Margrét Steinarsdóttir

Margrét Steinarsdóttir

Grein eftir Margréti Steinarsdóttur ráðgjafa í Alþjóðahúsi. Margrét er lögfræðingur að mennt og hefur m.a. starfað hjá Ríkisskattstjóra og Persónuvernd.


Grein birt í: Lögfræðingur 2006

Lögfræðiráðgjöf í Alþjóðahúsi


Greinin fjallar um mikilvægi lögfræðiráðgjafar fyrir innflytjendur. Þeir þekkja ekki réttindi sín og skyldur, Sá sem ekki þekkir rétt sinn á oft á hættu að aðrir notfæri sér vanþekkingu hans. Þá er innflytjendum nauðsynlegt að þekkja skyldur sínar, oft veldur það óþarfa árekstrum ef einstaklingurinn veit ekki til dæmis hvernig umgengni í fjölbýlishúsi skal háttað.

Einn liður í þjónustu Alþjóðahúss við innflytjendur er lögfræðiráðgjöf og upplýsingagjöf. Innflytjendur leita til okkar í þeim tilgangi að fá uppýsingar um réttindi sín og skyldur. Sá sem ekki þekkir rétt sinn á oft hættu á að aðrir notfæri sér vanþekkingu hans.

Í Alþjóðahúsi er einnig veitt aðstoð við bréfaskriftir, t.d. kærur vegna synjunar á dvalar- eða atvinnuleyfi, kærur vegna álagningar skatta eða synjunar á hvers konar bótum. Þá er einnig veitt aðstoð við að gera skattframtöl fyrir innflytjendur sem og ýmiss konar aðrar bréfaskriftir fyrri þá sem þess óska.

Lögfræðiráðgjöf fyrir innflytjendur er mjög mikilvæg, ekki síst til að hjálpa þeim að aðlagast íslensku samfélagi og þeim venjum og siðum sem hér gilda. Enn fremur er mikilvægt fyrir þá að kunna skil á þeim reglum sem gilda á ýmum sviðum svo þeir geti sótt sinn rétt, gætt hans og uppfyllt sínar skyldur. Sem dæmi, má nefna að innflytjendum er nauðsynlegt að þekkja hvaða reglur gilda um atvinnu- og dvalarleyfi og hvað þarf að gera til að virkja þau réttindi. Til dæmis þurfa EES borgarar ekki atvinnuleyfi, en þeir þurfa dvalarleyfi (nema ríkisborgarar Norðurlandanna) og fá það ekki nema þeir séu með kennitölu. Innflytjendur fara ekki inn í þjóðskrá fyrr en þeir hafa skráð lögheimili en þetta vita ekki allir. Misfarist einhverjir þessara þátta, t.d. að skrá lögheimili, gerist það að margir EES borgarar njóta ekki sjúkratryggingar hér á landi jafnvel þó þeir hafi haft með sér gilt vottorð frá heimalandi, sem tryggja á þeim rétt í íslensku heilbrigðistryggingakerfi.

Vinnulöggjöf er líka mismunandi milli landa og því nauðsynlegt að menn þekki rétt sinn, t.d. að þeir eigi rétt á matar- og kaffitímum í vinnu, að fá laun með skilum og að fá launaseðil afhentan við hverja útborgun. Dæmi eru um að vinnuveitandi dragi staðgreiðslu frá launum erlends starfsmanns en greiði hana síðan ekki til ríkissjóðs. Ef starfsmaðurinn getur ekki lagt fram launaseðla sem sýna að staðgreiðsla hafi verið dregin af laununum hans, verður hann að greiða staðgreiðsluna aftur.

Einnig hefur reynst mikilvægt að gera einstaklingum grein fyrir hlutverki stéttarfélaga, margir koma frá löndum þar sem slík félög eru ekki til eða að starfsemi þeirra er talsvert frábrugðin því sem hér tíðkast. Margir eru tortryggnir í garð stéttarfélaga, telja þau jafnvel eins konar glæpafélög. Í flestum tilvikum þegar einstaklingar leita til Alþjóðahússins með mál sem varða brot á vinnulöggjöf er þeim vísað á stéttarfélögin og hlutverk þeirra, verksvið og skyldur eru útskýrð fyrir þeim.

Annað svið má nefna þar sem sérstaklega nauðsynlegt er að einstaklingar þekki réttindi sín, en það er í sifjamálum. Þetta á t.d. við reglur um fjárskipti við skilnað, forsjá barna og hver munurinn er á hjúskap og óvígðri sambúð svo eitthvað sé nefnt. Margir þeirra innflytjenda (að meirihluta konur) sem leitað hafa til Alþjóðahúss vita t.a.m. ekki að við skilnað skal eignum búsins skipt milli hjóna, nema gerður hafi verið kaupmáli eða sérstök undantekningartilvik eigi við. Þá telja margir þeirra, einkum í þeim tilvikum að makinn sem skilja á við er íslenskur ríkisborgari, að hann fái forsjá barnanna. Þá er ekki síst mikilvægt að leita upplýsinga í Alþjóðahúsi vegna þess að það er sýslumannsembættum í sjálfsvald sett hvort kallaður er til túlkur. Sum embætti leggja það alfarið í hendur einstaklingsins sem til þeirra leitar, hvort hann óski eftir aðstoð túlks, á meðan önnur kalla til túlk ef á þarf að halda. Í mörgum tilvikum er það því fyrst í Alþjóðahúsi sem einstaklingurinn skilur hvernig meðferð mála er háttað, hvers hann má vænta og hvernig honum er best að haga sér. Í einu máli hafði erlendur maður mætt hjá sýslumanni hvað eftir annað, vegna kröfu sinnar um umgengni við barn sitt. Hann skildi hins vegar ekki hvað verið var að gera í málinu, hvað ætti að gera næst og hvers vegna málið tæki svo langan tíma. Það var ekki fyrr en eftir langt viðtal í Alþjóðahúsi, með aðstoð túlks að maðurinn fékk loks upplýsingar um hvað var á seyði.

Fyrir stuttu kom upp að trúarbrögð margra útlendinga hafa verið ranglega skráð hjá Þjóðskrá. Þetta getur verið viðkvæmt mál hjá sumum og eitt af því sem upp á borð hefur komið hjá Alþjóðahúsi er að benda fólki á að kynna sér skráningu sína í Þjóðskrá og leiðir til að leiðrétta hana.

Dæmi um skyldur sem nauðsynlegt er að innflytjandi þekki er til dæmis hvað varðar sambýli við aðra. Þó einstaklingurinn þurfi ekki að þekkja lög um fjöleignarhús til hlítar, er samt nauðsynlegt að hann geri sér grein fyrir því hvað honum beri að gera og hvernig hann á að haga sér. Eitt sinn leitaði Íslendingur ráða vegna erlends nágranna síns sem ekki vildi þrífa eða taka þátt í sameiginlegri vinnu eins og lóðavinnu, skipta um tunnur og fleira. Sagðist hann hafa reynt allt til að koma nágrannanum til að uppfylla skyldur sínar, en er ekkert hafi gengið, hafi hann loks brugðið á það ráð að rukka hann fyrir óunnin störf. Vandinn væri hins vegar sá að nágranninn neitaði að borga. Það sem Íslendingnum hafði ekki hugkvæmst var að benda nágrannanum á það að umgengi og þrif á sameign væru lögboðnar skyldur hans. Það úrræði reyndist hins vegar duga, þ.e. nágranninn tók til við að uppfylla sínar skyldur eftir að honum hafði verið gerð grein fyrir því að þetta var ekki bara kvabb frá íslenska nágrannanum heldur væri slík fyrirmæli að finna í lögum. Ekki er síður mikilvægt að innflytjendur þekki umgengnisreglur á almannafæri og reglur um umgengni um lóðir annarra, en slíkar reglur má m.a. finna í lögreglusamþykktum. Hefur Alþjóðahús leiðbeint einstaklingum um slíkar umgengnisreglur.

Fleiri skyldur sem innflytjendum er nauðsynlegt að þekkja eru t.d. þær sem lúta að skattskilum, ekki síst gerð skattskýrslna. Víða erlendis tíðkast ekki að fólk sendi skýrslur til skattayfirvalda og hefur komið fyrir að einstaklingar hafi leitað til Alþjóðahúss vegna þess að dregið er af launum þeirra mánaðarlega og vita þeir ekki hverju sætir. Ástæðan er hins vegar sú að þeir hafa ekki skilað inn skattframtali og hafa því tekjur þeirra verið áætlaðar og dregið af þeim samkvæmt þeirri áætlun, sem eins og skattalög mæla fyrir um, er oftast mun hærri en nemur raunverulegum tekjum þeirra.

Enn eitt svið sem nauðsynlegt er að innflytjendur kunni skil á er hvað varðar umferðarlög og reglur. Til dæmis hafa komið upp mál vegna fólks sem ekki hefur alþjóðleg ökuskírteini, en mjög er mismunandi hvort ökurskírteini einstakra ríkja eru tekin gild hér á landi eða ekki. Reynast því einstaklingarnir oft á tíðum ekki hafa ökuréttindi í landinu. Á einhvern hátt þarf einnig að kynna innflytjendum umferðarlög hér.

Enn fleiri dæmi mætti nefna um nauðsyn þess að innflytjendur þekki stöðu sína og lög og reglur. En það sem að ofan var rakið ætti að nægja til þess að skýra hvers vegna svo mikilvægt er að innflytjendur fái notið lögfræðiráðgjafar.

Að lokum ber að geta eins mikilvægs þáttar enn er að ráðgjöfinni snýr og það er að sá sem leitar sér ráða, treysti þeirri ráðgjöf sem hann fær. Alþjóðahúsið hefur skapað sér slíkt traust meðal innflytjenda. Það er t.d. mjög algengt að einstaklingar panti viðtal hjá lögfræðingi hússins, en tilgangurinn með viðtalinu reynist sá einn að fá upplýsingar sem þeim hafa þegar verið gefnar, staðfestar. Það virðist því sem að oft á tíðum trúi einstaklingar ekki framkomnum upplýsingum fyllilega, nema þær fáist staðfestar hjá Alþjóðahúsi.

Margrét Steinarsdóttir, fædd 26. október 1957, lögræðingur Alþjóðahúss, cand. jur. frá Háskóla Íslands 1993. 

 Efnisyfirlit


Núverandi tölublað

Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd

Síðasta tölublað

Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun

Fréttir

22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing


Lögfræðingur ©2023 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN