Jóna Benný Kristjánsdóttir

Jóna Benný Kristjánsdóttir


Grein birt í: Lögfræðingur 2006

Hvað eru lög?

Er æskilegt að flétta siðferði inn í skilgreiningu lagahugtaksins?

1. Inngangur

Hvað er í raun og veru verið að spyrja um með spurningunni ,,hvað eru lög?“. Er verið að biðja um skilgreiningu á því hvernig lög eru frábrugðin öðrum hugtökum? Er spurt til hvers lög eru? Er spurt hvort þetta séu reglur sem allir skuli hlýða?[1] Svarið fer eftir því hver spyr. Ef útlendingur spyr þá er hann líklega að leita eftir samsvörun frá sínu eigin tungumáli. Ef barn spyr dugar einföld útskýring og jafnvel samheiti. Í þessari ritgerð er hinsvegar verið að reyna að svara þessari sömu spurningu þegar lögfræðiprófessor spyr laganema og þá duga ofangreindar hugmyndir skammt.

Sameiginlegir hagsmunir þjóðfélagsþegna krefjast þess að lög séu til staðar. Ef engin lög væru til ætti fólk erfitt með að ná skynsamlegum markmiðum í lífi sínu því þjóðfélagið væri í óreiðu.[2] Af því leiðir sú spurning hvort siðferði og lög séu nátengd fyrirbæri og hvort siðferðileg gildi séu stór hluti af svari við spurningunni ,,hvað eru lög?“.

Í ritgerðinni verður ekki reynt að setja fram einhverja alheimsreglu um lagahugtakið. Þess í stað verður varpað ljósi á hluta þeirra vandamála sem við stöndum frammi fyrir við skilgreiningu hugtaksins. Fyrst verða einfaldar skilgreiningar hugtaksins skoðaðar og stuttlega farið yfir hugmyndir íslenskra fræðimanna. Hugtakið verður skoðað út frá kenningum vildarréttar og náttúruréttar og í framhaldi af því verður farið í gegnum ólík sjónarhorn tveggja þekktra laga- og réttarheimspekinga sem deila um hvernig standa skuli að skilgreiningunni og hvort siðferði skuli fléttað inn í hana. Aðeins verður farið í gagnrýni á kenningarnar og að lokum verður fjallað lítillega um það hvort siðferði eigi heima í skilgreiningum lagahugtaksins.

2. Hvað eru lög?

Samkvæmt orðabókarskilgreiningu er merking orðsins ,,lög“ mjög víðtæk og mörg svör koma upp við kröfu um skilgreiningu á þessu orði. Ein skilgreiningin segir að lög séu meginreglur og reglugerðir í samfélagi sem settar eru af yfirvaldi og eru viðeigandi fyrir fólkið í samfélaginu, sama hvort um ræðir lagasetningu eða reglur sem koma til af hefðum og stefnum samfélagsins og er framfylgt með dómhæfum úrskurði.[3] Þessa skilgreiningu myndu flestir sætta sig við án frekari athugana og sumir myndu jafnvel sætta sig við einfaldari útskýringu. Íslendingur sem ekki hefur lært lögfræði eða önnur þau fræði sem koma að þessari spurningu er líklegur til að skilgreina lögin sem þær reglur sem skráðar eru í Stjórnarskrá Íslands[4], Lagasafn Alþingis[5] og hinar ýmsu reglugerðir sem allir þegnar landsins verða að fylgja ellegar hljóta refsingu sem skal vera sanngjörn að mati dómara. Fræðimenn segja þetta hinsvegar ekki vera svona einfalt og vilja kryfja þessa skilgreiningu enn frekar. Mörg ólík sjónarmið hafa komið fram og ekki eru allir á eitt sáttir um hver hin endanlega niðurstaða er. Eitt af því sem menn greinir á um er hvernig svar skuli fengið við spurningunni ,,hvað eru lög?“.

Skúli Magnússon segir ágreininginn um tiltekna spurningu ekki merkingarfræðilegan[6] heldur að afmarka þurfi hugtakið lög. Hann nefnir að taka þurfi mið af ríkjandi málvenju og kanna merkingu skyldra orða. Skoða þarf merkingar sem hingað til hafa verið lagðar í orðið lög og finna hvaða einkenni skipta mestu máli. Einnig þarf að rökstyðja skilgreininguna og segja hvers vegna hún er á einn hátt en ekki annan.[7]

Sigurður Líndal segir að tvær leiðir megi fara til að varpa ljósi á skilning okkar. Annars vegar talar hann um að orða frumræðu sem rökréttar ályktanir séu dregnar af og hinsvegar að finna þau atriði sem máli skipta, skoða þau vel, draga svo saman sameiginleg einkenni og setja þau fram í eins fáum orðum og auðið er.[8]

Þegar skilgreina skal lög er gott að líta aðeins til þess hvað eru ekki lög. Sigurður Líndal segir: ,,Einstaklingsbundnar, afturvirkar, óbirtar, óaðgengilegar, torskildar og mótsagnakenndar dagskipanir sem binda ekki valdhafa geta ekki kallazt lög.“[9] Við getum þá gefið okkur það að lögin þurfi að virka fyrir heildina, vera óafturvirk, birt, aðgengileg, auðskilin og skýrt fram sett til langs tíma og síðast en ekki síst þurfa þau að binda valdhafa. Þetta er þó langt frá því að vera tæmandi upptalning.

Ekki skal skorið úr um það hér hvor þessara virtu spekinga leggur til betri leið til greiningar hugtaksins en þessar tvær hugmyndir um framsetningu skilgreiningar eru aðeins dropi í hafið á þeim gríðarlega fjölda hugmynda sem réttarheimspekingar og aðrir snillingar hafa lagt til að notaðar verði. Þær eru einungis lagðar fram hér til að gera grein fyrir því að ekki er einhver ein leið til að finna skilgreiningu á hugtakinu lög og að eitt sé ekki endilega réttara en annað.

3. Vildarréttur og náttúruréttur

Deilurnar á milli vildarréttar og náttúruréttar eiga sér langa sögu og virðast munu lifa lengi enn. Heimspekingar allt frá Sókratesi og fram til dagsins í dag hafa velt fyrir sér sambandinu á milli valds og laga og hafa spurt sig hvort lögin séu einfaldlega röð fyrirskipana frá þeim sem valdið hafa eða hvort þetta sé heldur framsetning á siðferðilegum réttindum í þeim tilgangi að gera kröfur um réttlæti áþreifanlegri. Í seinni tíð hafa nýjar spurningar vaknað og þær gömlu hafa fengið nýja merkingu.[10]

Meginmunurinn kenninganna lýtur að ólíkum aðferðum við rökstuðning. Áhangendur vildarréttar leggja til grundvallar áþreifanlega réttarskipan á tilteknu svæði og réttarreglur sem ríki setur fram og stjórnvöld fylgja. Samkvæmt náttúrurétti eru hins vegar til æðri reglur, reistar á eðli manna, sem maðurinn getur ekki breytt en skynjar þær og skilur í krafti skynsemi sinnar. Lögin verða því aðeins bindandi að þau eigi sér stoð í siðferðilegum grundvelli.[11]

Sigurður Líndal hefur velt fyrir sér hver munurinn á siðareglum og réttarreglum er og segir að með nokkurri einföldun birtist hann einkum í því að lög lúta að háttsemi en siðir að því sem bærist í hugskoti manna.[12]

Hér á eftir fylgir stutt greinargerð um kenningar tveggja mikilsmetinna laga- og réttarheimspekinga sem eru á öndverðu meiði, H.L.A. Hart fylgir vildarrétti en J.M. Finnis náttúrurétti.

4. Kenning H.L.A. Hart um vildarrétt


H.L.A. Hart aðhyllist kenningar um vildarrétt og reynir ekki að skilgreina hugtakið lög en lýsir því hvernig hið dæmigerða lagakerfi virkar. [13] Vildarréttur reynir að skilgreina lögin án þess að sjá þau í siðferðilegu samhengi og horfir í raun aðeins á tæknilegt gildi þeirra[14]

Kenning Hart leggur til algjöran aðskilnað laga og siðferðis. Aðskilnaðurinn hefur tvo fleti. Önnur hliðin gerir ráð fyrir því að öll lagakerfi innihaldi heimildakerfi (rule of recognition), samþykkt af embættismönnum, sem auðkenni ákveðnar heimildir sem réttarheimildir. Regla sem kemur viðeigandi leið inn í kerfið er gjaldgeng sem réttarheimild og gildir þá einu hvort hún er réttlát eða ekki. Á sama hátt geta reglur komið vitlausa leið og eru þá ekki gjaldgengar þrátt fyrir að vera sanngjarnar á allan hátt. Hin hliðin segir að lagahugtakið snúist ekki á nokkurn hátt um hvað skuli gera frá siðferðilegu sjónarhorni.[15]

Hart reynir að líta á lögin með því að setja sig í spor þátttakanda sem er þó ekki bundinn af lögum. Hefur þetta sjónarmið verið kallað sjónarmið lögfræðingsins. Það er mjög mikilvægt fyrir kenningu hans því þannig skilgreinir hann reglur út frá sjónarmiði dómara eða annarra þátttakenda en tekur ekki afstöðu til þess hvort sá hinn sami sé siðferðilega skuldbundinn til að fara eftir settum reglum.

Hart segir lögin vera samfélagslegt fyrirbæri og að hægt sé að sjá reglu á hegðun manna sem orsakast af lögum. Hann leggur ríka áherslu á það að tilvera sjálfra reglnanna sé ástæðan fyrir þessari hegðun manna án nokkurs tillits til viðurlaga þeirra.[16]

Kenning Hart undirstrikar að meginþáttur í eðli laga sé að lagðar séu fram reglur sem allir geti nálgast og kannað. Aðeins þær reglur sem eru tilkomnar vegna fyrrgreindra réttarheimilda eru hluti af lögunum.

5. Kenning J.M. Finnis um náttúrurétt


J.M. Finnis aðhyllist kenningu um náttúrurétt sem einnig hefur verið kallaður eðlisréttur hérlendis og er grundvöllur skrifa hans tengdur því hvað er siðferðilega æskilegt. Greining hans byggist því að stórum hluta á siðferði og hvernig æskilegt sé að lög og skipulag samfélags væru, hvað gerir lögin góð og hvaða ástæður liggja að baki því að við förum eftir lögunum. Finnis segir, líkt og Skúli Magnússon, að taka þurfi ólíkar merkingar orðsins og sigta út það sem máli skiptir.[17] Hann segir í umfjöllun sinni um lögin:

Með samfélagsfræðum, eins og almennri eða samfélagslegri lögfræði, er leitast við að lýsa, greina og útskýra eitthvert andlag eða viðfangsefni. Þetta andlag er grundvallað á mannlegum gerðum, venjum, vana, ráðstöfunum og umræðu manna á milli. Þessar gerðir, venjur, o.s.frv., koma vissulega til vegna ,,náttúrulegra” orsaka sem raunvísindin rannsaka með viðeigandi hætti, m.a. undirgreinar sálarfræðinnar. En þessar gerðir, venjur, o.s.frv., er aðeins unnt að skilja til fullnustu með því að skilja tilgang þeirra, það er að segja, markmið þeirra, gildi þeirra, þýðingu þeirra eða mikilvægi, eins og litið er á það af því fólki sem hefur þetta í frammi, tekur þátt í því o.s.frv. Og þessi afstaða fólks til tilgangs, gildis, þýðingar og mikilvægis mun koma fram í umræðu þess, í þeim hugtakslega greinarmun sem það gerir, eða lætur hjá líða að gera.[18]

Sjónarhornið sem Finnis notar við skilgreiningu hugtaksins er hagnýtt sjónarmið þátttakandans, hvort honum beri siðferðileg skylda til að fara eftir lögunum. Finnis segir að stærstur hluti fólks fari að lögum vegna þess að það sé siðferðilega rétt en ekki til að sleppa undan viðurlögunum þó vissulega þjóni viðurlögin mikilvægum tilgangi með því að stuðla að því að allir, líka þeir siðlausu og vitlausu, fari eftir lögum í einu og öllu.[19]

Finnis segir þá lögfræðinga sem aðhyllast náttúrurétt ekki hafa hug á að afneita þeim gildum sem samkvæmt þeirra skilningi standa fyrir óréttlæti og siðlausum reglum. Þeir halda því fram að samhangandi kenningar um lög geti aðeins verið afleiðing eða framsetning á dýpri kenningum um siðferði og stjórnmál.[20]

6. Samanburður og gagnrýni á kenningar Hart og Finnis

Einkunnarorð náttúruréttar hljóða á þann hátt að ólög séu engin lög en einkunnarorð vildarréttar segja að lög séu lög án tillits til verðleika þeirra eða gildis.[21] Samanburður kenninganna gengur yfirleitt út á það hvort lögin hafi siðferðislegt gildi eða ekki. Lög munu ekki verða útskýrð án tillits til manna, afstöðu þeirra og samfélags.[22] Þá mætti spyrja sem svo hvort siðareglur skuli flétta þétt með lagareglum eða hvort þetta séu tvö aðskilin hugtök. Þetta hefur verið rætt til hlítar af mörgum mestu laga- og réttarheimspekingum veraldar og sitt sýnist hverjum um niðurstöðurnar.

Ef við erum sammála Finnis og segjum lögin hafa siðferðilegt gildi þá þýðir það að siðferðileg skylda okkar sé að fara eftir lögum. Þrátt fyrir að alltaf skuli meta aðstæður með tilliti til laga þá gætu aðrir þættir komið inn í sem eru mikilvægari en lögin og réttlættu það að vikið yrði frá lagabókstafnum. Ef við skoðum kenningu Hart þá segir hann að meta verði hverju sinni hvort siðferðileg skylda knúi mann til að fara að lögum því lögin hafi ekkert siðferðilegt gildi.

Það hefur mikla þýðingu fyrir bæði kenningu Finnis og Hart hvort lögum sé fylgt af þegnum samfélagsins og þeim framfylgt af yfirvöldum. Þó segir Finnis það ekki vera nauðsynlegt skilyrði svo hægt sé að tala um lög og réttarkerfi í samfélagi en það gerir hins vegar Hart.[23]

Þeir sem leggja stund á lög og það sem viðkemur lögum hafa siðferðilegum skyldum að gegna gagnvart þegnum samfélags síns, rétt eins og læknar, slökkviliðsmenn, sálfræðingar og ýmsar aðrar starfsstéttir, því til dæmis hafa þær ákvarðanir sem dómari tekur mjög mikil siðferðileg áhrif á fólk .[24] Það eitt og sér er næg ástæða til að ætla að lög og siðferði séu náskyld fyrirbæri sem ógerningur er að greina að.

Hingað til hefur siðferðilegt gildismat haft mikil áhrif á það sem kallast í daglegu tali lög. Ekki hefur alltaf verið samræmi milli þeirrar niðurstöðu sem dómstólar komast að og þess sem réttarheimildir eða lög segja til um.

6.1 Ókostir vildarréttar Hart

Vildarréttur Hart segir að lögin séu á einn hátt og ekki sé hægt að deila um það. Samt sem áður deila lögfræðingar um allan heim um hvernig skuli túlka lög og ekki virðist alltaf ljóst hver merking þeirra er.[25] Fylgismenn vildarréttar vita að ekki er hægt að skera úr um öll mál í lagalegu tilliti með því að vitna í heimildir og þar hlýtur siðferðilegt mat að koma til sögunnar.

Skúli Magnússon segir vildarréttinn augljóslega missa marks með því að færa ekki fram kenningu um hvort og hvenær fara eigi að lögum. Hann færir heldur ekki fram kenningu um hvernig komast eigi að niðurstöðu í dómsmálum, hvorki þegar lögin eru skýr eða þegar lögin eru óskýr eða renna út. Hann heldur áfram og segir kenningu vildarréttar aðeins geta slegið því föstu að einhver regla sé lagaleg, ekki hvort fara eigi eftir henni eða hvort dæma eigi eftir henni. [26] Sú aðferð sem lögð er til grundvallar vildarrétti gerir það að verkum að ógjörningur er að svara þeim fjölmörgu spurningum sem skipta máli í sambandi við lagahugtakið.

6.2 Ókostir náttúruréttar Finnis

Náttúruréttur hefur verið gagnrýndur fyrir að vera ekki nógu skýr og hörðustu andstæðingar segja hann aðeins vera tilfinningalegan tilbúning því aðeins geti ríkið eða yfirvald samfélagsins verið hin sanna réttarheimild. Sitt sýnist líka hverjum um það sem er siðferðilega rétt og rangt og því hættulegt að ætla að blanda því saman við lög.

Í Þýskalandi var Adolf Hitler löglega kosinn sem kanslari landsins og stuttu síðar studdur með þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann var höfuð þýska ríkisins og þar með allra réttarheimilda sem Þjóðverjar hafa lært að hlýða í einu og öllu. Vinsældir hans urðu geysilegar og honum yrði ekki steypt af stóli nema með dauða. Þrátt fyrir það voru margir sem litu aðgerðir hans hornauga og fannst hann hreinlega illur. Hópur hugrakkra manna kom þá saman í þeim tilgangi að drepa Hitler og báru því við að samkvæmt náttúrurétti væri hægt að réttlæta það því það væri það eina siðferðilega rétta sem hægt væri að gera í stöðunni .[27] Með þessu má einnig sjá að það er einkar óheppilegt fyrir lögin ef sá sem semur þau er veikur á geði eða á einhvern hátt hættulegur umhverfinu.

7. Á siðferði heima í skilgreiningum lagahugtaksins?


Einföld útskýring á lögum gæti hljómað á þá vegu að þau séu reglur í þjóðfélagi þar sem greint er frá því hvað megi gera og hvað ekki. Einföld útskýring á siðferði gæti hljómað á svipaðan hátt.[28]

Að mati höfundar á siðferði klárlega heima í skilgreiningu lagahugtaksins. Mörg lög vísa til siðferðilegrar skyldu eins og Sigurður Líndal bendir á. Hann tekur sem dæmi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 en þar segir í 14. gr.:

Starfsmanni er skylt að rækja starf sitt af alúð og samvizkusemi í hvívetna.

Ekki verður betur skilið en siðferðileg skilgreining þurfi að koma þarna að því engar frekari útskýringar fylgja því hvað alúð og samviskusemi skuli fela í sér. [29] Einnig er erfitt að svara ýmsum spurningum varðandi lögin ef siðferði er aðskilið frá þeim, eins og t.d. hvernig standa skuli að því að fá niðurstöður í mál þar sem engar réttarheimildir eru fyrir.

Lagatexti er mjög tvíræður og oft er deilt um merkingu hans. Til að skilgreina merkingu textans þarf almenna skynsemi og siðferðilegt mat á því hvað er rétt og hvað er rangt. Lögfræðinga deilir á um hvernig beri að túlka lögin og dómarar þurfa að túlka lögin þegar þeir dæma í málum og nota til þess heilbrigða skynsemi.

Þrátt fyrir þetta getur höfundur samt ekki stutt kenningu Finnis til fulls því hann er líka sammála Hart með að lögin verði að vera skýr og afdráttarlaus og það er mjög ótraustvekjandi fyrir samfélagsþegna ef geðþóttaákvarðanir dómara geta ráðið úrslitum í dómsmáli. Samt sem áður verður að gera grein fyrir því hvað skuli gera þegar upp kemur sú staða að ekki eru til réttarheimildir fyrir þeim málum sem koma inn á borð til dómara eins og áður segir.

Þrátt fyrir ýmsa góða punkta í kenningu Hart er hún frekar ófullnægjandi miðað við kenningu Finnis. Þegar sagt er ófullnægjandi er hér átt við það að kenningin er gloppótt og virðist ekki hafa verið hugsuð til enda og þrátt fyrir að margar spurningar fái skýr og greinargóð svör er miklu ósvarað líkt og áður hefur komið fram. Kenning Finnis er viðameiri og svarar fleiri spurningum en kenning Hart en þó er alltaf ákveðið vandamál við kenningu Finnis og það er að ekki er hægt að taka neinu sem gefnu og siðferðisleg álitamál verða að vera í höndum skynsamra manna til að réttlætinu verði fullnægt.


Siðferði er þess eðlis að ekki eru til alþjóðlegir staðlar fyrir það og sumir eru hreinlega sneyptir öllu siðferði svo það veit ekki á gott ef þeir einstaklingar komast í þá aðstöðu að geta búið til lög eða dæmt í málum.

Eins og við Íslendingar vitum mætavel þá er auðvelt að lenda í þeirri aðstöðu að landinu okkar sé stjórnað af siðferðilega blindum mönnum sem kasta ryki í augu okkar til að ná kjöri til Alþingis. Skemmst er að minnast afbrota og síðar syndaaflausnar Árna Johnsen sem nú hefur boðið sig fram til Alþingis á nýjan leik. Eins og við höfum séð í skrípaleiknum í kringum það mál þá er þjóðin okkar líka siðblind upp að vissu marki og samþykkir að sumir megi stela og brjóta lögin til að koma sínu fram en aðrir ekki, með því að vorkenna og á stundum styðja Eyjapeyjann Árna. Siðferðið er því, eins og svo margt annað sem tengist lagahugtakinu, umdeilt og hefur bæði kosti og galla.

Niðurstaða

Í þessari ritgerð var ætlunin að sýna fram á að ekki væri hægt að skilgreina lög með endanlegum hætti svo allir væru sammála. Réttarheimspekingar hafa eytt miklu púðri í að afmarka hugtakið ,,lög“ með endanlegum hætti[30] en ekki hafa þeir komist að niðurstöðu sem allir eru á eitt sáttir um. Skilgreining hugtaksins hefur marga fleti og þess vegna er ekki gott að ætla sér að afmarka hugtakið út frá einu sjónarmiði frekar en öðru. Fólk leggur mismunandi skilning í lögin og verður hver og einn að mynda sér sína eigin skoðun á hugtakinu. Afstaða fólks er svo mismunandi að þó tveir einstaklingar aðhyllist sömu stefnu þá er skilgreining þeirra ekki endilega alveg sú sama. Af þessu leiðir að endanleg niðurstaða sem gleður alla er ekki möguleg.

Einnig var reynt að varpa ljósi á það hvort lagahugtakið skildi skilgreint með tilliti til siðferðis eða hvort aðskilja ætti þessi tvö hugtök.

Höfundur aðhyllist frekar þá stefnu að útskýra lög með tilliti til siðferðis þó hann sjái einnig kosti í því að gera það ekki. Ef siðferðið er aðskilið lögunum þá munu alltaf einhverjar spurningar standa eftir án svara eins og til dæmis varðandi niðurstöðu í dómsmálum og hvenær lögum skuli fylgt.[31] Hitt er svo annað mál að ef lagasetning kemst í hendur manna eins og Hitlers eða Árna Johnsen þá er voðinn vís og ekki hægt að treysta á siðferðilega skynsemi þeirra.

Neðanmálsgreinar

1. Garðar Gíslason, “Eru lög nauðsynleg?” Garðar Gíslason, Eru lög nauðsynleg? 1. útg. (Reykjavík: Bókaútgáfa Orators, 1991) bls.115.

2. Heimaísða Skúla Magnússonar mag. juris, Skúli Magnússon, Háskóli Íslands, vor 2003 (sótt 8. október 2006) http://www.hi.is/~skulimag/word/ yfirlit.fila.II.doc bls. 7

3. Dictionary.com Unabridged (v 1.0.1), Random House, Inc, (sótt 8. október 2006) http:// dictionary.reference.com/browse/law

4. Stjórnarskrá Lýðveldis Íslands, Alþingi, 1. febrúar 2006 útg. 132a, (sótt 8. október 2006) http:// www.althingi.is/lagasofn/nuna/1944033.html

5. Lagasafn, Alþingi, 1. febrúar 2008 útg. 132A, (sótt 8. október 2006) http://www.althingi.is/vefur/ lagasafn.html

6. Skúli Magnússon, Hin lagalega aðferð og réttarheimildirnar: Fimm ritgerðir í almennri lögfræði og réttarheimspeki, 1. útg. (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003) bls. 27

7. Heimaísða Skúla Magnússonar mag. juris, Skúli Magnússon, Háskóli Íslands, vor 2003 (sótt 8. október 2006) http://www.hi.is/~skulimag/word/ yfirlit.fila.II.doc bls. 2

8. Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði: Grundvöllur laga – réttarheimildirnar, 2. útg. (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2003) bls. 30-31

9. Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði: Grundvöllur laga – réttarheimildirnar, 2. útg. (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2003) bls. 54

10. N. E. Simmonds, “Philosophy of Law” Nicholas Bunnin & E. P. Tsui-James, The Blackwell Companion to Philosophy, 2. útg. (Oxford: Blackwell Publishing, 2003) bls. 407

11. Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði: Grundvöllur laga – réttarheimildirnar, 2. útg. (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2003) bls. 61

12. Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði: Grundvöllur laga – réttarheimildirnar, 2. útg. (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2003) bls. 33

13. Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði: Grundvöllur laga – réttarheimildirnar, 2. útg. (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2003) bls. 31

14. Skúli Magnússon, Hin lagalega aðferð og réttarheimildirnar: Fimm ritgerðir í almennri lögfræði og réttarheimspeki, 1. útg. (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003) bls. 45-46

15. N. E. Simmonds, “Philosophy of Law” Nicholas Bunnin & E. P. Tsui-James, The Blackwell Companion to Philosophy, 2. útg. (Oxford: Blackwell Publishing, 2003) bls. 408, 412-413

16. Heimaísða Skúla Magnússonar mag. juris, Skúli Magnússon, Háskóli Íslands, vor 2003 (sótt 8. október 2006) http://www.hi.is/~skulimag/word/ yfirlit.fila.II.doc bls. 7

17. Heimaísða Skúla Magnússonar mag. juris, Skúli Magnússon, Háskóli Íslands, vor 2003 (sótt 8. október 2006) http://www.hi.is/~skulimag/word/ yfirlit.fila.II.doc bls. 7

18. Skúli Magnússon, Hin lagalega aðferð og réttarheimildirnar: Fimm ritgerðir í almennri lögfræði og réttarheimspeki, 1. útg. (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003) bls. 51-52

19. Heimaísða Skúla Magnússonar mag. juris, Skúli Magnússon, Háskóli Íslands, vor 2003 (sótt 8. október 2006) http://www.hi.is/~skulimag/word/ yfirlit.fila.II.doc bls. 7

20. N. E. Simmonds, “Philosophy of Law” Nicholas Bunnin & E. P. Tsui-James, The Blackwell Companion to Philosophy, 2. útg. (Oxford: Blackwell Publishing, 2003) bls. 417

21. Heimaísða Skúla Magnússonar mag. juris, Skúli Magnússon, Háskóli Íslands, vor 2003 (sótt 8. október 2006) http://www.hi.is/~skulimag/word/ yfirlit.fila.II.doc bls. 10

22. Skúli Magnússon, Hin lagalega aðferð og réttarheimildirnar: Fimm ritgerðir í almennri lögfræði og réttarheimspeki, 1. útg. (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003) bls. 33

23. Heimaísða Skúla Magnússonar mag. juris, Skúli Magnússon, Háskóli Íslands, vor 2003 (sótt 8. október 2006) http://www.hi.is/~skulimag/word/ yfirlit.fila.II.doc bls. 10

24. John Gardner , “The Legality of Law” (2004) 17 (2) Ratio Juris 177

25. N. E. Simmonds, “Philosophy of Law” Nicholas Bunnin & E. P. Tsui-James, The Blackwell Companion to Philosophy, 2. útg. (Oxford: Blackwell Publishing, 2003) bls. 408.

26. Skúli Magnússon, Hin lagalega aðferð og réttarheimildirnar: Fimm ritgerðir í almennri lögfræði og réttarheimspeki, 1. útg. (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003) bls. 50

27. Russell Kirk, The case for and against natural law, Heritage lecture # 469, 15. júlí, 1993 http:// www.heritage.org/Research/PoliticalPhilosophy/ HL469.cfm

28. Garðar Gíslason, “Eru lög nauðsynleg?” Garðar Gíslason, Eru lög nauðsynleg? 1. útg. (Reykjavík: Bókaútgáfa Orators, 1991) bls.115

29. Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði: Grundvöllur laga – réttarheimildirnar, 2. útg. (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2003) bls. 35

30. Heimaísða Skúla Magnússonar mag. juris, Skúli Magnússon, Háskóli Íslands, vor 2003 (sótt 8. október 2006) http://www.hi.is/~skulimag/word/ yfirlit.fila.II.doc bls. 1

31. Skúli Magnússon, Hin lagalega aðferð og réttarheimildirnar: Fimm ritgerðir í almennri lögfræði og réttarheimspeki, 1. útg. (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003) bls. 63

Heimildaskrá

Dictionary.com Unabridged (v 1.0.1), Random House, Inc, (sótt 8. október 2006) http://dictionary.reference.com/browse/law

Garðar Gíslason. 1991. Eru lög nauðsynleg? Í bók Garðars Gíslasonar Eru lög nauðsynleg? Bókaútgáfa Orators (1. útg. í Reykjavík 1991)

Heimasíða Skúla Magnússonar mag. juris, Skúli Magnússon, Háskóli Íslands, vor 2003 (sótt 8. október 2006) http://www.hi.is/ ~skulimag/word/yfirlit.fila.II.doc

John Gardner. 2004. The Legality of Law. Ratio Juris 17 (2) : 168-181

Lagasafn, Alþingi, 1. febrúar 2008 útg. 132A, (sótt 8. október 2006) http://www.althingi.is/ vefur/lagasafn.html

N. E. Simmonds. 2003 . “Philosophy of Law” í bók þeirra Nicholas Bunnin & E. P. Tsui-James, The Blackwell Companion to Philosophy. 2. útg. Oxford, Blackwell Publishing.

Russell Kirk, The case for and against natural law, Heritage lecture # 469, 15. júlí, 1993 http://www.heritage.org/Research/ PoliticalPhilosophy/HL469.cfm

Sigurður Líndal. 2003. Um lög og lögfræði: Grundvöllur laga – réttarheimildirnar. 2. útg. Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag.

Skúli Magnússon. 2003. Hin lagalega aðferð og réttarheimildirnar: Fimm ritgerðir í almennri lögfræði og réttarheimspeki. 1. útg. Reykjavík, Háskólaútgáfan.

Stjórnarskrá Lýðveldis Íslands, Alþingi, 1. febrúar 2006 útg. 132a, (sótt 8. október 2006) http://www.althingi.is/lagasofn/nuna/ 1944033.html

 Efnisyfirlit


Núverandi tölublað

Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd

Síðasta tölublað

Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun

Fréttir

22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing


Lögfræðingur ©2023 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN