Hermann Karlsson

Hermann Karlsson

Grein eftir Hermann Karlsson, varðstjóra hjá Lögreglunni á Akureyri og varaformanns Landssambands Lögreglumanna


Grein birt í: Lögfræðingur 2006

Er lögreglan á réttri leið?

Hvað ertu að gera maður?!
Ertu ekki í lagi?!
Ertu með heimild?!
Þú veist að þú mátt ekki leita á mér án þess að hafa heimild!
Ég veit hvar þú átt heima!

Ummæli sem þessi og þaðan af verri eru daglegir hlutir í eyrum lögreglumanna þegar þeir eru við vinnu sína út á meðal fólks og þá sérstaklega þess fólks sem hefur verið við neyslu áfengis eða annarra efna. Þessi efni hafa brenglað veruleikann í hugum þessara aðila og orðið þess valdandi að greinarmunur þeirra á réttu og röngu er ekki til staðar.

Lögreglumenn á Íslandi eru tæplega 800 og langflestir þeirra eru menntaðir, en undanfarna mánuði hefur þeim mönnum farið fjölgandi sem ráða hefur þurft án tilskilinnar menntunar og og er það miður þar sem fagmennska skiptir miklu máli í því sem við erum að gera dagsdaglega. Núverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, hefur því ákveðið, sökum þessarar stöðu sem og af ýmsum öðrum ástæðum, að fjölga nýnemum við Lögregluskóla ríkisins um 50% og nú um næstu áramót munu 48 lögreglumannsefni hefja þar nám í stað 32 áður.

Stéttarfélag lögreglumanna hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á að lækka starfslokaaldur lögreglumanna sem og að bæta starfsumhverfið en benda má á að meðalstarfsaldur lögreglumanna er 10 árum styttri en hins almenna Íslendings. Margar ástæður kunna að vera fyrir því, t.d. óreglulegur vinnutími, sveiflukennt álag, mikil aukavinna sem og margir aðrir þættir. Sá árangur náðist árið 2001 að starfslok lögreglumanna færðust úr 70 árum niður í 65 ár, fyrstir ríkisstarfsmanna, og vonandi sjáum við enn frekari breytingar á þessu í framtíðinni okkur lögreglumönnum til hagsbóta.

Eitt af stærstu baráttumálunum undanfarið hefur verið að opna augu ráðamanna fyrir því ofbeldi, andlegu og líkamlegu, sem lögreglumenn verða fyrir í vinnu sinni og þeim hótunum um líkamsmeiðingar í garð fjölskyldna þeirra, sem eru að verða æ algengari. Hefur sú staða komið upp, m.a. hér á Akureyri, að lögreglumenn hafa gætt næturlangt íbúðarhúsnæðis vinnufélaga síns undir vopnum þar sem áreiðanlegar upplýsingar höfðu borist um að þekktir ofbeldismenn hyggðust sækja vopnaðir að því heimili að næturlagi, sem síðar varð ekki raunin á sem betur fer.

Í samanburði sem gerður hefur verið á meðal félaga lögreglumanna á Norðurlöndunum hefur komið í ljós að þessi mál hafa verið með svipuðum hætti en á þessu ári hefur mikil vinna verið unnin í því að fá þessu breytt. Hefur Landssamband lögreglumanna lagt í þetta mikla vinnu sem hefur skilað þeim árangri að dómsmálaráðherra hyggst nú á haustdögum leggja fyrir Alþingi breytingar á almennum hegningarlögum nr. 19/1940, þar sem kveðið er á um þyngri refsingar sem og nákvæmari útlistun þá því hvað sé refsivert með tilliti til 106. gr. alm. hegningarlaga, þ.e.a.s. brot gegn valdstjórninni. Hefur þessi framganga dómsmálaráðherra vakið verulega athygli á meðal starfsbræðra okkar á Norðurlöndunum.

Að vera lögreglumaður í dag í bæjarfélagi eins og Akureyri er almennt hið ágætasta starf en breytingar á síðastliðnum 10 árum eru talsverðar og starfsumhverfið ekki með þeim hætti sem að flestir ætla að það sé. Í augum margra eru lögreglumenn ,,bara” á rúntinum og að ,,bögga“ þá ökumenn sem aka aðeins of hratt og eru jafnan ekki á réttum stað á réttum tíma þegar eitthvað kemur upp. Staðreyndin er hins vegar sú að þessir sömu menn þurfa án frekari fyrirvara að sinna ýmsum dapurlegum verkum eins og t.d. heimilsvandamálum þar sem börn standa mitt í orrahríð foreldra um skipulagsmál heimilisins, sjálfsvígum, umferðarslysum, svo að eitthvað sé nefnt. Hér má einnig nefna afskipti af aðilum sem þekktir eru fyrir ofbeldi þar sem hnífum, bareflum sem og ýmiskonar öðrum vopnum er beint gegn okkur sem og öðrum aðilum.

Það að fara til vinnu dag hvern sem lögreglumaður er ólíkt mörgum öðrum störfum að því leyti að fjölbreytileiki starfsins er mikill og í lögregluliðinu hér á Akureyri er lítil deildaskipting. Það gerir það að verkum að flóra þeirra mála sem inná borð koma hjá þeim sem ganga hinar almennu vaktir eru margbreytileg og fram hefur komið, sérstaklega hjá fólki sem starfað hefur sem afleysingafólk í lögreglu sumarlangt, að því hafi aldrei órað fyrir þeim margvíslegu verkum sem inná borð lögreglu koma.

Í því upplýsingaþjóðfélagi sem við búum við í dag er margs að gæta og eitt að því sem bylting hefur orðið á undanförnum árum er hversu almenningur er upplýstur um réttindi sín en því miður þá hefur innleiðingin um skyldur hins almenna borgara eitthvað farið fyrir ofan garð og neðan. Eins og fram kemur í inngangsorðum þá dynja ábendingar og spurningar á lögreglumönnum á vettvangi og þar er fólk almennt tilbúið að gefa lögreglumönnum fyrirskipanir um hvað skuli gera og hvernig það skuli gert. Í þessu samhengi má nefna að með tilkomu farsímavæðingarinnar gjörbreyttist það vinnuferli sem skapast hafði, s.s. þegar slys urðu. Fólk á slíkum vettvangi í dag hefur alltof ríka tilhneigingu til að hringja í alla þá sem þeir þekkja til að upplýsa hvað hafi komið fyrir án þess þó kannski að vita hvað hafi í raun gerst, hvað þá að það viti um afdrif þeirra sem í slysunum lentu. Slíkar hringingar hafa oftar en ekki undið uppá sig og sett marga í óvissustöðu um vini sína og ættingja. Í kjölfar slíkra úthringinga, hringir fjöldi fólks á lögreglustöðina til að fá frekari upplýsingar sem þó að öllu jöfnu er ógerningur að veita þar sem verið er að vinna í tilteknum málum. Tefja því slíkar hringingar því störf lögreglu frekar og það að hún geti veitt staðfestar og réttar upplýsingar til þeirra sem þær eiga að fá hverju sinni. Vil ég nefna hér eitt dæmi sem upp kom ekki alls fyrir löngu á vettvangi í okkar umdæmi þar sem mjög alvarlegt umferðarslys hafði orðið og talsverður mannfjöldi var á vettvangi er lögreglu og sjúkralið bar að. Lögreglumenn skiptu með sér verkum og áður en einn þeirra vissi af þá kom til hans ungur piltur í miklu uppnámi og hélt á farsíma, rétti lögreglumanninum símann sinn og sagði honum að tala við pabba sinn sem væri í símanum. Lögreglumaðurinn gat nú lítið annað gert en að taka við símanum frá þessum dreng sem hann vissi nú ekkert um né hver hans aðkoma væri að slysinu en í símanum var jú faðir þessa drengs sem jafnframt var faðir annars drengs sem hafði þarna lent í slysinu og var fastur í bílflakinu. Lögreglumaðurinn ræddi við föður þessara pilta án þess að vita hver afdrif sonar hans yrðu og án þess að vita hvað þarna hefði nákvæmlega gerst. Slík óvissustaða er mjög erfið og kvað sá lögreglumaður sem í þessu lenti þetta hafa verið með því erfiðasta sem hann hefði lent í við lögreglustörf, þrátt fyrir að hafa starfað í lögreglu vel á annan tug ára. Því eitt er öllum hollt að vita að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Perónulegt frelsi manna er mikið til umræðu í þjóðfélaginu í dag og öll boð og bönn illa liðin og hvað þá að armur vinnuveitanda sé eitthvað að hnýsast um þig og þínar ferðir. Eftirlit með lögreglumönnum sem og störfum þeirra er með því mesta sem gerist hér á landi. Þessu til stuðnings vil ég nefna að í öllum ökutækjum lögreglu er sendibúnaður, ferilvöktun, sem segir nákvæmlega til um hvar lögreglubifreiðarnar eru hverju sinni og auðvelt er að skoða ferðir þeirra aftur í tímann. Búnaður þessi segir einnig nákvæmlega til um á hvaða hraða bifreiðunum er ekið og hvort að um forgangsakstur sé að ræða eður ei. Þá er í handtalstöðvum lögreglumanna staðsetningartæki sem segir til um hvar menn eru hverju sinni þó svo að menn hafi yfirgefið lögreglubifreiðarnar. Á lögreglustöðinni á Akureyri er öflugt myndavélakerfi sem og aðgangsstýrðar hurðar sem skrá allan umgang um þær og allur aðgangur í tölvkerfi lögreglunnar er háður aðgangi hvers og eins. Þó svo að þessi upptalning beri það nú nokkuð með sér að maður geti varla um frjálst höfuð strokið þá er svo nú ekki. Þetta eftirlit hefur sýnt það og sannað að m.a. í þeim tilvikum þar sem lögreglumenn hafa verið bornir þungum sökum, þá sérstaklega í umferðinni, hefur verið hægt að sækja gögn úr þessum þáttum hvar sem fram hefur komið að hlutirnir hafi ekki verið með þeim hætti sem ásakað er um.

Eins og fram hefur komið eru þau mörg viðfangsefnin sem okkur berast og almennt tel ég að fagmannlega sé leyst úr þeim þó svo að í einstaka tilvikum séu ekki allir sáttir við afgreiðslu okkar, þá eru menn að gera sitt besta og samkvæmt bestu vitund hverju sinni. Í fjölmiðlaflórunni sem í boði er í dag getur reynst dýrkeypt að misstíga sig og nú er svo komið að á degi hverjum hafa um tíu miðlar samand við okkur, og sumir jafnvel tvisvar til þrisvar á dag, til þess að leita frétta og fylgjast með störfum okkar. Þetta er allt hið besta mál og við höfum einnig séð sóknarfæri í því að miðla frá okkur upplýsingum um störf okkar og það sem betur mætti fara. Þessi samskipti eru að öllu jöfnu mjög góð þó svo að menn finni fyrir talsvert meiri þrýstingi nú en áður fyrr frá fjölmiðlum í umfangsmiklum aðgerðum, s.s. slysum, leitum og björgunum.


Nú um komandi áramót tekur gildi breyting á lögreglulögum nr. 90/1996, þess efnis að lögreglustjórum fækkar hér á landi og jafnframt verða umdæmi þeirra stærri. Fyrir okkur Eyfirðinga verður helsta breytingin sú að Lögreglustjórinn á Akureyri mun frá þeim tíma fara með stýringu þessa málaflokks um gjörvallan Eyjafjörð því embættin sem voru á Ólafsfirði og Siglufirði mun falla undir hans stjórn og verður vinnutími lögreglumanna á þessum stöðum samtvinnaður og samstarf mun meira en verið hefur.

,,Fagmaður eða fúskari“ var yfirskrift átaks sem lögreglumenn stóðu fyrir eigi alls fyrir löngu og voru með því að þrýsta á að einungis lögreglumenntaðir menn gegndu störfum lögreglumanna og að almenningur sem þarf á aðstoð lögreglu að halda gæti treyst því að fagmannlega væri unnið úr málum þeirra. Til að svo megi vera þá þurfa menn að horfa opnum augum til framtíðar þar sem íslenskt þjóðfélag tekur hröðum breytingum og því nauðsynlegt að lögreglan sé í takt við tímann hverju sinni og lögreglumönnum sé gert kleift að efla þekkingu sína og sérhæfing er nauðsynleg í flestum málaflokkum. Til þess að það geti gengið eftir, þurfa menn að horfa til fjölgunar lögreglumanna og samkvæmt niðurstöðu okkar lögreglumanna hér á Akureyri þá er nauðsynlegt að hér verði bætt við allt að sex lögreglumönnum hið fyrsta til þess að mæta auknum kröfum þeirra sem landið byggja.

Í upphafi kastaði ég því fram hvort að lögreglan væri á réttri leið og tel ég svo vera. Þau stökk sem tekin hafa verið síðastliðin misseri eru skref í rétta átt en á tánum verðum við samt alltaf að vera og horfa fram á veginn og vera tilbúin að fylgja þeim breytingum sem þjóðfélagið tekur. Nú uppá síðkastið hafa málefni útlendinga heyrst hvað háværast og þar þurfum við nú að fara að reima á okkur skóna ef ekki á illa að fara.

 

Með von um farsæla framtíð og kveðju,

Hermann Karlsson,
varðstjóri í lögreglunni á Akureyri
og varaformaður Landssambands lögreglumanna

 Efnisyfirlit


Núverandi tölublað

Birgir Örn Guðmundsson:
Hverjir geta verið arfþegar að fyrirframgreiddum arfi?
Jón Steinar Gunnlaugsson:
Jón Steinar Gunnlaugsson um árin í Hæstarétti
Ólafur Ragnar Grímsson:
Our Ice-dependent World
Stefán Eiríksson:
Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og persónuvernd

Síðasta tölublað

Andrés Már Magnússon:
Vernd kjarasamninga, hver eru lágmarkskjör?
Ásdís Auðunsdóttir:
Frá ritstjóra
Bjarni Sigursteinsson:
Samræmist bann við skipulögðum glæpasamtökum gildandi mannéttindum á Íslandi?
Giorgio Baruchello:
The President of the Republic in the Italian Constitution
Hjördís Olga Guðbrandsdóttir:
Ávarp formanns Málfundafélags Þemis
Kolbrún Eva Ríkharðsdóttir:
Störf Þemis síðastliðið ár
Skúli Magnússon:
Stjórnskipuleg staða þjóðaréttar að íslenskum lögum
Þorsteinn Hjaltason:
Samsömun

Fréttir

22.3.2015 Ritrýnireglur Lögfræðings 2015
28.1.2014 Stutt viðtal við Tim Ward - Q&A with Tim Ward
1.3.2013 Um tímaritið Lögfræðing


Lögfræðingur ©2023 - Ljósmynd í haus: Stefán Erlingsson - Vefsíðugerð: 800.is/DESIGN