Þórunn Hyrna Víkingsdóttir

Þórunn Hyrna Víkingsdóttir

Höfundur lauk B.A. prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands 2007 og B.A. prófi í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri 2008 og stundar nú meistaranám í lögfræði við Háskólann á Akureyri. Efni greinarinnar byggir á lokaritgerð höfundar til B.A. prófs í lögfræði vorið 2008. Leiðbeinandi með ritgerðinni var Margrét Heinreksdóttir.


Grein birt í: Lögfræðingur 2009

Um vændi – mismunandi leiðir til löggjafar

1. Íslensk löggjöf um vændi

Oft er sagt um vændi að það sé ein elsta starfsgrein í heimi og má með sanni segja að saga þess spanni ærið langt tímabil innan heimsbókmenntanna. Á síðustu áratugum hefur vændi sem og mansal á konum og stúlkum fyrir vændismarkaðinn hins vegar aukist mikið. Vændismarkaðurinn fer hvað hraðast vaxandi, næst á eftir eiturlyfja- og vopnamarkaðnum.1  En hvaða leiðir til löggjafar eru mögulegar varðandi  vændi og hvaða möguleikar  eru á breytingum  á vændislöggjöf  á Íslandi?

Refsiákvæði um vændi á Íslandi er að finna í hinum Almennu hegningarlögum nr. 19 frá 12. febrúar 1940, með síðari breytingum. Þar segir í 206. grein laganna:

[1. mgr.] Hver sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra skal sæta fangelsi allt að 4 árum.

[2. mgr.] Sömu refsingu varðar það að ginna, hvetja eða aðstoða barn yngra en 18 ára til vændis. 

[3. mgr.] Sömu refsingu varðar það einnig að stuðla að því að nokkur maður flytji úr landi eða til landsins í því skyni að hann stundi vændi sér til viðurværis.

[4. mgr.] Hver sem stuðlar að því með ginningum, hvatningum eða milli- göngu að aðrir hafi samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu eða hefur tekjur af vændi annarra, svo sem með útleigu húsnæðis eða öðru, skal sæta fangelsi allt að 4 árum en sektum eða fangelsi allt að 1 ári ef málsbætur eru.

[5. mgr.] Hver sem í opinberri auglýsingu býður fram, miðlar eða óskar eftir kynmökum við annan mann gegn greiðslu skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.2

Ákvæðinu var breytt til þessa horfs með lögum nr. 61 frá 27. mars 2007. Helsta breytingin var sú að refsing fyrir að stunda vændi sér til framfærslu féll niður og við bættist bann við að bjóða fram eða óska eftir kynmökum gegn greiðslu með opinberri auglýsingu. Auk þess breyttist orðalag lítið eitt, t.d. vék hugtakið „lauslæti“ fyrir hugtakinu „vændi“ og „ungmenni“ fyrir „barni“.

Þá er tekið fram í 4. mgr. 202. gr. hegningarlaganna að hver sem greiði barni „[…] yngra en 18 ára endurgjald gegn því að hafa við það samræði eða önnur kynferðismök [skuli] sæta fangelsi allt að 2 árum.“3 

Þetta eru þær lagagreinar sem fjalla um vændi á Íslandi en einnig er að finna reglur um vændi í hinum ýmsu alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.

Í þessari grein verða skoðaðar bæði almennar og lagalegar skilgreiningar á vændi sem og nokkrar leiðir sem hægt er að fara í lögleiðingu þess.

2. Skilgreiningar á vændi

Í íslenskri  veforðabók er orðið „vændi“ annars vegar skilgreint sem það að einhver leyfi við sig kynmök gegn gjaldi og hins vegar að það sé skipuleg atvinnustarfsemi við sölu kynmaka. Orðið „vændiskona“ er þá kona sem selur blíðu sína, stundar vændi, gleðikona eða hóra.4 Þótt þessi skilgreining veiti almennan skilning á því hvað vændi sé, gefur hún ekki góða mynd af því hvað teljist t.d. vera kynmök eða gjald. Í lagalegum skilgreiningum er þetta oft betur skilgreint þar sem nauðsynlegt er bæði fyrir lögreglu og dómstóla að hafa löggjöfina skýra.

Í áströlskum vændislöggjöfum er „vændi“ víða skilgreint mjög nákvæmlega og hér verður tekið dæmi af einni slíkri skilgreiningu.  Í þriðju grein laga nr. 25/1988 (Summary Offences Act 1988) í Nýju Suður-Wales í Ástralíu er vændi skilgreint sem athöfn milli einstaklinga af gagnstæðu kyni eða af sama kyni sem feli í sér annars vegar kynmök eins og þau eru skilgreind í hegningarlögum frá 1900 (Crimes Act 1900) og hins vegar aðra kynferðislega fróun sem ein manneskja veitir annarri. Þá er skilyrði að þessar athafnir séu gerðar gegn þóknun.5 Þóknun þessi er ekki skilgreind frekar, sem þó væri þörf á, en kynmök eru svo skilgreind í 61.H hluta hegningarlaganna frá 1900 (Crimes Act 1900). Þar segir að kynmök séu í fyrsta lagi kynferðisleg tengsl sem byggist á því að einhver fer inn í, að einhverju eða öllu leyti, kynfæri kvenna (þar með talin leggöng sem búin eru til með skurðaðgerð) eða inn í endaþarmsop einstaklings með (i) hvaða líkamshluta annars einstaklings sem er eða (ii) með hvaða hlut sem er, sem stjórnað er af öðrum einstaklingi. Undanþágur frá þessu er ef farið er inn í kynfærin í læknisfræðilegum  tilgangi. Í öðru lagi teljast hvers kyns munnmök til kynmaka og í þriðja lagi telst til kynmaka allt áframhald af áðurnefndum aðferðum.6

Í almennu hegningarlögunum  íslensku er hins vegar hvergi sett fram skilgreining á hugtakinu „vændi“.  Í greinargerðinni  með frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19 frá 12. febrúar 1940 sem lagt var fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi  2006-2007 er fjallað um að kynferðisbrotaákvæðið sé ókynbundið þannig að það taki jafnt til háttsemi karla og kvenna hvort sem um kaupanda eða seljanda er að ræða. Einnig tekur það þá jafnt til gagnkynhneigðra og samkynhneigðra.  Í greinargerðinni  er líka tekið fram að hugtakið vændi hafi fyrst komið inn í íslensk lög með breytingalögunum frá árinu 1992 en áður hafi verið talað um lauslæti. Hvorugt hugtakið, lauslæti eða vændi, hafi hins vegar verið skilgreint. Þar segir jafnframt að „[v]ið skilgreiningu á hugtakinu vændi [megi] leggja til grundvallar almenna málvenju, þannig að vændi feli það í sér að annar aðilinn þiggi greiðslu af hinum fyrir kynferðisathafnir, þ.e. samræði eða önnur kynferðismök, sem þeir hafa sín á milli. Ekki skiptir máli hvort greiðslan er peningar eða önnur verðmæti.”7 Íslenskt vændislagaumhverfi skortir því almenna skilgreiningu á því hvað teljist til kynferðisathafna og greiðslna fyrir þær.

3. Mismunandi leiðir til vændislöggjafar

Þegar rætt er um umbætur á sviði vændislöggjafar eru jafnan skoðaðar þær leiðir sem hægt er að fara í lagalegri  meðferð vændis. Árið 1996 birti Félagslega þróunarnefndin (e. Social Development Committee) í Suður- Ástralíu, skýrslu sem gerð var fyrir þingið þar. Nefndin sem vann skýrsluna skoðaði helstu leiðir til að breyta vændislöggjöf í Suður-Ástralíu og setti fram fimm leiðir sem  hugsanlegar  væru í  lagalegri meðferð  vændis. Grundvöllur  þeirrar skiptingar  byggist á flokkun nefndar (svonefndrar Sackville Royal Commission) á mögulegum lagalegum aðgerðum í tengslum við notkun eiturlyfja. Þessari flokkun var breytt til að hægt væri að nota hana um vændi. Þessar fimm leiðir eru: bann við vændi (e. total prohibition model); bann vændis með samfélagslegum viðurlögum (e. prohibition with civil penalty model); takmarkað  bann við vændi (e. partial prohibition model); stjórnun vændis (e. regulation model); og vændisfrelsi (e. free avail- ability model).8  Hér verður nánar farið út í þessar fimm leiðir en þær má ekki skoða sem tæmandi taldar.

3.1 Leið 1: Bann við vændi

Oft er litið á þessa leið sem hina árangursríkustu til að útrýma vændi þar sem hún feli í sér að vændi og allar athafnir sem því tengist séu refsiverðar. Lagalegar ráðstafanir miði að því að veita lögreglu vald til að handtaka og dómstólum vald til að sakfella einstaklinga fyrir brot á hvers kyns vændistengdri starfsemi. Refsing eigi þá að vera fullnægjandi til að fæla fólk frá því að leiðast út í vændistengdar  athafnir sem og hindra að það snúi aftur á þá braut hafi það einu sinni verið sakfellt. Talsmenn þessarar leiðar byggja afstöðu sína oft á siðferðilegum og trúarlegum grundvelli. Þar fyrir utan færa þeir oft rök fyrir því að vændi feli ávallt í sér hagnýtingu. Helstu kostir þessarar leiðar eru þeir að hún aftrar hugsanlegum viðskiptavinum frá því að tengjast inn í vændisiðnaðinn, hún leiðir til þess að verð á kynlífsþjónustu eykst sem hefur þau áhrif að færri hafa efni á henni. Hún letur því fólk frá því að tengjast vændi og hvetur jafnframt fólk til að hverfa frá vændi. Gallar á þessari leið eru einnig margir. Afleiðingar hennar geta til að mynda verið fjölgun úrræða lögreglunnar sem hefur ekki árangur sem erfiði, fjölgun fólks á sakaskrá og í fangelsum, aukið farg á dómstólana, aukin einangrun fólks sem stundar eða hefur stundað vændi (fólk í vændi getur til að mynda ekki leitað sér hjálpar sökum hræðslu við sakfellingu og fólk, sem brotist hefur úr viðjum vændis, á erfiðara með að aðlagast og fá vinnu þar sem það er oft á sakaskrá) og minni sýnileiki vændis sem getur haft ýmis heilbrigðisvandamál í för með sér. Til að mynda hefur fólk í heilbrigðisgeiranum ekki jafn auðveldan aðgang að vændishúsum og vændiskonum og þá sæta vændiskonur ekki reglum um reglubundna heilbrigðisskoðun.9

3.2 Leið 2: Bann vændis með samfélagslegum viðurlögum

Samkvæmt þessari leið skal refsa fyrir minniháttar brot með samfélagslegum viðurlögum, svo sem með yfirbótum í stað refsinga sem kveðið er á um í hegningarlögum. Refsingar eins og finna má í hegningarlögum myndu þá einungis lagðar við alvarlegum glæpum. Þannig væri hægt að setja vægari viðurlög við því að stunda vændi en harðari fyrir hagnýtingu þess. Kostir þessarar leiðar eru m.a. að vændi er áfram haldið ólöglegu en samtímis komið í veg fyrir galla þá sem finna má í leið 1 í sambandi við refsingar. Vændiskonur eiga þannig auðveldara með að yfirgefa vændisiðnaðinn og fara á hinn almenna vinnumarkað með hreina sakaskrá. Hörðum refsingum fyrir hin alvarlegri brot er haldið áfram og þá er ódýrara að fara þessa leið þar sem kostnaður dómstóla yrði væntanlega minni. Ókostir eru einnig ýmsir; fólk gæti frekar leiðst út í iðnaðinn ef það veit að brot leiði ekki til þess að það verði sett á sakaskrá, almenningur fari að líta vændi mildari augum og þá myndi þessi leið ekki draga úr þörfinni fyrir fleiri lögreglumenn sem vinna með vændisbrot.10

3.3 Leið 3: Takmarkað bann við vændi

Grundvallaratriði þessarar leiðar er að sum hegðun í tengslum við vændi sé refsiverð, önnur ekki. Það eru margar leiðir hugsanlegar til að koma þessari leið í framkvæmd. Sem dæmi mætti leyfa vændi, án refsinga, að tilteknum skilyrðum uppfylltum en gera það refsivert að öðru leyti. Kostir þessarar leiðar eru m.a. að afnuminn yrði sá smánarblettur sem fylgir oft sakfellingum fyrir vændisbrot; að vændiskonum væri gert enn auðveldara fyrir að hætta iðkun vændis, að fólk í heilbrigðisgeiranum ætti auðveldari aðgang að vændisiðnaðinum til eftirlits, að hægt væri að setja strangar reglur um hið leyfilega vændi og lögregla gæti eytt tíma sínum og mannafla í að sinna alvarlegri glæpum í tengslum við vændi. Ókostir væru þeir m.a. að hugsanlega gæti eftirspurnin eftir vændi aukist og auk þess myndi þessi leið ekki aftra fólki frá því að leiðast út í vændisiðnaðinn. Þessi leið viðurkennir hins vegar að vændi sé ekki að öllu leyti skaðlegt og að slaka megi á í löggjöf um vændisstarfsemi. Þá felst í henni viðurkenning á því að algjört bann við vændi hafi ekki skilað tilætluðum árangri við að hemja útbreiðslu og aukningu vændis og því takmarki megi ná með ódýrari og vægari aðgerðum.11

3.4 Leið 4: Stjórnun vændis

Rökstuðningurinn á bak við þessa leið er meðal annars sá að bann við vændi hafi ekki skilað neinum árangri og enda þótt ekki eigi að stuðla að vændi þá sé réttara að leyfa það undir hörðu eftirliti. Ríki eigi því ekki að banna hegun sem ekki valdi skaða, eins og þegar tveir fullorðnir einstaklingar eru samþykkir verknaðinum. Ríkisstjórnir eigi að setja reglugerðir og brot gegn þeim að varða við hegningarlög. Slík leið myndi krefjast ákveðinnar stjórn

sýslu til að sjá um að reglugerðirnar næðu fram að ganga, til að mynda sjá um útgáfu starfsleyfa, alla skráningu og þess háttar. Undir kerfi sem þessu væri hins vegar öll þvingun, valdbeiting, notkun barna og notkun eiturlyfja refsiverð. Hægt væri þá til dæmis að stjórna fjölda vændishúsa, staðsetningu, vinnutíma og starfsvettvangi götuvændiskvenna með þar til ætluðum reglugerðum. Kostir þessarar leiðar eru þeir, að fólk sem starfar í kynlífsiðnaðinum yrði ekki stimplað sem glæpamenn, svo framarlega sem það tæki ekki þátt í annarri glæpsamlegri hegðun. Þá myndi kostnaður fyrir lögreglu og dómstóla minnka og eins væri hægt að auka heilsugæslu vændiskvenna. Vankantar gætu verið ýmsir; send væru þau skilaboð út í þjóðfélagið að vændi væri ásættanlegt starf, glæpamenn sem væru viðriðnir vændi myndu færa sig yfir í aðra glæpsamlega hegðun og því yrði í raun ekki nein minnkun á alvarlegum glæpum. Orðið gæti aukning á framboði og eftirspurn eftir vændi og stjórnsýslan gæti orðið það stór í sniðum að hún myndi taka til sín allan þann fjárhagslega gróða sem yrði á sparnaði lögreglu og dómstóla. Þá myndi ólöglegt vændi verða áframhaldandi vandamál og loks hefur verið nefndur sá ókostur að þetta kerfi sé of frjálslynt og gæti smám saman leitt til þess að aðrir glæpir yrðu afgreiddir á sama hátt.12

3.5 Leið 5: Vændisfrelsi

Þessi leið er andstæða fyrstu leiðarinnar um algert bann vændis enda er meginsjónarmiðið hér að afnema allar hömlur á vændi úr lögum og reglugerðum. Málsvarar hennar eru þeirrar skoðunar að lög eigi einungis að vernda einstaklinga gegn ofbeldi, tryggja verndum barna og koma í veg fyrir ónæði fyrir hinn almenna borgara. Það eigi ekki að leggja refsingar við því að fullorðnar manneskjur stundi kynlíf í kyrrþey með samþykki beggja, jafnvel þótt greitt sé fyrir. Hins vegar felur þessi leið ekki í sér að ríki láti vændi óátalið eða hagnist á því, heldur einungis að kynlífsiðnaðurinn lúti samskonar reglum og annar iðnaður með sömu hagsbótum og takmörkunum. Kostir þess að fara þessa leið eru taldir margir. Sömu takmarkanir á glæpsamlegri hegðun gildi í kynlífsiðnaðinum og öllum öðrum iðnaði, með því að afnema refsingar fyrir vændisbrot eigi vændiskonur mun auðveldara með að láta af kynlífsstörfum og sækja í önnur störf, auðveldara verði að sinna heilsugæslu sem og að efla fræðsluþætti um vændi. Enn fremur mætti skattleggja vændisstarfsmenn eins og starfsfólk í öðrum iðnaði og ríki gætu einbeitt sér að því að vernda einstaklinga gegn ofbeldi, þvingunum eða hagnýtingu í stað þess að þröngva upp á þjóðfélagið viðurlögum byggðum á siðferði. Gallar þessarar leiðar eru hins vegar einkum þeir að fólk gæti farið að líta á vændi sem æskilega og eðlilega hegðun, að virðing kvenna gæti minnkað, að almennt yrði minna eftirlit með vændi og hugsanlegt að bæði framboð og eftirspurn kynlífsþjónustu ykist.13

4. Sænska leiðin: kostir og gallar

Í nágrannalöndum  okkar hafa lagaákvæði um kynferðisbrot verið tekin til vandlegrar endurskoðunar á síðustu árum. Markmið þessara breytinga hafa verið annars vegar að einfalda reglur um kynferðisbrot og gera þær nútímalegri og hins vegar að auka vernd barna og kvenna gegn kynferðisbrotum.  Í þessum kafla verður lögð áhersla á þær breytingar sem orðið hafa í Svíþjóð, þ.e. skoðuð verður „sænska leiðin“ sem vísar til þess að árið 1998 voru kaup á kynlífi gerð refsiverð þar í landi (lag (1998:408) om förbud mot köp av sexuelle tjänster).14 Þá verður litið á ástæður þess að Ísland fór ekki þessa leið í löggjöf sinni.

Þann 1. janúar 1999 tóku sem fyrr segir gildi lög í Svíþjóð sem leggja refsingu við kaupum á kynlífi. Lögin áttu að taka á eftirspurninni, sem talin var orsök  vændis. Gunilla Ekberg hefur skrifað grein um þessi lög, ,,The Swedish Law that Prohibits the Purchase of Sexual Services: Best Practices for Prevention of Prostitution and Trafficking in Human Beings” þar sem hún segir að lögin séu hornsteinn þeirrar sænsku viðleitni að búa til lýðræðislegt þjóðfélag á okkar tímum þar sem konur og stúlkur geti lifað frjálsar undan öllum myndum karlægs ofbeldis. Hún segir að kaupendum fækki þegar þeir eiga refsingu á hættu, eftirspurnin minnki og vændismarkaðurinn verði því síður ábatasamur.15 Ekberg leggur fram þær tölulegu staðreyndir að árið 1999 var áætlað að 125.000 sænskir karlmenn hafi keypt þjónustu af um 2500 vændiskonum einu sinni eða oftar á ári hverju. Af þeim voru um 650 götuvændiskonur.  Frá 1999 til 2004 hafði þeim fækkað um 30-50% og hægst hafði ennfremur á nýliðun í starfið. Þá sé áætlað að vændiskonum hafi í heildina fækkað milli áranna 1999 og 2002 úr 2500 í 1500 konur.16

Í greinargerð  með frumvarpi til laga um breytingu á almennu hegningarlögunum íslensku sem lagt var fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006-2007 segir að rannsóknir hafi sýnt að í kjölfar gildistöku sænsku laganna frá1999 hafi í reynd dregið úr götuvændi í Svíþjóð en að skoðanir séu skiptar um hvort dregið hafi úr vændi þegar á heildina sé litið. Þannig sé til að mynda ekki hægt að útiloka að dulið vændi hafi aukist. Erfitt sé að segja til um magn dulins vændis þar sem það fer oftast fram innanhúss og þá hefur betri fjarskiptatækni eins og til dæmis internetið stuðlað að því að gera enn örðugra en áður að fylgjast með vændi. Fræðimenn í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hafi einnig gagnrýnt að ekki hafi verið gerð heildarrannsókn á því hvernig sænsku lögin hafi virkað. Flestar þjóðir Norðurlanda eigi það sameiginlegt að hafa íhugað að fara sænsku leiðina; norska ríkisstjórnin ákvað hins vegar í desember 2004 að fara ekki að fordæmi Svía og þá er ekki áformað í Danmörku að fara sænsku leiðina en bæði Danir og Norðmenn eru þó á þeirri leið að taka á vandamálinu með félagslegum aðgerðum.17

Helstu kostir og gallar þess að fara sænsku leiðina eru taldir í greinargerðinni með lagafrumvarpinu íslenska en þar kemur fram að helstu kostir þess að gera kaup á vændi refsiverð séu:

  1. Seljandi vændis er illa settur félagslega og neyðist til að selja líkama sinn, en kaupandi vændis á þar val. Aðstöðumunur  aðila er því mikill. Líkami fólks á ekki að vera söluvara. Það eru því sterk siðferðisleg skilaboð til samfélagsins að slík háttsemi sé refsiverð.
  2. Refsiákvæði um vændiskaup  munu hafa almenn varnaðaráhrif  sem leiða til þess að eftirspurn eftir vændi minnkar og síðan mun framboðið minnka í kjölfarið.
  3. Ef eftirspurn eftir vændi minnkar mun einnig draga úr mansali.
  4. Kaupandi vændis sem til stendur að ákæra er viljugri til að bera vitni gegn vændismiðlara, ef þess er kostur að tekið verði tillit til samstarfsvilja hans við ákvörðun refsingar, sbr. 9. tölul. 70. gr. hgl.18

Helstu gallar séu að:

  1. Ekki er komin næg reynsla af sænsku löggjöfinni, heildarrannsóknir á áhrifum hennar hafa ekki farið fram og því er ekki ljóst hvort hún hefur haft almenn varnaðaráhrif.
  2. Þótt dregið hafi úr götuvændi í Svíþjóð eru vísbendingar um að vændi hafi færst í undirheimana með þeim afleiðingum að erfiðara er að hafa eftirlit með því og veita þeim sem stunda vændi félagslega aðstoð. Staða vændismiðlara getur styrkst, m.a. vegna þess að kaupendur vændis verða ófúsari til að bera vitni gegn þeim og koma þar með upp um sjálfa sig. 
  3. Þótt mansal dragist saman í einu landi getur það þýtt samsvarandi aukningu í öðru landi. Engin lausn er að flytja vandann til annarra landa heldur þarf samstillt átak þjóða til þess að taka á honum.19

Þá hafa komið upp þær tilgátur að bann við kaupum á vændi fæli í mesta lagi frá hina venjulegu viðskiptavini, þá sem kaupi slíka þjónustu sjaldan, en vafasamt sé að hún hafi áhrif á þá sem eru ofbeldisfullir og vilji stunda þessa háttsemi.20

Í greinargerðinni  kom einnig fram að aðstæður á Íslandi væru aðrar en voru í Svíþjóð þegar refsiákvæðið um vændiskaup var lögfest þar og verði lagabreytingar að taka mið af þjóðfélagsviðhorfum og aðstæðum hverju sinni. Því þurfi að rannsaka betur umfang og eðli vændis á Íslandi áður en lögum verði breytt í átt til þess sem gert var í Svíþjóð. Þá hafi refsing aldrei verið heppileg leið við lausnum á félagslegum vanda og frekar eigi því að reyna aðrar leiðir eins og að finna orsakir vandans og vinna á þeim. Vegna þessa var ákveðið að leggja ekki til í frumvarpinu refsingu við kaupum á vændi.21

5. Lokaorð

Það er ýmislegt sem betur má fara í íslenskri löggjöf um vændi. Í hana vantar í fyrsta lagi almennilega skilgreiningu á vændi. Í skýrslu starfshóps  sem kynnti sér mismunandi löggjöf um vændi á Norðurlöndum og víðar eru settir fram tveir meginþættir sem starfshópurinn telur felast í vændi; annars vegar að tilteknar kynlífsathafnir, þ.e. samræði eða önnur kynferðismök, eigi sér stað og hins vegar að „[...] um sé að ræða greiðslu, eða loforð um greiðslu, eða annan ávinning fyrir samræði eða önnur kynferðismök.  Í þessu tilliti koma ekki einungis til álita beinar peningagreiðslur, heldur og ýmiss konar önnur verðmæti og ígildi peninga, svo sem húsnæði, utanlandsferðir, áfengi, fíkniefni o.fl.“22 Skilgreining á vændi þyrfti að innihalda slíka útlistun á því hvað teljist greiðsla, þó hér vanti enn betri skilgreiningu á því hvað teljist til kynlífsathafna, samræðis eða annarra kynlífsmaka. Til að lögregluyfirvöld og dómstólar geti starfað eftir bókstaf laganna þarf að vera skýrt kveðið á um í lögum hvað teljist vera brot og því er ekki til að dreifa í vændislöggjöf Íslands í dag.

Í öðru lagi eru lögin óskýr; erfitt er t.d. að segja til um hvar götuvændi gæti átt heima í ákvæðum alm. hgl. Götuvændi er ekki bannað falli það undir vændi samkvæmt 206. greininni; hins vegar getur það fallið undir hið lostuga athæfi sem særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis samkvæmt ákvæði 209. gr. en þá getur aftur á móti sumt götuvændi talist hneykslanlegt en annað ekki. Einnig væri hægt að líta á götuvændi sem opinbera lifandi auglýsingu sem þá væri bönnuð skv. 206. gr. Taka þyrfti allan vafa um þetta í löggjöfinni og setja sérstök ákvæði um götuvændi.

Mjög skiptar skoðanir eru á því um allan heim hvaða leiðir séu bestar til að ná árangri í baráttunni gegn vændi. Þó hefur ríkt einhugur um að hagnýting vændis eigi að vera refsiverð, svo og athafnir gagnvart börnum og unglingum auk mansals. Ef ég ætti að velja leið fyrir lagasetningu er varðar vændi á Íslandi tel ég skynsamlegast að fara mitt á milli leiðar 4 og 5. Ástæðan er sú að ég tel ekki rétt að siðferðishugmyndir fólks sem setur lög eigi að hafa áhrif á að fólk sem vill stunda vændi geti stundað vændi. Í grunninn er vændi það að selja líkamlega vinnu sína gegn greiðslu og það er gert alls staðar í kringum  okkur, t.d. í byggingariðnaðinum.  Fylgifiskar vændis eru jú oft hræðilegir eins og mansal, kynsjúkdómar og eiturlyf. En það verður að hafa í huga að það eru fylgifiskar, vændi er ekki það sama og mansal. Fylgifiskar í byggingariðnaði eru einnig hræðilegir eins og slys, jafnvel dauðaslys sem og brot á ýmsum vinnuréttindum. En það dettur engum í hug að banna allan byggingariðnað. Sama ætti að gilda um vændisiðnað. Ef báðir aðilar eru algerlega samþykkir og ótilneyddir, hvað er þá svona hræðilegt við vændi? Fólk sem vill selja líkama sinn í vændistilgangi hefur barist fyrir þessu frelsi í fjölda ára. Á síðari hluta 20. aldar fóru vændiskonur að stofna samtök og berjast fyrir réttindum sínum. Fyrsti réttindahópur  þeirra var stofnaður í San Francisco í Bandaríkjunum og kallaðist COYOTE (Call Off Your Old Tired Ethics). Fleiri hópar voru stofnaðir þar í landi eins og t.d. FLOP (Friends and Lovers of Prostitutes) og HIRE (Hooking is Real Employment).23

Þá verður að hafa í huga að leyfisveitingar eins og finna má t.d. í sumum áströlskum fylkjum auðvelda allt eftirlit með leyfilegu vændi. Ísland lögleiðir vændiskaup og sölu sem ekki er háð neinum skilyrðum svo sem starfs

leyfi. Með slíku leyfi væri betur hægt að fylgjast með tíðni vændis, hvort heldur væri aukningu eða minnkun og sjá til þess að vændiskonur sæti ýmiss konar kynsjúkdómaskoðun.  Þá væri hægt að fara hina sænsku leið að hluta til og refsa ef til vill fyrir kaup á vændi af þeim sem ekki hefðu leyfi. Verið gæti að slíkt myndi draga úr mansali þar sem karlmenn myndu frekar leita til vændiskvenna sem hefðu leyfi, frekar en hætta á refsingu fyrir að kaupa af leyfislausum konum. Þannig væri hægt að beina kaupunum að skráðum konum og auk þess væri betur hægt að rannsaka orsök vændis þeirra og aðstoða þær félagslega við að koma sér út úr vændi. Möguleikar Íslands eru margir og þó svo að vændi virðist ekki vera stórt vandamál á Íslandi í dag þá sýna nágrannalönd okkar mikla aukningu í vændi. Því er best að taka á þessu strax, bæta skilgreiningu á vændi, gera ákvæði laganna einföld og skýr og velja þá leið sem best er fyrir íslenskar aðstæður.

Neðanmálsgreinar

1. Ekberg 2004:1188.

2. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19 frá 12. febrúar 1940.

3. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19 frá 12. febrúar 1940.

4. „Vændi“ og „vændiskona“ í íslenskri orðabók. (Sótt 23. apríl 2008) http://snara.is/vefbaekur/gagn.htm

5. „„prostitution“ includes acts of prostitution between persons of different sexes or of the same sex, and includes:

            (a) sexual intercourse as defined in section 61H of the Crimes Act 1900 , and

            (b) masturbation committed by one person on another, for payment.“

3. gr. Summary Offences Act 1998. (Sótt 16. apríl 2008) http://www.austlii.edu.au/au/legis/nsw/consol_act/soa1988189/s3.html 

6. „For the purposes of this Division, „sexual intercourse“ means:

            (a) sexual connection occasioned by the penetration to any extent of the genitalia (including a surgically constructed vagina) of a female person or the anus of any person by:

                (i) any part of the body of another person, or

                (ii) any object manipulated by another person, except where the penetration is carried out for proper medical purposes, or

            (b) sexual connection occasioned by the introduction of any part of the penis of a person into the mouth of another person, or

            (c) cunnilingus, or

            (d) the continuation of sexual intercourse as defined in paragraph (a), (b) or (c).“ 61H (1). gr. í Crimes Act 1900. (Sótt 16. apríl 2008)  http://www.austlii.edu.au/au/legis/nsw/consol_act/ca190082/s61h.html

7. Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot).  Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006-2007. Þingskjal 20 – 20 mál. Greinargerð, bls. 32-33.

8. „Inquiry into Prostitution. Final Report. Ninth Report of the Social Development Committee.“ Third session – Forty Eighth Parliament 1995-6. Bls 18-19. (Sótt 27. apríl 2008)  http://www.parliament.sa.gov.au/NR/rdonlyres/ B48AE49B-FD48-4547-BE5E-58DCCDBD3682/4694/09threportinquiryintoprostitutionfinalreportpt1.pdf

9. Sama heimild, bls. 19.

10. Sama heimild, bls. 20.

11. Sama heimild, bls. 20-21.

12. Sama heimild, bls. 21-22.

13. Sama heimild, bls. 22.

14. Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot).  Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006-2007. Þingskjal 20 – 20 mál. Greinargerð, bls. 6.

15. Ekberg 2004:1187.

16. Sama heimild, bls. 1193.

17. Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot).  Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006-2007. Þingskjal 20 – 20 mál. Greinargerð, bls. 36.

18. Sama heimild, bls. 36-37.

19. Sama heimild, bls. 37.

20. Sama heimild, bls. 37.

21. Sama heimild, bls. 37-38.

22. Skýrsla starfshóps sem kynnti sér mismunandi löggjöf um vændi o.fl. á Norðurlöndum og víðar. 2006. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, Reykjavík. (Sótt 1. maí 2008) http://www.domsmalaraduneyti.is/media/ Skyrslur/DKM_vaendi_feb2006.pdf

23. Jenness 1990.

Heimildaskrá

Bækur:

Ringdal, Nils Johan. Love for Sale: A World History of Prostitution, 1st ed. (New York: Grove Press, 2004).

Sullivan, Mary Lucille. Making Sex Work. A Failed Experiment with Legalised Prostitution, (North Melbourne, Australia: Spinifex Press, 2007).

Greinar:

Ekberg, Gunilla, „The Swedish Law that Prohibits the Purchase of Sexual Services: Best Practices for Prevention of  Prostitution  and Trafficking in Human Beings.“ [2004] 10 Violence Against Women 1187, SAGE Publications. (Sótt 21. apríl 2007) http://vaw.sagepub. com/cgi/content/abstract/10/10/1187

Sullivan, Mary Lucille og Sheila Jeffreys, „Legalization: The Australian Experience.“ [2002] 8 Violence Against Women 1140, SAGE Publications. (Sótt 27. apríl 2007) http://vaw.sagepub. com/cgi/reprint/8/9/1140 23 Jenness 1990.

Skýrslur:

Inquiry into Prostitution. Final Report. Ninth Report of the Social Development Committee. Third session – Forty Eighth Parliament 1995-6. (Sótt 27. apríl 2008) http://www.parliament. sa.gov.au/NR/rdonlyres/B48AE49B-FD48-4547-BE5E-58DCCDBD3682/4694/09threportinquiry intoprostitutionfinalreportpt1.pdf

Prostitution Law Reform for Western Australia. Report of the Prostitution Law Reform Working Group. 2007 Published by the Attorney General, Perth WA. (Sótt 17. apríl 2008) http://www.scarletalliance.org.au/library/wa_lwp_07

Skýrsla starfshóps sem kynnti sér mismunandi löggjöf um vændi o.fl. á Norðurlöndum og víðar. 2006. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, Reykjavík. (Sótt 1. maí 2008) http://www. domsmalaraduneyti.is/media/Skyrslur/DKM_vaendi_feb2006.pdf

Alþingi:

745. Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940. 425. mál. Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989-90. „Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.“ (Sótt 23. apríl 2008) http://www.althingi.is/altext/112/s/0745.html

Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum,  nr. 19/1940, með síðari breyting- um. Þingskjal 38 – 38. mál. Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi  2003-2004. (Sótt 6. maí 2008) http://www.althingi.is/altext/130/s/0038.html

Frumvarp til laga um breyting á  almennum hegningarlögum,  nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot). Þingskjal 1048 – 712. mál. Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005-2006. (Sótt 6. maí 2008) http://www.althingi.is/altext/132/s/1048.html

Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðis- brot). Þingskjal 20 – 20. mál. Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006-2007. (Sótt 20. apríl 2007) http://www.althingi.is/altext/133/s/pdf/0020.pdf

Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum,  nr. 19/1940, með síðari breyting- um. Þingskjal 207 – 192. mál. Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007-2008. (Sótt 6. maí 2008) http://www.althingi.is/altext/135/s/pdf/0207.pdf

Þorsteinn Pálsson, dómsmálaráðherra.  1996. 133. fundur Alþingis 6. maí 1996. (Sótt 25. apríl 2008) http://www.althingi.is/altext/120/O5/r08144358.sgml

Lög: Ísland:

1940 nr. 19, 12. febrúar. Almenn hegningarlög.

1992 nr. 40, 26. maí. Lög um breyting á almennum hegningarlögum,  nr. 19 12. febrúar 1940. 2002 nr. 14, 27. febrúar. Lög um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot gegn börnum).

Ástralía:

Crimes Act  1900. (Sótt  16. apríl 2008) http://www.austlii.edu.au/au/legis/nsw/consol_act/ ca190082/s61h.html

Criminal Law Consolidation Act 1935 (Sótt 26. apríl 2008) http://www.austlii.edu.au/au/legis/sa/consol_act/clca1935262/

Prostitution Act  1999. (Sótt  14. apríl 2008) http://www.legislation.qld.gov.au/LEGISLTN/ CURRENT/P/ProstitutA99.pdf

Prostitution Control Act 1994. Version No. 056. (Sótt 26. apríl 2008) http://www.legislation.vic. gov.au/Domino/Web_Notes/LDMS/PubLawToday.nsf/95c43dd4eac71a68ca256dde00056e7b/81AE366ED4C5D595CA25730800251699/$FILE/94-102a056.pdf

Prostitution Regulation Act. (lögin hafa ekki ártal) (Sótt 27. apríl 2008) http://www.austlii.edu. au/au/legis/nt/consol_act/pra317/

Sex Industry Offences Act 2005. (Sótt 24. apríl 2008) http://www.austlii.edu.au/au/legis/tas/consol_act/sioa2005253/

Summary Offences Act 1953. (Sótt 26. apríl 2008) http://www.austlii.edu.au/au/legis/sa/consol_act/soa1953189/

Summary Offences Act 1988. (Sótt 16. apríl 2008) http://www.austlii.edu.au/au/legis/nsw/consol_act/soa1988189/

Summary Offences Act 1998 (Sótt 16. apríl 2008) http://www.austlii.edu.au/au/legis/nsw/consol_act/soa1988189/s3.html

Svíþjóð:

1999 Swedish Prostitution Law. SFS 1998:408. Act on prohibiting the purchase of sexual servic- es. Í enskri þýðingu. (Sótt 27. apríl 2008) http://www.bayswan.org/swed/swed_law.html

The Swedish Penal Code. Ds 1999:36. Swedish statues in translation. Ministry of Justice. Law 1984:399 (Sótt 27. apríl 2008) http://www.sweden.gov.se/content/1/c6/02/77/77/cb79a8a3.pdf

The Swedish Penal Code. Ds 1999:36. Swedish statues in translation. Ministry of Justice. Law 1991:240 (Sótt 27. apríl 2008) http://www.sweden.gov.se/content/1/c6/02/77/77/cb79a8a3.pdf

The Swedish Penal Code. Ds 1999:36. Swedish statues in translation. Ministry of Justice. Law 1998:393 (Sótt 27. apríl 2008) http://www.sweden.gov.se/content/1/c6/02/77/77/cb79a8a3.pdf

Orðabók:

Íslensk veforðabók. (Sótt 23. apríl 2008) http://snara.is/vefbaekur/gagn.htm

Veraldarvefurinn:

Jenness, Valerie. 1990. „From Sex as Sin to Sex as Work: COYOTE and the Reorganization of Prostitution as a Social Problem.“ Partur greinarinnar tekinn af vefsíðu Prostitution ProCon á „History of Prostitution.“ (Sótt 20. apríl 2008) http://www.prostitutionprocon.org/history. htm#ancient

 

 

 

 

 

 

 

 

 



Efnisyfirlit


Núverandi tölublað

Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd

Síðasta tölublað

Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun

Fréttir

22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing


Lögfræðingur ©2023 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN