Ingibjörg Björnsdóttir lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri 2008. Efni greinarinnar byggir á lokaritgerð höfundar til M.L. prófs um rannsókn á refsiviðurlögum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og beitingu þeirra hjá íslenskum dómstólum. Leiðbeinandi með rannsókninni var Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari hjá Ríkissaksóknara.
Kynferðisbrot teljast með alvarlegustu refsiverðum brotum í íslensku réttarkerfi. Nauðgun og kynferðisbrot gegn börnum eru til að mynda næst alvarlegustu brotin á eftir manndrápi sé litið til refsimarka laganna. Almenn um- ræða um kynferðisbrot og um refsingar fyrir slík brot hefur farið vaxandi í íslensku samfélagi. Vitundarvakning hefur orðið og þekking á eðli og afleiðingum kynferðislegs ofbeldis aukist mikið á undanförnum áratugum eða frá því kynferðisbrotakafli almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var endurskoð- aður með lögum nr. 40/1992. Þá hefur veruleg framför orðið bæði innan réttarvörslukerfisins og heilbrigðiskerfisins til að tryggja réttlátari og skilvirkari meðferð þessara mála. Löggjafinn hefur mætt þróuninni með lagabreytingum sem fela í sér umtalsverðar réttarbætur fyrir þolendur kynferðis- brota. Í umfjöllun þeirri sem hér fer á eftir verður lögð áhersla á að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem eru ráðandi um refsihæð þegar íslenskir dómstólar ákvarða refsingu fyrir kynferðisbrot.
Nýlega voru gerðar breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940,1 sbr. breytingarlög nr. 61/2007 og tóku lögin gildi 4. apríl
2007. Breytingarnar fela í sér mikilvægar réttarbætur fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis. Helstu nýmæli eru þau að skilgreining á hugtakinu nauðgun var rýmkuð verulega og orðalagi ákvæðisins breytt þannig að ofbeldi eða hótun um ofbeldi er ekki lengur skilyrði sem verknaðaraðferð heldur er nú gert ráð fyrir að önnur ólögmæt kynferðisnauðung, sbr. 195. gr. eldri laga og misneyting sbr. 196. gr. eldri laga, teljist einnig til nauðgunar. Þannig hefur refsing fyrir slík brot verið þyngd til samræmis við nauðgunarbrotið.2
Réttarvernd til handa börnum var bætt verulega en þyngdar voru refsingar fyrir samræði og önnur kynferðisbrot gegn börnum og varða þau nú frá einu ári að sextán árum. Kynferðisbrot gegn börnum teljast því til alvarlegustu kynferðisbrota í stað nauðgunar einnar áður. Einnig voru aldursmörk hækkuð og reglum um fyrningu vegna kynferðisbrota gegn börnum breytt. Þá voru refsimörk fyrir aðra kynferðislega áreitni hækkuð. Fleiri mikilvægar réttarbætur voru þær að lögfest voru ný ákvæði um sérstaka refsiþyngingu vegna nauðgunarbrota eða vegna ítrekunar og almennt ákvæði um refsiábyrgð vegna kynferðislegrar áreitni.3 Þá var reglum um vændi breytt, þannig að vændi til framfærslu er refsilaust en lögin gera ráð fyrir að áfram sé refsivert að hafa atvinnu af vændi annarra.
Svigrúm dómstóla til að meta hæfilega refsingu markast af refsimörkum brotategundar og af dómvenju. Dómara er frjálst að líta jafnt til lögmæltra sem ólögmæltra refsiákvörðunarsjónarmiða, og ræðst það oft af málavöxtum hverjar ákvörðunarástæður eru lagðar til grundvallar hverju sinni. Ljóst er að nokkuð hefðbundið er hvaða sjónarmið það eru sem helst hafa áhrif á refsihæð við ákvörðun refsingar í kynferðisbrotamálum. Er þar 70. gr. hgl. mikilvægust, en í flestum tilfellum er mögulegt að heimfæra atvik máls undir hinar lögmæltu refsiákvörðunarástæður almennra hegningarlaga þegar um kynferðisbrot er að ræða. Atriði sem helst hafa áhrif til þyngingar refsingu eru sjónarmið eins og gróft ofbeldi, ungur aldur þolanda, fjölskyldu- tengsl eða trúnaðarsamband, en einnig vegur til þyngingar hefðbundnar refsihækkunarástæður eins og samverknaður, ítrekun brots eða fyrri sakir. Til mildunar hefur helst reynt á aldur sakbornings og játningu. Þá má merkja áþreifanleg tengsl refsivörslukerfisins við félagslega kerfið með möguleik- um um að beita öðrum refsitengdum viðurlögum og er það sérstaklega mikilvægt þegar um unga gerendur er að ræða.4
Í 1. mgr. 70. gr. hgl. er að finna ýmis atriði í níu töluliðum sem verka til þyng- ingar eða málsbóta innan refsimarka ákvæðis. Atriðin varða aðallega að- stæður geranda, en geta einnig átt við um aðstæður þolanda þegar kemur að því að meta verknaðinn. Í 1. tl. er nefnt hversu mikilvægt það er sem brotið hefur beinst að. Þar undir hefur í dómaframkvæmd verið felldur ungur aldur þolanda. Í 2. tl. er vísað til þess hversu yfirgripsmiklu tjóni brotið hefur valdið, gætu þar átt við miklar þjáningar eða líkamstjón, sem þolandi hefur orðið fyrir. Í 3. tl. er fjallað um hve mikil hætta var búin af verkinu, þ.e. hvenær, hvar og hvernig það var framkvæmt. Hér koma til álita allar aðstæður við brotið og hvort það er framið með mjög hættulegri aðferð, t.d hættulegum verkfærum. Í 4. tl. er vísað til aldurs brotamanns og í 5. tl. til hegðunar hans að undanförnu, t.d. ef hann hefur áður framið afbrot, t.a.m. kynferðisbrot. Í 6. tl. er vísað til þess hversu styrkur og einbeittur vilji brota- manns var til verksins. Í 7. tl. er vísað til þess hvað hinum brotlega hefur gengið til verksins. Í 8. tl. segir hvernig framferði hans hefur verið eftir að hann hafði unnið verkið. Í 9. tl. er vísað til þess hvort hann hefur upplýst um aðild annarra að brotinu.
Hrd. 48/2007
E var ákærður fyrir brot gegn 14 ára stúlku. Varðaði brotið við 194. gr. hgl. Í niðurstöðu héraðsdóms sem staðfestur var í Hæstarétti var vísað til ungs aldurs ákærða og þess að hann hafði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Hann hafi þó neytt bæði aldurs- og aflsmunar við brotið. Brot ákærða hafi verið ófyrirleitið og til þess fallið að valda stúlku á viðkvæmum aldri verulegum skaða. Við ákvörðun refsingar var vísað til 1., 2. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 og refsing ákveðin fangelsi í þrjú ár.
Í 2. mgr. 70. gr. hgl. segir að ef um samverknað sé að ræða skuli að jafnaði taka það til greina til þyngingar refsingunni. Í dómi Hæstaréttar nr. 74/2008 var refsing þyngd sérstaklega vegna þess að um samverknað var að ræða.
Hrd. 74/2008
A og R voru ákærðir fyrir kynferðisbrot með því að hafa í sameiningu og með ofbeldi báðir reynt að hafa samfarir við X og neytt hana til að hafa við þá munnmök. Í héraðsdómi sem staðfestur var í Hæstarétti var vísað til aldurs ákærðu og greinds sakaferils. Þá var einnig horft til þess hve hrotta- legur verknaður ákærðu var, þess gríðarlega sálartjóns sem þeir ollu X og fullkomins skeytingarleysis fyrir líðan hennar, kynfrelsi og æru. Var talið að þeir ættu sér engar málsbætur heldur bæri að þyngja refsingu þeirra sérstaklega í ljósi samverknaðar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningar- laga. Var refsing ákærðu hvors um sig þannig ákveðin fangelsi í fimm ár. Náin tengsl aðila gera brot enn alvarlegra vegna þess að brotið er gegn trúnaði og trausti sem í tengslunum felast. Með breytingarlögum nr. 27/2006 var lögfest nýtt ákvæði í 3. mgr. 70. gr. hgl. sem kveður á um það að ef verknaður beinist að karli, konu eða barni sem eru nákomin geranda og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins, skuli að jafnaði taka það til greina til þyngingar refsingunni. Þetta ákvæði hefur verið notað vegna kynferðisbrota.
Hrd. 44/2003
X var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa gert tilraun til þess að hafa samræði við 16 ára dóttur sína sem gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Í héraðsdómi sem stað-festur var fyrir Hæstarétti voru fjölskyldutengsl aðila og trúnaðarbrestur metin til refsiþyngingar. Var m.a. vísað til þess að háttsemin hafi verið alvarleg og beinst gegn mikilvægum hagsmunum, enda brotið gegn dóttur hans, sem var gestkomandi á heimili hans og gat enga björg sér veitt vegna svefndrunga og eigin ölvunarástands. Þá var einnig vísað til þess að stúlkan hafi verið ósjálfráða og undir verndarvæng föður síns, sem bar ábyrgð á velferð hennar. Refsing ákærða var ákveðin 18 mánaða fangelsi.
Í 1. mgr. 74. gr. hgl. eru almennar refsilækkunarástæður. Eru þar talin upp í níu liðum þau atriði sem heimila að færa refsingu fyrir brot niður úr lágmarki þegar þær aðstæður sem þar eru tilgreindar eru fyrir hendi. Í nauðgunarbrotum samkvæmt 194. gr. hgl. hefur helst reynt á 2., 8. og 9. tl. ákvæðisins. Í 2. tl. er tekið tillit til aldurs brotamanns. Þar segir að færa skuli refsingu niður úr lágmarki ef brot er drýgt af manni, sem þá er ekki fullra 18 ára, og álíta má vegna æsku hans, að full refsing sé ónauðsynleg eða skaðleg. Í 8. tl. er vísað til hegðunar geranda eftir að brot var framið, hvort hann hafi af sjálfsdáðum bætt að fullu það tjón sem hann olli, eða lagt sig fram við að koma í veg fyrir skaðlegar afleiðingar af verkinu eða reynt eftir mætti að bæta úr tjóninu. Í 9. tl. er það reiknað brotamanni til málsbóta ef hann segir af sjálfsdáðum frá broti og skýrir hreinskilningslega frá öllum atvikum.
Einnig segir í 2. mgr. 74. gr. hgl. að ákveða megi, þegar svo stendur á, sem í 1.-8. tl. segir, að refsing skuli falla niður að öllu leyti.
Hrd. 372/2003
X, 15 ára, hafði ásamt fleiri unglingum safnast saman utandyra um kvöld og var áfengi haft um hönd. Hann fór síðan ásamt tveimur 14 ára drengj- um og stúlkunni Y, 15 ára, heim til eins þeirra, að sögn drengjanna til þess að fara í hópkynlíf með Y. Y bar að hún hefði staðfastlega neitað að taka þátt í slíkum athöfnum, en þrátt fyrir það hafi X og annar drengur haft við hana samfarir gegn vilja hennar. Fallist var á með héraðsdómi að ekki teldist sannað í málinu að ákærði hefði gerst sekur um nauðgun en að sýnt væri fram á að X hefði komið fram vilja sínum við Y með ólögmætri nauðung og því brotið gegn 195. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var vísað til aldurs brotamanns sbr. 4. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og 2. tl. 74. gr. s.l. og þess að hann hafði ekki áður sætt refsingu. Var refsing ákveðin fangelsi í 6 mánuði, skilorðsbundið í 3 ár.
Í 75. gr. hgl. er almenn refsilækkunarástæða sem heimilar að færa refsingu niður og jafnvel láta hana falla alveg niður, ef brot er framið í ákafri geðshræringu, vegna annars skammvinns ójafnvægis á geðsmunum eða svo er ástatt að öðru leyti að verknaðurinn er ekki talinn líkt því eins refsiverður og venjulegt er um sams konar brot. Engin dæmi eru um að reynt hafi á þetta ákvæði þegar um kynferðisbrot er að ræða.
Aðrar lögmæltar refsiákvörðunarástæður eru í 77. – 78. gr. hgl. Í 77. gr. hgl. er að finna frjálsa refsihækkunarheimild. Ef gerandi fremur tvö eða fleiri brot án þess að hann sé dæmdur í millitíðinni er talað um brotasamsteypu og skal vísa til 77. gr. hgl. við ákvörðun refsingar. Brotasamsteypa getur verið þannig að fleiri en eitt brot séu framin með einum verknaði eða með fleiri verknuðum. Dæmi um slíkt er ef brot á undir 194. gr. hgl. og þolandi er undir 15 ára aldri, þá er um brotasamsteypu að ræða og skal einnig beita 1. mgr. 202. gr. hgl. um brotið. Einnig ef gerandi brýtur gegn fleiri en einum með stuttu millibili. Miðað er við að einhver tími líði á milli brota, t.d. nokkrir dagar. Talað er um framhaldsbrot ef brot eru framin gagnvart sömu manneskju í beinu framhaldi af hvort öðru. Ef brotin eiga ekki öll undir sama refsiákvæði á að tiltaka refsingu innan þess ákvæðis, sem þyngsta refsingu setur. Þá segir í 78. gr. hgl. að ef maður sem búið er að dæma fyrir eitt brot verður uppvís að því að hafa framið önnur brot áður en hann var dæmdur, skuli dæma honum hegningarauka, sem samsvari þeirri þyngingu sem hefði orðið ef dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra máli.
Í 71. gr. og 72. gr. hgl. eru refsihækkunarheimildir sem eiga við vegna ítrekunar eða ef hinn brotlegi er vanaafbrotamaður.
Almennar refsilækkunarástæður eru í 2. mgr. 20. gr. hgl. um tilraun og 2. mgr. 22. gr. hgl. um hlutdeild. Heimilt er að dæma lægri refsingu fyrir tilraun en fullframið brot ef af tilrauninni má ráða að brotamaður sé ekki eins hættulegur og vilji hans ekki eins harðnaður og ætla má að sé um menn sem fullfremja slík brot. Í 2. mgr. 22. gr. hgl. um hlutdeild eru tilgreindar fjórar ástæður þess að færa megi refsingu niður úr lágmarki, þ.e. ef hlutdeild einhvers þátttakanda er smávægileg eða í því fólgin að styrkja áform annars manns sem þegar er orðið til, ef brotið er ekki fullframið eða ef þátttaka misheppnast.5 Refsilækkunarástæður þessar eru frjálsar þannig að heimilt er að færa refsingu niður fyrir refsilágmark ákvæðis. Þegar sérstakt refsilágmark er, líkt og í 194. gr. hgl. um nauðgun og 1. mgr. 202. gr. hgl., um kynferðisbrot gegn börnum skipta refsilækkunarástæður meira máli en ella.6
Hrd. 133/2005
Ákærði var sakfelldur fyrir tilraun til nauðgunar og brot hans heimfært undir 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlega nr. 19/1940, sbr. 20. gr. lag- anna. Í dómi Hæstaréttar var vísað til aldurs ákærða sem var 24 ára er hann framdi brotið. Þá var vísað til þess hve fólskuleg árásin var en ákærði beitti miklu líkamlegu ofbeldi. Við ákvörðun refsingar var hins vegar litið til þess að brotið var ekki fullframið, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 19/1940. Einnig var litið til þess að ákærði kom að eigin frumkvæði til lögreglu og gaf skýrslu um brot sitt, sbr. 9. tölulið 1. mgr. 74. gr. laganna. Einnig hafði hann þegar greitt þær miskabætur sem dæmdar voru í héraði. Var refsing ákærða ákveðin fangelsi í 15 mánuði.
Hrd. 8/1993
B var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og R gefið að sök hlutdeild í verknaðinum, þ.e. brot gegn 1. mgr. 194. gr. sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940. Í héraðsdómi sem staðfestur var fyrir Hæstarétti var vísað til alvarleika sakarefnis og þess að um samverknað var að ræða sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing ákærðu hvors um sig ákveðin fangelsi í tvö ár.
Með breytingarlögum nr. 61/2007 voru lögfestar sérstakar refsiþyngingarástæður í 195. gr. hgl. Lögin kveða nú á um að við ákvörðun refsingar fyrir brot gegn 194. gr. hgl. skuli virða það til refsiþyngingar ef þolandi er barn yngra en 18 ára, ef ofbeldi geranda er stórfellt eða ef brotið er framið á sér- staklega sársaukafullan eða meiðandi hátt.
Hvað varðar hin ólögmæltu refsiákvörðunarsjónarmið þá er löng hefð fyrir því að dómstólar vísi í forsendum sínum til ólögfestra refsiákvörðunarsjón- armiða. Ólögmæltar refsiákvörðunarástæður byggja á meginreglum refsilaga eða eru aðrar ólögmæltar ástæður sem eðlilegt þykir að taka tillit til. Til þeirra teljast ástæður eins og trúnaðarbrot, launung, samþykki brotaþola, sjálfsbjargar- og verndarviðleitni geranda eða sifjatengsl milli aðila.7 Einnig getur verið vísað til annarra ólögmæltra ástæðna eins og þess að hinn brotlegi hafi orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni af völdum verknaðar, s.s. heilsutjóni, ástvinamissi, starfsmissi eða öðrum réttindamissi, eignaupptöku, mótlæti, áfalli eða vísað til erfiðra aðstæðna geranda, umtals fjölmiðla eða annarra atriða varðandi sönnunarvafa, tafir á rannsókn og málsmeðferð.8
Eðli málsins samkvæmt eiga nokkur þessara sjónarmiða ekki við þegar dæmt er vegna kynferðisbrots. Þá hafa nokkur þeirra verið lögfest eða eru talin búa að baki refsiákvæðunum, s.s. varðandi trúnaðarbrot og sifjatengsl. Algengt er að vísað sé til trúnaðarbrots við ákvörðun refsingar fyrir kynferðis- brot en einnig hefur þess gætt að tafir á rannsókn og málsmeðferð séu virtar til málsbóta eða skilorðsákvörðunar.9
Hrd. 242/2007
A var sakfelldur fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa tekið mynd á gsm-síma sinn af nafngreindri, nakinni stúlku án hennar vitneskju og að hafa síðar sýnt öðrum þessa mynd ásamt annarri mynd, er A sagði vera af kynfærum stúlkunnar. Eins mánaðar fangelsisrefsing samkvæmt eldri dómi var tekin upp og dæmd með. Refsing var ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Þar sem rannsókn málsins hafði dregist án þess að skýringar á því lægju fyrir þótti rétt að skilorðsbinda refsinguna.
Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir því hvernig íslenskir dómstólar ákvarða refsingu í málum sem varða kynferðisbrot. Ljóst er að nokkuð hefðbundið er hvaða sjónarmið það eru sem hafa áhrif á refsiþyngd. Er þar 70. gr. hgl. mikilvægust, en í flestum tilfellum er mögulegt að heimfæra atvik máls undir hinar lögmæltu refsiákvörðunarástæður almennra hegningarlaga þegar um kynferðisbrot er að ræða. Þau atriði sem helst hafa áhrif til þyng- ingar refsingu eru sjónarmið eins og gróft ofbeldi, ungur aldur þolanda, fjölskyldutengsl eða trúnaðarsamband, en einnig vegur til þyngingar hefðbundnar refsihækkunarástæður eins og samverknaður, ítrekun brots eða fyrri sakir. Til mildunar hefur helst reynt á aldur sakbornings og játningu.
Á undanförnum árum hafa refsingar fyrir kynferðisbrot verið að þyngjast. Löggjafinn kallar á þyngri refsingar með hækkuðum refsimörkum, líkt og nýjustu breytingarnar á kynferðisbrotakaflanum hljóða á um. Skýr lagaákvæði um kynferðisbrot eru forsenda þess að refsivörslukerfið geti tekið á kynferðisbrotum með fullnægjandi hætti. Mikilvægt er að umræðan um réttarvernd kynfrelsis sé ávallt í samræmi við grunnhugsun mannréttindaákvæða um rétt manna til frelsis og virðingar. Kynfrelsi fellur samt með öðrum mannréttindum undir hinn stjórnarskrárvarða rétt einstaklingsins um friðhelgi einkalífsins. Hann ber og að vernda og ala komandi kynslóðir upp við forvarnir og upplýsta umræðu um kynferðislegt ofbeldi.
1. Almenn hegningarlög nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum verða hér eftir skammstöfuð hgl.
2. Brot þessi varða því mun þyngri refsingu en áður eða fangelsi frá 1 ári og allt að 16 árum í stað fangelsis allt að 6 árum áður.
3. Sbr. 195. gr., 205. gr. og 199. gr. hgl.
4. Sbr. heimild í 57. gr. hgl. til að fresta tímabundið ákvörðun um refsingu eða fullnustu refsingar, og til að binda frestun nánari skilyrðum. Sjá dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra mánudaginn 18. júní 2007 í máli nr. S-89/2007.
5. Ragnheiður Bragadóttir: Kynferðisbrot, bls. 67.
6. Ragnheiður Bragadóttir: Kynferðisbrot, bls. 67.
7. Jónatan Þórmundsson: Viðurlög við afbrotum, bls. 266-271. Sjá einnig Helga I. Jónsson: Heimildir dómstóla til að beita ólögmæltum meginreglum við ákvörðun refsingar, bls. 253-273.
8. Jónatan Þórmundsson: Viðurlög við afbrotum, bls. 266-271.
9. Jónatan Þórmundsson: Rökstuðningur refsiákvörðunar, bls. 24-25.
Bækur og útgefin fjölrit:
Jónatan Þórmundsson, Afbrot og refsiábyrgð I, (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999).
Jónatan Þórmundsson, Afbrot og refsiábyrgð II, (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2002).
Jónatan Þórmundsson, Afbrot og refsiábyrgð III, (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004).
Jónatan Þórmundsson, Viðurlög við afbrotum, (Reykjavík: Orator, 1992).
Ragnheiður Bragadóttir, ,,Kynferðisbrot,“ Ritröð Lagastofnunar Háskóla Íslands nr. 3, 2006,(Reykjavík : Lagastofnun Háskóla Íslands, 2006).
Greinar:
Atli Gíslason og Jóhanna Katrín Magnúsdóttir, ,,Réttarvernd kynfrelsis,“ grein í afmælisriti til heiðurs Guðrúnu Erlendsdóttur 3. maí 2006, Guðrúnarbók, (Reykjavík: Hið íslenska bók- menntafélag, 2006).
Eiríkur Tómasson, „Þróun íslensks sakamálaréttarfars,“ Afmælisrit: Jónatan Þórmundsson sjö- tugur, 19. desember 2007, (Reykjavík: Codex, 2007).
Helgi I. Jónsson, „Heimildir dómstóla til að beita ólögmæltum meginreglum við ákvörðun refsing- ar,“ Afmælisrit: Jónatan Þórmundsson sjötugur, 19. desember 2007, (Reykjavík: Codex, 2007).
Hulda Elsa Björgvinsdóttir, „Hugtakið önnur kynferðismök,“ Rannsóknir í félagsvísindum V, (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004).
Jónatan Þórmundsson, „Rökstuðningur refsiákvörðunar,“ Rannsóknir í félagsvísindum IV (Reykjavík: Háskólaútgáfan : Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 2003).
Ragnheiður Bragadóttir, „Ákvörðun refsingar í nauðgunarmálum,“ (1999) Úlfljótur 52 (1).
Ragnheiður Bragadóttir, „Refsingar í nauðgunarmálum,“ Rannsóknir í félagsvísindum IV (Reykjavík: Háskólaútgáfan : Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 2003).
Róbert Ragnar Spanó, „Refsiréttur,“ Um lög og rétt: helstu greinar íslenskrar lögfræði, (Reykja- vík: Codex, 2006).
Vefföng:
Heimasíður dómstólanna www.domstolar.is
Ríkissaksóknari www.saksoknari.is
Alþingistíðindi – vefútgáfa:
Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum (kynferðisbrot), þskj. 59, 58. mál. Vefútgáfa Alþingistíðinda, slóð: http://www.althingi.is/altext/115/s/0059.html [Sótt á vefinn 18.4.2008]
Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum (kynferðisbrot), þskj. 20, 20. mál. Vefútgáfa Alþingistíðinda, slóð: http://www.althingi.is/altext/133/s/0020.html [Sótt á vefinn 18.4.2008]
Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum (kynferðisbrot), þskj. 419, 365. mál. Vefútgáfa Alþingistíðinda, slóð: http://www.althingi.is/altext/132/s/0419.html [Sótt á vefinn 20.3.2008]
Dómaskrá
Dómar Hæstaréttar:
Hæstaréttardómur nr. 74/2008
Hæstaréttardómur nr. 44/2003
Hæstaréttardómur nr. 372/2003
Hæstaréttardómur nr. 133/2005
Hæstaréttardómur nr. 8/1993
Hæstaréttardómur nr. 242/2007
Héraðsdómar:
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra mánudaginn 18. júní 2007 í máli nr. S-89/2007
Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd
Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun
22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing
Lögfræðingur ©2023 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN