjóð- anna), hefði hún átt að geyma mannréttindakafla. Með það fyrir augum höfðu Kúba, Mexíkó og Panama lagt til á San Francisco ráðstefnunni, að samþykktar yrðu tvær yfirlýsingar, önnur um réttindi og skyldur þjóða, (í enskri þýðingu „Declaration on the Rights and Duties of Nations“), hin um helztu mannréttindi (í enskri þýðingu „Essential Rights of Man“). En ráðstefnan lenti í tímaþröng og hugmyndir ríkjanna þriggja dagaði uppi. Panama greip þá til þess ráðs, að leggja fram tvö þingskjöl á fyrsta þingi Allsherjarþingsins, þ.e. uppkast af yfirlýsingu um „réttindi og skyldur ríkja“ (Rights and duties of States) og uppkast af yfirlýsingu um „grundvallarmann- réttindi og frelsi“ (Fundamental Human Rights and Freedom). Allsherjarþingið sendi fyrra skjalið til Alþjóðalaganefndarinnar (International Law Commission) til umfjöllunar, en seinna skjalið til Efnahags- og Félagsmálaráðsins til framsendingar og umfjöllunar í Mannréttindanefndinni (Commission of Human Rights, lögð niður 18. júní 2006). Þannig stóð málið, þegar mannréttindanefndin hóf sína fyrstu fundarsetu í janúar 1947. Ég get ekki stillt mig um að nefna tvær aðrar stórmerkilegar tillögur, sem lagðar voru fyrir nefndina í þessari fundarsetu. Fulltrúi Indlands lagði til að öllum erindum um meint mannréttindabrot yrði vísað til Öryggisráðsins. Ástralía bætti um betur og lagði til að settur yrði á stofn alþjóðlegur mannréttindadómstóll. Tillögur þessar fengu engar undirtektir og eru þær úr sögunni.
Nefndin ákvað að efna til frekari gagnaöflunar, með aðstoð Mannréttindaskrifstofu stofnunarinnar, áður en hún hæfist handa við að semja alþjóðlega mannréttindaskrá (International bill of human rights). Var skrifstofunni m.a. falið að safna saman mannréttindaákvæðum úr stjórnarskrám sem flestra aðildarríkja stofnunarinnar, sem hafa mætti til hliðsjónar. Því var það ekki fyrr en um Jónsmessu 1947, sem nefndarmenn hófust handa við að semja réttarskrána.
Uppkast Mannréttindanefndarinnar var fullbúið ári síðar og var lagt fyrir Efnahags- og Félagsmálaráðið. Ráðið gerði engar breytingar þar á og framsendi uppkastið til meðferðar í þriðju nefnd Allsherjarþingsins. Langar fundarsetur tóku við og ýmsar breytingar gerðar áður en Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt af Allsherjarþinginu hinn 10. Desember 1948 í Palais de Chaillot í París. Haldið hefur verið uppá þann dag æ síðan sem Mannréttindadag Sameinuðu þjóðanna. Yfirlýsingin er ekki þjóðréttarsamningur, heldur áskorun beint til allra ríkja og þjóða til eftirbreytni.
Sá lævíslegi áróður er stundum rekinn, að ákvæði Mannréttindayfirlýsingarinnar endurspegli að mestu vestræn gildi, sem ekki eigi sér samsvörun í öðrum heimshlutum. Hvort ætlunin er að gera lítið úr öðrum þjóðum, eða fáfræði, hræsni eða hroka er um að kenna, veit ég ei, en tal af þessum toga er einkar niðurlægjandi fyrir þjóðir annarra heimshluta, menningu þeirra og menningararf. Skoðum aðeins efniviðinn sem hafður var til hliðsjónar og hverjir komu helzt við sögu við samningu yfirlýsingarinnar:
Mannréttindaskrifstofan lagði fyrir Mannréttindanefndina úrdrátt úr 55 stjórnarskrám frá Afríku, Asíu, Suður-Ameríku og frá Austur- og Vestur-Evrópu. Aðeins 14 voru frá vestrænum löndum, 41 frá öðrum heimshlutum. Varla getur talizt að skjalið hafi verið ofhlaðið vestrænu efni. Og hverjir komu helzt við sögu? Formaður Mannréttindanefndarinnar var Eleanor Roosevelt. Enginn hefur borið forsetafrúnni á brýn að hún hafi ekki gætt ýtrustu óhlutdrægni í vandasömu starfi. Leiðtogahæfileikar hennar voru hins vegar rómaðir. Helzti vestræni höfundurinn var franski hugsuðurinn René Cassin, virtur af öllum þeim, sem tóku virkan þátt í samningu yfirlýsingarinnar. Aðrir áberandi meðhöfundar voru P.C. Chang, prófessor í Nanking í Kína; Her- nan Santa Cruz, lögmaður frá Chile; Dr. Charles Malik, heimspekiprófessor frá Líbanon (sem jafnframt var formaður þriðju nefndar, en Bodil Begtrup, sendiherra Dana á Íslandi, var varaformaður hennar); Omar Loufti og Osman Obeid frá Egyptalandi; frú Hansa Mehta, sendiherra Indlands hjá Sameinuðu þjóðunum; Carlos P. Romulo, herforingi frá Filipseyjum; Bogomolov frá Sovétríkjunum og Ribuikar frá Júgóslavíu. Ekkert sérlega vestrænn hópur, en áhrif þeirra allra og margra annarra frá öllum heimshlutum má rekja í fundargerðum Mannréttindanefndarinnar og/eða þriðju nefndar og Allsherjarþingsins sjálfs.
Við tilraunir til að draga úr gildi Mannréttindayfirlýsingarinnar hefur verið gripið til úrræðis sem kallað hefur verið „menningarlega afstæðiskenningin“ (cultural rela- tivity), sem á að merkja, að ákvæðin hafi mismunandi gildi í hinum ýmsu menningarheimum. Gripið er til þessa örþrifaráðs, ef ríki telja of nærri sér höggvið eða vilja skorast undan ábyrgð. Af sama toga spunnar eru raddir um að tími sé til þess kominn að endurskoða ákvæði yfirlýsingarinnar. Það væri fráleitt.
Í fyrsta lagi leikur enginn vafi á því, að mörg ákvæði Mannréttindayfirlýsingarinnar eru skrifleg staðfesting á viðurkenndum þjóðréttarvenjum, og eru réttur til lífs og lima, bann við pyntingum, bann við þrælahaldi og ánauð, réttur allra til viðurkenningar fyrir lögum, jafnræðisreglan og bann við frelsissviptingu af geðþótta á meðal þeirra.
Í öðru lagi hafa ákvæði Mannréttindayfirlýsingarinnar verið staðfest sem bindandi lög í alþjóðlegum og svæðisbundnum þjóðréttarsamningum og yfirlýsingum, svo sem í stjórnarskrá Afríkusambandsins (African Union - áður OAU), the African Charter on Human and People’s Rights, the Arab Charter on Human Rights, the Cairo Islamic Declaration on Human Rights og the Lawasia Statement of Basic Principles of Human Rights, Mannréttindasáttmála Ameríkuríkja og Mannréttindasáttmála Evrópu með viðaukum.
Í þriðja lagi vísa helztu þjóðréttarsamningar beinlínis til Mannréttindayfirlýsingarinnar til áherzlu. Í inngangsorðum Mannréttindasáttmála Evrópu er þess getið, að ríkisstjórnir aðildarríkjanna séu staðráðnar í því að stíga fyrstu skrefin að því marki að tryggja sameiginlega nokkur þeirra réttinda sem greind eru í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Í alþjóðlegum samningum Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi segir í aðfaraorðum að aðildarríkin hafi í huga skyldur sínar samkvæmt Stofnskránni og vísa í því sambandi til ákvæða Mannréttindayfirlýsingarinnar.
Auk tilvísunar til Mannréttindayfirlýsingarinnar í aðfaraorðum er einkar athyglisvert efnisákvæði í 4. grein Alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis. Þar skuldbinda aðildarríkin sig til þess að grípa til skjótra ráðstafana til að uppræta allan áróður fyrir kynþáttamisrétti eða athæfi sem í felst kynþáttamisrétti, en tillit verði samt sem áður að taka til ákvæða Mannréttindayfirlýsingarinnar þegar gripið er til slíkra ráðstafana. – Og svo mætti lengi telja. Ákvæði þjóðréttarsamninga eiga rætur í Mannréttindayfirlýsingunni og til hennar er vísað berum orðum í hverjum samningi á fætur öðrum.
En mótbárur eru þrálátar. Er því borið við að þjóðréttarsamningar séu aðeins bin- dandi fyrir aðildarríkin, en ekki þau ríki, sem standa utan þeirra. Rétt er það – en hve mörg ríki hafa nú þegar gerzt aðilar að helztu mannréttindasamningum Sameinuðu þjóðanna?
|
193 aðildarríki |
|
185 “ |
|
173 “ |
|
162 “ |
|
159 “ |
|
145 “ |
Benda ofangreindar tölur ekki til þess, að tími sé til þess kominn, að fallast endanlega á, að meginreglur Mannréttindayfirlýsingarinnar, eins og þær speglast í þjóðréttarsamningum hafi hnattrænt lagagildi, sem hafið er yfir vafa og verði því eigi breytt? Ég hygg að svo sé. – Geta má þess, að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru 192.
Leyfist mér að geta þess í þessari andrá, að því er stundum haldið fram í ólund, að mannréttindaákvæði hafi þann tilgang helzt að vernda afbrotamenn fyrir samfélaginu. Þessi skoðun virðist sprottin af þeirri bábilju að þjóðhagslega sé rangt að gera því skóna, að þeir sem sakaðir eru um refsivert athæfi, skuli sæta réttlátri málsmeðferð fyrir óvilhöllum og óháðum dómi, og skuli taldir saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð samkvæmt lögum. Sérstaklega fer það, að því virðist, í taugarnar á þeim, sem haldnir eru þessari bábilju, að sakborningur njóti vafans, ef sönnun er áfátt. Hætt er við, að réttarríkið myndi riða til falls, ef slakað væri á ákvæðum 10. og 11. greinar í Mannréttindayfirlýsingunni. Í 10. grein segir: „Allir menn skulu vera jafnir fyrir dómstólum og njóta réttlátrar, opinberrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óvilhöllum dómi, þegar skorið er úr um rétt þeirra og skyldur eða um meint refsivert athæfi.“ (Ég hef hnikað nokkuð orðalagi frá núverandi íslenskri þýðingu). 11. grein kveður á um, að „hvern þann mann, sem borinn er sökum um refsivert athæfi, skal saklausan telja, unz sök hans er sönnuð lögfullri sönnun í opnu réttarhaldi, enda hafi honum verið tryggð öll úrræði til varna.“ (Aftur hef ég vikið frá núverandi orðalagi í íslenskri þýðingu).
En efnisákvæði Mannréttindayfirlýsingarinnar snúast ekki bara um réttláta meðferð fyrir dómi. Grunur minn er sá, að æðimörgum hafi láðst að kynna sér efni hennar. Ég sleppi aðfaraorðum, sem eru þrungin af innblæstri og vel þess virði að kynna sér, en leyfi mér, vegna tilefnisins, að renna augum yfir efnisgreinarnar 30. Hver eru þau réttindi og það grundvallarfrelsi sem þær hafa að geyma?:
Þrjár síðustu greinarnar, nr. 28 til 30, eru af öðrum toga. 28. grein kveður á um rétt til samfélagslegs og alþjóðlegs skipulags, sem tryggir að réttinda þeirra og frjálsræðis, sem Mannréttindayfirlýsingin kveður á um, verði í raun að fullu notið.
Sérstaklega ber að gefa 29. grein gaum. 29. grein fjallar um skyldur einstaklinga við samfélagið og þær lögmæltu takmarkanir sem lúta að því að réttindi og frelsi sé ekki misnotað, þannig að réttur og frelsi annarra sé fyrir borð borinn. Þessi grein virðist vera að fá aukið vægi í því alþjóðlega samfélagi sem við lifum í í dag. 30. og síðasta grein Mannréttindayfirlýsingarinnar kveður síðan á um það að hvorki ríki, samtök eða einstaklingar megi aðhafast neitt það, er stefni að því að gera að engu þau réttindi eða frelsi sem Mannréttindayfirlýsingin geymir.
En hvernig hefur varðstaðan um Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna tekizt í 60 ár? Lögin hafa verið samin, og þá á ég við þjóðréttarsamningana og þau eftirlitskerfi sem komið hefur verið á. Það er stórt skref fram á við. Hins vegar blandast engum manni hugur um það, að mannréttindi eru víða fótum troðin. Fregnir berast nær daglega af grófum, meiri háttar, útbreiddum og skipulögðum brotum, jafnvel þjóðflokkahreinsunum og þjóðarmorðum. Hefur þá til einskis verið barizt? Hefur varðstaðan misheppnast? Svo virðist sumum. En lögin eru gild og ákvæði Mannrét- tindayfirlýsingarinnar eru gild, þótt þau séu þverbrotin. Varðstöðuna um gildi ákvæða Mannréttindayfirlýsingarinnar ber að efla. Mannréttindamenning er, þrátt fyrir allt, takmark sem ber að stefna að. – En hverjir eiga þar hlutverki að gegna?
Í íslenskri þýðingu Mannréttindayfirlýsingarinnar segir svo í aðfaraorðum: „Skulu einstaklingar og yfirvöld jafnan hafa yfirlýsingu þessa í huga og kappkosta með fræðslu og uppeldi að efla virðingu fyrir réttindum þeim og frjálsræði, sem hér er að stefnt.“ Ég hnýt um orðin einstaklingar og yfirvöld, en í ensku frumútgáfunni er talað um „every individual and every organ of society...“. Er ekki hugsanlegt að með orðalaginu „every individual and every organ of society,“ sé ekki bara átt við einstaklinga og yfirvöld, heldur sé hér höfðað til sérhvers einstaklings og allra samtaka og stofnana samfélagsins? Með öðrum orðum, auk sérhvers einstaklings sé því beint til höfuðstoða ríkisins, löggjafans, dómsvaldsins og framkvæmdavaldsins, þ.e. stjórnvalda ríkisins, sem og stjórnenda bæjar- og sveitarfélaga, menntastofnana, samtaka og stofnana atvinnu- og viðskiptalífs, starfsgreinasambanda, frjálsra félagasamtaka, stjórnmálaflokka, trúfélaga, íþróttafélaga, æskulýðsfélaga, góðgerðarfélaga, – að öllum þessum aðilum beri að hafa Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi og stuðla eftir megni að framgangi þeirra markmiða, sem hún setur þjóðum öllum. Ég hef tilhneigingu til þess að skilja orðalagið “every organ of society” þannig, að átt sé við innviði og stoðir samfélagsins, þ.e. samfélagskefið allt, hvar í heimi sem er. Markmið Mannréttindayfirlýsingarinnar eiga það skilið að njóta þeirrar varðstöðu.
Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd
Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun
22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing
Lögfræðingur ©2023 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN