Valtýr Sigurðsson

Valtýr Sigurðsson


Grein birt í: Lögfræðingur 2006

Fangelsin og samfélagið

Staðan í fangelsismálum

Nú eru um 9.1 milljón manna í fangelsum víða um heim. Bandaríkin skera sig úr varðandi fjölda fanga en föngum fjölgaði þar úr 500.000 á árinu 1980 í yfir tvær milljónir manna, en nú eru yfir 700 fangar þar í landi á hverja 100.000 íbúa. Ísland er meðal þeirra þjóða sem hafa hvað lægstu tölu fanga eða undir 40, Danmörk er með 70, Finnland með 71, Noregur með 65 og Svíþjóð er með 75 fanga á hverja 100.000 íbúa. Til þess að maður átti sig betur á því hvað hér er um að ræða þá væru um 2.200 manns í fangelsum hér á landi ef hlutfall fanga væri það sama hér á landi og í Bandaríkjunum. Þetta myndi þýða að við þyrftum að vera með 30 fangelsi á stærð við Fangelsið Litla-Hraun. Menn geta svo í huganum reynt að dreifa þessum fangelsum vítt og breytt um landið og hugleiða áhrif starfsemi þeirra á samfélagið í heild.

Lágt hlutfall fanga á að vera keppikefli sérhverrar þjóðar. Hvað Ísland varðar þá hefur þessi árangur náðst með ýmsu móti s.s. með því að dómstólar hafa skilorðsbundið fangelsisrefsingar í ríkum mæli. Þá hefur samfélagsþjónustu verið beitt með góðum árangri en um 25% óskilorðsbundinna refsidóma eru fullnustaðir með samfélagsþjónustu. Þá hefur áfangaheimilið Vernd, sem orðið er annar stærsti afplánunarstaður á landinu, hjálpað mikið til en þar geta fangar dvalið í samfélagsaðlögun allt að 8 síðustu mánuðina áður en þeir ljúka afplánun. Þeir sem þar dvelja eru á vinnumarkaði og greiða húsaleigu en Fangelsismálastofnun greiðir mánaðarlegt framlag til Verndar.

Þess ber að geta að kostnaður stofnunarinnar vegna þessara fanga á Vernd er um 10% af kostnaði við að hafa fanga í fangelsi.

Í október 2004 skilaði Fangelsismálastofnun skýrslu sem bar heitið: „Markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbyggingu fangelsanna.” þar sem sett var fram skýr stefna við fullnustu refsidóma auk þess sem gerðar voru tillögur um heildaruppbyggingu fangelsa landsins.

Markmið stofnunarinnar við afplánun refsivistar er fyrst og fremst það: „Að afplánun fari fram með öruggum hætti þannig að réttaröryggi almennings sé tryggt og tilætluð sérstök og almenn varnaðaráhrif fangelsisvistarinnar séu virt.” Með þessu er sagt að öryggi almennings skuli ætíð haft í fyrirrúmi þegar ákveðinn er vistunarstaður fanga en eins og flestir vita er mikill munur á öryggi annars vegar í fangelsinu Litla-Hrauni og Kvíabryggju hins vegar. Í öðru lagi setti stofnunin sér það markmið: „Að draga úr líkum á endurkomu fangans í fangelsi vegna nýrra afbrota.” Með því vill stofnunin taka á sig ábyrgð á þessum “viðskiptavinum sínum” ekki bara á meðan á fangavistinni stendur heldur einnig eftir að henni líkur. Stofnunin vill bera ábyrgð á föngum gagnvart samfélaginu og segir að allir þeir fjármunir sem í fangelsismál fara og vinna þeirra fjölmörgu sem með föngum starfa eigi að skila einhverju til baka þ.e. að bæta það samfélag sem við búum í. Þetta markmið kemur skýrt fram í stefnu stofnunarinnar þar sem segir: „Að föngum verði tryggð örugg og vel skipulögð afplánun, að mannleg og virðingarverð samskipti séu höfð í fyrirrúmi og að fyrir hendi séu aðstæður og umhverfi sem hvetji fanga til að takast á við vandamál sín.”

Dómurinn um frelsisskerðinguna er refsingin og það er frelsisskerðingin sjálf sem mönnum þykir þungbærust. Fyrir viðkomandi fanga skiptir hins vegar miklu máli hvort frelsisskerðingin felst í því að vistast í hámarks öryggisfangelsi s.s. að Litla-Hrauni eða hvort um er að ræða opnar aðstæður eins og Kvíabryggju. Refsingin í mánuðum talið getur verið sú sama en líðanin er gjörólík. Öllu starfsfólki okkar ber að sýna föngum mannlega virðingu og forðast að niðurlægja þá eða fylla vanmætti. Að þessu leyti eru fangelsin ekkert öðruvísi en ýmsar aðrar stofnanir s.s. skólar, geðsjúkrahús o.s.frv. Sömuleiðis á að stuðla að því að fangar komi fram við samfanga sína með sama hætti. Þá leggur stofnunin áherslu á, að fyrir hendi verði aðstæður og umhverfi sem hvetur fanga til að takast á við vandamál sín. Ennfremur ber að stuðla að því, í samvinnu við fanga, að hann eigi fastan samastað eftir afplánun, hafi góð tengsl við fjölskyldu og/eða vini, kunni að leita sér aðstoðar og nái að fóta sig í samfélaginu.

„Fangelsi er dýr aðferð til að gera vonda menn verri” segir einhversstaðar og ef til vill er mikið til í þessum orðum. Það er hins vegar ekki eins og við viljum hafa hlutina. Það gefur auga leið að það er óásættanlegt ef möguleiki fanga til að lifa án afbrota eru minni að afplánun lokinni, þ.e. að fangar bíði tjón af fangavistinni. Það er að mínu mati heldur ekki ásættanlegt að möguleikar þeirra séu jafn góðir, það væri einfaldlega að setja markið of lágt. Nei, þeir eiga að hafa betri möguleika til að lifa eðlilegu lífi. Við höfum þar með viðurkennt hugtakið “betrun” í fangavist, en það hugtak hefur vart mátt heyrast nefnt í þessum málaflokki. “Betrunarhús en ekki hegningarhús” sagði í fyrirsögn leiðara Morgunblaðsins í desember 2004 þegar fjallað var um stefnu stofnunarinnar og sýnir að þeir hjá blaðinu hafi skilið þetta rétt. Allt starf í fangelsunum og hjá Fangelsismálastofnun á því að taka mið af þessu markmiði og í það minnsta má ekkert í starfi okkar vera í andstöðu við það.

Í áðurnefndri skýrslu Fangelsismálastofnunar frá því í október 2004 voru settar fram tillögur um heildar uppbyggingu fangelsanna sem unnið hefur verið eftir til þessa. Þar var gert ráð fyrir eftirfarandi:

  1. Byggt verði 54 klefa fangelsi á Hólmsheiði. Þar yrðu fangadeildir fyrir gæsluvarðhald, móttöku, og meðferð/afeitrun ásamt sjúkradeild.
  2. Fangelsið Litla-Hrauni verði endurbætt verulega. Heimsóknaraðstaða verði stórbætt og gert ráð fyrir mismunandi öryggisstigi.
  3. Fangelsið Kvíabryggja verði stækkað úr 14 í 22 fangapláss.
  4. Fangelsið Akureyri verði stækkað um 2 klefa þ. e. úr 8 í 10 pláss og verulegar endurbætur gerðar.

Hugmyndin gengur út á að byggt verði nýtt móttökufangelsi þar sem fyrst og fremst verður lögð áhersla á afeitrun- með stuðningi fagaðila utan fangelsis. Við viljum byrja þá vinnu við upphaf afplánunarferilsins í stað þess að vera með hann í lokin eins og verið hefur. Framhaldið ræðst síðan af árangrinum þ.e. vistun í öðru fangelsi eða á öðrum stofnunum. Ráðast á í verulega uppbyggingu á Litla Hrauni þar sem rekið verður öryggisfangelsi en aðaláhersla lögð á að fangar hafi vinnu og möguleika á námi. Lögð er áhersla á mismunandi öryggisstig á fangadeildum og lóð fangelsisins.

Með stækkun Kvíabryggju um 8 pláss geta fleiri fangar vistast við opnar aðstæður en á því er mikil þörf í dag. Það er samdóma álit fagaðila stofnunarinnar að í raun uppfylli fleiri fangar skilyrði fyrir vistun í opnara fangelsi, annað hvort frá upphafi vistunar eða síðar á afplánunartímanum þannig að vista mætti um 20-25% fanga við slíkar aðstæður í stað 11% eins og gert er í dag. Þá er brýnt að geta vistað unga einstaklinga við slíkar aðstæður og heppilegt er talið, að fenginni reynslu, að vista langtíma fanga sem hafa náð árangri/hegðun til fyrirmyndar við opnari aðstæður til að undirbúa þá til að snúa út í þjóðfélagið að nýju. Þá er brýnt að veita kvenföngum sömu vistunarmöguleika og karlföngum.

Með stækkun og breytingum á Fangelsinu Akureyri er fyrst og fremst verið að gera fangelsið hæft til nútímalegs reksturs. Í öllum fangelsunum eiga aðstæður að vera þannig að unnt sé að vista þar bæði konur og karla. Þegar þetta er komið í höfn á að hætta rekstri fangelsisins í Kópavogsbraut 17 og Hegningarhúsinu en með lokun hins síðarnefnda lýkur 46 ára byggingarsögu nýs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu. Í dag er staða byggingarmála þannig að á næstu mánuðum verða framkvæmdir við Kvíabryggju og á Akureyri boðnar út. Þá verður áfram unnið að hönnun og teikningum vegna Fangelsisins Litla-Hrauni og á Hólmsheiði. Stefnt er að því að öllum framkvæmdum verði lokið árið 2010.

Bygging nýs fangelsis og endurbætur á þeim fangelsum sem við ætlum að reka í framtíðinni er eitt og sér nægilegt til þess að koma á góðum rekstri fangelsanna. Gott vinnuumhverfi skapar hins vegar aðstæður til þess að unnt sé að vinna samkvæmt þeim markmiðum sem við ætlum að hafa að leiðarljósi varðandi fullnustu refsinga og tilganginn með rekstrinum. Við ætlum að reka gott fangelsiskerfi á Íslandi. Til þess höfum við allar forsendur.

Fangelsin og samfélagið

Fangelsismál eru talsvert í umræðunni í fjölmiðlum hér á landi eins og eðlilegt er. Fyrirferðamest í gegnum tíðina hefur verið umfjöllun götupressunnar um einstök hneykslismál og gagnrýni á fangelsisyfirvöld.

En af hverju þessi einsleita umræða. Er bara fréttnæmt slæmur aðbúnaður í fangelsunum, léleg heilbrigðisþjónusta, fíkniefnaneysla, einelti, aðgerðarleysi fanga og önugt starfsfólk fangelsanna. Vita menn ekki af því mikla starfi sem unnið er í fangelsunum þar sem fangaverðir og sérmenntað fólk af ýmsum toga vinnur að markmiðum Fangelsismálastofnunar við það að endurhæfa fanga, gera þá heilbrigðari á sál og líkama til að auka líkur á að þeir geti lifað án afbrota í framtíðinni.

Vitneskjan um hið síðarnefnda hefur ekki verið áberandi til þessa hér á landi. Þar á fangelsismálastofnun eflaust talsverða sök enda má segja að stefnan hafi verið að segja ekkert að eigin frumkvæði og svara sem fæstu ef upp hafa komið erfið mál. Almenningur hefur því litið á fangelsin sem einangraðar stofnanir sem erfitt er að fræðast um, stofnanir sem eru í litlum tengslum við aðrar stofnanir þjóðfélagsins og hið daglega líf. Starfsfólk fangelsanna er ekki sýnilegt eins og ýmsir aðrir opinberir starfsmenn sem vinna í réttarvörslukerfinu t.d. lögreglumenn. Almenningur myndi þannig seint nefna fangaverði sem aðila sem vinna að því að koma í veg fyrir glæpi og stuðla þannig að öruggu samfélagi. Þó er það þannig að vel menntaðir fangaverðir eru þeir sem helst geta komið í veg fyrir að fangelsisvistin leiði til tjóns fyrir fanga.

Með fangelsisvistun eru fangar tímabundið teknir úr umferð en snúa síðan aftur til hins daglega lífs. Með þeirri vinnu sem unnin er í fangelsunum með menntun og endurhæfingu þeirra er lagður grunnur að því að þeir geti snúið áfallalaust aftur út í samfélagið. Bein tengsl eru á milli þess hvernig þessi vinna tekst til og öryggis hins almenna borgara. Við vitum að þessi vinna getur ekki eingöngu farið fram í fangelsunum heldur þarf aðstoð þjóðfélagsins í heild að koma til. Við þurfum því á tengslum við aðra að halda. Við eigum að geta sent fanga sem við treystum í skóla utan fangelsis, í vinnu eða á námskeið. Heilbrigðisstofnanir mega ekki verið lokaðar föngum vegna fordóma. Við þurfum að fá fagfólk til að vilja vinna innan fangelsanna. Við þurfum að geta boðið listamenn og aðra þá sem vilja koma með uppbyggilegt efni velkomin í fangelsin.

Fangelsiskerfið er hluti af réttarvörslukerfinu í heild. Fangelsisyfirvöld eiga því að vera beinir þátttakendur í allri umræðu í þjóðfélaginu um slík mál s.s. umræðu um hertar refsingar sem alltaf blossa upp eða breytingar á refsilögum o.fl. Fangelsismálastofnun á að hafa á takteinum aðgengilegt efni um stefnu með refsivistinni og starfið í fangelsunum fyrir skóla auk þess að vera tilbúin að senda fulltrúa til að fræða ef nauðsyn þykir. Þá á stofnunin að standa fyrir ráðstefnum fyrir almenning auk þess að bjóða menntastofnunum aðgang að gögnum og tölulegum upplýsingum til rannsóknarvinnu.

Fangelsi eru taldar nauðsynlegar stofnanir í öllum löndum. Hins vegar er ekki til neitt fyrirmyndar fangelsiskerfi heldur er sérhvert kerfi tengt fjárhag, menningu og sögu viðkomandi lands með veikleikum þess og styrkleikum. Eitt sameiginlegt viðmið er þó unnt að hafa og það er sá mælikvarði sem samtök setja um alþjóðleg og innlend mannréttindi og túlkun þeirra á þeim. Þá á ég við stofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar, Mannréttindadómstól Evrópu, CPT-nefndina, Umboðsmann Alþingis o.fl. Á undanförnum árum hefur mikið verið unnið í því að bæta mannréttindi fanga víða um heim. Sumsstaðar hefur þessi vinna skilað árangri og annarsstaðar ekki. Ástæða þess að erfiðlega hefur gengið, er einkum rakin til þess að víða um heim eru vandmálin mörg, bæði efnahagslegs eðlis og stjórnmálalegs. Nýjasta dæmið er orðið “hryðjuverkamaður” til að réttlæta öll frávik.

Réttlætið má ekki enda við rimlana. Óréttlæti sem viðgengst í fangelsum s.s. einelti og fleira má ekki réttlæta með því að þetta séu bara fangar. Í Fangelsinu Litla-Hrauni var t.d. almennt reykt í almenningi deilda þrátt fyrir að landslög bönnuðu það. Þegar ég spurði hverju þetta sætti að það væri látið afskiptalaust að fangar reyktu beint undir skilti þar sem segir að reykingar séu bannaðar var fátt um svör annað en að það þýddi ekkert að vera að „rexa” í þessu. Þessu hefur nú verið breytt enda eru fangelsin rekin lögum samkvæmt og þau mega aldrei endurspegla virðingaleysi fyrir lögum og reglum í þjóðfélaginu.

En víkjum nú aftur að því að reyna að svara þeirri spurningu hvaða kröfur og væntingar almenningur gerir til fangelsis og Fangelsismálastofnunar. Ljóst er að hinn almenni borgari ætlast til þess að afplánun fari fram með öruggum hætti. Hann vill vera óhultur fyrir brotamönnum og þá sér í lagi þeim sem teljast hættulegir. Öryggi hins almenna borgara þarf því að vera tryggt áður en hægt er að fara að huga að öðrum þáttum afplánunarinnar sjálfrar s.s. endurhæfingu. o.fl. Eins og við vitum vistast fangar við mismunandi öryggisstig. Það mat framkvæma fangelsisyfirvöld og því fylgir mikil ábyrgð. Menn verða að vera viðbúnir að axla þessa ábyrgð og viðbúnir miskunnarlausri gagnrýni almennings og fjölmiðla ef mistök verða. Alvarlegur glæpur eða alvarlegt strok úr fangelsi getur sett strik í reikninginn með stefnu í fangelsismálum. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja stöðugleika í þessum málaflokki og forðast skyndilausnir stjórnmálamanna vegna einstakra atvika. Slík upphlaup lenda óhjákvæmilega á þeim hluta fanga sem eru að reyna að bæta sig. Örfáir fangar geta því eyðilegt mikið fyrir mjög mörgum. Því þurfa fangelsisyfirvöld að hafa skýra og raunhæfa stefnu. Þau þurfa síðan stöðugt að sinna fræðslu og skapa traust. Endurbætur á fangelsiskerfinu þýðir ekki að ríkisstjórnin líti ekki glæpi alvarlegum augum. Þaðan af síður að ríkisstjórnin taki hagsmuni fanga fram yfir hagsmuni brotaþola. Við búum einfaldlega við það réttarfar að fangar snúa aftur út í samfélagið og ávinningur þess að þeir komi betri út ætti að vera augljós.

Við sem störfum í fangelsisgeiranum vitum að fangelsismál eru ekki framarlega á stefnuskrá stjórnmálaflokka og málaflokkurinn ekki vænlegur til pólitísks ávinnings. Við þurfum því sjálf að draga vagninn að miklum hluta. Okkur er því nauðsyn að gera okkur sýnileg í hinni daglegu umræðu. Ef okkur tekst að vekja áhuga almennings á málefninu er áhugi stjórnmálamanna vakinn. Það er hlutverk stjórnmálamanna að forgangsraða verkefnum og taka ákvarðanir og samkeppnin um fjárveitingar ríkisins er hörð. Upplýstur og áhugasamur almenningur auðveldar hins vegar t.d. dómsmálaráðherra að ná fram málum sem kosta mikið fé eins og byggingu fangelsa. Þrátt fyrir mikla velvild dómsmálaráðherra í okkar garð hefur höfuðáherslan ekki verið lögð á fangelsismálin. Hálfs áratugar saga byggingar nýs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu sýnir til að mynda glögglega hversu lítinn þrýstikraft málaflokkurinn hefur.

Ég hef það á tilfinningunni að okkur hafi hér á landi tekist að breyta lítilsháttar viðhorfi almennings til fangelsismála og vekja áhuga. Áberandi er stefnubreyting hjá fjölmiðlum hvað varðar umfjöllun um fangelsismál. Mun jákvæðari tóna gætir nú en áður og ekki er sífellt verið að reyna að bregða fyrir okkur fæti og gera okkur tortryggileg í augum almennings. Við gerum okkur þó fyllilega grein fyrir að mikið verk er fyrir höndum. Mestu máli skiptir þó að það verk er hafið.

Valtýr Sigurðsson 

forstjóri Fangelsismálastofnunar

 



Efnisyfirlit


Núverandi tölublað

Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd

Síðasta tölublað

Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun

Fréttir

22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing


Lögfræðingur ©2023 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN